21.03.1967
Neðri deild: 57. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það er nokkur tími liðinn síðan þetta frv. var til 2. umr. hér í hv. þd., en þá var það samþ. hér með shlj. atkv. með þeim breyt., sem landbn. hafði lagt til að á frv. yrðu gerðar. Stjórn Búnaðarfélags Íslands lagði þetta mál fyrir búnaðarþing, sem nýverið sat að störfum hér í borginni, og búnaðarþingið óskaði eftir því, að á frv. yrðu gerðar nokkrar fleiri breyt. en þær, sem landbn. hafði lagt til. Landbn. hefur athugað þessar brtt. búnaðarþings og fallizt á að gera þær að sínum og flytja þær allar nema eina, en sú brtt. búnaðarþings, sem við tókum ekki upp, var við 8. gr. frv., þar sem ræðir um skipun n. til þess að meta kaupverð jarða. Í gr. stendur, að einn aðilinn, sem á að tilnefna í þessa n., sé Hæstiréttur, en búnaðarþing óskar eftir, að það verði Búnaðarfélag Íslands í stað Hæstaréttar, en þessa brtt. hefur n. ekki tekið upp. Hinar brtt. tók n. allar upp og flytur þær á þskj. 331.

Þar er fyrst lögð til sú breyt. við 3. gr., að aftan við hana bætist það ákvæði, að Jarðeignasjóði sé heimilt að veita sveitarfélögum lán til jarðakaupa, skv. ákvæðum 6. gr. frv. Með þessu yrðu sveitarfélögunum skapaðir auknir möguleikar til þess að eignast þessar jarðir og fá yfir þeim umráðarétt, fá umráðarétt yfir því landi, sem liggur innan umdæmis hvers sveitarfélags, ef þau á annað borð óska eftir að kaupa þessar jarðir.

Í 6. gr. frv. er ákvæði um það, að Jarðeignasjóðnum sé heimilt að ráðstafa þeim jörðum, sem hann kann að eignast, og þá fyrst og fremst að selja þær þeim sveitarfélögum og upprekstrarfélögum, sem jarðirnar heyra til, eins og stendur í frv., og enn fremur öðrum jarðeigendum í sama sveitarfélagi til þess að bæta búrekstraraðstöðu þeirra. Brtt. við 6. gr. er á þá lund, að selja megi einstaklingi jörð til varanlegrar ábúðar, ef það verður til þess að styðja byggð í sveitarfélaginu að dómi þeirra aðila, sem upp eru taldir í gr., þ.e. Landnáms ríkisins, Búnaðarfélags Íslands og viðkomandi sveitarstjórnar, en það er einmitt ein af brtt., að lagt er til, að þarna bætist við tveir aðilar, þ.e. Búnaðarfélagið og viðkomandi sveitarstjórn. Við vitum, að það getur í ýmsu tilliti orðið sveitarfélaginu til baga, ef byggð grisjast þar mjög, og einnig er það svo, að í ýmsum sveitum er fólk, sem hefur jafnvel megintekjur sínar af öðru en beint af landbúnaði, og þetta fólk þarf þá náttúrlega ekki á miklu jarðnæði að halda.

Brtt. við 7. gr. er raunar í samræmi við þá breyt., sem lagt er til að gerð sé á 6. gr., þ.e. sem sagt að bæta þarna inn í Búnaðarfélagi Íslands og hlutaðeigandi sveitarstjórn, sem eiga að leggja fram rökstudda álitsgerð um það, hvort réttmætt sé og æskilegt skv. ákvæðum þessara laga, að ríkið kaupi jarðirnar.

Þá er lagt til, að á 10. gr. verði gerð sú breyt., að Jarðeignasjóði sé skylt að greiða fasteignaskatt af þeim jörðum, sem hann eignast með þessum hætti. Við vitum það, að gjöld sveitarfélaga, t.d. til sýslusjóða og almannatrygginga, eru m.a. viss hundraðshluti af fasteignamati, og við getum fallizt á það, að eðlilegt sé, að Jarðeignasjóður greiði fasteignaskattinn, sem rennur til sveitarsjóðanna. Þá er einnig lagt til, að Jarðeignasjóði sé skylt að taka þátt í fjallskilakostnaði vegna þeirra jarða, sem hann kann að eignast í fámennum hreppum með erfið fjallskil. Þetta fannst okkur líka eðlileg ósk og sjálfsagt að setja þetta inn í frv.,

Síðasta brtt., sem n. flytur á þskj. 331, er aðeins orðalagsbreyting, okkur þótti betur fara á því, að greinin væri orðuð eins og þar segir. Það kom engin ósk um það frá búnaðarþingi, að gerð væri breyting á 4. gr. frv., en hv. 3. þm. Vestf. hefur nú lagt brtt. fram, sem snertir þessa grein, og við flytjum sem sagt enga brtt. við hana heldur. Það er eflaust margt rétt í því, sem hv. þm. sagði, en það stendur nú í greininni, að miða skuli við hið nýja fasteignamat, sem á að taka gildi innan tíðar. Við vitum fyrir víst, að fasteignamat hækkar mjög verulega, þó að við vitum ekki, hve mikið það verður.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar. Landbn. leggur til, að þessar brtt. séu samþykktar, en hefur ekki tekið afstöðu til annarra brtt., sem fram hafa komið.