06.03.1967
Efri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Helgi Bergs:

Herra forseti, Þessar staðreyndir blasa nú við í sjávarútveginum:

1) Bátarnir, sem stunda þorskveiðar, eiga við sívaxandi erfiðleika að stríða, og þeim fer fækkandi ár frá ári. Allar varanlegar úrbætur eru dregnar á langinn, og nær ekkert hefur verið framkvæmt af tillögum vélbátaútgerðarinnar.

2) Ekkert er gert til þess að efla útgerð á djúpmið og fjarlæg mið með endurnýjun togaraflotans, og stefnir nú beint að því, að útlendingar verða einir um togaramiðin.

3) Ríkisstj. leggur nú enn einu sinni fram frv. um bráðabirgðaráðstafanir til þess að halda útgerðinni gangandi næstu mánuði, en er algerlega stefnulaus í framtíðarmálum sjávarútvegsins.

4) Ríkisstj., sem kallað hefur allar tillögur um skipulega uppbyggingu ófrelsi og höft og hefur horft upp á það, að fé opinberra sjóða og bankakerfisins er varið til að byggja upp ný frystihús, þar sem mest og bezt frystihús eru ónotuð fyrir, vill nú gera áætlun um lokun og niðurrif frystihúsa.

Þrátt fyrir miklar umframtekjur ríkissjóðs á s.l. ári er nú til þess að afla fjár til stuðnings bátaútgerðinni höggvið enn í sama knérunn og áður og enn dregið stórlega úr fjárveitingum til skóla, hafna og annarra ríkisframkvæmda, sem greiða skal eða styrkja af ríkisfé. Klipnar eru 20 millj. kr. af því, sem sveitarfélögin eiga skv. lögum að fá í sinn hlut af verðtollum og söluskatti síðasta árs, með þeim rökum, að þau fái nóg samt, og þetta er gert þrátt fyrir þá staðreynd, að þessir tekjustofnar einir hafa á s.l. ári gefið ríkissjóði hátt á 4. hundrað millj. umfram áætlun.

Það, sem nú þarf að gera í þessum málum, er að taka upp ný vinnubrögð — markviss vinnubrögð og markvissa stefnu.

1) Gera verður ákveðnar ráðstafanir til eflingar bátaútgerð á þorskveiðar jafnframt skipulögðum aðgerðum til nýtingar miðanna og verndar stofnunum. Heildarskipulag sóknarinnar á miðin ásamt bættum tæknibúnaði við þorskveiðarnar er brýn nauðsyn.

2) Halda verður áfram sókn Íslendinga á djúpmið og fjarlæg mið, og í því skyni verður að vinda bráðan bug að undirbúningi að endurnýjun togaraflotans.

3) Auka verður hagræðingu í fiskiðnaðinum, m.a. með tilliti til þess að bæta móttöku- og geymsluskilyrði hráefnisins til að jafna vinnu milli daga og komast hjá næturvinnu, og til þess þarf að tryggja þessari atvinnugrein næg og hagkvæm lán.

4) Hætta verður óeðlilegum álögum á þessar atvinnugreinar, lækka vextina, lækka útflutningsgjöldin, rafmagnsverðið, hafnargjöldin o.fl., veita skattaívilnanir, hætta að skattleggja tapið og auka afurðalánin til þess að gera þessum fyrirtækjum kleift að stunda starfsemi sína með eðlilegum hætti.

5) Endurskoða verður reglur um aflatryggingasjóð í því skyni, að vélbátaflotinn á þorskveiðum haldi sínu, og reglur um iðgjaldasjóð með aukna hagkvæmni í tryggingunum fyrir augum. Það verður að kryfja vandamál þessa atvinnuvegar til mergjar, eins og raunar annarra, marka stefnu framtíðarinnar og hefja markvissar aðgerðir. Sífelldir árlegir „viðreisnaraukar“ leysa engan vanda, þótt þeir kunni að geta komið í veg fyrir algera stöðvun í bili.

Ég skal svo snúa mér að frv., sem fyrir liggur og einstökum atriðum þess.

Það var einu sinni önnur tíðin. Einu sinni var fé tekið úr ríkissjóði til þess að senda inn á hvert heimili landsins pésa, sem var kallaður „Viðreisn“. Af alveg einstöku yfirlæti, sem vonandi heldur áfram að verða einstakt í íslenzkri stjórnmálasögu, boðuðu þeir þar kenningar sínar, sem öll ráð þóttust kunna Þar stóð m.a. þetta: „Ríkisstj. telur, að með þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem tillögur hennar fela í sér, muni nýtt viðhorf skapast. Útflytjendur verða framvegis að sæta ríkjandi gengi og geta ekki fengið aukinn launakostnað endurgreiddan í hækkuðum útflutningsbótum.“ Og þar stóð meira. Í upphafi þessa ritverks stóð m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er ekki um að ræða ráðstafanir sama eðlis og þær efnahagsráðstafanir, sem tíðkazt hafa svo að segja árlega nú um skeið og snert hafa fyrst og fremst breytingar á bótakerfi útflutningsins og nauðsynlega fjáröflun í því sambandi, heldur algera kerfisbreytingu.“

