13.03.1967
Neðri deild: 53. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það er nú ekki ástæða til þess fyrir mig að eyða mörgum orðum að því, sem kom fram í svarræðu hæstv. sjútvmrh. áðan. Ég hafði í ræðu þeirri, sem ég flutti fyrr í dag, leitazt við að færa rök að því, að meginástæðan fyrir þeim erfiðleikum, sem nú er við að stríða í sjávarútveginum, sem frv. það, sem hér er til 1. umr. í Nd., ber glöggan vott um, mætti rekja til afleiðinga sjálfrar stjórnarstefnunnar. Ég reyndi að sýna fram á, að sú óðaverðbólga, sem leitt hefur af sjálfri stjórnarstefnunni, og það skipulagsleysi, sem verið hefur í framkvæmdum í landinu, hafi orðið sjávarútveginum erfitt, en hann er í þeirri aðstöðu, að hann á erfitt með að víkja sér undan ýmsum kröfum, sem verða til við slíkt ástand. Hæstv. ráðh. reyndi ekki að koma neitt inn á kjarna þessa máls í svarræðu sinni, heldur vék hann að nokkrum aukaatriðum, sem að mestu leyti var beint til hv. 5. þm. Austf., en þó að nokkru leyti til mín.

Ég ætla að reyna í örfáum orðum að víkja að þeim atriðum, sem að mér var beint í ræðu hæstv. ráðh. Ég vil þó gjarnan ítreka áskorun til hans um að ræða þær ásakanir, sem ég hef hér flutt og fleiri um, að kjarna vandamálanna megi rekja til sjálfrar stjórnarstefnunnar. Hæstv. ráðh. vék að því, að ég hefði talið, að hann hefði ekki fært fyrir því nein rök, að þeir erfiðleikar, sem sjávarútvegurinn býr við nú, mættu teljast til tímabundinna erfiðleika, eins og hann hefur margoft staðhæft. Mér finnst, að fyrir þessari staðhæfingu skorti öll rök af hálfu ráðh. Hann vék að ýmsum atriðum í ræðu sinni, sem mér finnst, að renni stoðum undir þá skoðun mína og margra annarra, að vandamálin nú séu að ýmsu leyti erfiðari en oftast áður. Hann nefndi t.d. þá þróun, sem nú er í viðskiptalífinu, bæði í Evrópu og Ameríku, þar sem þjóðirnar eru nú að hópast í ýmiss konar tollabandalög eða fríverzlunarbandalög til þess að búa í haginn fyrir sjálfar sig og þrengja aðstöðu þeirra, sem utan við þessi bandalög standa og þurfa að selja inn á þeirra markaði. Hver svo sem skoðun okkar kann að vera á því, hvernig við Íslendingar eigum að snúast við þeim vanda, sem þarna er upp að rísa, hygg ég þó, að við getum orðið sammála um, að hér sé um mikið nýmæli að ræða, sem sjávarútvegurinn sem aðalútflutningsvegur þjóðarinnar hefur ekki staðið áður frammi fyrir. Hæstv. ráðh. lýsti því, hvernig við værum að tapa markaðinum í Englandi á frystum fiski einmitt fyrst og fremst af þessari ástæðu. Hann gaf þær upplýsingar, að á árinu 1965, held ég, að hann hafi sagt, frekar en 1966, hefði þeim fiskveiðiþjóðum, sem selja frystan fisk á Bandaríkjamarkaði í samkeppni við okkur, fjölgað úr 6 í 15. Þetta er líka nokkuð nýtt fyrir okkur, því að ég hygg, að ásetningur margra þjóða um að auka fiskveiðiflota sína og vera sjálfum sér nógar um fiskiafurðir hafi aldrei verið jafnákveðinn og nú, og við megum því búast við mjög aukinni og harðnandi samkeppni fyrir sjávarútveginn á erlendum mörkuðum. Þetta er líka nokkuð nýtt og gefur tilefni til þess að vera uggandi um framtíðarhorfur í þessum atvinnuvegi, nema alveg sé breytt um með sjálfa stjórnarstefnuna.

Hæstv. ráðh. spurði um það, hvaða aðrar leiðir kæmu til álita til lausnar þeim vandamálum, sem nú er við að stríða og frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins á að lagfæra um sinn. Flokksbræður mínir í Ed. hafa lagt til þar, að þær 85 millj. kr., sem verja á á árinu 1967 til þess að standa undir hækkuðu fiskverði, verði teknar af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1966. Ég er þeirri till. fylgjandi og mun gera hana að till. okkar framsóknarmanna í sjútvn., þegar málið kemur þangað. En það má segja, að fleiri leiðir geti komið til álita í þessu sambandi. Við höfum hér tveir hv. þm. Framsfl. lagt það til að bæta aðstöðu bátaflotans, sem nú er sannarlega mjög léleg, með því að létta af honum þeim útgjöldum, sem á hann hafa verið lögð á undanförnum árum, á valdatíma hæstv. ríkisstj.till. hefur ekki fengið góðar undirtektir af hálfu hæstv. ríkisstj. Þeir ráðh., sem talað hafa í því máli af hálfu ríkisstj., hafa lýst sig andvíga því frv.

Þannig held ég, að ef vilji væri fyrir hendi og ef nægur skilningur ríkti í röðum þeirra, sem ráða málefnum landsins nú um sinn, á þörfum sjávarútvegsins, á þýðingu hans fyrir þjóðarbúið, væri hægt að fara ýmsar aðrar leiðir en þetta frv. gerir ráð fyrir til þess að rétta við hag hans.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess á þessari stundu að gera frv. frekar að umræðuefni. Það gefst tækifæri til þess bæði í hv. sjútvn. og eins þegar málið kemur hér aftur til 2. umr.