21.03.1967
Neðri deild: 58. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að tala aftur, en hv. 11. landsk. gaf dálítið tilefni til þess. Ég held, að heyrn hans sé eitthvað biluð, því að hann hefur ekki tekið rétt eftir því, sem ég sagði, því að ég tók það skýrt fram í byrjun ræðu minnar, að það væri alls ekki þannig, að þessi útgjöld hefðu öll orðið til í tíð núverandi ríkisstj. Þetta var engin árás á ríkisstj. Ég bara taldi upp þessa raunverulegu útgjaldaliði, sem við yrðum að borga. Ég gat ekkert um, í tíð hvaða ríkisstj. það væri eða hvort það væri samningamál eða ekki, en þetta bara þurfti að borgast, svo að hv. þm. hefur ekki tekið rétt eftir. Ég held, að hann sé orðinn eitthvað taugaveiklaður eða hættur að heyra rétt. Ég er hræddur um, að hann hafi verið eitthvað illa leikinn þarna á Vestfjarðakjálkanum að fást við Þorvald Garðar, en þó að það sé nú erfitt verk, má, ekki láta það bitna á kunningjum sínum.

Viðvíkjandi því, að þetta sé eintómt rugl, sem ég fór með: hvaða útgjaldaliður var rangur hjá mér? Það var ekki nefnt. Viðvíkjandi því, að þetta sé tóm vitleysa að veiða í landhelgi: fiskifræðingurinn okkar er með þessu. Þetta vita allir. Það var samþykkt á LÍÚ fundi. Hann þykist kannske miklu vitrari en ég og Jón Jónsson, þannig að hann sé þess umkominn að segja, að það sé þrugl. Hann hefur fyllzt svona miklu yfirlæti af því að komast upp fyrir Þorvald Garðar, sem erindreki þeirra Vestfirðinga sagði, að væri allt mér að kenna. Hann þakkar mér vel stuðninginn. Ja, þvílíkt, fyrr má nú vera. Svo segir hann, að við viljum hömlulausar togveiðar. Það er meiri eftirtektin þetta. Hann ætti að lesa frv. Það er ekki hægt að hafa strangari hömlur á því en við leggjum til að séu. Það er nú í fyrsta lagi, að það sé samþykkt af heimabyggðunum eða viðkomandi svæðum, í öðru lagi, að fiskifræðingurinn mæli með því, og í þriðja lagi er þetta aðeins heimild fyrir ráðh., þannig að hann getur stöðvað þetta hvenær sem er. Það er ekki hægt að hafa meiri hömlur. Ég vil nefnilega ekki hömlulausa togveiði hjá togbátunum. Þess vegna vil ég ekki veiði eins og hún er rekin nú fyrir sunnan land. Við eigum að hafa vissar reglur um þetta og fara eftir þeim, en ekki hafa einhverjar reglur og fara ekkert eftir þeim. Þetta er aðalatriðið í málinu.

Viðvíkjandi því, að þetta eyðileggi fiskimiðin fyrir Vestfirðingum: þvílíkt rugl. Ekki álítur fiskifræðingurinn þetta, sem er náttúrlega lærðari en bæði ég og hv. 11. landsk. í þessu máli. Ég veit ekki betur en aðalveiðisvæði Breta sé rétt utan við landhelgislínuna norður af Skaganum, þar veiði þeir mest. Þetta sá ég í skjölum hjá fiskifræðingnum okkar, sem Bretar sjálfir gefa út, — hvergi meiri togveiði. Það er nefnilega ekki hægt fyrir okkur að fá hráefni á sumrin nema með togveiðum fyrir norðan land. Við vitum, að síldveiðin hefur tekið bæði fjármagnið og marga beztu mennina, þeir eru komnir á síldveiðar. Við vitum, að m.a. ástæðan til þess, hvað togararnir fiska lítið, er, að þeir hafa ekki nógu góðan mannskap. Hvað gerir Hafnarfjarðartogarinn núna, þegar hann hefur úrvalsmannskap og úrvals skipstjóra? Hann mokveiðir. En meiri hlutinn af úrvalssjómönnunum er kominn á bátana, vill heldur vera þar, og togararnir hafa ekki jafnmiklu mannvali á að skipa, því að það þarf fleira til að fiska en stór skip, það þarf líka valda menn og samhenta. Þarna moka Bretar upp fiskinum: Ætli það gerði mikið til, þó að það væru gerðir út svona tveir togbátar í viðbót á öllu þessu svæði fyrir Norðausturlandi? Ég hygg, að það yrði ekki miklu minni veiði hjá þeim Vestfirðingum.