Svo liðu fáein ár. Fyrirheitin, sem fólust í þessari ritsmíð og hér verða ekki rakin fleiri af þessu tilefni, — það gefast kannske til þess önnur, — voru svikin eitt af öðru. Innan fárra ára fóru að birtast þessir viðreisnaraukar, og mér telst til, að sá, sem hér liggur fyrir, sé sá fjórði í röðinni og væntanlega sá síðasti, því að nú dylst varla neinum, að viðreisnin hafi gengið sér endanlega til húðar. Beinar uppbætur til þorskfiskiðnaðarins og þeirrar útgerðar, sem aflar honum hráefnis, eru skv. þessu frv. komnar yfir 300 millj. kr., og auk þess eru svo niðurgreiðslur á verðlagi innanlands, sem miða að því sama marki, að brúa bilið milli innlends tilkostnaðar og erlends afurðaverðs, og þær nema nú nokkuð mikið á 8. hundrað millj. kr. Nei, það er ekki um að ræða hjá þessari hæstv. ríkisstj. ráðstafanir sama eðlís og þær efnahagsráðstafanir, sem tíðkuðust árlega hér áður fyrr, „til þess að gera breytingar á bótakerfi útflutningsins og nauðsynlega fjáröflun í því sambandi“. Þessar greiðslur, sem ég nefndi, sem miða að því að brúa bilið milli framleiðslukostnaðar innanlands og afurðaverðs á erlendum markaði, nema nú alls nokkuð yfir þúsund millj. kr. eða langdrægt jafnmikilli upphæð og fæst fyrir allar hraðfrystar fiskafurðir landsmanna. Það er látið að því liggja, að 11% verðfall, sem orðið hafi á s.l. ári í kjölfar 50–60% verðhækkana næstu ára þar á undan, sé orsök þeirra erfiðleika, sem við er að etja. Það eru orðnir aðþrengdir menn með röksemdafærslur, sem ætla sér að bera þetta á borð. Eins og ég mun koma að síðar, mun meðalverðið á árinu 1966 ekki hafa verið lakara en neitt ár þar á undan. Orsökin er fyrst og fremst óðadýrtíðin, sem er fylgifiskur stefnu eða öllu heldur stefnuleysis viðreisnartímans. Hún hefur grafið grundvölinn undan öllum atvinnuvegum landsmanna. Það eru afleiðingar hennar, sem verið er að fást við með þessum árlegu viðreisnaraukum.

Þetta frv. felur í sér breytingar á bótakerfi útvegsins. Bátarnir á þorskveiðunum fá 8% hækkun á fiskverðinu, 5% í tvo mán., marz og apríl, og 11% hækkun á öðrum tímum árs, og gert er ráð fyrir, að þetta muni jafna sig upp með 8%. Þetta var ákveðið og tilkynnt með tilkynningu frá verðlagsráði sjávarútvegsins og ríkisstj. 9. jan. s.l. Jan. og febr. eru báðir liðnir, en eins og fram kom nýlega í umr. í hv. sameinuðu þingi, þá er sjútvmrh. hinn rólegasti, það er verið að reikna, það liggur ekkert á að borga: En útvegsmenn, sem búa nú við erfiðari skilyrði en nokkru sinni áður um langa hríð, vantar þetta fé. Þróunin í málefnum þessarar útgerðar er alkunn, og hún sýnir, hvernig búið er að útgerðinni. Tala skráðra fiskiskipa undir 100 smálestum, en það eru fyrst og fremst þau, sem afla hráefnisins fyrir hraðfrystihúsin, hefur breytzt þannig, að 1964 voru þau 523, samtals 16732 brúttólestir, 1958 voru þau orðin 614, samtals 21213 brúttósmálestir, 1964 648, samtals 21670 smálestir, en 1967 komin niður í 577, samtals 19014 smálestir. Þessi þróun á síðustu árum talar sínu máli. Í árslok 1965 skipaði hæstv. sjútvmrh. nefnd, sem gengið hefur undir nafninu vélabátaútgerðarnefnd, og hún skilaði ýtarlegu áliti í júnímánuði 1966. En hæstv. sjútvmrh. er rólegheitamaður, og það kom í ljós í umr. í Sþ., sem ég gat um áðan, að nær ekkert af till. n. hefur komizt í framkvæmd.

Í fyrsta lagi gerði n. tillögu um 10% hækkun fiskverðs á árinu 1966. Þeirri tillögu var ekki anzað.

Í öðru lagi gerði n. till. um hækkun sumar- og haustuppbótar á línu- og færafisk um 50 aura á kg. Nú er lagt til í því frv., sem hér liggur fyrir, að þær 20 millj., sem áætlaðar voru til þessa á s.l. ári, skuli kláraðar með því að bæta við uppbótina á seinustu mánuðum ársins. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um það frá hæstv. sjútvmrh., hvað hann gerir ráð fyrir, að þessi viðbót verði margir aurar á kg.

