16.03.1967
Neðri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

7. mál, veiting ríkisborgararéttar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er nú til síðustu umr. hér á hinu háa Alþ. Með því er gert ráð fyrir, að 53 útlendir menn og konur öðlist ríkisborgararétt. Ég kveð mér ekki hljóðs til þess að ræða það efni frv., hvorki í einstökum atriðum né í heild, að það gerir ráð fyrir veitingu ríkisborgararéttar til óvenjulega stórs hóps manna. Ég er sammála því, að allir þeir, sem hér eiga hlut að máli, öðlist íslenzkan ríkisborgararétt. En ég kveð mér hljóðs til þess að víkja nokkrum orðum að 2. gr. frv., ákvæðum hennar, en í þessari 2. gr. er kveðið svo á, að þeir, sem heita erlendum nöfnum, skuli þó ekki öðlast íslenzkan ríkísborgararétt með lögum þessum, fyrr en þeir hafa fengið íslenzk nöfn samkv. lögum um mannanöfn.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þetta ákvæði, sem verið hefur í l. um veitingu ríkisborgararéttar um allmörg undanfarin ár, hefur verið mjög umdeilt, bæði hér á hinu háa Alþ. og utan Alþ. Ýmsum og þar á meðal mér hefur fundizt það vera í hæsta máta óeðlilegt og óréttmætt að leggja þá kvöð á fullvaxna menn og konur að þurfa að segja skilið við það nafn, sem þau hafa hlotið í skírn og borið misjafnlega langa ævi, og þurfa að taka upp nýtt nafn sem eins konar skilyrði eða aðgangseyri fyrir ríkisborgararétt í nýju föðurlandi. Hér er um að ræða mjög viðkvæmt einkamál, sem mér er kunnugt um, að mjög mörgum erlendum mönnum, sem æskt hafa íslenzks ríkisborgararéttar, hefur verið mjög viðkvæmt.

Á hinn bóginn er alveg ljóst, að það væri mjög til baga, að algerlega erlend nöfn, ekki einu sinni af norrænum stofni, heldur e.t.v. af gerólíkum stofni, festist í íslenzku máli, svo að hér er um raunverulegan vanda að ræða. Þess vegna er það, sem fram hafa komið hér á hinu háa Alþ. og utan Alþ. till. eða hugmyndir um að fara eins konar milliveg í þessu máli, þ.e.a.s. gera ráð fyrir því, að hinir erlendu menn og konur, sem æsktu ríkisborgararéttarins, breyti um fornafn einungis, en haldi sínu ættarnafni, meðan þau eru á lífi. En venjulega er mun auðveldara að íslenzka fornafn eða laga það að íslenzkum málvenjum heldur en ættarnafn. Síðan skyldi gert ráð fyrir því, að börn þessara nýju ríkisborgara fái íslenzk nöfn, ef þau eru undir lögaldri, haldi annars nöfnum sínum, en þau börn, sem hljóta íslenzk nöfn, nefni sig síðan til föður eða móður eins og íslenzk mannanafnalög gera ráð fyrir, m.ö.o. að nafnbreytingin eigi sér ekki stað á því andartaki, sem hinn útlendi maður hlýtur ríkisborgararétt, heldur gerist þetta smám saman og komist í kring í næstu kynslóð á eftir, að það taki 1–2 kynslóðir, að nafnbreytingin nái fram að ganga. Með þessu móti væri þeim eðlilega og skynsamlega og réttmæta tilgangi náð, sem á bak við 2. gr. býr, en hins vegar engum fulltíða manni þröngvað til þess að segja skilið við nafn sitt eða ættarnafn, svo sem afleiðingin er og hefur verið, eins og lagasetning um veitingu ríkisborgararéttar hefur verið undanfarin ár. Ég tel, að þessi stefna væri mjög skynsamleg, og að vísu ekki meiri hl. Alþ., heldur mjög verulegur hluti Alþ. hefur á undanförnum árum talið, að hún væri skynsamleg. Utan Alþ. á þessi stefna tvímælalaust miklu fylgi að fagna. Ég skal einnig láta þess getið, að ég hef heyrt mikilsmetna lögfræðinga láta í ljós þá skoðun, að vafasamt sé, hvort lagaákvæði eins og þessi geti samrýmzt alþjóðalögum eða alþjóðasamþykktum um mannréttindi, skal þó sjálfur auðvitað sem ólöglærður maður engan dóm á það leggja.

