20.03.1967
Efri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

149. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég held, að hæstv. fjmrh. hafi haft orð á því, þegar hann talaði fyrir þessu frv. við 1. umr., að hér væri að vissu leyti um réttlætismál að ræða. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðh. Síðan hef ég farið að hugleiða, hvort ekki sé um leið og leiðrétting er gerð, verið að skapa nýtt misræmi eða nýtt órétti. Það er tekið fram í þessu frv., að þeirra fríðinda, sem hér er um að ræða, skuli aðeins njóta þeir, sem hafa verið sjóðfélagar í 15 ár eða lengur í þjónustu ríkisins. Það er ekki nóg, að maður hafi verið sjóðfélagi í 15 ár eða lengur, með fullum réttindum og skyldum, sem því fylgja, hann verður einnig að hafa verið í þjónustu ríkisins jafnlangan tíma, að mér skilst. Ef þetta er rétt skilið hjá mér, er ég hræddur um, að hér skapist nýtt misrétti og nýtt óréttlæti. Við skulum hugsa okkur borgarstarfsmann, sem að 5 árum liðnum yfirgefur þjónustuna þar og gengur í þjónustu ríkisins. Hann fær yfirfærð sín sjóðréttindi frá borginni yfir í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, er síðan í þjónustu ríkisins í 10, 12 eða 15 ár og hættir svo, áður en hann verður 65 ára, þá fær hann ekki að njóta þeirra réttinda, sem hér um ræðir, enda þótt hann hafi verið sjóðfélagi í 15 ár eða lengur, aðeins vegna þess, að hann hefur ekki verið í þjónustu ríkisins svo lengi. Ég vil benda á þetta við síðustu umr. í þessari hv. d. og mælast til þess, að þetta verði íhugað aðeins nánar af hæstv. ráðh. og hv. n., áður en frv. verður endanlega afgreitt.