22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (2704)

211. mál, rekstrarvandamál báta

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hélt því fram hér áðan, að það hefði verið betra fyrir mig að hafa skilningarvitin opin, á meðan hann var að tala, og þar sem ég hef nú talað tvisvar og á ekki kost á að tala í þriðja skiptið í fsp.-tíma, nema til þess að bera af mér sakir, vil ég nota þetta tækifæri til að mótmæla því, að ég hafi lokað skilningarvitunum, á meðan hann var að tala. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvað var það í minni ræðu, sem ég fór rangt með? Er það rangt hjá mér, að ekki einn einasti eyrir hafi verið greiddur úr ríkissjóði til hækkunar fiskverðs 1966, eins og n. lagði til að gert yrði sem næmi 10%? Er það rétt eða rangt? Er það rétt eða rangt hjá mér, að ekki einum eyri hafi verið varið til þess að hækka fyrsta flokks línufisk, veiddan s.l. sumar eða haust, eins og n. leggur til? Ég hélt því fram, að úr ríkissjóði hefði ekki verið greiddur eyrir í þessum tilgangi. Er það rétt hjá mér, eða er það rangt? Og er það rétt hjá mér eða er það rangt, að það einasta endanlega, sem komið hefur út úr þessum tillögum til þessa dags, sé lenging á svonefndum tækjalánum, sem er ekki nema lítill hluti af þeim till., sam við gerðum, að engin niðurstaða sé fengin í neinu öðru atriði og þar af leiðandi engin af þeim till., sem við lögðum til, endanlega komin í höfn, nema sú eina? Er þetta rétt eða rangt?