29.11.1966
Neðri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

74. mál, verðstöðvun

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar vissulega ekki um kjarna þeirra vandamála, sem þjóðin stendur frammi fyrir, en segja má, að kjarni þeirra sé: Í fyrsta lagi vandamál sjálfra atvinnuveganna, eins og þau blasa við nú þegar, hvað þá eins og þau verða, þegar allar afleiðingar af verðbólguþróun undanfarinna ára verða komnar í ljós. Í öðru lagi glíman við óðadýrtíðina og viðureignin, sem fram undan er við þá stórfelldu dýrtíðaröldu, sem enn á eftir að rísa sem afleiðing af því, sem búið er að hafast að, enn á eftir að koma upp á yfirborðið og því miður kemur upp á yfirborðið, þó að reynt verði með sýndarráðum ýmsum að leyna því, sem í vændum er, t.d. fram yfir næstu alþingiskosningar. Í þriðja lagi mætti í þessu sambandi nefna sjálfhelduna í ríkisbúskapnum, sem óðaverðbólgustjórn 7–8 ára er búin að koma til leiðar.

Þetta er ekki frv. um verðstöðvun, þótt það heiti svo, sjálfsagt í auglýsingaskyni, heldur er þetta frv. til laga um verðlagseftirlit, og eftir því sem ég bezt fæ séð í stærstu dráttum raunverulega efnislega eins og þær heimildir um verðlagseftirlit, sem þegar eru í lögum, þegar frá er skilin heimild til handa ríkisstj. til þess að banna sveitar- og bæjarfélögum að hækka útsvör og aðstöðugjöld frá því, sem þau voru á þessu ári.

Í frv. segir — með leyfi hæstv. forseta í 1. gr.:

Ríkisstj. er heimilt að ákveða, að eigi megi hækka verð á neinum vörum frá því, sem var, er frv. til þessara laga var lagt fyrir Alþ., nema með samþykki hlutaðeigandi yfirvalda, og mega þau þá eigi leyfa neina hækkun á vöruverði, nema þau telji hana óhjákvæmilega, svo sem vegna hækkunar á tollverði innfluttrar vöru.“ Síðan segir: „Enn fremur er ríkisstj. heimilt að ákveða, að eigi megi hækka hundraðshluta álagningar á vörum í heildsölu og smásölu frá því, sem var, er frv. til þessara laga var lagt fyrir Alþingi. Sama gildir um umboðslaun vegna vörusölu og um hvers konar álagningu, sem ákveðin er sem hundraðshluti á selda vinnu eða þjónustu.“

Þetta er meginkjarni málsins að undanskildu því, sem ég gat um áðan varðandi álögur sveitar- og bæjarfélaga.

Í núgildandi l. um verðlagsmál, sem hafa gilt síðan 1960 og núv. hæstv. ríkisstj. hefur getað notfært sér síðan allar götur, stendur svo — með leyfi hæstv. forseta — í 3. gr. þeirra laga: „Verðlagsnefnd getur ákveðið hámarksverð á vöru og verðmæti, þ. á m. hámark álagningar, umboðslauna og annarrar þóknunar, er máli skiptir um verðlag í landinu. Verðlagsákvarðanir allar skulu miðaðar við þörf þeirra fyrirtækja, er hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur. Verðlagsnefnd getur úrskurðað um hverja þá kostnaðarliði er máli skipta um verðlagningu á vörum. Þá getur verðlagsnefnd og ákveðið gjöld fyrir flutning á landi, sjó og í lofti, þar með talin farmgjöld og afgreiðslugjöld, enn fremur greiðslur til verkstæða og annarra verktaka fyrir alls konar verk, svo sem pípu- og raflagnir, smíðar, málningu og veggfóðrun, saumaskap, prentun og því um líkt. Enn fremur getur verðlagsnefnd ákveðið hámarksverð á greiðasölu, veitingum, fæði, snyrtingu, fatapressun, aðgöngumiðum að almennum skemmtunum og öðru slíku. Ákvæði þessarar gr. taka þó ekki til vörutegunda, sem verðlagðar eru skv. sérstökum l., né heldur vöru, sem seld er úr landi, eða launa fyrir verk, sem ákveðin hafa verið með samningi stéttarfélaga.“

Ég fæ ekki betur séð á þessu en að hæstv. ríkisstj. og hennar stofnun, verðlagsnefndina, hafi sannarlega ekki skort lagaheimild til þess að hafa hin víðtækustu afskipti sem hugsazt geta af verðlagi í landinu. Þessi ákvæði hafa verið í gildi allan tímann, og þau sýnast ekki undanskilja neitt. Það er heimild til að skipta sér af öllu.

