01.03.1967
Sameinað þing: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (2725)

215. mál, könnun á hag dagblaðanna

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Fyrri fsp., sem hér er til umr., hljóðar svo: „Hver hefur orðið árangur þeirrar könnunar á hag og stöðu íslenzku dagblaðanna, sem ríkisstj. ákvað að láta fram fara fyrir ári?“

Það hefur aldrei verið ákveðið af hálfu ríkisstj., að nein þvílík könnun á hag íslenzkra dagblaða færi fram, og er því enginn árangur af þeirri könnun. Hitt var ákveðið í fyrra, að íhuga og kynna sér, hvort þau úrræði, sem í öðrum löndum hefur verið gripið til í því skyni að rétta við hag dagblaða, ættu við hér á landi, og það hefur verið safnað töluverðu af gögnum um þetta atriði. Í skemmstu máli má segja, að það er óvíða, þó að það sé ekki óþekkt, að dagblöðum sé beinlínis hjálpað af hálfu ríkisvaldsins. Víðast hefur það orðið niðurstaðan, að ekki væru heppileg bein afskipti ríkisvaldsins af þessum efnum, og þar sem talin hefur verið þörf á afskiptum ríkisins, eins og t.d. í Svíþjóð og Finnlandi, hefur orðið ofan á að hjálpa flokkunum, en ekki blöðunum, og síðan gætu flokkarnir þá, ef þeir vildu, ráðstafað því fé, sem þeir þannig fá úr ríkissjóði, til þess að halda við og efla þau blöð, sem hverjum um sig er sérstaklega annt um. Og í þessum löndum og raunar víðar, eins og í Þýzkalandi, eru þær upphæðir, sem flokkunum eru ætlaðar í þessu skyni, miðaðar við meðlimatölu hvers flokks, eða réttara sagt kjósendafjölda við síðustu almennar kosningar. Slíkar bollaleggingar hafa verið allvíða uppi, og löggjöf er komin á um þessi efni, um aðstoð til flokkanna, í Svíþjóð og Finnlandi, í minna mæli í Þýzkalandi, — það mun vera einnig nokkuð mismunandi í einstökum löndum þar eða fylkjum, hvað við viljum kalla það. Í Frakklandi aftur á móti á sér stað margvísleg aðstoð til blaðanna sjálfra, þó meira í óbeinu formi en með beinum ríkisstyrkjum, en þau eru studd með margvíslegu móti þar. Í Bretlandi hefur nýlega verið um þetta rætt, og þar urðu allir aðaltalsmenn flokkanna, a.m.k. bæði Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins, sammála um, að bein fyrirgreiðsla ríkisins við blöðin væri ekki heppileg.

Að þessu athuguðu hygg ég, að við höfum í raun og veru ekki ýkjamikið að læra af þessari löggjöf erlendis, sem var aðalverkefni þeirrar athugunar, sem efnt var til. Ef setja ætti um þessi efni löggjöf hér á landi, er það auðvitað rétt, sem fram kemur í fsp. hv. þm., að áður yrði að kanna hag og kjör hinna íslenzku dagblaða betur en menn nú hafa vitneskju um. En til slíkrar athugunar hefur ekki verið efnt af hálfu ríkisstj., — það er nauðsynlegt, að menn viti það, — enda hefðu dagblaðaútgefendur og aðstandendur þeirra orðið varir við, ef að slíkri athugun hefði verið stefnt, því að þá hefði verið óskað eftir gögnum frá þeim um þeirra hag, sem ekki hefur verið gert.

Seinni fsp. hljóðar svo: „Hyggst ríkisstj. gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að sú þróun, sem víða í Evrópu hefur leitt til sívaxandi blaðadauða og þar af leiðandi minnkaðs raunverulegs prentfrelsis, gerist einnig hér á landi?“

Þessari spurningu er skemmst að svara á þá leið, að ríkisstj. hefur ekki a.m.k. ekki að svo komnu, ákveðið, að nein heildarlöggjöf verði sett eða frv. þess efnis borið fram. Hitt er til athugunar, en þó ekki til hlítar ákveðið, en er nú til athugunar, hvort unnt sé að létta af blöðunum vissum útgjöldum, þannig að gera þeim auðveldara um útgáfu en verið hefur og þannig, að slíkt verði með sanngirni gert, án þess á aðra sé hallað, og eins að dagblöðin, sem ég hér tala um, fái greiðslur af hálfu ríkisins og ríkisstofnana fyrir þjónustu, sem þau hafa innt af hendi í þágu þessara aðila hingað til ókeypis, en eðlilegt mætti telja, að þau fengju greiðslur fyrir. Þetta hvort tveggja eru meira framkvæmdaratriði en löggjafaratriði. Það er vitað mál, að ákvörðun póstgjalda og símagjalda t.d. hefur að undanförnu nokkuð verið hagað með hagsmuni blaða fyrir augum, — það er ekki nýtt fyrirbæri, það hefur verið svo áratugum saman. Það er eðlilegt, að slík ákvæði liggi stöðugt undir endurskoðun. Það er einnig þjónusta, sem blöðin leysa af hendi bæði í þágu útvarps og sjónvarps, og það er ekki óeðlilegt, að slíkir aðilar greiði eitthvað fyrir þá þjónustu, og þá ekki sízt vegna þess, að hvarvetna, ekki einungis hér, heldur er það staðreynd alls staðar, að þar sem auglýsingaútvarp og sjónvarp á sér stað, hefur það mjög bitnað á dagblöðunum og á verulegan þátt í þeirra örðugleikum, eftir því sem erlendar rannsóknir sýna. Það er innan þessa ramma, sem ég hef nú vikið að, sem sú íhugun málsins á sér stað, sem fram fer.