Í þriðja lagi lagði n. til, að sérstök athugun færi fram á erfiðleikum þeirra minni báta, sem aflað hafa sér síldveiðibúnaðar, sem er, eins og kunnugt er, mjög dýr, en þau eru of smá til að nota, og var lagt til, að sérstök n. yrði látin athuga þetta mál. Um árangur af því eða hver viðbrögð ráðh. við þessu hafa verið hefur ekki frétzt. Hafi verið skýrt frá því, hefur það farið fram hjá mér, og þá er það að sjálfsögðu mér að kenna, og þætti mér þá vænt um að fá þær upplýsingar frá hæstv. ráðh.

Þá var lagt til, að lenging svokallaðra tækjalána færi fram úr þremur árum í sex ár. Jú, og viti menn: Þau voru lengd í fimm ár.

Þá var lagt til, að þessum bátum yrðu veittir gjaldfrestir á lánum úr fiskveiðasjóði með þeim hætti, að lánin yrði lengd og afborganir felldar niður sem þeirri lengingu svaraði. Um það er enn verið að tala og ekkert raunhæft komið fram.

Þá var lagt til, að lækkaðir yrðu dráttarvextir, en um það hefur ekkert heldur heyrzt. Þá var lagt til, að gerðar yrðu breyt. á aflatryggingasjóði og iðgjaldasjóði, svo að þessir bátar stæðu ekki undir greiðslum til togaranna. Það hefur ekki farið fram hjá mér, að hæstv. ráðh. hefur við ýmis tækifæri haldið því fram, að svo væri heldur alls ekki. En í skýrslum bátaútgerðarnefndar, sem ég hef hér fyrir framan mig, er öðru haldið fram, og hæstv. ráðh. ætti þá að leggja fram skýrslur, sem það afsönnuðu. Þar segir m.a.:

„Þær upplýsingar, sem n. hefur fengið hjá aflatryggingasjóði sjávarútvegsins og frá tryggingarsjóðum, benda til þess, að með því skipulagi, sem nú er á þessum sjóðum, hvíli allveruleg greiðslubyrði á vélbátum vegna togaranna.“

Með þeirri hækkun uppbóta, sem hér er gert ráð fyrir, er vissulega tjaldað til einnar nætur. Það er að því stefnt að fleyta baslinu áfram í nokkra mánuði og herða þann hnút, sem málefni þessa atvinnuvegar eru komin í. Útvegsmenn hafa talið og birt um það ályktanir víða að, að hér sé um ófullnægjandi úrlausn að ræða. Og svo mikið er víst, að þessar ráðstafanir laga ekki þann hráefnisskort, sem fiskiðnaðurinn á við að etja, sem vinnur úr afla þessara báta.

Annar þáttur hráefnisöflunarinnar fyrir frystihúsin eru togararnir. Þar hefur engin endurnýjun átt sér stað um árabil, og togaraútgerðin á nú, eins og öllum er kunnugt, við mjög mikla erfiðleika að stríða. Athugun á tölu togaranna, sem hér eru skráðir, sýnir þessa þróun að nokkru, þó ekki að fullu, en það kemur í ljós, að árið 1954 voru togararnir 51, 31600 brúttólestir, 1958 voru þeir 44, samt. 29 þús. brúttólestir, 1964 voru þeir 39, samt. 27 þús. brúttólestir og 1967 eru þeir 32, samt. 23 þús. brúttólestir. En raunverulega eru þeir togarar, sem út eru gerðir, innan við 20 og sjálfsagt ekki nema 14 eða 15 þús. brúttólestir. Bjargráðið, sem sumir héldu á lofti hér fyrir skömmu, var að hleypa þessum togurum inn á mið bátanna og hætta að sækja á þau djúpmið, sem eru hin eðlilegu mið togaranna, og láta útlendinga eina um þau. Hæstv. sjútvmrh. lýsti því nýlega yfir, að hætt væri við fyrirætlanir af því tagi, og fyrir það vil ég þakka. Það er ljóst og viðurkennt, að sú aflaaukning, sem með því hefði getað fengizt fyrir togarana, hefði verið ónóg til þess að bæta neitt verulega þeirra hag fyrir utan allt það tjón, sem það hefði valdið öðrum, ef þetta ráð hefði verið upp tekið.

Orsakir þeirrar hnignunar, sem átt hefur sér stað í togaraútgerðinni, eru vissulega aðrar en þær, að þeir hafi misst nokkur mið, sem þeir höfðu fyrir breytinguna á fiskveiðilandhelginni. Um það vitna greinilega ýmsar umræður, sem fram hafa farið nú upp á síðkastið af hinum kunnugustu mönnum, og mig langar, með leyfi hæstv. forseta, til þess að leiða hér nokkur vitni að því.