En þar eð ég veit, að hér er um að ræða mjög viðkvæmt deilumál, bæði innan þings og utan, hef ég þrátt fyrir mjög ákveðnar eigin skoðanir á þessu máli ekki talið rétt að leggja fram brtt. um þetta efni nú á þessu þingi, bæði vegna þess, að hér er um að ræða síðustu starfsvikur þingsins og auk þess síðasta þing á kjörtímabili, og ég tel ekki rétt að vekja upp deilur, fyrst svo stendur á, um svo viðkvæmt mál sem hér er um að ræða. Hins vegar hef ég vakið máls á þessu vandamáli í ríkisstj., og þar hef ég skýrt frá því, að ég sem menntmrh. og sem sá ráðh., sem mannanafnalögin heyra undir, hefði hug á að skipa n. til þess að endurskoða mannanafnalögin í heild og þá sérstaklega í því skyni að reyna að finna út reglu, sem gæti leyst þann vanda, sem hér er um að ræða. Og það hefur orðið samstaða um það í ríkisstj., að ég skyldi skipa slíka n. nú á næstunni.

Það er ekki einungis um að ræða vanda í þessu sambandi, sem ég var nú að lýsa, heldur þarfnast mannanafnalögin að ýmsu leyti gagngerðrar endurskoðunar. Sannleikurinn er sá, að mannanafnalögunum er ekki framfylgt hér á landi. Sérstaklega er lagaákvæðinu um ættarnöfn ekki framfylgt. Hér eru notuð í allstórum stíl ættarnöfn, sem eru ólögleg samkv. mannanafnalögunum. Í símaskrá og í opinberum heimildum eru ættarnöfn, sem ekki samrýmast ákvæðum mannanafnalaganna. Hér er því líka um viðkvæman vanda að ræða, sem finna þarf einhverja skynsamlega lausn á. Það hefur líka gerzt, því miður, að börn hafa verið skírð fornöfnum, sem tvímælalaust eru ólögleg samkv. mannanafnalögunum. Það er því brýnt verkefni að reyna að koma á skynsamlegri skipun í þessum efnum. Til þess þarf eflaust nokkurn tíma, og ég tel því mjög eðlilegt, að n, sé skipuð til þess að rannsaka þetta mál allt í heild, n. sérfróðra manna sé kvödd saman sem allra fyrst til þess að rannsaka þetta mál allt í heild, þannig að álit hennar geti legið fyrir nýkjörnu Alþ., þegar það kemur saman á hausti komanda, og þá til fyrirgreiðslu þeirrar stjórnar, sem þá fer með völd í landinu.

Mér þótti rétt, að þetta kæmi fram við síðustu umr. þessa máls gagnvart hinu háa Alþ.,ríkisstj. hefur talið rétt að taka þetta mál upp til endurskoðunar, án þess þó að lýsa að neinu leyti neinni skoðun af hálfu ríkisstj. í málinu. Hér er auðvitað um að ræða algerlega óflokkspólitískt mál, og ég geri ekki ráð fyrir því, að ríkisstj. sé að svo stöddu máli, meðan málið hefur ekki verið rannsakað nánar, á einu máli um þetta efni, frekar en ég veit, að Alþ. er ekki á einu máli um þetta efni. En mér þótti rétt, að Alþ. vissi það, að þetta mál mun verða undirbúið undir næsta Alþ., og mér þykir líka rétt, að þeim nýju ríkisborgurum, sem eiga kost á ríkisborgararétti samkv. þessu frv., ef það verður samþ., þeim sé ljóst, að þetta mál sé í athugun. Ég veit, að ýmsir, sem fengið hafa aðgang að íslenzkum ríkisborgararétti með lagasetningu frá Alþ., hafa ekki notað sér heimildina, af því að þeir hafa ekki viljað skipta um nafn, jafnvel dregið það í 1-2–3 ár, vegna þess að þeim hefur verið sárt um ættarnafnið. Ég tel því eðlilegt, að þeir 53 einstaklingar, sem hér eiga hlut að máli, geti einnig fengið að vita það, að þó að þetta frv. sé samþ. með þessu ákvæði í 2. gr., sé málið til athugunar og muni vera lagðar fram till. í því fyrir næsta Alþingi.