15.11.1966
Neðri deild: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að meðan þau ákvæði voru í gildi, að leggja skyldi á útsvör eftir efnum og ástæðum, voru gjaldstigarnir margir, mjög margir. En ég vil benda á það, að þeir eru enn margir, þó að búið sé að setja þennan lagaramma, sem settur var fyrir fáum árum hér á Alþ., og sérstaklega eru þeir margir að því er varðar aðstöðugjöldin, enn fleiri en þó að því er snertir útsvörin. Hann bendir á það réttilega, að útsvörin séu langt frá því að vera þau sömu um allt land. Það er mikill munur á því. Víða hefur verið veittur æðimikill afsláttur frá þeim lögákveðna útsvarsstiga og einkum í sveitahreppum. En þetta er ekkert undarlegt, því að á það er að líta, að það er ákaflega mismunandi þjónusta, sem sveitarfélögin veita sínum íbúum, ákaflega mismunandi, og víða er hún og sérstaklega í sveitahreppum langtum minni, sú sameiginlega þjónusta, sem þeir njóta hjá sínu sveitarfélagi, heldur en kaupstaðarbúar, svo að það er eðlilegt, að útsvörin séu þar lægri, mjög eðlilegt.

Hæstv. ráðh. talaði nú aðallega um útsvörin, en ég vil leggja áherzlu á það, eins og ég gerði reyndar í minni fyrri ræðu, að mismunurinn á aðstöðugjöldunum er langtum meiri en á útsvörunum, langtum meiri og því enn brýnni þörf að laga þau heldur en útsvörin.

Annars þótti mér gott að heyra, að það kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að hann féllst á það sjónarmið, sem kom fram hjá mér, að það væri hættulegt að hafa þetta eins og það er. Það þykir mér vænt um að heyra. Hann segir, að sveitarfélögin þurfi peninga, og það er alveg rétt. En jöfnunarsjóður sveitarfélaga á einmitt að vera til þess að hlaupa undir bagga með þeim, sem lakar eru settir, til þess að ekki þurfi að íþyngja atvinnurekstri þar og einstaklingum um of, því að við vitum og sjáum það í hendi okkar, hvert það leiðir í þjóðfélaginu, ef þessu verður haldið áfram. Það er þegar fengin nokkur reynsla af þessu. Hún er ekki margra ára að vísu, en reynslan hefur þegar sýnt, að það er óviðunandi að hafa þetta eins og það er, og ég held nú, að það sé minni vandi að kippa þessu í lag heldur en mér virtist koma fram hjá hæstv. ráðh., að hann teldi þetta vera. Þetta er auðvitað mál, sem þarf að skoða. En aðalatriðið er, að sem fyrst verði horfið að því að gera þarna nauðsynlegar lagfæringar. Það er aðalatriðið.