Á hinn bóginn hefur hæstv. ríkisstj. á undanförnum árum sífellt verið að hrósa sér af því, að hún notfærði sér í minna og minna mæli þessa löggjöf um verðlagseftirlitið, og verið að leysa sífellt fleiri og fleiri vörur undan þessari löggjöf með auglýsingum og tilkynningum. Og það segist hæstv. ríkisstj. alltaf hafa verið að gera vegna þess, að það væri hagfelldast fyrir neytendur og fyrir landsmenn, gæfi bezta raun í viðskiptunum, að þessi lög væru sem minnst notuð, verðlagseftirlitið yrði afnumið, í áföngum, og hefur hæstv. ríkisstj. sífellt státað mjög af því, að hún væri að koma þessum málum í hagfelldara horf en áður með því að notfæra sér ekki þessa löggjöf.

Það hljóta því óneitanlega að vera þung spor fyrir hæstv. forsrh., eftir að hann hefur starfað að þessu í nærfellt 8 ár, að koma hér nú og segja, að það þurfi nýja löggjöf ofan á þessa, sem fyrir er, vegna þess að sú stefna, sem þeir hafi fylgt í þessum málum, hafi svo langt frá því gefið bezta raun varðandi eðlilegt verðlag, heldur þurfi að gjörbreyta um stefnu og taka upp framkvæmd þeirra laga, sem fyrir eru og hafa verið í gildi allan tímann. En þetta frv. sýnist í raun og veru mestmegnis eins konar auglýsing eða áróðursspjald um það, að ríkisstj. hafi skipt um stefnu og ætli sér að breyta til frá því, sem verið hefur, og taka upp aukið verðlagseftirlit. En eins og ég sagði, sé ég ekki betur en ríkisstj. hafi þetta vald og það mjög kirfilega múr- og naglfest í þeirri löggjöf, sem fyrir er um verðlagsmál.

Ég sé ekki, að þetta frv. snerti landbúnaðarafurðir eða verðlagningu landbúnaðarafurða. Mér sýnist vera ljóst af þessu frv., að verðlagning landbúnaðarafurða og meðferð þeirra að því leyti til skuli eftir sem áður algerlega fara eftir lögunum um framleiðsluráð og þau yfirvöld, sem þar eru sett til þess að sjá um þau mál, hafi vald sitt óskert skv. þessu lagafrv., enda tel ég það eðlilegt, að svo sé, því að vitanlega mundi það ekki ná nokkurri átt, ef það ætti að fara að binda kaupgjald bændanna, þar sem góðu heilli er þó látið undir höfuð leggjast að stinga upp á því að binda kaupgjald annarra.

Ég gat um, að mér sýndist eina verulega nýmælið í þessari löggjöf vera heimildin handa ríkisstj. til þess að banna bæjar- og sveitarfélögum að hækka útsvör og aðstöðugjöld frá því, sem þau voru á þessu ári. Ég treysti mér ekki til með þeim litla fyrirvara, sem ég hef haft til að skoða þetta frv. með mínum félögum, að átta mig á því, hvort það er eðlilegt, að ríkisstj. taki sér það forræði fyrir bæjarog sveitarstjórnum, sem í þessu felst. Ég treysti mér ekki til að dæma um það. Það má vel vera, að niðurstaðan verði sú, að það geti komið til greina að veita þetta vald. Ég tek ekki afstöðu til þess á þessari stundu. En manni virðist óneitanlega þetta bera svipaðan keim og frv. í heild sinni, hálfgerðan auglýsingakeim, og að þetta sé þá helzt miðað við, að hæstv. ríkisstj. geti komið í veg fyrir, að einstakar bæjar- og sveitarstjórnir fari að hækka útsvörin í miðri kosningabaráttunni, og eigi að tryggja hæstv. ríkisstj. gegn slíkum áföllum. Verður manni þá náttúrlega hugsað til þess, að hæstv. ríkisstj. kunni að vera í þessu efni nokkur vorkunn með tilliti til ýmissa atvika, sem gerzt hafa af þessu tagi, t.d. hér í höfuðborginni á undanförnum árum varðandi hækkun á útsvörum. Slíkar hliðarskvettur geta náttúrlega komið sér illa, þegar verið er að gera upp þjóðmálin í kosningatíð. En sem sagt, ég skal ekki taka afstöðu til þessa atriðis á þessari stundu og álít hyggilegt, að þetta sé skoðað í nefnd. En mér sýnist þetta í raun og veru höfuðatriði frv. og hitt sé eins konar auglýsinga- og áróðursherferð og umbúðir kannske utan um þetta, a.m.k. umbúðir utan um eitthvað, kannske bara umbúðir utan um þetta, sem kallað er stöðvunarstefna, en vitanlega er engin stöðvunarstefna, svo sem ég kem að ofurlítið bráðum.