Fyrir nokkrum dögum var í einu dagblaði bæjarins viðtal við einn ungan togaraskipstjóra, sem er skipstjóri á einu af okkar myndarlegustu skipum og mjög aflasæll, og ræddi hann um málefni togaraútgerðarinnar. Það er Halldór Halldórsson skipstjóri á Maí. Þar segir hann m.a.:

„Ég er jafnbjartsýnn á togaraútgerð og þegar ég byrjaði til sjós og allt gekk vel fyrir togurunum. Það er nóg af fiski í sjónum, og við þurfum ekki að hætta við togarana vegna þess, að ekki aflist. En við verðum að fylgjast með öllum nýjungum og megum ekki dragast aftur úr, eins og við höfum gert að undanförnu. Við erum ekki einungis að dragast aftur úr með útbúnað skipanna, heldur er líka sú hætta fyrir hendi, að við stöndum uppi vankunnandi í öllum vinnubrögðum um borð í nýtízkutogara. Okkur er lífsnauðsyn að búa betur að togaraátgerðinni á öllum sviðum. Má t.d. benda á, að óhæfa er, að hver togari þurfi í rauninni að vera leitarskip í hverjum túr. Á þessu sviði er ekkert gert fyrir togarana, þótt reynsla sé fyrir því, að í þau fáu skipti, sem skip hafa verið gerð út gagngert til leitar, hefur árangur ekki brugðizt. Þannig fundust Jónsmið, Fylkismið og Nýfundnalandsmið. Með þýzka togaraflotanum eru 4 fullkomin rannsóknar-, viðgerðarog sjúkraskip, og fylgja þau flotanum stöðugt eftir til leiðbeiningar og hjálpar. Sárt er að vita til þess, að það skyldi þurfa Þjóðverja til að finna hin auðugu Anton Dorrn-mið hér rétt við túnfótinn hjá okkur. Ég tel útilokað fyrir okkur Íslendinga að byggja þetta þjóðfélag á öðru en sjávarútvegi sem undirstöðuatvinnuvegi; við erum svo lánsamir að búa hér við auðugustu fiskimið í heimi, við Ísland og Grænland, og þennan auð sækjum við ekki nema með útgerð togara.“

Annar kunnur togaraskipstjóri hefur nýlega látið í ljós skoðanir sínar í 8.–9. tölublaði af sjómannablaðinu Víkingi, sem kom út á s.l. hausti, og þar kemur fram sitthvað, sem ástæða er til að taka eftir. Þar segir hann m.a., — það er Auðunn Auðunsson, kunnur togaraskipstjóri:

„Ég tel fráleitt að gefa úthafið og bolfisksvæðin fyrir norðan og austan og reyndar í kringum allt landið algerlega í hendur útlendinga, sem veiða þar með allgóðum árangri djúpt og grunnt.“ Enn fremur segir hann: „Við verðum að fá okkur ný skip og þá af skuttogaragerð með mikilli sjálfvirkni, Við þurfum tvenns konar togara, eina gerð 500 tonna til þess að veiða sérstaklega á heimamiðum við Norður- og Austurland og aðra gerð 1500 –2000 tonna fyrir fjarlægari mið og djúpmið.“ Hann ræðir ýmislegt um þann útbúnað, sem togararnir hafa, og segir m.a.: „Út af fyrir sig má segja, að löndunaraðstæður í Reykjavík og Hafnarfirði eigi mikinn þátt í því, hvernig komið er fyrir togaraútgerðinni, því að það tekur 3–5 daga að fá afgreiðslu á 350 tonna afla, 3 daga í löndun og 1 dag að ísa aftur er algengt. Tæknina vantar gjörsamlega í löndunarstarfsemina, og þar er um algera kyrrstöðu að ræða. Ég tel mig hafa tapað minnst einum túr á sumri fyrir lélega löndunarmöguleika.“ Blaðamaður, sem ræðir við þennan togaraskipstjóra, beinir talinu aftur að úthafsveiðunum, þá segir Auðunn: „Við megum alls ekki leggja þær niður. Ísland liggur svo miðsvæðis við fiskimiðum norðurhvels, að við ættum að eiga mesta möguleika af öllum þjóðum til þess að láta veiðarnar bera sig, en við komumst ekki hjá að endurnýja skipaflotann, til þess að stunda þær veiðar.“ Hann telur enn fremur, að hinir stærri togarar a.m.k. þurfi að hafa aðstöðu til frystingar um borð og geta lagt upp heilfrystan fisk hjá frystihúsunum, og segir um þetta: „Útlendingar stunda þessar veiðar allt árið með góðum árangri. Þetta verðum við líka að gera og fara með aflann beint til frystihúsanna, sem vantar tilfinnanlega hráefni. Fiskurinn kæmi þá heilfrystur til húsanna.“ Hann er enn fremur spurður um, hvað hann segi um togarana, sem nú eru hér fyrir, og svarar þá: „Það er óhugsandi að gera þá út. Skipin eru of mannfrek og dýr í rekstri og henta auk þess alls ekki veiðum á fjarlægum miðum. Þó tel ég nýjustu dísiltogarana vera rekstrarhæfa.“

