09.03.1967
Neðri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, vil ég aðeins endurtaka það, sem ég hef áður sagt um þessa till., að ég sé enga ástæðu til þess að fresta henni, þó að heildarathugun kunni að vera fram undan á löggjöfinni um tekjustofna sveitarfélaganna. Ég tel, að það sé mikil ástæða til að gera þá breytingu, sem í þessari till. felst, og hún sé þannig löguð, að það sé engin ástæða til þess að láta hana bíða eftir þessari heildarathugun, sem enginn veit með vissu, hvenær verður.

Ég lít þannig á vegna þeirra fjármálaaðgerða, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert og hafa það í för með sér, ef þær ná fram að ganga, að laun munu ekki hækka að ráði á næstunni, en hins vegar munu bæði útsvör og tekjuskattar hækka í krónutölu frá því, sem var á síðasta ári, og þessar byrðar þess vegna verða tiltölulega þyngri nú en þær voru á síðasta ári, þá sé einmitt sérstök ástæða til þess að samþykkja þá brtt., sem ég er flm. að, vegna þess að hún dregur nokkuð úr skattaálögum hjá þeim, sem eiga erfiðast með að standa undir þungum skattálögum, en það er gamalt fólk, öryrkjar og stórar fjölskyldur. Ég get þess vegna ekki orðið við þeim tilmælum ráðh. að draga þessa till. til baka.