Ég sagði áðan, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. virtist vera það mikið áhugamál að auglýsa, að allt traust á hið frjálsa kerfi væri rokið út í veður og vind, með því að flytja frv. þetta með þessum hætti. Og þetta skýtur býsna skökku við það, sem áður hefur verið haldið fram, og kemur dálítið spánskt fyrir, því að okkur hefði verið sagt, eins og ég gat um áðan, að hinn mikli óhefti innflutningur og vöruvalið og samkeppni í því sambandi mundi reynast öflugra til þess að koma í veg fyrir verðhækkanir og stuðla jafnvel að verðlækkunum og miklu betra úrræði í því en nokkurt eftirlit af hálfu ríkisvaldsins, hvernig svo sem því væri varið.

Annað kemur líka upp í hugann í þessu sambandi, þegar maður hlustar á þennan málflutning og horfir á þessi plögg, sem lögð eru fram. Ef hægt er að leysa með svona einföldu móti hið mikla verðbólguvandamál og koma í framkvæmd raunverulegri stöðvun á verðlagi, stöðugu verðlagi, hvers vegna hefur ríkisstj. þá ekki gripið til þessa úrræðis fyrir löngu, ef þetta er svona einfalt? Hvers vegna hefur hún þá setið í nálega 8 ár og horft á verðbólguna magnast og notað úrræði, sem hafa magnað verðbólguna, ef það er svona einfalt að koma á verðstöðvun, koma í veg fyrir verðbólgu? Ég geri ráð fyrir því, að margir skynsamir menn muni spyrja þessarar spurningar um þessar mundir.

Ég sagði áðan, að þetta frv. snerti ekki sjálfan kjarna þeirra vandamála, sem við stöndum frammi fyrir um þessar mundir og eru ekki neitt smásmíði, og ég ætla að koma inn á það ofurlítið nánar. Verðbólgan hefur á undanförnum árum hér hjá okkur vaxið þrefalt til fjórfalt hraðar en í okkar helztu viðskiptalöndum, og þetta er aðalástæðan fyrir því, hvernig okkar útflutningsatvinnuvegir eru settir og hvernig ástatt er nú um okkar atvinnulíf, en ekki það bráðabirgðaverðfall, sem orðið hefur nú upp á síðkastið á útflutningsafurðunum. Ef verðbólgan hefði ekki vaxið svo gífurlega hér á undanförnum árum, stæðu okkar atvinnuvegir mjög vel að vígi þrátt fyrir það verðfall, sem nú hefur orðið og við vonum að sé bráðabirgðaverðfall. En það er verðbólguþróunin, sem hefur leikið okkar atvinnuvegi á þá lund, sem nú liggur fyrir.

Og hvernig er þá ástatt um okkar atvinnulíf? Líklega getur engin grein í okkar útflutningsatvinnurekstri staðizt óstudd, eins og nú er komið, nema þeir vélbátar, sem bezt afla á síldveiðunum, og er þó allt á huldu, hvernig fer meira að segja um afkomu beztu síldveiðiskipanna, ef verðlag réttir sig ekki frá því, sem nú er á erlendum mörkuðum. Svona er þá komið eftir hið mesta góðæri, sem Íslendingar hafa nokkru sinni lifað í nálega 8 ár. Svona hefur verið haldið á okkar efnahagsmálum og á okkar atvinnumálum. Það vita allir, að íslenzkur sjávarútvegur, þ.e. allar greinar hans aðrar en beztu og stærstu síldveiðiskipin, þarf á stuðningi að halda á næstu vikum, á næstu mánuðum, ef framleiðsla sjávarútvegsins á ekki að dragast stórkostlega saman og okkar atvinnulíf að hrynja í rúst. Þetta á við um þorskveiðiflotann, þetta á við um togaraflotann, og þetta á við um fiskiðnaðinn. Þetta á við um allar þessar höfuðgreinar í íslenzkum þjóðarbúskap. Og það bólar ekkert á því, að menn fái að vita hjá hæstv. ríkisstj., hvaða úrræði það eru, sem hún hefur í huga, að gripið verði til til þess að leysa þennan stórkostlega vanda. Og allar umr. hér um fjármál ríkisins, um efnahagsmál, um verðlagsmál fara fram af hendi hæstv. ráðh. og hv. stjórnarflokka eins og þetta vandamál sé ekki til.