Annars er það einkennilegt að geta aldrei horft nema bara út fyrir hlaðvarpann hjá sjálfum sér. Það er allt önnur aðstaða hjá okkur en Vestfirðingum. Það er enginn að troða togveiðum upp á Vestfirðinga, engum er þægð í, að þeir veiði á togbátum. Þeir þurfa þess ekki. Þetta eru beztu fiskimið landsins. Þarna er vaðandi þarafiskur að vorinu, þarna er línufiskur allt árið og þar að auki eitt bezta netasvæði, sem til er, út af Breiðafirði og jafnvel beint út af Vestfjörðum sunnarlega. Það eru engir betur settir með að fá hráefni. En það er alveg eins og við Húnvetningar, af því að túnin kólu ekki hjá okkur árið 1965, við hefðum sagt: Það gerir ekkert til með þetta kal, það er tóm vitleysa, og það er ekkert tún neitt kalið hjá Austfirðingum. — Það var álíka gáfulegt hjá hv. 11. landsk. eins og við hefðum sagt þetta, þegar túnin kólu hjá Austfirðingum 1965. Maður verður að líta á, að staðan er ekki alls staðar eins. Af hverju eru Vestmanneyingar að veiða í tog? Af því að þeir verða að gera það til að geta lifað. Þeir bjarga sér, þó að það sé ólöglegt, í staðinn fyrir að við erum allt of löghlýðnir fyrir norðan.

Nei, menn verða að líta á aðstöðu fleiri en sinna eigin bæjarfélaga eða kauptúna. Ég veit, að Vestfirðingar hafa ekkert með togveíðar að gera eða togbáta, ekki heldur togara. Þeir geta veitt á bátana, það hagar þannig til hjá þeim. Og eins hygg ég, að þetta sé á Austfjörðum. En við getum þetta bara ekki, því að okkar kauptún liggja það innarlega, það er svo langt á miðin, að við getum ekki notað litlu bátana nema yfir hásumarið. Og niðurstaðan er þessi: Það vantar hráefni, til að fólkið hafi vinnu. Ég vil biðja hv. 11. landsk. að benda okkur á, hvernig við eigum að ná í fiskinn, svo að fólkið hafi nóg að gera. Við höfum lagt mikla áherzlu á það að fá síldina flutta. Það hefur ekki gengið nema mjög takmarkað. Ég skal ekki segja, hvernig það verður í framtíðinni, en það hefur ekki tekizt nema að litlu leyti. Hvernig eigum við að hafa nægilegt hráefni, svo að fólkið hafi nóg að gera, hæfilegar tekjur? Eða á það að vera eins og það hefur alltaf verið, að það vanti verkefni fyrir fólkið, þannig að það verði að lifa heldur fátæklegu lífi, og jafnvel að fækka í kauptúnunum, þegar atvinna eykst annars staðar og kaup hækkar þar og vinna vex? Þá náttúrlega streymir fólkið í burtu. Ég vil bara fá að vita það hjá þessum góðu mönnum, sem eru á móti þessu, að við fáum einhverja undanþágumöguleika til að veiða á löglegan hátt á togbátum: Hvernig eigum við að afla fisksins? Línuveiðin ber sig ekki. Færaveiðin er léleg, ekkert sambærileg og á Vestfjörðum, og fiskurinn mjög lélegur. Hvernig eigum við að ná í fiskinn? Nú eru Sauðárkróksbúar t.d. að fara fram á það, að þeir fái aðstoð til þess að kaupa smátogara, skuttogara. Það er allt í lagi, ef það tekst. En það er bara staðreyndin, að við getum ekki fengið hráefni með viðráðanlegum kostnaði á annan hátt en í tog. Línan er allt of dýr og ómögulegt að fá nægilegan mannskap til að gera út nema mjög fáa báta á línu, ef þeir fást þá. Staðreyndin er þessi hjá okkur.