07.03.1967
Efri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það var aðeins út af síðasta atriði í ræðu hv. þm. og svo einu atriði, sem hann spurði mig sérstaklega um í gær, sem mér láðist að svara hér áðan, sem ég skal reyna að gera örlitla grein fyrir nú.

Ég tel, að rn. hafi gert það eitt í þessu máli, sem var rétt. Það, sem vélbátaútgerðarnefnd fór fram á í sambandi við þessi umræddu veiðarfæri, var, að komið yrði til móts með einhverjum hætti við það tjón, sem útgerðarmenn þessara báta hefðu af þessum völdum orðið fyrir. Til þess að vita, hvað þetta tjón er, þarf að afla upplýsinga um það. Þær upplýsingar lágu ekki fyrir í nál., þannig að það, sem gert hefur verið, var það eina, sem löglegt var að gera á þessu stigi málsins.

Annað atriði, sem mér — (Gripið fram í.) Það get ég ekki sagt hér um, það veltur á þessum samtökum. Ég þekki þessi samtök að góðu einu í starfi, og ekki sízt þegar um er að ræða jafnbrýna hagsmuni og nefndin taldi, að þessir aðilar ættu við að etja, þá efast ég ekki um að þarna verður vel að unnið. Ég þekki þessi samtök að því einu að gera sína hluti vel, enda um þeirra eigin skjólstæðinga að ræða, og það er rangt að vera með getsakir í þeirra garð á þessu stigi málsins.

Hv. þm. spurði mig sérstaklega um í gær og vildi, að ég tæki hér enn einu sinni fram, þó að ég telji, að hann hafi tvisvar sinnum verið áheyrandi að því áður, að ég hafi fært fyrir því ákveðin rök, hvort bátaflotinn í landinu bæri uppi útflutningsgjaldasjóð, bæri uppi svo og svo mikil útgjöld hans vegna. Frá þessu skýrði ég í ræðu, sem birt var í öllum dagblöðum bæjarins, held ég, og mjög ýtarlega í flokksblaði hv. 6. þm. Sunnl. Það skal viðurkennt, að á fundi L.Í.Ú. í haust varð niðurstaða þeirra aðila, sem gerst til þekkja, sú, að vélbátarnir undir 120 tn. og togaraflotinn leggja þessum sjóði minna til en þeir fá úr honum. Vélbátarnir yfir 120 tn. bera sem sagt uppi sjóðinn að öðru leyti. Þetta liggur í hlutarins eðli, þegar horft er til veiðiskiptingarinnar á hinum ýmsu veiðitegundum undanfarin ár. Það er síldveiðiflotinn okkar, það er stærri hluti vélbátaflotans, sem leggur þessu kerfi meira til en hann fær úr því, en hinir aðilarnir, vélbátarnir undir 120 tn., og togaraflotinn þiggja meira þaðan, þannig að í þessu tilfelli er ekki hægt að tala um vélbátaflotann í heild, hann skiptist þarna í tvo flokka, svo sem aflaskýrslur bera með sér undanfarin ár um skiptingu hinna ýmsu veiðitegunda. Þetta ætla ég að vona, að skýri nokkuð það atriði, sem spurt var sérstaklega um.