01.03.1967
Sameinað þing: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (2719)

106. mál, öryggisbúnaður álverksmiðju í Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil fyrst fara nokkrum almennum orðum um fsp. til iðnmrh. um eituráhrif og öryggisútbúnað fyrirhugaðrar álverksmiðju í Straumsvík frá Alfreð Gíslasyni, hv. 9. þm. Reykv., á þskj. 202.

Það hefur verið vitað, frá því að fyrst var farið að ræða um byggingu álbræðslu hér á landi, að viss mengun gæti stafað af rekstri hennar, aðallega vegna uppgufunar á flúorvetni frá bræðsluofnum hennar. Má segja, að þetta sé sú eina tegund mengunar, sem orð sé á gerandi í sambandi við fyrirhugaða álbræðslu í Straumsvík. Eins og nánar verður vikið að hér á eftir, er full ástæða til þess að ætla, að flúormengun muni ekki skapa teljandi vandamál í sambandi við vinnu verkamanna og annarra í verksmiðjunni sjálfri, þar sem loftræsting í bræðsluofnum hennar og önnur vinnuskilyrði verða góð. Þær athuganir, sem farið hafa fram í málinu á vegum ríkisstj., hafa þess vegna meira beinzt að því, hvers vænta megi um áhrif álbræðslunnar á umhverfi hennar, þ.e. fyrst og fremst á gróður og dýralíf í næsta nágrenni.

Í þessu sambandi skiptir það að sjálfsögðu mjög miklu máli, hvar álbræðslunni er valinn staður. Það hefur frá upphafi verið ljóst, að álbræðsla ÍSALs yrði mjög vel staðsett í Straumsvík í þessu tilliti. Hún mun standa þar á opnu svæði, þar sem ríkjandi vindátt er á haf út, og gróður í næsta nágrenni mjög takmarkaður og yfirleitt ekki af þeim tegundum, sem taldar eru sérstaklega viðkvæmar fyrir mengun af völdum flúors. Þetta kom skýrt fram á fyrsta stigi viðræðnanna um álbræðslu á Íslandi, en þá var við það miðað, að byggð yrði 30 þús. tonna verksmiðja með einum bræðslusal. Þá var talið, að staðsetning verksmiðjunnar ein saman væri næg trygging fyrir því, að ekki mundi þurfa reykhreinsun fyrir álbræðslu í Straumsvík. Hins vegar var gengið að því sem gefnu, að nauðsynlegt yrði að hafa reykhreinsun, ef bræðslan yrði staðsett við Eyjafjörð, þar sem aðatæður eru gagnstæðar og svipaðar því, sem þekkt er úr hinum þröngu fjörðum í Noregi. Þegar hinir svissnesku viðsemjendur ríkisstj. gerðu fyrstu kostnaðaráætlun sína á árinu 1964, töldu þeir, að bræðsla við Eyjafjörð yrði um 45 millj. kr. dýrari í byggingu en Straumsvíkurbræðslan vegna þessarar reykhreinsunar, miðað við 30 þús. tonna bræðslu.

Um það leyti, sem ríkisstj. gaf skýrslu sína til Alþ, um álmálið, hinn 5. maí 1965, hafði framkvæmdaáætlunin breytzt þannig, að á fyrsta stigi skyldi byggja 30 þús. tonna álbræðslu, er síðan yrði stækkuð upp í 60 þús. tonn á nokkrum árum í einum eða tveimur áföngum. Þá var einnig gert ráð fyrir því, að ekki mundi þurfa að gera sérstakar ráðstafanir í byrjun til hreinsunar á reyk frá álbræðslunni í Straumsvík. Hins vegar var það áskilið af hálfu Íslendinga, eins og segir í skýrslu ríkisstj., að verksmiðjufélagið beri alla áhættu af tjóni af útblásturslofti eða öðrum úrgangi frá verksmiðjunni í Straumsvík. Verði tjón af þessum sökum, mundi það verða fullkomlega skaðabótaskylt og auk þess skuldbundið til að grípa til nauðsynlegra varúðarráðstafana, ef hætta yrði talin á frekara tjóni.

