21.03.1967
Neðri deild: 57. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í 2. gr. þessa frv. segir, að Jarðeignasjóði skuli heimilt að kaupa jarðir, sem hlunnindi fylgja og líkur eru til að verði ekki nýttar til búrekstrar, en hafa sérstakt notagildi fyrir sveitarfélag eða ríki. Þegar ég las þetta, þá rifjaðist það upp fyrir mér, að fyrir nokkrum árum var samþ. hér á hinu háa Alþ. till. til þál. um ráðstafanir til að tryggja, að hlunnindajarðir haldist í ábúð, og athugun á því, hvers vegna góðar bújarðir fara í eyði. Þessi ályktun var samþ. 9. apríl 1963 og var þannig orðuð, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 3 manna nefnd og sé hún þannig skipuð, að búnaðarmálastjóri og landnámsstjóri séu sjálfkjörnir, en landbrh. skipi þriðja nm. án tilnefningar. Verkefni n. séu að kynna sér ástæður fyrir því, að jarðir fari í eyði, og sé einkum athugað, að hve miklu leyti þær fara í eyði vegna þess, að einstakir menn kaupi þær eða sleppi ekki eignarrétti sínum af þeim vegna laxveiði eða annarra hlunninda, og í öðru lagi að safna gögnum um áhrif slíkrar þróunar á landbúnað annarra þjóða og ráðstafanir þeirra þjóða til varnar gegn henni.“ Síðan sagði, að n. skyldi hraða störfum, svo sem auðið væri, og skila till. til úrbóta svo fljótt sem verða mætti. Nú eru sem sagt senn liðin 4 ár, síðan þetta var samþ., og n. mun hafa verið sett á laggirnar. En ég minnist þess ekki, að það hafi nokkuð komið um þessa athugun. Ég minnist þess ekki, það hefur þá farið fram hjá mér, ef svo hefur verið. Ég vildi því leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. landbrh., hvað sé að frétta af störfum þessarar n. Ég man a.m.k. ekki eftir, að þetta hafi verið gert að þingmáli síðan.

Eins og þetta frv. var upphaflega lagt fyrir af hálfu hæstv. stjórnar, virtist það vera meiningin með því að kaupa jarðir með vissum skilyrðum eða þegar vissar ástæður væru fyrir hendi, og þá ekki gert ráð fyrir því, eins og frv. var uppbyggt, að þær yrðu teknar eða þeim yrði ráðstafað til ábúðar síðar. Að vísu er gert ráð fyrir því, að það væri heimilt að selja öðrum jarðeigendum í sama sveitarfélagi jörð, sem ríkíð hefur keypt skv. þessum lögum, ef frv. verður að lögum, til að bæta búrekstraraðstöðu þeirra, m.ö.o.: það er heimilt að selja þeim þær til að leggja við sínar jarðir. Auk þess stóð í frv., að það væri heimilt að selja þær sveitarfélögum eða upprekstrarfélögum, sem jörðin heyrir til. En það virtist vera rauði þráðurinn í þessu, að þeim jörðum, sem yrðu keyptar skv. frv. eða lögunum, yrði ekki ráðstafað aftur til ábúðar.

Nú hefur hv. landbn. flutt brtt. við þetta á þskj. 331, þar sem segir, að enn fremur sé heimilt að selja einstaklingum jarðirnar til varanlegrar ábúðar, að fengnu áliti Landnáms ríkisins og Búnaðarfélags Íslands. Ég er meðmæltur þessari brtt. landbn. Hins vegar veit ég ekki, hvernig ætti að tryggja það, að þær yrðu seldar til varanlegrar ábúðar, því að það er engin trygging fyrir því, þó að þær séu seldar einstaklingum, að það verði til varanlegrar ábúðar, eða ég sé ekki, að það sé hægt að tryggja það. En þetta er þó spor í rétta átt, því er ekki alveg slegið föstu, að þær eigi að leggjast í eyði um aldur og ævi.

Ég hefði viljað bæta dálitlu við þessa brtt. hv. landbn. og hef flutt um það brtt. á þskj. 361. Ég vil bæta við þennan staflið í till. hennar þessum orðum: „einnig er heimilt að byggja jarðirnar á erfðaleigu“. Ég vænti þess, að hv. n. og aðrir geti á þetta fallizt, því að vel má vera, að einhver vildi taka jörð á erfðaleigu, þó að hann væri ekki reiðubúinn til að kaupa hana, og jörðin gæti alls ekki síður orðið í varanlegri ábúð með því móti.

