20.10.1966
Neðri deild: 5. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram hefur komið í ræðu hæstv. menntmrh. og þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar, að þetta frv. er framför og það allmikil frá því, sem verið hefur. En spurningin, sem fyrir okkur liggur, er sú: Nálgast þetta frv. það, sem þarf að gera, eins og horfurnar eru í þessum málum? Við stöndum frammi fyrir í veröldinni sem heild meiri breytingum í menntamálum, í öllu því, sem snertir að afla mönnunum þekkingar og hagnýta þá þekkingu fyrir þjóðfélagið, heldur en nokkru sinni fyrr hafa farið fram. Við stöndum frammi fyrir því, að áður en margir áratugir, kannske áður en 2–3 áratugir líða, verður meiri hl. af öllum vinnandi mönnum orðinn með sérþekkingu, sem á að vera háskólamenntun. Ef við ætlum að vera áfram eins og við höfum verið stundum, framarlega í öllum þessum málum í heiminum, verðum við að taka okkur alvarlega til. Við erum að dragast aftur úr í þessum málum. Þróunin er svo hröð, að við áttum okkur ekkert á, hvað kröfurnar til þess að afla mönnum þekkingar eru gífurlega miklar og nauðsynlegar. Það er um hreina byltingu að ræða í þessum efnum. Fjárfesting í þekkingu manna er að verða þýðingarmesta fjárfestingin af allrí fjárfestingu þjóðfélagsins, vegna þess að það að hafa nægilega mikið af mönnum, sem þekkja og vita hlutina, er að verða dýrmætara en flest annað, og meiri hl. af öllum ríkjum í Evrópu hefur þegar tekið upp námslaunakerfi, þar sem nokkurn veginn er tryggt, að nemendur í þeim skólum, t.d. háskólum, hafi námslaun, sem a.m.k. nægja sem lágmark til framfærslu. Við Íslendingar, sem erum að reyna að básúna það út á grundvelli meira eða minna vitlauss gengisútreiknings, að við séum fjórða tekjuhæsta þjóð veraldarinnar, stöndum einna aftast af öllum þjóðum Evrópu hvað snertir námslaun. Meiri hl. af öllum þjóðum Evrópu hefur þegar komið námslaunum á í háskólum. Og ég vonast til þess, þegar þetta mál kemur til menntmn., að við fáum upplýsingar um það, hvernig þessir hlutir standa og hve aftarlega Ísland stendur hvað þetta snertir. Ég tek fram, að ég tala um námslaun.

Það, sem mig langaði sérstaklega til þess að fá upplýst í sambandi við þetta mál, er, hverjar eru óskir hæstv. menntmrh. í þessum efnum. Ég efast ekki um hans góða vilja á þessu sviði til þess að stíga stór spor fram á við. En ég þykist líka vita, að hann hafi máske átt við nokkuð ramman reip að draga, og ég álít, að það þurfi að koma fram hér á Alþ., hverjar eru óskir hæstv. menntmrh. og hvort meiri hl. er til hér á Alþ. fyrir þeim óskum í þessum efnum, eða hvort t.d. stærri stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., ætlar að standa í veginum fyrir því, að stigið sé eins stórt spor og nauðsynlegt er fyrir Ísland í þessum málum núna, hvort það strandar á fjandskap Sjálfstfl. við námslaun til handa stúdentum, bæði við Háskóla Íslands og erlendis. Þetta langar mig til þess að fá upplýst alveg hreinlega. Ég vil fá að vita, hvort þeir menn, sem stjórna fjárfestingunni á Íslandi núna og setja eins mikla fjárfestingu í brask og vitleysu og sóun og gert er, hvort þeir vilja hindra þá fjárfestingu í þekkingu, sem við þurfum að fá. Þetta þarf að koma greinilega fram, þegar þetta mál verður afgreitt.

