14.02.1967
Neðri deild: 41. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Frsm. menntmn., hv. 5. þm. Vesturl. (BGr), kom hér fram með þá skoðun, að í raun og veru fælist í 2. gr. frv., að tekið yrði tillit til aðstöðu og fjárþarfar þeirra stúdenta, sem eiga fyrir fjölskyldum að sjá. Mér þykja þetta mjög athyglisverðar upplýsingar. Nú hafa þeir báðir, hæstv. menntmrh. og hv. frsm. menntmn., upplýst hér í umr., að tekjur sjóðsins muni hækka úr 20.1 millj. í 29.8 millj., og mér hefur skilizt, að þær úthlutunarreglur, sem þessir útreikningar byggjast á, geri ekki ráð fyrir því, að stúdentar fái aukna aðstoð, sem nemur fjárþörf þeirra, vegna framfærslu á fjölskyldum. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hann er að vísu ekki nálægur hér nú, en hann getur þá svarað því við 3. umr. málsins, — ég vil spyrja, hvort það sé raunverulega svo, að í þessum útreikningum sé gert ráð fyrir því, að tekið verði tillit til fjölskyldumanna. Umframfjárþörf fjölskyldumanna hefur einnig verið athuguð, og liggja fyrir tölur um það atriði einnig. Þessar tölur, þ.e. 20.1 millj., sem hækka í 29.8 millj., eru ekki tölur, sem teknar eru út í bláinn, heldur tölur, sem eru byggðar á nákvæmum útreikningum um það, hversu langt sé ætlunin að ganga. Mér hefur skilizt, að ekki sé tekið tillit til fjölskyldumanna í þessari áætlun, en þetta kann að vera misskilningur. Ég vildi þá gjarnan fá það fram, hvort þetta er misskilningur hjá mér eða hvort þessi orð hv. 5. þm. Vesturl. voru aðeins óskhyggja. Mér er það ekki fyllilega ljóst. En ef svo er, hljóta menn að sjá, að þær till., sem við höfum flutt hér, hv. 3. þm. Reykv. og ég, eru ekki fluttar að ástæðulausu.