Þetta síðasttalda sjónarmið sætti nokkurri gagnrýni eða andspyrnu af hálfu hinna svissnesku viðsemjenda ríkisstj. Þegar þeir lögðu fram samningsuppkast sitt vorið 1965, óskuðu þeir eftir ákvæði á þá leið, að ekki mætti skylda ÍSAL til þess að setja upp reykhreinsunarútbúnað í bræðsluna. Á þetta var ekki fallizt, og taldi ríkisstj. eða fulltrúar hennar við samningana, að reykhreinsun ætti að koma til greina á sama hátt og aðrar varúðarráðstafanir, þ.e. að félaginu yrði skylt að taka hana upp, ef hún yrði talin nauðsynleg. Þetta atriði og mengunarákvæði samningsins í heild voru til umr. milli aðilanna fram á árið 1966, þegar endanlega var frá samningunum gengið. Á því tímabili voru gerðar ýmsar athuganir á málinu af hálfu ríkisstj. eða fulltrúa hennar. M.a. fór einn samninganefndarmanna til Noregs til að kynna sér aðstæður þar frekar en gert hafði verið, og Rannsóknastofnun iðnaðarins gerði skýrslu um þá mengun, sem lögð var fram með frv. um álsamninginn 1. apríl 1966, fskj. 2. Að sjálfri niðurstöðu samninganna verður nánar vikið hér á eftir.

Eftir að samningsgerðinni lauk vorið 1966, hefur athugun á málinu af hálfu ríkisstj. verið haldið áfram og frekari upplýsingum safnað um hinar ýmsu hliðar þess. M.a. má geta þess í fyrsta lagi, að hinn 30. júní 1966 barst iðnmrn. bréf frá landlækni og fylgdu með því upplýsingar um mengunarvarnir við álbræðslu, sem hann hafði aflað að beiðni heilbr.- og iðnmrh. frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og þýzkum og norskum heilbrigðisyfirvöldum. Einnig bárust rn. upplýsingar frá svissneskum heilbrigðisyfirvöldum með bréfi landlæknis 14. júlí 1966. Í þessum gögnum er að finna ýmsar mikilsverðar upplýsingar almenns efnis, sem hafa má hliðsjón af við mat á aðstæðum hér á landi, en hins vegar engin bein svör við þeirri spurningu, hvað sé hæfileg varúð í sambandi við álbræðsluna í Straumsvík. Öllum þessum gögnum er það sameiginlegt, að þau leggja höfuðáherzlu á það, hvernig til takist um staðarval viðkomandi verksmiðju hverju sinni. Í þessum þremur löndum, Þýzkalandi, Sviss og Noregi, eru engar almennar, algildar reglur um varúðarráðstafanir vegna mengunar nema þar, að gera beri það, sem telst nauðsynlegt hverju sinni með tilliti til aðstæðna. Að því leyti má segja, að þar sé beitt nákvæmlega sömu aðferðum og sama mælikvarða og fyrirhugað er að beita hér á landi vegna ÍSALs. Að því er sérstaklega varðar reykhreinsun má geta þess til nánari upplýsingar, að í Sviss eru fjórar álbræðslur og sumar komnar mjög til ára sinna. Það er ekki fyrr en tiltölulega nýlega, sem þær hafa sett upp reykhreinsunartæki, en reynslan hafði þá sýnt, að þeirra væri þörf eftir aðstæðum. Höfðu komið fram skemmdir á aprikósu- og grenitrjám í nágrenninu, og á einum stað hafði þess orðið vart, að nautgripir sýktust af flúorveiki. Í Noregi hefur reyndin orðið sú eins og kunnugt er, að allar álbræðslur í landinu, sem vera munu 6 að tölu, hafa sett upp reykhreinsunartæki. Ástæðan er sumpart sú, að vegna landslagsins í fjörðum og dölum Noregs er ekki talið varlegt að starfrækja þar álbræðslu án slíkrar hreinsunar, sbr. það, sem áður var sagt um Eyjafjörð. Auk þess er ríkari þörf á hreinsun við þá tegund bræðsluofna., sem algengust er í Noregi. En almennt gildir það um þessi lönd, sem fyrr segir, að það tilheyrir hinum almennu réttarreglum um öryggi á vinnustað og atvinnusjúkdóma, hvað gera beri hverju sinni vegna þeirra manna, sem vinna í verksmiðjunum, og nágrannaréttinum tilheyrir það, hvað gera beri vegna áhrifa á umhverfið á hverjum stað.