Það, sem nauðsynlegt er fyrir okkur Íslendinga að skapa í þessum efnum, er efnahagslegt jafnrétti til menntunar. Það eiga ekki að vera einkaréttindi fyrir heildsala hér í Reykjavík að geta kostað börn sín til menntunar. Og ég vonast til þess, að áður en langt um liður liggi það fyrir, hvernig stéttaskiptingin er viðvíkjandi útskrifun stúdenta og viðvíkjandi kandidötum. Og ég er hræddur um, að það gefi ekki neitt góða mynd af efnahagslegu jafnrétti á Íslandi. En þetta efnahagslega jafnrétti verður að tryggja. Það er skömm fyrir okkur, sem höfum fulla ástæðu til þess að vera stoltir af þeirri alþýðumenntun, sem hér hefur verið til, ef við, þegar um æðri menntun fer að verða að ræða, tryggjum ekki fullkomlega efnahagslegt jafnrétti í þessum hlutum. Og efnahagslegt jafnrétti verður ekki í þessum efnum tryggt með öðru en að námslaun séu þarna miklu, miklu þýðingarmeiri og miklu meiri hlutfallslega heldur en gert er ráð fyrir.

Ég veit, að það er gott út af fyrir sig, að námslán séu aukin. En hafa menn gert sér ljóst, hvað námslánin t.d. hér við Háskóla Íslands eru hraksmánarleg? Hafa menn hugsað út í það? Við skulum taka stúdent hér við háskólann, sem ætlar t.d. að læra læknisfræði eða slíkt og er giftur og á fyrir fjölskyldu að sjá og þarf að fá leigt. Hvað fær hann núna? Fær hann kannske 8–9 þús. kr. á ári? Og hvað þarf hann að borga í mánaðarbúsaleigu? Við skulum segja, að hann þurfi ekki að borga, eins og Vísir var að upplýsa, 11 þús. kr. á mánuði, að menn þyrftu að borga, viss maður, og 30 þús. kr. í lykilgjald og ár fyrir fram, en við skulum segja, að hann þurfi ekki að borga nema 7–8 þús. kr. á mánuði. Námslánið, sem hann á að borga til baka seinna meir með vöxtum, nægir fyrir eins mánaðar húsaleigu handa stúdent við Háskóla Íslands, sem er að læra kannske læknisfræði eða eitthvað annað slíkt. Er það svona, sem þjóðfélagið á að gera við stúdenta, á meðan það veitir bröskurum í þjóðfélaginu sérréttindi til þess að stela af almenningi og svíkja skatta á eftir? Er það svona, sem á að fara að? Ég tók þetta seinna fram vegna þess, að það eru nægir peningar til í þjóðfélaginu. Það er ekki það, sem vantar. Spurningin er, hvernig eigi að skipta þeim og til hvers eigi að fjárfesta þá. Og það er ákaflega gott, og ég tek undir það með hæstv. menntmrh. og þeim, sem hér hafa talað um þetta frv., að það er gott, að þessi lán hækki, að það verði ekki lengur eins mánaðar húsaleiga, sem stúdent við Háskóla Íslands fær að láni, heldur að hann fái kannske tveggja mánaða húsaleigu. Vissulega er það framför. Það er vissulega framför, sérstaklega frá hálfu ríkis, sem hefur séð um það að hleypa braski í alla húsaleigu og fæst ekki til þess að setja húsaleigulög, en hefur afnumið þau húsaleigulög, sem voru til þess að halda þessu niðri. Ég skal undirstrika það, það er framför, ef námslánin eru tvöfölduð, þannig að í staðinn fyrir að fá lánaða eins mánaðar húsaleigu hjá ríkinu fáist t.d. lánuð tveggja mánaða húsaleigu hjá ríkinu og eigi að borga þetta til baka með vöxtum. En er það bara þetta? Er þetta nægilegt? Telur Alþ., að þetta sé nóg að gert? Það er þetta, sem ég álít, að við þurfum að fá að vita, þegar þetta mál verður afgreitt. Ég álít þetta of lítið.