Ekki var hægt að merkja á ræðu hæstv. forsrh. hér áðan, að þetta vandamál væri til, og það var helzt að heyra líka á hans ræðu, að sá vandi, sem menn stæðu frammi fyrir t.d. varðandi efnahagsmálin, stafaði einungis af því, að það hefði orðið verðfall á útflutningsafurðum núna síðustu vikurnar eða síðustu mánuðina. En þó að það verðfall hafi verulega þýðingu, er það eins og ég sagði áðan, að við hefðum þó staðið vel að vígi, ef verðbólgan hefði ekki leikið lausum hala á undanförnum árum, eins og hún hefur gert. Og ekki minntist hæstv. forsrh. á þann sérstaka vanda, sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir, né hvernig eigi að leysa hann.

Verðbólguþróun undanfarinna ára og lánsfjárhöft og aðrar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið af hendi hæstv. ríkisstj., hafa leikið íslenzkan iðnað þannig, að hann stendur nú hallari fæti en nokkru sinni fyrr, er víst óhætt að segja. Iðnfyrirtækin verða að hætta rekstri hvert af öðru vegna afleiðinga verðbólgunnar og lánsfjárhaftanna og annarra þeirra ráðstafana margra hverra, sem hæstv. ríkisstj. hefur á undanförnum árum gert og talið vera lið í baráttunni gegn verðbólgunni. Útflutningsmöguleikar landbúnaðarins mega heita eyðilagðir með verðbólguþróuninni, og kemur það fram sem vaxandi vandamál í landbúnaðinum. Ef við svo lítum á aðrar hliðar þessara mála, t.d. kjaramálin, blasir sú sorglega staðreynd við, að þó að atvinnuvegirnir berjist á þennan hátt í bökkum, hefur kaupmáttur tímakaupsins, kaupmáttur dagvinnukaupsins sáralítið aukizt síðan 1959, þegar litið er á tímabilið í heild. Menn deila ofurlitið um það, hverju þetta nemur, en um það er ekki hægt að deila, að kaupmáttur dagvinnukaupsins hefur sáralítið hækkað þrátt fyrir stórkostlegan vöxt á þjóðartekjunum á þessum árum. En samt eiga fyrirtækin mjög erfitt með að greiða þetta kaup, eins og ég var að lýsa. Þetta þýðir því, að dýrtíðin, sem búið er að skapa, er ekki nema að nokkru leyti komin fram enn þá, hún er ekki nema að nokkru leyti komin inn í kaupgjaldið. T.d. er það verðlag, sem nú er orðið eftir þessa verðbólguþróun á íbúðarhúsnæði, ekki nema að nokkru leyti komið inn í kaupgjaldið. Kaupgjaldið er alls ekki enn þá búið að laga sig eftir húsnæðiskostnaðinum. Þetta hljóta allir að viðurkenna, sem ekki vilja grafa höfuðið ofan í sandinn. Þess vegna hljóta launþegarnir að knýja á til að fá leiðréttingar á þessum málum, og þar bætist við aukinn vandi fyrir þjóðarbúið og atvinnuvegina. Og þetta er eitt með öðru, sem sýnir okkur, að dýrtiðin; sem búið er að skapa, er ekki nema að nokkru leyti komin fram. Hún er ekki nema að nokkru leyti komin fram í kaupgjaldinu og hún er ekki nema að nokkru leyti komin upp á yfirborðið, og ekkert sýnir þetta gleggra en dagvinnukaupið, eins og það er núna, og kostnaðurinn við að fleyta fram fjölskyldu miðað við húsaleiguna, eins og hún er orðin, eða byggingarkostnað, eins og hann er í dag.

