16.12.1966
Neðri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

58. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held, að hæstv. viðskmrh. sé búinn að láta undrun sína í ljós yfir því, að það skuli koma upp annað hér í málinu en í hv. Ed., þrisvar sinnum núna, a.m.k. þrisvar sinnum. Þetta er ákaflega einkennilegt, þegar á það er litið, að þessi hæstv. ráðh. er búinn að vera 20 ár á þingi. Er það nokkuð óvenjulegt hér, að það verði breyt. á málum í seinni d. frá því, sem gengið var frá þeim í fyrri d.? Ég held, að þetta sé daglegt brauð. Og hvers vegna er haldið við þessu tveggja deilda kerfi? Er það ekki einmitt fyrst og fremst til þess, að málin fái betri athugun en ef aðeins væri ein málstofa. Ég hefði haldið það. Þetta eru ákaflega fávíslegar aths. hjá honum. Það lítur út fyrir, að hann telji, að af því að flokksbræður okkar í Ed., — okkar, sem stöndum að brtt., — af því að þeir fluttu ekki brtt., þá sé það nánast ákaflega óviðfelldið af okkur að hreyfa nokkrum athugasemdum við þetta mál. Það sjá væntanlega allir, hvað þetta er óttalega mikil fjarstæða og merkilegt, að þetta skuli heyrast úr ráðherrastól.

Hæstv. ráðh. er stöðugt að tala um það, hverjir hafi tapað og grætt á verðjöfnunarkerfinu. Það var ákveðið 1953, að það skyldi vera sama útsöluverð á olíu og benzíni um allt land, og ég held, að það sé ekki hægt að gera það upp, hverjir hafa grætt og tapað á þessu. Það er í rauninni ekki um neitt tap eða gróða að ræða í þessu sambandi. Þetta var nauðsynleg framkvæmd og réttmætt að ákveða þetta, og þar á enginn að tapa og enginn að græða út af fyrir sig, enda væri ómögulegt að gera þetta upp, — þó að hann færi og setti sína færustu hagfræðinga í að reikna þetta út, væri alveg ómögulegt að gera þetta upp, það er ekki til, að það væri mögulegt. Við skulum hugsa okkur, að verðjöfnunarkerfið hefði ekki verið tekið upp á sínum tíma. Af því hefði vitanlega leitt það, eins og hv. 5. þm. Austf. er búinn að taka fram, að aðrir landshlutar hefðu faríð að flytja olíur inn beint til sín, komið upp aðstöðu til þess að flytja inn olíur beint til sín. Þá hefði afleiðingin orðið sú, eins og hann líka tók fram, að Reykvíkingar hefðu ekki getað komizt að eins góðum kaupum á olíu og þeir hafa getað undanfarið. Þeir hafa flutt inn nokkuð stóra farma, sem hafa verið ekki einasta fyrir Reykjavík, heldur fyrir landið allt á næstu mánuðum og missirum jafnvel, og þarna hefur verið hægt að komast að betri kaupum og sérstaklega betri skilyrðum um flutningsgjald, og það er ómögulegt að segja, hvað hefði komið upp úr þessu, ef verðjöfnunin hefði ekki verið og hver landshluti hefði farið að flytja inn fyrir sig og þar af leiðandi orðið að borga meira flutningsgjald til landsins. En vafalaust er það, að þjóðin í heild hefur grætt á þessu, hún hefur komizt að betri kjörum með flutninga á olíu til landsins fyrir að hafa tekið stóra farma.

Hæstv. ráðh. hefur viðurkennt það, að ef frv. verði samþ. óbreytt, verði þetta þannig, að aðrir olíunotendur greiði kostnaðinn við að flytja togaraolíuna á milli útsölustaða, enda er ekki hægt annað en að viðurkenna það. Og þá er bara spurningin: Er það sanngjarnt? Hvað er að segja um bátaútveginn hér á landi? Er hann þannig staddur núna, að það sé sanngjarnt að leggja á hann útgjöld vegna togaranna? Ég veit, að það eru nokkur síldarskip, stóru bátarnir, þeir hafa líklega haft það gott í ár, en hvað er að segja um hina? Við fengum hér skýrslu frá n., sem athugaði útgerð og afkomu smábátanna, og við vitum, hvað hún segir. Ég held, að það sé ekki þannig ástatt hjá þeim, að það sé réttmætt að leggja á þá kvaðir vegna togaranna. Ég held, að það sé ekki heldur sanngjarnt að leggja nein gjöld á þann fjölda manna, bæði í kaupstöðum, kauptúnum og sveitum, sem nú þurfa að hita hús sín með olíu, því að það er orðið lítið um það, að hús séu kolakynt nú. Það er yfirleitt notuð olía til upphitunar á húsum, þar sem ekki er hiti frá náttúrunnar hendi, ekki jarðhiti, og ég held, að það sé alls ekki sanngjarnt að vera að íþyngja þessu fólki með því að hækka olíuverðið til þess. Hitt er annað mál, að við erum á því, að það sé rétt að létta þarna af togurunum, en það er, eins og hv. 5, þm. Austf. hefur tekið fram, sanngjarnara, að það verði borgað og jafnað með öðrum hætti.