Það kom nokkuð til umr. hérna í fyrra eða hittiðfyrra einn sérstakur þáttur, hvað snertir námslaunin, og ég vil minnast á hann aftur, vegna þess að ég mun fyrir mitt leyti freista þess, eins og ég hef gert áður, þegar verið var að ræða læknaskipunina, hvort það væri ekki hægt á einu sviði að fá það fram, að það væri byrjað í ríkari mæli með námslaun heldur en hér er lagt til, og það er viðvíkjandi Ifeknum. Hvernig er ástandið hvað læknaskipan snertir í dag? Hvernig sér þjóðfélagið fyrir því, að þessi fjórða tekjuhæsta þjóð heimsins hafi aðgang að læknaþjónustu? Ég vil vonast til þess, að hv. Alþ. skoði það sem skyldu sína að reyna að sjá til þess, að það séu til læknar á Íslandi til þess að veita mönnum þá læknaþjónustu, sem þarf. Undanfarin ár hefur hér mikið verið kvartað yfir læknaþjónustunni hvað dreifbýlið snertir. Ég fyrir mitt leyti hef tekið undir það, en ég hef undirstrikað, að læknaþjónustan í Reykjavík, hvað almenna siúkrasamlagslækna snertir, væri líka mjög slæm. Og þetta hefur hvort tveggja hríðversnað síðan. Það fækkar venjulegum sjúkrasamlagslæknum þannig í Reykjavík, að það er yfirleitt ekki að verða um svo að segja neitt að velja. Það fer bráðum að verða náð að fá sjúkrasamlagslækni. Helzt þurfa menn eftir þeirri gömlu góðu reglu íslenzku, fyrir kunningsskap, að fá einhvern kunningja sinn til þess að taka að sér að verða heimilislæknir. Og það eru oft menn, sem eru yfirhlaðnir fyrir. Hvernig stendur þjóðfélagið sig með að sjá um, að læknar verði útskrifaðir og það nægilega mikið af læknum til þess að þjóna almenningi, til þess að sjá um þessa þjónustustarfsemi? Ég held, að þjóðfélagið standi sig illa í þessu, mjög illa. Ég hef áður lagt hér til, og það hefur verið fellt, en ég mun gera eina tilraun með það enn þá að reyna að tryggja, að það verði séð um, að það verði útskrifað eins mikið af læknum og hægt er að fá menn til þess að leggja á sig læknanám, m.ö.o.: það verði sagt við alla þá, sem vilja taka að sér að verða læknar: Þið skuluð fá laun allan tímann, — en semja um leið við þá um það, að þeir haldi áfram að starfa fyrir ríkið a.m.k. ákveðið tímabil á eftir. Og ég vil vekja athygli á því, að það eru tugir stúdenta, sem vilja verða læknar, sem verða að hætta af fjárhagslegum ástæðum núna, sumir reknir burt frá háskólanum fyrir þröngsýni yfirvaldanna í læknadeild, þannig að mér hefur stundum komið í hug, hvort við ættum ekki að fara að leggja meiri áherzlu á að útskrifa lækna erlendis, ef við getum komizt að í einhverju ríki til þess að útskrifa þá. Mér virðist það helzt vera þannig hér, að það séu eins og gildrur, sem menn eigi að komast í gegnum til þess að komast í gegnum læknaskólann hérna. Ég held, að það sé nauðsyn, að þarna séu gerðar algerar breytingar á. Við ræddum þetta fyrir 1–2 árum hérna, og mig minnir meira að segja, að þá hafi verið uppi nokkur loforð um það, að mönnum yrði ekki gert erfiðara fyrir en áður hefði verið, og þó er ég hræddur um, að eftir að þær umr. fóru fram, hafi enn verið þrengt að hvað háskólann snertir, að menn yrðu að taka sín próf á skemmri tíma. En nú er það svo, að allir stúdentar verða að vinna með háskólanum, og þá er skömm að því að útiloka stúdenta fyrir það, að þeir verða að vera kannske 3–4 ár og fá ekki rétt til prófs, ef þeir þurfa að vinna allan tímann um leið fyrir sér. Það þýðir að segja: Ef þú átt ríkan heildsala að, sem getur kostað þig algerlega til náms, getur þú fengið að taka próf við Háskóa Íslands, en ef þú átt fátækt fólk að, skaltu ekki fá rétt til að taka próf, af því að þú getur ekki komizt yfir það, þegar þú átt að vinna sjálfur um leið, að taka próf á svo skömmum tíma.