Iðnmrn. hefur einnig borizt bréf frá landlækni, dags. 15. nóv. s.l., þar sem komið er áleiðis erindi frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar, sem ályktaði á fundi sínum hinn 12. sept. s.l. að fara þess á leit við landlækni, að hann, eins og segir í bréfinu, gangist fyrir ýtarlegri könnun á ráðstöfunum varðandi væntanlega álverksmiðju í Straumsvík, að því leyti sem snertir heilbrigðisvarnir almennings, og geri allt, sem í hans valdi stendur, til að tryggja, að æskilegar varúðarráðstafanir verði gerðar, ef hann telur þess þörf. Eins og sagt var áður, eru mál þessi í áframhaldandi athugun á vegum iðnmrn. og munu þar vera höfð full samráð við landlækni og önnur viðkomandi yfirvöld, eftir því sem tilefni gefst.

Í öðru lagi hefur Rannsóknastofnun iðnaðarins haldið áfram athugunum sínum á mengunarmálinu að beiðni rn. Forstöðumaður stofnunarinnar fór m.a. til Sviss og Noregs á s.l. hausti og kannaði þar álbræðslur á vegum Alusuisse og annarra. Skilaði hann skýrslu til rn. um athuganir sínar um mánaðamótin nóv.-des. s.l. Þessi skýrsla hefur nú verið afhent ÍSAL og Alusuisse til umsagnar, og er hún þar í athugun.

Í þriðja lagi hefur rn. borizt bréf frá borgarlækninum í Reykjavík, dags. 3. febr. s.l., þar sem gerð er grein fyrir þeim upplýsingum, sem hann hefur aflað um málið, m.a. með tilliti til þess, hvort tilvist álbræðslunnar í Straumsvík mundi hafa áhrif á vatnsból eða gróður í Reykjavík. Þetta bréf hefur einnig verið afhent ÍSAL og Alusuisse til umsagnar.

Í fjórða lagi hefur iðnmrn. með bréfi hinn 6. júlí s.l. falið fulltrúum ríkisstj. í stjórn ÍSALs, þeim Magnúsi Ástmarssyni forstjóra og Hirti Torfasyni hrl., að taka mengunarmálið til sérstakrar athugunar og fylgjast vandlega með því, hvað ÍSAL hyggist gera í því sambandi, og vinna að því fyrir sitt leyti, að gerðar verði þegar í upphafi þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar mega teljast. Hafa fulltrúarnir átt bréfaskipti um málið við fyrirsvarsmenn Alusuisse, auk þess sem það var rætt á stjórnarfundi félagsins í s.l. viku.

Í fimmta lagi var málið rætt við forstjóra og framkvæmdastjóra Alusuisse, Emanuel Meyer og dr. Paul Müller, meðan þeir dvöldust í Reykjavík dagana 22. og 23. febr. s.l., og frá því skýrt, hvernig málið stæði á báðar hliðar. Þessir fyrirsvarsmenn félagsins skýrðu frá því, að í þeirri byggingaráætlun ÍSALs, sem nú væri verið að ganga frá, hefði byggingunni verið breytt þannig frá því, sem áætlað var á árinu 1964, að setja mætti upp fullkominn hreinsunarútbúnað í bræðslusölum, hvenær sem væri, án nokkurrar röskunar á þeim eða truflunar á rekstri verksmiðjunnar, en verulegan kostnaðarauka leiði af þessari breytingu, sennilega um 30 millj. kr. Hefði mænir bræðslusalanna verið hækkaður og aðrar breytingar gerðar á þaki þeirra eða fyrirkomulagsbreytingar, sem nauðsynlegar væru í þessu sambandi. Lagðar yrðu reykhreinsunarrásir og loftræstiháfar. Hreinsunarútbúnaður sá sem um væri að ræða, að síðar yrði settur upp, væri sams konar útbúnaður og væri í álbræðslum Alusuisse í Húsnesi í Noregi og Steg í Sviss. Mundi það kosta um 60 millj. kr. að setja hann upp í Straumsvík samkv. hinum breyttu teikningum.