Hér hef ég leyft mér að rekja lítið eitt skoðanir þeirra, sem kunnugast ætti að vera um ástæður fyrir því, að togaraútgerðin gengur svo erfiðlega sem raun ber vitni. Menn hafa beðið þess lengi að heyra frá hæstv. sjútvmrh., hverjum ráðstöfunum hann hyggist beita sér fyrir í þessu efni. Auðvitað kann sitt að sýnast hverjum um það, hvernig þau skip ættu að vera, hvað stór og hvernig búin, sem togaraflotinn yrði endurnýjaður með, en það er auðvitað alls ekki nauðsynlegt að komast að einhverri einni niðurstöðu í því efni. Það er engin ástæða til þess að leggja þar allt á eitt spil. Það er ekki út af fyrir sig æskilegt, að rokið yrði í að kaupa 20–40 togara, sem ættu að leysa allan vanda, af því að einhverjir teldu þá hentuga. En nokkur smáskip til veiða við Norður- og Vesturland á þeim miðum, sem Englendingar stunda mest þar, og nokkrir stórir togarar fyrir fjarlæg mið, í þessu eru ýmsir möguleikar, sem þarf að kanna með hinum kunnugustu og færustu mönnum. En einu verðum við að slá föstu, að við megum ekki hætta að stunda veiðar að einhverju leyti á djúpmiðum, og það verður að hefjast handa um endurnýjun togaraflotans í því skyni. Það er ekki bara togaraútgerðin, sem er þar í hættu, heldur einnig frystihúsin. Þau verða að vísu aðallega að byggjast á bátunum, sem stunda veiðar í kringum landið. Sérstaða okkar sem fiskveiðiþjóðar er vissulegu fyrst og fremst fólgin í hinum nálægu miðum hér allt í kringum land. En eigi að síður hefur það sýnt sig, að togararnir geta þjónað fiskiðnaðinum hér mjög vel með því að auka þar hráefnismagn og gera aðstreymið jafnara og þar með skapað betri rekstrargrundvöll fyrir fiskiðjuverin og þá, um leið og þau eru efld, bætta aðstöðu fyrir bátaflotann.

Verðbólgan og stefnuleysi ríkisstj, hafa sorfið fast að hraðfrystiiðnaðinum. Á s.l. hausti ályktaði aðalfundur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, að rekstrargrundvöllur fyrir frystihúsin væri ekki lengur fyrir hendi, og taldi ástæðurnar til þess vera 1) aukinn tilkostnað innanlands, 2) minnkandi hráefni vegna erfiðleika bátanna og togaranna, og 3) verðfall á erlendum mörkuðum. Hér var sýnilega aðgerða þörf, og ef ekki vildi betur til, þá a.m.k. eins viðreisnarauka. Viðræður hófust þá milli hæstv. ríkisstj. og fulltrúa hraðfrystiiðnaðarins um leiðir til þess, að frystihúsin gætu haldið áfram. Árangurinn af þeim birtist alþm. í fréttatilkynningu frá S.H. sem birtist í dagblöðunum 28. febr. s.l. og síðar í þessu frv., sem lagt var hér fram 2. marz. Samkv. þessu frv. á, eins og gerð hefur verið grein fyrir, að leggja 130 millj. kr. eða allt að því í sjóð til að tryggja hraðfrystihúsunum 55–75% af því verðfalli, sem verða kann, miðað við meðalverðið á árinu 1966, en það ár var meðalverðíð á afurðunum hærra en nokkurt annað ár, þrátt fyrir verðfallið, sem varð á síðari hluta ársins. Í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar til Hagráðs segir á bls. 3, þeirri sem gefin var í nóvembermánuði s.l.: „Áætla má, að meðalverð útfluttra þorskafurða á árinu 1966 muni verða nálægt 10% hærra .en meðalverð ársins 1965 og meðalverð skelfiskafurða um 5% hærra.“ Það sýnir bezt, hvernig komið er hag frystihúsanna, að þrátt fyrir þessi hagstæðu skilyrði á árinu 1966 voru frystihúsin yfirleitt rekin með verulegu tapi á því ári, eftir nokkur, a.m.k. 2, jafnvel 3 þokkaleg ár þar á undan, og þessi staðreynd sýnir einnig bezt, hversu fráleitt það er að kenna verðlækkun á erlendum mörkuðum fyrst og fremst um þann vanda, sem við stöndum frammi fyrir, því að þessi staðreynd sýnir það greinilega, að þar eru aðrar orsakir, sem eiga meiri þátt í. Svo alvarlegt var ástand frystihúsanna orðið, að í samþykki sínu fyrir því samkomulagi, sem þetta frv. byggist á og hæstv. ríkisstj. gerði við samtök frystihúsanna, sáu þau sig knúin til þess, samkv. því, sem segir í fréttatilkynningu frá S. H., að samþ. þetta í trausti þess, að ekki verði gripið til innheimtuaðgerða gegn hraðfrystihúsunum, meðan athugun á fjárhag þeirra fer fram.