Háskóli Íslands hefur átt að vera þjóðskóli frá upphafi, en ekki sérréttindaskóli fyrir neina yfirstétt. Þarna verða að verða breytingar á. Þetta er til skammar, eins og það er núna. Það þarf að endurskoða háskólann hvað þetta snertir, en það þarf þó alveg sérstaklega, a.m.k. meðan menn ráða ekki við það, hvernig reglurnar eru settar þar, að sjá til þess af hálfu þessarar stofnunar, af hálfu Alþ., að efnahagur standi mönnum ekki í vegi fyrir því að geta fengið að læra þetta, sem þjóðfélaginu er þó brýn nauðsyn. Og ég vil alvarlega skora á hv. þm. undir síðari umr. þessa máls að vera reiðubúnir að taka afstöðu um það, hvort þetta þjóðfélag vill opna mönnum t.d. leið til þess að verða læknar eða það vill hjálpa til að loka þeim leiðum. Ég kalla það að loka þeim, ef þjóðfélagið er ekki til í það að veita þeim, sem þess þurfa, nægileg námslaun, t.d. í læknadeildinni til að byrja með, til þess að þeir verði ekki í efnahagslegum vandræðum með að ljúka þeim prófum. Og þetta tíðkast nú sem stendur í meiri hl, allra landa Evrópu. Ég held þess vegna, að það væri ákaflega heppilegt, að hæstv. menntmrh. tjái Alþ. sínar óskir í þessum efnum og sjái til, hvort Alþ. er ekki reiðubúið að verða við þeim óskum.

Ég tók eftir því, að hæstv. menntmrh: sýndi fram á það með rökum, hve miklar framfarir fælust í þessu frv. miðað við það, sem verið hefur undanfarinn áratug. Ég vil um leið leyfa mér að minna á, hvað snertir námsstyrkina og þá aðeins námsstyrkina til stúdenta erlendis, hvernig afstaðan er miðað við t.d. þá gömlu tíma, sem ég kynntist sem stúdent. Árið 1922 er námsstyrkur til íslenzkra stúdenta í erlendum skólum 23 þús. kr. Það mun líklega samsvara 23 þús. vinnustundum, ef við eigum að miða það við eitthvað þannig, kringum krónu þá tímakaupið. Mér skilst, að námsstyrkurinn, sem nú er fyrirhugaður, 3 millj. 100 þús., — er það ekki rétt? — samsvari núna 62 þús. klst. Stúdentar eða a.m.k. við, sem útskrifuðumst árið 1921 frá þeim eina menntaskóla, sem þá var á Íslandi, vorum eitthvað 20. Og ég gæti trúað, að þeir stúdentar, sem almennt útskrifast nú, — eru það ekki a.m.k. 200, ef ekki hátt á 3. hundrað? — maður er nærri hættur að fylgjast með því. Það fjölgar ört menntaskólum hjá okkur ná, og a.m.k. er það tíföld tala stúdenta, sem útskrifast nú. Og hlutfallið, hvað stúdentar þurfa að stúdera erlendis nú og hve mikið við þurfum að sækja af þekkingu þangað, er þannig, að námsstyrkur er raunverulega, miðað við stúdenta og miðað við þörf, miklu minni hjá því ríka íslandi, Íslandi, sem er fjórða tekjuhæsta land heimsins, heldur en var hjá því bláfátæka Íslandi 1922. Ég held, að 1922 hafi meira að segja í þeim fátæklegu fjárl., sem þá voru samþ., — ætli það hafi ekki verið eitthvað um 12 millj., man það ekki nákvæmlega? — ég held, að það samsvari nokkurn veginn 1.6%,, styrkurinn til stúdenta erlendis þá, og í okkar ríku fjárl. með 4600 millj. eða hvað sem það nú kann að verða að lokum, býst ég við, að þessi styrkur verði 0.6%0. Hvað þennan námsstyrk snertir, hefur okkur fa=ið aftur, ekki núna upp á síðkastið, það er vafalaust, þessi 3.1 