Svona getur þetta vitanlega alls ekki staðið til lengdar, þó að hitt sé annað mál, í hve mörgum áföngum hægt er að leiðrétta þessa skekkju, sem þarna er komin inn í þjóðarbúskapinn. Það er annað mál. Út í það skal ég ekki fara hér. Það getur tekið langan tíma að leiðrétta þessa skekkju, en þetta sýnir okkur alveg svart á hvítu, sýnir alveg glöggt, að afleiðingar þess, sem nú þegar hefur orðið, eru ekki nema að litlu leyti komnar í ljós.

Ef við víkjum að ríkisbúskapnum, blasir því miður þar við ömurleg mynd af þeirri stöðvunarstefnu, sem hæstv. ríkisstj. þykist vera að framkvæma, en hún vill víst með því að kalla þetta stöðvunarstefnu láta líta svo út sem með þeim aðferðum, sem nú er efnt til, verði hægt að koma hér á stöðugu verðlagi, sem gæti staðið til frambúðar. Lítum á ríkisbúskapinn og sjáum, hvernig ástatt er. Þá sjáum við, að það eru ekki horfur á öðru en að þegar öll kurl verða komin til grafar hljóti ríkisútgjöldin eða fjárl., ef þau verða rétt sett upp, að hækka um allt að því milljarð á næsta ári. Niðurgreiðslur, er mér sagt, eru nú komnar upp í 730 millj. miðað við heilt ár, vegna þess að ríkisstj. hefur aukið niðurgreiðslur undanfarið til þess að koma í veg fyrir það, að .dýrtíðarvöxturinn kæmi upp á yfirborðið. Þó er mér sagt, að í þessu séu ekki taldar með niðurgreiðslur á saltfiski og smjörlíki, sem nýlega hefur verið gripið til. Það er svo kapítuli út af fyrir sig, að s.l. vor hætti ríkisstj. við ýmsar niðurgreiðslur, vegna þess að hún sagði, að ríkissjóður hefði ekki efni á að standa undir þeim, en nú aftur, þegar fór að nálgast kosningarnar, hafa niðurgreiðslurnar verið auknar stórkostlega, til þess að dýrtíðarvöxturinn kæmi ekki fram á yfirborðinu á næstunni, ef nokkur kostur væri á því að fela hann. Með þessum aðferðum eru niðurgreiðslurnar sem sé komnar upp í 730 millj. yfir árið og þó meira. Í fjárl. eru niðurgreiðslur áætlaðar 478 millj. Það vantar því 252 millj. inn á fjárl. til að standast þær niðurgreiðslur, sem nú þegar hafa verið ákveðnar, að viðbættu því, sem þarf til þess að greiða niður saltfisk og smjörlíki áfram. Þá hafa verið ákveðnar hækkaðar fjölskyldubætur, sem kosta 38 millj., og er það líka liður í því, að dýrtíðarvísitalan þurfi ekki að hækka, af því að það er hún, sem miðað er við, þegar talað er um dýrtíðina. Þarna vantar því nálega 300 millj. inn á fjárl., á þessum tveimur liðum. Síðan koma vandamál útgerðarinnar. Einhvern veginn verður þó að halda útgerðinni gangandi fram yfir kosningarnar og vonandi lengur. Og það verða áreiðanlega ekki neinir smáræðis fjármunir, sem þarf til þess, ef ekki á að halda áfram að hengja hana hægri hengingu. Það verða þá ekki neinir smámunir, sem þarf til þess, að útgerðin geti gengið rösklega og hrukkulaust, t.d. á næstu vertíð. Eigum við að nefna tölur? Ég þori ekki að nefna tölur, en það skiptir áreiðanlega hundruðum millj., sem er algerlega óhjákvæmilegt að komi þar til. Ef það er rétt, er það alveg víst, að það eru ekki 500 millj., sem vantar inn á fjárl. eins og þau liggja fyrir, heldur miklu meira. Ef það reynist rétt, að það þurfi nokkur hundruð millj., til þess að útgerðin geti gengið með fullu afli, þá verða ríkisútgjöldin komin yfir 5 milljarða. Nú segir ríkisstj., að það eigi ekki að hækka skatta, hún geti ekki hækkað skatta. Náttúrlega getur hún það ekki. Þegar hún er búin að auglýsa það, að hún hafi allsherjarráð, einfalt ráð til að stöðva dýrtíðina, þá verður hún að halda sér frá því sjálfsagt. En hvar ætlar hún þá að fá 5 milljarða til þess að standa undir þessu? Er það alveg víst, að það verði flutt inn svo mikið af tertubotnum á næsta ári og öðrum slíkum varningi, að stjórnin geti flotið á þeim? Er það alveg víst?

