21.03.1967
Neðri deild: 58. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal mjög gjarna verða við ósk forseta um að vera stuttorður.

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, en atriði í ræðu síðasta hv. þm., 11. landsk. þm., gaf mér þó tilefni til þess að fara hér upp í ræðustólinn.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeim umr., sem hér hafa orðið í sambandi við þetta mál, að því er varðar möguleika á aukinni hráefnaöflun til vinnslustöðvanna. Ég tel, að það hafi komið greinilegar í ljós en áður; að menn eru farnir að átta sig á því, að útvegur smábáta hér á landi verður ekki til langframa rekinn eftir þeim leiðum einum, sem nú eru heimilaðar. Hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur hér flutt frv. á Alþ. um auknar togveiðar, og er það alveg ný rödd hér í þingsalnum að heyra þm. frá Norðurlandi mæla fyrir slíku. Andstaða gegn auknum togveiðum hefur verið einna sterkust þar, og það gleður mig þess vegna, að þessi þm. skuli þó vera búinn að átta sig á því, að togveiðar eru ein af þeim leiðum, sem hlýtur að verða að fara, ef á að auka hráefni til vinnslustöðvanna. Hér hefur einnig komið fram ný rödd, en það er hv. 3. þm. Austf. Hann hefur látið sitt álit hér í ljós alveg eindregið og bent réttilega á það, að þessa leið beri að athuga, að sjálfsögðu undir því vísindalega eftirliti, sem hann gat um. En hann lét ákveðnar skoðanir í ljós um þetta, og er ég honum þakklátur fyrir það.

Það, sem gaf mér tilefni til að fara hér upp í ræðustólinn, voru þau orð hv. 11. landsk. þm., sem tók svo djúpt í árinni í þessu sambandi, að hann taldi, að það mundi eyðileggja rekstrargrundvöll smærri bátanna, ef togveiðar yrðu leyfðar. Ég verð að játa, að mér hafði ekki dottið í hug, þó að ég hafi vitað, að þessi hv. þm. er andstæður því að leyfa togveiðar, að hann mundi leyfa sér að taka svo djúpt í árinni, sérstaklega ef litið er til þess, að í áliti, sem hann stendur að, kemur fram greinilega annar vilji útvegsmanna, víðast hvar um landið, heldur en hann hér hélt fram. Á bls. 54 í nál. bátaútvegsnefndar er gerð grein fyrir afstöðu til togveiðanna. Skoðanir skv. svörum eru mjög skiptar um það, hvort leyfa eigi allt að 120 rúml. bátum veíðar með botnvörpu innan landhelgi. Gegn því eru Útvegsmannafélag Reykjavíkur og Útvegsmannafélag Þórshafnar. Þessi tvö útvegsmannafélög mæltu gegn auknum togveiðum. Meðmælt eru Útvegsmannafélag Snæfellsness, Útvegsmannafélag Vestmannaeyja, Útvegsmannafélag Suðurnesja. Útvegsmannafélag Hafnarfjarðar vill veita leyfi allt að 150 rúmlesta skipum, en með þeim fyrirvara, að togarar veiði ekki á sama svæði og togbátar. Í sérstakri mgr. kemur álit Útvegsmannafélags Vestfjarða, en það hljóðar svo: „Útvegsmannafélag Vestfjarða er meðmælt því,“ — ég endurtek: „er meðmælt því með þeim fyrirvara, að heimildin nái aðeins til bátanna, en ekki til togara, að öðrum kosti beri að halda áfram sömu lokun og verið hefur gagnvart öllum.“ Þetta er álit Útvegsmannafélags Vestfjarða, sem ég verð að segja, að hv. Alþ. hlýtur að taka tillit til, ekki síður en skoðana eða álits hv. 11. landsk. þm. En skv. þessu áliti liggur alveg greinilega fyrir, að útvegsmenn í öllum stærstu verstöðvum landsins, fyrir utan Reykjavík, eru meðmæltir því, að auknar togveiðar verði heimilaðar bátum upp að vissri stærð. Þetta liggur alveg ljóst fyrir í áliti þessarar hv. n., sem þm, hefur verið afhent, þar með einnig frá Útvegsmannafélagi Vestfjarða, sem lýsir sig meðmælt þessu sama atriði, þannig að ég tel og vil endurtaka það, sem ég sagði hér fyrir nokkrum dögum í þessari hv. d., að ég er sannfærður um, að það kemur að því fyrr en seinna, að þeir menn, sem staðið hafa gegn auknum botnvörpuveiðum til handa vélbátum, eiga eftir að skipta um skoðun, þegar frá líður, og það mun verða samþykkt hér á Alþ., áður en langt um liður, að slíkar heimildir verði veittar.