21.02.1967
Efri deild: 42. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

5. mál, fávitastofnanir

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er til umr., er að því stefnt að koma á nýrri og bættri skipan fávitamála hér á landi. Síðla árs 1965 skipaði heilbrmrh. n. til þess að endurskoða núgildandi lög um fávitahæli, sem orðin eru yfir 30 ára gömul, og hafa reyndar ýmis ákvæði þeirra laga aldrei komið til framkvæmda. Þrem árum áður en þessi n. var skipuð hafði að frumkvæði landlæknis verið fenginn hingað yfirmaður málefna vangefinna í Danmörku. Hann kynnti sér ástand þessara mála hér á landi og skilaði síðan grg. og till. um nýskipan þeirra, og hefur n, mjög stuðzt við ábendingar hans og upplýsingar við samningu þessa frv.

Í aths. við frv. er greint annars vegar frá áætlaðri þörf fyrir vistun fávita á hælum, sem n. telur að taki til allt að 400 manns á öllu landinu eins og er, og hins vegar er gerð grein fyrir þeim stofnunum, sem fyrir hendi eru, og hve miklu þær anni. N. kemst að þeirri niðurstöðu, að allt að 180 rúm skorti á, að þörfinni sé fullnægt, og auk þess þurfi til þess að halda í við fólksfjölgun að auka við 7–8 rúmum á ári.

Í upphafi aths. við frv. er þess getið, hver séu helztu atriði þess, og segir svo að lokum, að frv. í heild sé miðað við þá þróun, sem orðið hafi í fávitamálum undanfarið í nágrannalöndum okkar, en tillit þó tekið til sérstöðu okkar, vegna fámennis íslenzku þjóðarinnar.

Í núgildandi l. um fávitahæli, sem eru frá 1936, er gert ráð fyrir að koma upp allmörgum stofnunum af ýmsu tagi fyrir fávita, og þar er einnig gert ráð fyrir eftirlitsnefnd með öllum þessum stofnunum, en sú eftirlitsnefnd hefur reyndar aldrei verið skipuð.

Með þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir, að ríkið reki eitt aðalhæli fyrir fávita sem sé í senn hjúkrunarhæli, uppeldis- og kennsluhæli og vinnuhæli og skiptist í deildir með sem samstæðustum hópi vistmanna í hverri deild fyrir sig. Það er talið, að sjálfstæð fávitastofnun þurfi að vera allstór, eða nánar tiltekið fyrir nokkur hundruð manns, svo að æskilegri flokkun verði við komið og að unnt sé að hafa nægilega fjölbreyttu sérmenntuðu starfsliði á að skipa til þess að veita þá sérhæfðu hjálp og þjónustu við fávita, sem nú er orðin völ á baeði læknislega og uppeldislega. Þó er ekki talið nauðsynlegt, að öll stofnunin eða aðalhælið sé á einum og sama stað, og er því í 2. gr. frv. gert ráð fyrir því, að komið verði upp, ef henta þykir, útibúum frá aðalhælinu, en að hvert slíkt útibú ræki þá alveg afmarkað hlutverk. Það mætti hugsa sér, að það væri t.d. elliheimili fyrir fávita eða vinnuhæli fyrir fullorðna fávita, sem eru með svipaða vinnugetu. Megináherzlan er sem sé lögð á það, að nægilega stór hópur sé í umsjá eins og sama aðila, þ.e.a.s. aðalhælisins, til þess að fyrrgreindri flokkun og sérhæfðri þjónustu verði við komið. Og í samræmi við þessa meginstefnu frv. eru svo ákvæði í 2. mgr. 3. gr. frv. um það, að fávitastofnanir, sem sveitarfélög eða einkaaðilar reka, skuli háðar eftirliti aðalhælis ríkisins, og ákvæðið í 11. gr. um það, að allar umsóknir um hælisvist fyrir fávita, hvort heldur á ríkishæli eða stofnunum, sem sveitarfélög eða einkaaðilar reka, skuli berast aðalhælinu og úrskurðast þar, á hvaða stofnun umsækjandi skuli vistaður.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, er ekki til enn hér á landi neitt fullgilt aðalhæli eins og það, sem um ræðir í 1. gr. frv. Hins vegar er í Kópavogi risinn vísir og hann orðinn allmyndarlegur að slíku hæli, og verður að sjálfsögðu að því stefnt að byggja þar upp fullkomið hæli, eftir því sem fjárveitingar og önnur aðstaða leyfir.