Í sjötta lagi hefur landlæknir í bréfi, dags. hinn 6. febr. s.l., til forstjóra Rannsóknastofnunar iðnaðarins talið mjög brýnt, að nú þegar verði hafizt handa um efnafræðilegar jarðvegsrannsóknir á svæði því í og umhverfis Straumsvík, þar sem álverksmiðjunni er ætlað að rísa. Segir svo í bréfinu:

„Ef mögulegt á að verða að fylgjast nákvæmlega með flúormengun jarðvegsins í framtíðinni á þessu svæði, er nauðsynlegt, að nákvæmar, margar og áreiðanlegar flúorrannsóknir í jarðveginum liggi fyrir, áður en til nokkurrar álframleiðslu kemur á þessum stað.“

Þetta ræddi ég sérstaklega á fundum með forstjóra og framkvstj. Alusuisse ásamt formanni stjórnar ÍSALs í s.l. viku, og varð um það fullt samkomulag. Er ráðgert, að grundvallarrannsókn þessi hefjist þegar á þessu sumri og haldi áfram, eftir því sem þurfa þykir, þar til álbræðslan tekur til starfa, en þá munu reglulegar samanburðarrannsóknir taka við, eins og samningar standa til. Fyrirhugað er, að rannsóknin verði framkvæmd undir stjórn samvinnunefndar þriggja aðila, og verður Rannsóknastofnun iðnaðarins þar eina aðilinn. Alusuisse og ÍSAL munu taka þátt í rannsókninni og tilnefna annan aðila í n. Iðnmrn. mun síðan tilnefna erlendan sérfræðing sem þriðja mann í n., og hef ég í huga að fá norskan sérfræðing til þess starfs.

Auk þess sem nú er greint, munu sérfræðingar ríkisstj. og Alusuisse halda áfram að skiptast á upplýsingum um málið, og er m.a. verið að leggja drög að því að fá hingað svissneskan lækni, sem er sérfræðingur á þessu sviði, til viðræðna við íslenzk heilbrigðisyfirvöld.

Ég vil nú veita svör við hinum eintöku liðum fsp. umfram það, sem þeim hefur verið óbeint svarað í því, sem ég að framan hef sagt.

Um a-lið: „Telja sérfræðingar íslenzku heilbrigðisstjórnarinnar nokkra hættu á flúoreitrun frá álverksmiðjunni í Straumsvík?“ Þegar hér er spurt um hættu á flúoreitrun, er væntanlega átt við, hvort mönnum geti stafað heilsutjón af útblásturslofti eða loftmengun frá verksmiðjunni, enda er spurt um álit sérfræðinga íslenzku heilbrigðisþjónustunnar, eins og það er orðað. Í þessu sambandi er raunar ekki til að dreifa nema landlækni, sem er lögum samkv. ráðunautur ráðh. um allt það, er varðar heilbrigðismál, og annast framkvæmdir þeirra mála fyrir hönd ráðh. samkv. lögum, reglum og venjum, er þar um gilda. Landlæknir telur sig hins vegar ekki sérfræðing á því sviði, hver áhrif loftmengunar frá álbræðslu kynnu að geta verið. Ég hef áður greint frá afskiptum landlæknis af því að afla upplýsinga frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og þýzkum og norskum heilbrigðisyfirvöldum og till. hans um, að þegar verði hafizt handa um efnafræðilagar jarðvegsrannsóknir, og einnig telur hann nauðsynlegt, að þegar í upphafi verði gætt allra varúðarráðstafana. Ákvörðun um að breyta fyrirkomulagi við byggingu verksmiðjunnar þannig, að hægt verði fyrirvaralaust að koma þar fyrir reykhreinsunartækjum, er þáttur í slíkum varúðarráðstöfunum. Í aðalsamningi ríkisstj. við Swiss Aluminium eru eftirfarandi ákvæði, sem hér skipta máli:

Gr. 12.02. ÍSAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.

13. gr. Reglur um öryggi, heilbrigði og hreinlæti. Að tilskildum ákvæðum 12. gr. skal ÍSAL byggja, útbúa og reka bræðsluna og halda henni við í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti og skal í þessum efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana, sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum.