Nú skal ég láta í ljós þá skoðun mína, að sú hugmynd um verðtryggingarsjóð, sem gerð er grein fyrir í grg. þessa frv. og í framsöguræðu hæstv. sjútvmrh., sé skynsamleg og ástæða til að fagna henni, hvað sem verður um framkvæmd, því að auðvitað skipta framkvæmdaatriðin í þessu sambandi mjög miklu máli og eru að sjálfsögðu óljós. Annar þáttur þeirra aðgerða vegna frystihúsanna, sem þetta frv. fjallar um og fyrst og fremst er fjallað um í 10. gr., er óneitanlega allmiklu óljósari. Það er talað um skipulagsbreytingar á hraðfrystiiðnaðinum, og það er sérstaklega talað um það í fskj., sem kallað er sameining frystihúsanna. Ég geri ráð fyrir, að það kunni að vefjast fyrir einhverjum fleirum en mér að gera sér grein fyrir því, hvernig farið er að því að sameina frystihús. Fyrir mér er málið þannig, að það hljóti að vera gert með þeim hætti að Leggja eitt niður og efla annað. M.ö.o.: það þarf að loka sumum. Það er að vísu hægt að sameina þau að nokkru, það er hægt að rífa úr þeim vélar og tæki og nota kannske að einhverju leyti í öðru frystihúsi, en það er ljóst, að í þessu felst, að sumum yrði lokað, þau rifin og flutt úr þeim eitthvað.

Þessar hugmyndir eru athyglisverðar að því leyti, að þær kunna í einstökum tilfellum að geta leitt til aðgerða, sem kunna að verða til bóta, en það er meiri vandi að gera það en segja það. Vandinn er m.a. fólginn í því, hvernig hráefnisöfluninni er háttað. Aflinn er tímabundinn. Tvö frystihús á sama stað líða kannske við það að hafa hráefni mjög stuttan tíma bæði, en það er hætt við því, að þau hafi sitt hráefni á sama tíma bæði og takmarkaður ávinningur sé því að því að slá þeim saman. Aflinn er líka staðbundinn, og það bjargar ekki vanda frystihúsa á Vesturlandi, að lagt sé niður frystihús á Austurlandi. Þetta segi ég ekki út af fyrir sig til þess að andmæla þeirri hugmynd, sem þarna er fram sett, heldur til þess að vekja athygli á, að það er ekki alveg eins einfalt og að segja það, og eins á hinu, að það er hráefnisöflunin, þ.e. skipulagning sjálfrar hráefnisöflunarinnar, sem hér skiptir mestu máli, eins og fram kemur raunar í ályktunum, sem hraðfrystihúsaeigendur hafa gert um þessi efni.

Það er sagt, að það sé betra seint en aldrei, þó að hitt sé líka sagt, að það sé of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið í hann. Oft hefur hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmönnum verið á það bent, að nauðsynlegt væri að hafa skipulag á uppbyggingu atvinnuveganna, vinna að uppbyggingu þeirra skv. áætlun. Þeir hafa þá haft svör sín á reiðum höndum og hrópað, að þeir, sem þannig tala, vilji höft og ófrelsi. Þeir hafa ekki mátt heyra talað um skipulag í framkvæmdamálum eða áætlanir um uppbyggingu atvinnuveganna. En nú á að fara að skipuleggja, — og hvað er það þá, sem á að fara að skipuleggja? Er það framtíðin? Er það uppbyggingin á næstu árum? Nei, það er lokun fyrirtækjanna, sem á að fara að skipuleggja. Ég held, að það væri ástæða til þess, að þessar fyrirætlanir væru skoðaðar mjög nákvæmlega í n. Þó að æskilegt hefði verið, að menn hefðu áttað sig fyrr á þessum hlutum, sé ég ekki ástæðu til þess að taka á þessu stigi málsins neikvætt í þessar hugmyndir, en þær þurfa vissulega að kannast miklu nánar.

Í þessari 10. gr. er einnig gert ráð fyrir því, að ríkisábyrgðasjóður gefi eftir skuldir, enda gefi aðrir eftir skuldir líka, en ljóst er, að það er fyrst og fremst ríkisábyrgðasjóður, sem þarna er hugsað um, og það er hann, sem hafi forustuna um að gefa eftir skuldir, eða þannig skil ég þessa gr., þótt hún sé að vissu leyti nokkuð óljós og væri vissulega ástæða til þess að fá hana skýrða nánar. Eitthvert fé þarf ríkisábyrgðasjóður til þess að gefa eftir miklar skuldir, og það er athyglisvert, að um leið og honum er ætlað þetta hlutverk, eru klipnar 15 millj. af því fé, sem honum er ætlað á fjárl. En af hverju ríkisábyrgðasjóður? Ríkisábyrgðasjóður er í rauninni ekki lánastofnun í venjulegum skilningi. Hann er miklu frekar eins konar tryggingastofnun. Hann á að tryggja lánveitendur. En nú á hann að fara að gefa eftir skuldir, sem safnazt hafa hjá honum. Af hverju hafa þessar skuldir safnazt? Ef ríkissjóður væri starfræktur með eðlilegum hætti, söfnuðust ekki hjá honum stórfelldar skuldir. En á undanförnum árum höfum við horft upp á næsta einkennilega þróun í ríkisábyrgðasjóði. Við framsóknarmenn beittum okkur fyrir því hér fyrir nokkrum árum, að fram kæmu árlega upplýsingar um skuldunauta ríkisábyrgðasjóðs, og nú seinustu árin hefur hæstv. fjmrh. ótilkvaddur látið gera slíkar skýrslur, og þar kemur í ljós, að sumir aðilar eru í sívaxandi skuldum við ríkisábyrgðasjóð, sem hækka ár frá ári, aðrir, sem líka eiga tvímælalaust í miklum fjárhagslegum erfiðleikum, komast ekki upp með að skulda þar fé. Ég er hræddur um, að ef nú á að fara að láta ríkisábyrgðasjóð gefa eftir skuldir í stórum stíl, væri líka tímabært að athuga, hvernig og hjá hverjum og við hvaða aðstæður þær skuldir hafa myndazt og af hverju þær hafa þá ekki myndazt hjá öðrum aðilum.