Í 5. gr. frv. eru tekin inn ákvæði um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, að því er varðar fávita, og greiðsla á styrk skiptist í sömu hlutföllum og tíðkazt hefur á milli ríkissjóðs og framfærslusveitar, þ.e.a.s. 4/5 af ríkissjóði, 1/5 af framfærslusveit, og verða þeir fávitar, sem styrks eiga að njóta, áður að hafa verið úrskurðaðir styrkhæfir.

Þá er í 6. gr. frv. það nýmæli, að fávitar, sem dveljast á viðurkenndu dagvistarheimili, skuli eiga rétt á að hljóta styrk, sem nemur hæfilegu dagvistargjaldi, eins og þar segir, enda hafi þeir verið úrskurðaðir styrkhæfir. Greiðir þá ríkissjóður 2/3 hluta þess styrks, en framfærslusveitin 1/3. Aðeins eitt dagvistarheimili fyrir fávita er rekið hér á landi. Það er dagheimilið Lyngás hér í Reykjavík, sem rekið er af Styrktarfélagi vangefinna og rúmar um það bil 40 börn. Það er talið, að langflest þau börn, sem þar dveljast, mundu vera á fávitahæli eða eiga þar heima, ef hælisrúm væri til. Það er því fyllilega eðlilegt og má teljast sanngjarnt, að þau börn, sem þarna dveljast og á annað borð eru úrskurðuð styrkhæf, komi til greina með að njóta styrks eins og þau börn, sem í fávitahælum dvelja. Skv. frv. má þessi styrkur, sem nemur daggjaldi á dagheimili, þó ekki nema meiru en 3/5 af styrk á fávitahæli ríkisins.

Í 7. gr. frv. er lagt til, að lögfest verði sú framkvæmd, sem tíðkazt hefur undanfarið, að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við nauðsynlega kennslu fávita í stofnunum, sem reknar eru af sveitarfélögum eða einkaaðilum.

Þá er með 14. gr. frv. lagt til, að ráðh. sé heimilað að setja með reglugerð ákvæði um félagslega aðstoð við andlega vanþroskað fólk, sem dvelst utan fávitastofnana. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þá grein, en vísa til þess, sem segir um 14. gr. í athugasemdum við frv.

Þá er í 15. gr. loks kveðið svo á, að við aðalfávítahælið skuli reka skóla til að sérmennta fólk til fávitagæzlu. Undanfarið hefur verið haldið uppi í Kópavogshælinu kennslu í fávitagæzlu. Það hefur verið 2 ára nám, bæði bóklegt og verklegt, en um þetta nám hafa hins vegar enn sem komið er ekki verið nein ákvæði í lögum. Það gefur auga leið, að ekki er hægt að reka fávitahæli á viðunandi hátt, nema fyrir hendi sé þjálfað starfslið til hins daglega rekstrar. Skóla eins og þennan er ekki, eins og til háttar hér á landi, hægt að starfrækja nema við aðalhæli ríkisins, sem er eini staðurinn, þar sem aðstaða er fyrir hendi til slíks skólahalds.

Ég hef þá getið um nokkur þau atriði, sem mér sýnast mestu máli varða í sambandi við þetta frv. Heilbr.- og félmn. hefur rætt frv. á nokkrum fundum og sent það til umsagnar stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og stjórn Styrktarfélags vangefinna. Stjórn Sambands ísi. sveitarfélaga mælir með samþykkt frv. athugasemdalaust, en stjórn styrktarfélagsins gerir nokkrar aths. við frv. og leggur til, að á því verði gerðar tilteknar breyt. Að athuguðu máli var niðurstaða í n. sú, að n. flytur ekki brtt. við frv., en hins vegar hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja við það brtt., og að fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég sé, að á þskj. 236 er komin fram brtt. frá þrem þm, í heilbr.- og félmn., og munu þeir að sjálfsögðu gera grein fyrir þeirri brtt., og sé ég þá ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um málið að svo komnu.