Ég vil leyfa mér að bæta hér við umsögn prófessors Axels Lydersen, forstöðumanns Institut for Kemiteknik við tækniháskóla Noregs í Þrándheimi og formanns reykskaðaráðs Noregs, sem hefur yfirumsjón með öllum mengunaráhrifum frá verksmiðjureyk. Þessi umsögn er í bréfi til forstjóra Rannsóknastofnunar iðnaðarins hér, dags. 11. jan. 1966, en þar segir prófessorinn: „Jeg kenner intet tilfælle af bevist skade på mennesker i omegnen af aluminiumfabrikker.“ Þ.e. ég veit ekkert dæmi um, að fram hafi komið tjón á mönnum í nágrenni álverksmiðja.

Um b-lið: „Hvers konar bræðsluker verða notuð?“ Í framkvæmdaáætlun ÍSALs er gert ráð fyrir því, að bræðsluker í verksmiðjunni verði með bökuðum anóðum, þ.e. af svonefndri „prebaked“ gerð, en ekki af Söderberg-gerð, sem algeng er í norskum verksmiðjum, enda norsk uppfinning. Þessi ker ÍSALs eru sams konar ker og notuð eru í öllum nýrri verksmiðjum Alusuisse, t.d. í Húsnesi í Noregi, Steg í Sviss og New Johnsonville í Tennessee. Framleiðsluaðferðin við bræðslu á áli er í aðalatriðum hin sama, hvor tegund ofnanna, sem notuð er. Munurinn á ofnunum liggur aðallega í því, hvernig anóðunni, neikvæða skautinu, er komið fyrir. Þessar anóður eru búnar til eða bakaðar úr blöndu af koksi og koltjöru. Í Söderbergsofnum er kökum úr þessari blöndu bætt á anóðustokk í ofninum öðru hverju og þær látnar mynda þar þétta anóðu smám saman eða sjálfbakandi anóður, sem kallað er. Við hitann í ofninum eimast tjöruefni og brennisteinssambönd burt, og mundu þau ásamt flúornum gera mönnum ólíft að vinna í verksmiðjunni, ef ekki væri höfð sérstök hlíf á ofninum. Er loftræsting við þessa ofna undir því komin, að hægt sé að soga þessi efni upp um hlífina á öruggan hátt, og er það aldrei hægt fullkomlega, þar sem alltaf þarf að opna ofnana öðru hverju til að bæta á þá hráefni og fleira, auk þess, sem útbúnaðurinn getur bilað. Í „prebaked“ ofnunum er hins vegar búið að baka anóðuna, þegar hún er sett í ofninn, eins og nafnið bendir til. Eru því öll tjöruefni og brennisteinssambönd farin úr henni eða því sem næst, þannig að þeirra gætir lítið sem ekkert við bræðsluna. Af þessum sökum er vel hægt að starfrækja ofnana án þess að hafa sérstaka hlíf á þeim, ef loftræsting er góð upp með ofnunum, eins og hér er gert ráð fyrir. Ef um reykhreinsun er að ræða, fer hún að öllu leyti fram með úðaþvotti í mæni bræðslusalarins, þar sem reykurinn safnast. Skv. upplýsingum Alusuisse hafa samanburðarrannsóknir sýnt, að framleiðslukostnaður hjá bræðslum með bökuðum anóðum verður lægri en hjá bræðslum með Söderberg-gerð. Auk þess sem það hefur beiða tölulega þýðingu, bendir félagið enn fremur á það, að miklu auðveldara sé að ræsa „prebaked“ ofna, en þá er flúormyndun yfirleitt með mesta móti. Jafnframt sé auðveldara að komast að anóðunni, og ef nothæfi hennar breytist, komi það strax í ljós á ofninum, en ekki fyrr en eftir nokkrar vikur, þegar um Söderbergsofna er að ræða. Einnig hafi breytingar á straumstyrkleika í ofninum miklu minni áhrif á vinnsluna í „prebaked“ ofnum, og er það mikilvægt vegna rekstraröryggis. Síðast, en ekki sízt séu vinnsluskilyrði við „prebaked“ ofna hreinlegri og betri en við Söderbergsofna og vandamálið í sambandi við loftræstingu í salnum minna og auðleystara.

