15.03.1967
Sameinað þing: 29. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (2755)

118. mál, binding sparifjár innlánsstofnana á Norðurlandi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þó að hér sé enginn tími til þess að hefja umr. í dúr við það, sem hæstv. viðskmrh. gaf tilefni til, finn ég ástæðu til þess að mótmæla þeim fjarstæðum, sem ég tel að fram hafi komið í fullyrðingum hans, áður en hann vék sér að því að svara þeim fsp., sem hér voru til umr.

Hæstv, ráðh. stagast sí og æ á því, að binding sparifjár í Seðlabankanum standi í alveg beinu hlutfalli við veitt afurðalán eða endurkaup Seðlabankans á afurðalánum. Ég efast þó ekkert um það fyrir mitt leyti, að hæstv. ráðh. hlýtur að vera búinn að gera sér grein fyrir því fyrir löngu, að þetta er ekki svona og hefur aldrei verið svona. Hann veit það t.d., að þegar það kemur fyrir, sem gerist hjá okkur á tiltölulega stuttum tíma á hverju ári, á einum eða tveimur mánuðum, að miklar afurðir falla til, afurðir svo að skiptir mörgum hundruðum millj. kr., þá eru auðvitað veitt afurðalán úr Seðlabankanum, án þess að sparifjárbinding hafi komið til á móti þeim upphæðum á sama tíma. Hæstv. ráðh. veit þetta. En eigi að síður hefur Seðlabankinn um margra ára skeið, löngu áður en til kom sparifjárbinding og líka eftir að hún kom til, talið sér fært og skylt og talið sjálfsagt að veita afurðalán út á þessar stórauknu afurðabirgðir, þegar þær komu til, þó að ekki hafi verið um að ræða tilsvarandi aukningu á bindifé, af því að hann varð eins og hver annar seðlabanki að veita bráðabirgðalán út á framleidda gjaldeyrisvöru, sem væntanlega þurfti ekki að liggja í landinu nema tiltölulega stuttan tíma. Þetta hefur verið hægt, og þetta er hægt. Og þeir, sem setja þetta dæmi upp á þennan barnalega hátt, að vilja alltaf segja: Það er ekki hægt að veita meiri afurðalán en bindifé stendur inni fyrir á hverjum tíma, — eru vitanlega að fara með falskenningar. Þannig eru þessi mál ekki og hafa aldrei verið.

Ef hliðstæður útreikningur og hæstv. ráðh. gerði hér væri settur upp fyrir aðra landshluta, dettur mér alveg sérstaklega í hug Austurland, og ég þykist hafa fundið hjá æðimörgum, þm. og öðrum, að það þurfi ekki að gera ýkjamikið fyrir Austurland nú síðari árin, því að þeir hafi lifað þar allir eins og blóm í eggi, og má til sanns vegar færa, — en ef maður notaði reikningsaðferð hæstv. ráðh., hefðu Austfirðingar verið mestu gustukamenn á landinu af öllum landsmönnum vegna þess, að af eðlilegum ástæðum, þar sem afurðirnar féllu til, þar sem milljónirnar og milljónatugirnir og hundruð millj. voru framleiddar, þangað þurfti að verja fé, ekki vegna Austfirðinga, heldur vegna landsins alla. Það gæti vitanlega enginn mannlegur máttur staðið að því að framleiða allt það, sem þar er framleitt, í krafti þess sparifjár, sem þar fellur til.

Þegar sett er upp dæmi um það, hvað hafi verið flutt mikið fjármagn frá bankakerfinu í Reykjavík, Seðlabankanum og viðskiptabönkunum, til Norðurlands eða annarra landshluta og reiknað á þann hátt, sem hæstv. ráðh. gerir, er það vitanlega alveg fráleitt. Bankakerfið í Reykjavík er engin sérstök stofnun fyrir Reykjavík eða næsta nágrenni Reykjavíkur. Mikill hluti af bankakerfinu hér er bankakerfi þjóðarinnar. Það hefur undir höndum, þetta bankakerfi, á vissum tímum ársins stórar fjárfúlgur, sem jafnt Norðlendingar, Austfirðingar og aðrir eiga, ýmsir almannasjóðir, sem þar geyma ié um lengri eða skemmri tíma, og bankakerfið í Reykjavík er með í sínum höndum á hverjum tíma jafnvel hundruð milljóna kr., sem eru raunveruleg verðmæti tiltölulega nýlega komin inn fyrir útflutningsvöru þjóðarinnar allrar. En bankakerfið hér ræður yfir þessu fjármagni á vissu tímabili og þarf vitanlega að ráðstafa því. En það er vitanlega mesti misskilningur að setja dæmið upp á þessa lund, sem hæstv. ráðh. gerði, að hér séu einhverjir sérstakir bankar tilheyrandi Reykjavík, þeir séu að færa öðrum landsfjórðungum stórar fjársummur og þannig liggi hinir landsfjórðungarnir sem hálfgerðir ómagar á bankakerfinu hér. (Forseti: Ræðutíminn er búinn) Já, það var svo sem við því að búast, að það væri ekki tími til hér að ræða slíkt mál sem þetta, og skal ég þá láta staðar numið. En ég vil aðeins fyrir mitt leyti mótmæla þessum kenningum, því að þær eru hrein fjarstæða, að þessir liðir séu svona gersamlega samanbundnir eins og hæstv. ráðh. vill vera láta, og í rauninni gildir hið sama einnig um gjaldeyrissjóðinn. Þetta er ekki í slíku samhengi, þó að hér sé að vísu visst samband á milli.