millj. er mikil framför, eins og hæstv. menntmrh. sýndi réttilega fram á, miðað við það, sem áður var. En okkur hefur bara alltaf verið að fára aftur þarna. Ég veit ekki, hvaða andi það er, sem hefur gagnsýrt okkur þarna, en það er a.m.k. ekki góður andi, ef eitt ríki fer að hugsa þannig gagnvart þeim mönnum, sem þáð ætlar að styrkja til náms, að það skuli fyrst og fremst hugsa um að fara að gera „bisness“ við þá, það skuli lána þeim peninga og láta þá borga vexti, en hverfa burt af þeirri leið að segja við þessa menn, eins og sagt var við okkur, sem vorum ungir stúdentar 1922, við skulum styrkja ykkur, þannig að þíð fáið a.m.k. þó nokkurn styrk til þess að geta greitt ykkar nám, — og styrk, sem er hlutfallslega meiri baeði miðað við fjárlögin þá og miðað við þörf stúdentaheildarinnar, heldur en er í dag í því ríka Íslandi. Ég þykist vita, að hæstv. menntmrh, muni ekki skorta vilja til þess að breyta þessum hlutföllum, hann muni vilja láta setja menntirnar og þeirra þörf og menntamannanna þarna hærra. En ég þykist vita, að hann eigi í harðri baráttu við þann fésýsluflokk, sem hugsar einvörðungu frá fésýslunnar sjónarmiði, vill fyrst og fremst lána peninga og taka helzt háa vexti, en skeytir ekkert um, hvort nægilegt er til af mönnum í þjóðfélaginu með nægilega þekkingu til þess t.d. að stunda heilbrigðisþjónustu fyrir almenning.

Þessi andi, að gera þetta allt saman að „bisness“, gera þetta allt saman að spursmálum um lán, gróða og vexti og slíkt, allt saman að fésýslu, það er slæmur andi, sem þarf að þurrka sem mest fit og útrýma, þegar um þekkingu og menntun er að ræða. Það þurfum við einmitt að geta sagt við þá menn, sem hafa áhuga og vilja vinna af fullum krafti í þessu: Þið skuluð fá þau laun, sem þið þurfið til að öðlast þá þekkingu, sem þjóðfélagið þarf á að halda, enda séuð þið í þjónustu þjóðfélagsins á eftir, til þess að þjóðfélagið njóti þessarar þekkingar, sem við hjálpum ykkur til að afla ykkur.

Ég vildi segja þetta, áður en þetta mál færi til nefndar, til þess, ef hægt væri, að við reyndum að knýja fram nokkra stefnubreytingu í þessum efnum á þessu þingi, nokkru róttækari stefnubreytingu en felst nú þegar í þessu frv. Okkur er brýn þörf á því, og mín reynsla er sú, að verði ekki almennilegur hlutur gerður á síðasta þingi fyrir kosningar, þá er lítill möguleiki til að gera hann á næstu þingum eftir kosningar. Helzt hafa menn vilja nú til þess að sýna það t.d., að menn vilji, að það séu sjúkrasamlagslæknar í Reykjavík eða læknar í dreifbýlinu. Á fyrstu þingum eftir kosningar skeyta menn tiltölulega lítt um slíkt, koma kannske með einhverjar þáltill. og þar með búið. Það reynir á þessa hluti núna, hvort menn vilja fara að taka upp námslaun í ríkari mæli, hvort menn vilja byrja á því t, d. í sambandi við læknaskólann, og ef íslenzki læknaskólinn vegna einhverrar þröngsýni reynist ekki fær um að útskrifa nægjanlega lækna handa Íslendingum, fjórðu tekjuhæstu þjóð veraldarinnar, þá verðum við að reyna að sjá um, að það sé sent meira af læknastúdentum út til að nema við aðra háskóla, ef þeir fá að komast inn þar.