Þær upplýsingar, sem rn. hafa borizt um málið, benda yfirleitt til þess, að umræddar staðhæfingar Alusuisse séu réttar. Kostur Söderbergsofnanna frá hreinsunarsjónarmiði er sá, að hægt er að draga frá þeim reykefnin gegnum hlífarnar í tiltölulega samþjöppuðu formi. Hins vegar er ekki þar með sagt, að þetta leiði til betri hreinsunar, um það er lýkur, því að hér þarf einnig að finna ráð til þess að losna við tjöruefni og brennisteinsdíoxíð, og er það mjög flókið mál. Ókosturinn við þá frá hreinsunansjónarmiði er einkum sú aukna mengun, sem fylgir tjöruefnunum. Í fyrsta lagi er talið, að þau auki á myndun flúorvetnis, þannig að þessir ofnar leysi meiri flúor úr læðingi en hinir bókstaflega talað. Í öðru lagi auki þau á eiturverkanir flúors á umhverfið, ef þau sleppa út samtímis. Í þriðja lagi er alltaf hætta, á því, að tjörugufurnar stífli hreinsunarútbúnaðinn.

Að öllu samanlögðu má segja, að samkv. þeim upplýsingum, sem rn. hefur undir höndum, komi ekki til mála að reyna að breyta fyrirætlunum Alusuisse um það að nota fremur „prebaked“ ofna en Söderbergsofna í Straumsvík. Miklu fremur kæmi það til greina að banna hreinlega notkun Söderbergsofna, ef hún væri fyrirhuguð, vegna vinnuskilyrða í bræðslusalnum. Þeir íslenzku sérfræðingar, sem borið hafa saman þessa tvenns konar bræðslusali með eigin augum, telja, að það þoli engan samanburð, hve vinna við „prebaked“ ofna sé miklu hreinlegri og hollustusamari. Í svari mínu við þessum b-lið fsp. hef ég einkum stuðzt við skýrslu forstjóra Rannsóknastofnunar iðnaðarins, dags. í nóv. 1966, auk ýmissa annarra gagna, sem aflað hefur verið og ég hef áður vitnað til.

Um c-lið fsp.: „Verður þess krafizt, að reykeyðingartækjum verði komið fyrir í verksmiðjunni og þau hagnýtt frá byrjun?“ Samningur við Alusuisse er þannig, sem kunnugt er, að ekki þótti ástæða til að slá því föstu við samningsgerðina sjálfa, hvort setja ætti upp reykhreinsun eða ekki, heldur skyldi málið rannsakað og aðstaðan metin eftir því, sem góðar iðnaðarvenjur segja til um á hverjum tíma. ÍSAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Það mál verður stöðugt rannsóknarefni nú og síðar, hvort sem reykhreinsun verður sett upp eða ekki, hvað gera þurfi til að fullnægja þessu skilyrði. Grundvallaratriðið er það, að íslenzk yfirvöld hafi jafnan tiltækar allar upplýsingar, sem á þarf að halda til þess að meta aðstæður í Straumsvík, þannig að þau verði jafnan reiðubúin að krefjast þess, að framkvæmdar séu þær varúðarráðstafanir, sem réttmætt er að ÍSAL annist á hverjum tíma. Því hefur þegar verið lýst, hvað iðnmrn. og önnur yfirvöld eru að gera á þessu sviði um þessar mundir. Það hefur einnig komið fram, að verksmiðjan verður þannig búin út í byrjun, að hægt verður hvenær sem er fyrirvaralaust að koma fyrir reykhreinsunartækjum. Við þetta er því einu að bæta, að þær upplýsingar, sem rn. hefur nú undir höndum, hafa ekki leitt það í ljós, að nauðsynlegt verði að setja upp reykhreinsunarútbúnað í Straumsvík þegar í upphafi, við fyrsta stig framleiðslunnar. Ef síðari rannsóknir og reynsla sýnir, að þess sé þörf, verður þess krafizt, og er hvorki af ÍSAL né Alusuisse dregin í efa skylda þeirra til þess að uppfylla þá kröfu samkv. samningsgerðinni.