Það er gert ráð fyrir í þessu frv. að veita nú enn hagræðingarfé til frystihúsanna að upphæð 50 millj. kr., og er í sjálfu sér ekki mikið um það að segja. En það er þó eitt atriði, sem ég sé ástæðu til að nefna í því sambandi. Það kemur fram hér í frv. og hefur komið fram áður, að þessu fé er úthlutað eftir reglum, sem hæstv. sjútvmrh. setur. Ég minnist þess ekki, að það hafi komið fram, hvernig þær reglur eru, og væri ástæða til þess að fara fram á það, að hæstv. sjútvmrh. gæfi um það upplýsingar, annaðhvort hér í umr. eða þá a.m.k. í þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, sem ég vænti, að verði sjútvn. eins og lagt var til.

Fyrir nokkrum árum var þannig komið þrátt fyrir allar viðreisnarálögurnar, að ríkissjóður var rekinn með bullandi halla. Úrræðin voru þó ekki þá að draga úr eyðslunni, heldur voru þau að takmarka stórlega framkvæmdir ríkisins og stórauka álögurnar. Með þessu og stórauknum innflutningi skapaðist verulegur greiðsluafgangur á s.l. ári. Ríkissjóður lagði á þegnana mun meira en hann þurfti á að halda þrátt fyrir allt. Maður skyldi því ætla, að hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. væri ekki í miklum vandræðum með þá nauðsynlegu fjáröflun, sem samkv. viðreisnarpésanum fylgir ráðstöfunum til þess að auka uppbætur til útflutningsatvinnuveganna, en það kemur annað í ljós. Ríkisstj. er söm við sig. Aðeins þær 130 millj. kr., sem mynda eiga varanlegan sjóð, eru teknar af greiðsluafgangi ríkisins, en önnur útgjöld í sambandi við þetta frv., sem mér telst til að muni nema 180 millj. kr., eru tekin með þeim hætti m.a., að höggvið er enn í sama knérunn. Opinberar verklegar framkvæmdir eru skornar niður um 10%.

Ég geri ráð fyrir, að það hafi farið fyrir fleirum eins og mér að eiga nokkuð erfitt með að átta sig á þeirri röksemdafærslu, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan, þegar hann tók sér það fyrir hendur að sýna fram á, að þó að fjárframlög til verklegra framkvæmda á árinu 1967 væru skorin niður í sömu upphæð og þau voru á árinu 1966, muni þau nýtast betur en áður. Það hefur þó ekki farið fram hjá neinum, að á árinu 1966 urðu mjög verulegar verðhækkanir og framkvæmdakostnaður tvímælalaust meiri nú en hann hefur nokkru sinni áður verið, þ. á m. á árinu 1966. Það verður lítið úr því fé, sem á að fara til skóla, sem á að fara til hafna og til annarra framkvæmda í landinu, þegar sífellt er krukkað í það til þess að henda í verðbólguhítina. sífellt meira af aflafé góðæranna er þannig tekið frá þeim verkefnum, sem framkvæmast ættu á góðærinu, og hent í dýrtíðarginið. Þannig er þetta mikla góðæristímabil gert að tímabili glataðra tækifæra fyrir framþróun íslenzku þjóðarinnar. Og það eru enn fremur klipnar 20 millj. kr. af því, sem sveitarfélögin eiga lögum samkv. að fá, og rökin eru þau, að þau fái sitt fyrir því, vegna þess að þeirra hlutur af þessum tekjustofnum, verðtollinum og söluskattinum, hafi farið 23 millj. kr. fram úr áætlun. En hafi þeirra hlutur farið 23 millj. fram úr áætlun, hefur hlutur ríkissjóðs farið a.m.k. 350 millj. kr. fram úr áætlun og trúlega heldur meir. Samt þarf að klípa 20 millj. af sveitarfélögunum í þessu sambandi. Það munar ekki um það, sagði hæstv. fjmrh., því að þetta er bara 1% af tekjum þeirra. Þessi upphæð er bara 1% af tekjum þeirra. En þessi upphæð er innan við 1/2% af tekjum ríkissjóðs. En það þurfti samt að næla sér í lamb fátæka mannsins.