Það er sagt, að verðfallið, sem orðið er á útflutningsafurðunum, hafi veruleg áhrif, og um Það er ekki að efast. Við skulum vona, að það rétti sig alveg af, og þá byggjum við við, við skulum segja sama útflutningsverð og þetta ár, sem er að líða. Það var mun betra framan af því ári en það er núna. En hverjar eru horfurnar? Ég veit það ekki. Enginn okkar veit það. En setjum nú svo, að verðlagið héldist svipað og það er núna. Hvað verður þá um tertubotnana og annað það, sem nú er treyst á að geti staðið undir þessu öllu saman, þangað til búið verður að setja atkvæðaseðlana ofan í kjörkassana í lok júní?

Ég held, að það sé ekki mikið sagt, þó að því sé haldið fram, að þetta, sem við okkur blasir, sé geigvænleg mynd. Og það, sem hæstv. ríkisstj. er að gera, að moka fé í niðurgreiðslurnar og stöðva með því verðlagið á yfirborðinu til bráðabirgða á kostnað ríkissjóðs og þá með halla, ef þarf, mun síðar koma heldur illa við, þegar kemur að skuldadögunum. Ég held, að flestum hljóti að vera það ljóst; að með þessu er verið að hlaða bráðabirgðastíflu fyrir dýrtíðarflóðið, sem hlýtur að bresta. Hún getur ekki staðizt til frambúðar því miður.

Það eru fleiri þættir í ríkisbúskapnum en þessi þáttur, sem sýna, hvernig þessi úrræði verka, og það er, hvernig ástatt er með ríkisbúskapinn og verklegar framkvæmdir. Í raun og veru er verið að taka framkvæmdaféð, sem eftir eðlilegri reglu ætti að ganga til þess að halda uppi verklegum framkvæmdum, í niðurgreiðslurnar. Hvernig er ástatt með vegina? Það fer ekki ein einasta króna til veganna af þessum 5 milljörðum, sem verið er að þoka ríkisútgjöldunum upp í; — ekki ein króna, — og því var þó lofað, þegar samið var um vegalögin nýju, lofað í samningum um þau af hendi hæstv. ríkisstj., að það skyldi ekki vera minna en 47 millj. kr. á fjárl. framvegis til vegagerða. En þetta loforð hefur verið svikið af núv. hæstv. ríkisstj., og þessu fé hefur verið kastað í niðurgreiðslurnar ásamt öðru framkvæmdafé. Og ef við lítum á hafnargerðirnar, þá er hæsta framlag í eina hafnargerð 700 þús. kr., en margar hafnargerðir eru framkvæmdir upp á 20–30 millj. Fólkið í byggðarlögunum verður sjálft að leggja fram þáð, sem ríkissjóði ber að láta í hafnargerðirnar að lögum. Það verður sjálft að leggja það fram. Það er í raun og veru búið í framkvæmdinni að afnema löggjöfina um stuðning ríkisins við hafnargerðir í landinu, því að mörg byggðarlög verða að borga meira í vexti af þeim lánum, sem þau hafa tekið til þess að borga ríkissjóðsframlagið, en nemur því, sem ríkissjóður leggur nú orðið til hafnargerðanna. Þetta er að verða algengast: Og þessu fé, hafnargerðarfénu, hefur verið kastað í dýrtíðargreiðslurnar, í niðurgreiðslurnar, til þess að mæta dýrtíðardraug ríkisstj. og sjá honum fyrir fæði, svo að hann hafi ekki of hátt um sig, á meðan alþingiskosningar fara fram. Þannig mætti rekja hvern póstinn af öðrum, framkvæmdapóstinn á fjárl. En ráðið, sem gripið er svo til, til þess að opinberar framkvæmdir stöðvist ekki, er að taka lán til þess að fleyta þeim áfram. Síðar á svo að koma að skuldadögunum, fleyta áfram með lánum, vegna þess að framkvæmdaféð fer í niðurgreiðslurnar.