Eftir þær upplýsingar, sem fyrir liggja um afkomu ríkissjóðs og möguleika hans og álögurnar á s.l. ári, sé ég ekki ástæðu til þess að samþykkja 2. gr. þessa frv., þó að sjálfsagt sé nauðsynlegt að veita bátaútgerðinni og frystihúsunum þann stuðning, sem hér er ráðgerður. Í þessum viðreisnarauka, sem hér er til umr., er raunar eins og í viðreisninni sjálfri tjaldað aðeins til einnar nætur, og það er ekki gripið að rótum neins vanda. Það er reynt að ýta vandanum á undan sér í nokkra mánuði í viðbót. Útvegsmenn hafa látið í ljós þá skoðun og gert um það margar ályktanir, að uppbætur til bátanna séu of litlar. Út af fyrir sig er það slæmt, ef svo er og ef útvegsmönnum finnst það, en það er ekki verst. Verst er, að ekkert varanlegt er gert, engar varanlegar úrbætur og engin stefna mörkuð.

Hraðfrystihúsaeigendur hafa látið frá sér fara ályktanir og tilkynningar um það, eins og sjá má í bláðum hinn 28. febr. s.l., að sú fyrirgreiðsla, sem hraðfrystiiðnaðurinn fær með þessu frv., sé ófullnægjandi. Út af fyrir sig er það slæmt, en það er ekki verst. Verst er, að engin varanleg úrræði koma fram í hráefnisvandamálinu, sem er stórfellt vandamál hraðfrystiiðnaðarins, né í dýrtíðarvandanum, nema velta með auknum uppbótum á undan sér verðhækkununum fram á haustið. Á rótum verðbólguvandans, sem er meginrót að þessum erfiðleikum, sem hér eru til umr., er hvergi tekið. Ríkisstj., sem í upphafi þóttist öll ráð kunna, reynist ekki kunna önnur ráð en vaxtaokur og lánahöft, sem reynzt hafa árangurslaus í viðureigninni við verðbólguna, en hafa valdið atvinnuvegunum stórfelldu tjóni. Mörg þýðingarmestu og veigamestu framleiðslutæki, ekki sízt í þeim greinum, sem hér er um að ræða, hafa ekki getað haft eðlilegan rekstur í rekstrarfjársveltinu. Framkvæmdastjórar þeirra eyða tíma sínum í biðstofum bankanna og reyna að bjarga jafnvel fyrirtækjum, sem í eðli sínu eru auðug fyrirtæki, undan hamrinum. Hvers konar rekstrartruflanir og frávik frá eðlilegum og rökréttum ráðstöfunum eiga sér stað vegna fjárskortsins og eru daglegt brauð. Það er ekkert að undra, þó að frystihúsin fari fram á það að vera umliðin um skuldirnar um sinn, eins og fram kemur í samþykkt þeirra við samkomulaginu við hæstv. ríkisstj., en þar kemur fram, eins og ég drap á áðan, að frystihúsin telja, að með þessum ráðstöfunum sé hvergi nærri nógu langt gengið til lausnar aðsteðjandi rekstrarvandræðum hraðfrystiiðnaðarins, en fallast „eftir atvikum á þessa skipan mála í trausti þess, að ekki verði gripið til innheimtuaðgerða gegn hraðfrystihúsunum, meðan athugun á fjárhag þeirra fer fram.“ Það er ljóst, að samþykki hraðfrystihúsanna við þeim ráðstöfunum, sem hér er gert ráð fyrir að gera, er gert í trausti þessa, með þessu skilyrði. Og hvað hyggst hæstv. ríkisstj. gera í þessu? Um þetta er ekkert í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Eða á kannske ekki að sinna neitt þessum fyrirvara frystihúsanna? Um það væri fróðlegt að fá upplýsingar.

Herra forseti. Ég skal nú ljúka máli mínu fljótlega. Ráðstafanirnar, sem felast í þessum viðreisnarauka, geta e.t.v. komið í veg fyrir stöðvun næstu mánuðina, en þar er hvergi gripið á þeim grundvallarvandamálum sem þessar atvinnugreinar eiga við að stríða. Nú þarf ný vinnubrögð í þessum málum: Það þarf ráðstafanir, sem ég gerði grein fyrir í upphafi míns máls og skal ekki endurtaka, og það þarf fyrst og fremst algerlega ný vinnubrögð, markviss vinnubrögð og markvissa stefnu í málefnum þessara atvinnuvega eins og raunar annarra. Það verður að kryfja vandamál þessara atvinnugreina til mergjar og marka stefnu framtíðarinnar og hefja markvissar aðgerðir, því að sífelldar bráðabirgðaúrlausnir frá ári til árs og jafnvel mánuði til mánaðar leysa engan vanda, þótt þær kunni að geta komið í veg fyrir stöðvun atvinnurekstrarins í bili.