Það þarf ekki lengra mál en þetta, sem ég hef þegar talað, og ekki að benda á fleiri atriði til þess að sýna, hvað fram undan er, hvaða vandamál eru fram undan og að í þessum svokölluðu stöðvunarráðstöfunum hæstv. ríkisstj. er því miður algerlega tjaldað til nokkurra nátta og þetta eru ráðstafanir, sem engan veginn duga til frambúðár til þess að ráða bót á þeim stórkostlega vanda, sem við stöndum frammi fyrir. Og þessi starfsmáti, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp nú, minnir mjög á þann starfshátt, sem tekinn var upp af þessum sömu flokkum 1959, þegar þeir notuðu alveg hliðstæð úrræði til þess að leyna því fram yfir alþingiskosningarnar, tvennar, sem fram fóru á því ári, hvernig raunverulega var ástatt um efnahags- og dýrtíðarmálin. En svo þegar kosningunum var lokið, voru gerðar ráðstafanir 1960. Þá brast stíflan og dýrtíðarflóðið var látið fossa yfir þjóðina, og þannig hefur það gengið, eins og við vitum, æ síðan og með vaxandi afli.

Þá ber nú áð deila á hæstv. ríkisstj. fyrir það til viðbótar því, sem hún hefur gert á undanförnum árum; að hún skuli ekki nú koma af fullri hreinskilni fram fyrir þjóðina og segja henni, hvernig ástatt er. Það hefði verið skylda hæstv. ríkisstj. að gera það. Í stað þess reynir hæstv. ríkisstj. að leyna þjóðina því, hvernig raunverulega er ástatt, þykist hafa möguleika til þess að ráða bót á öllum vanda með einföldum úrræðum og gefur með því algerlega ranga mynd, visvítandi ranga mynd af þeim vanda, sem þjóðin stendur frammi fyrir. Hæstv. ríkisstj. tekur á sig þunga ábyrgð með þessu móti. Í staðinn fyrir að korna fram á þessa lund hefði hún átt að gera þjóðinni grein fyrir því, að nú dugir ekkert minna en gera allsherjarúttekt á því, hvernig ástatt er í þjóðarbúskapnum, bæði í sjálfum ríkisbúskapnum og ekki síður hvernig ástatt er varðandi afkomumöguleika og hag einstakra átvinnugreina í landinu og ganga þannig í kjarna þessara mála, því að þar liggur kjarninn. Við getum aldrei lifað farsællega og búið við góð lífskjör, ef grundvöllurinn er látinn grotna undan því, sem við fyrst og fremst verðum að byggja á, en það eru íslenzkir atvinnuvegir, það eru íslenzk atvinnufyrirtæki, og í þeim herbúðum er sannarlega ástatt þannig nú um þessar mundir, að til þess að lækna þeirra vanda duga ekki nein sýndarfrv. eða áróðursspjöld. Þar er um raunveruleg vandamál að ræða, sem er erfitt við að fást, en mun vera hægt að leysa, ef tekið er á þeim með skilningi og nægileg samtök fást til þess að hrinda í framkvæmd þeim úrræðum, sem dæmast óhjákvæmileg. En sá stórkostlegi vandi, sem búið er að stefna í, verður vitaskuld ekki leystur á nokkrum vikum eða nokkrum mánuðum, því að fram undan er áreiðanlega hörð og löng viðureign við afleiðingar þeirrar verðbólgu, sem hér hefur verið mögnuð undanfarin nálega 8 ár. Það er fram undan löng og hörð viðureign við afleiðingar þess, sem nú þegar hefur skeð, og það græðir enginn á því að stinga höfðinu í sandinn og þykjast ekki sjá þessi vandamál. Ég held, að þó að hæstv. ríkisstj. hafi allar þessar umbúðir á takteinum til þess að reyna að dylja, hvernig ástatt er, muni fara svo, að menn komi fullkomlega auga á, hvað við er að glíma, og allar þessar umbúðir muni koma að litlu haldi. Nú hefði átt að efna til víðtækra samtaka til þess að ráðast að kjarna málanna. Ég hef áður oftar en einu sinni lýst því, hvernig ég tel, að þær starfsaðferðir eða þær vinnuaðferðir þurfi að vera, og skal ekki tefja tíma hv. alþm. nú í sambandi við þetta frv. að lýsa þeim vinnuaðferðum enn þá einu sinni, en ég fullyrði, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, snertir ekki kjarna þeirra vandamála, sem fyrst og fremst þarf að leysa.