En áður en ég flutti þessa brtt. og áður en till. landbn. komu fram, hafði ég lagt fram aðra brtt. við frv. Hún er á þskj. 297 og er um það, að 13, gr. frv. falli burt, en í 13. gr. segir, að um leið og lög þessi öðlast gildi, skuli falla úr gildi lög nr. 92 frá 1936, um jarðakaup ríkisins. Nú hefur hv. landbn. einnig flutt till. um þetta, en ég sé ekki annað en að hún sé efnislega alveg eins og greinin er í stjfrv., svo að það breytir engu. Í aths. með stjfrv. segir aðeins um þetta, að rétt þyki að fella þessi lög úr gildi, en það er ekkert sagt frá því, hvers vegna þetta þyki rétt. Að vísu er það sagt, að nú að undanförnu, skilst mér, hafi þessi heimild ekki verið notuð, ríkið hafi ekki keypt jarðir skv. lögunum, en ég vil benda á, að það getur hvenær sem er komið að því, að menn óski eftir að nota þessa heimild, að selja ríkinu jörð og fá hána á erfðaleigu, því að satt að segja árar ekki það vel fyrir þeim mönnum, sem vilja hefja búskap, að það getur vel komið til greina, að menn vildu einmitt eiga þess kost að fá jörð á erfðaleigu, jörð, sem ríkið ætti.

Það var nokkuð um það, að þessi heimild væri notuð fyrst eftir að lögin voru sett 1936. En síðan hefur það skeð, að allmargir af þeim, sem þá seldu ríkinu jarðir sínar og tóku þær á erfðaleigu, hafa fengið þær keyptar, því að löggjöfin hér er svo frjálsleg í þessu efni, að þeir, sem búa á erfðaleigujörðum og hafa búið þar fá ár, eiga rétt á því að kaupa jarðirnar með því skilyrði, að þeir geri þær að ættaróðulum. Þetta hafa allmargir gert, en svo eru líka margir, sem ekki hafa hirt um þetta og búa áfram á erfðaleigujörðum og hafa þar góð kjör.

Eitt af stærstu vandamálum landbúnaðarins nú er það, hve erfitt það er fyrir efnalitla menn að hefja búskap. Það kostar óhemjumikið fé að kaupa jörð, bústofn og vélar og allt, sem til búrekstrar þarf, og það er erfitt að fá þetta fé áð láni, það er erfitt fyrir unga og efnalitla menn að hefja búskap við þessi skilyrði. Það hefur oft verið talað um það, og till. fluttar um að efla veðdeild Búnaðarbankans til að greiða fyrir jarðakaupum, en málinu hefur satt að segja lítið þokað áfram. Það var víst á síðasta hausti, þegar samið var um verð á landbúnaðarvörum, að hæstv. ríkisstj. gekk inn á að gefa fyrirheit um að leggja fram 20 millj. kr. á þessu ári, 1967, til veðdeildar Búnaðarbankans og var það hugsað þannig, að það væri til að greiða fyrir mönnum í sambandi við eigendaskipti á jörðum. Þetta; segir náttúrlega ákaflega lítið, og nú er þannig ástatt með veðdeildina, að hún er algjörlega fjárvana, og það liggja fyrir allmargar umsóknir frá síðasta ári frá mönnum um lán, einmitt í sambandi við jarðakaup, sem ekki hefur verið hægt að sinna. Fyrir fáum dögum talaði ég við bankastjóra Búnaðarbankans, og þá var ekki komin ein króna enn þá af þessum 20 millj., þó að komið sé fram í marzmánuð, og virðist þar ekki hafður mikill hraði á, og getur það bent til þess, að þeir, sem sitja í ríkisstj., séu seinlætismenn eins og Sírak. En vonandi koma nú þessar 20 millj. og það verður auðvitað dálítil úrbót, þó að hún sé algjörlega ófullnægjandi.

En ég var að tala um erfiðleika manna, sem eru að hefja búskap, og það getur verið stórum auðveldara fyrir þessa menn, áhugasama menn, sem eru að hefja búskap í sveit, ef þeir geta fengið ríkisjörð á erfðaleigu, en þurfa ekki að leggjá fé í jarðakaup og standa í því að fá sér lán til þess. Það verður satt að segja nógu erfitt fyrir þá, eins og nú er ástatt í okkar þjóðfélagi, að ná í peninga til að kaupa bústofn og vélar, því að bústofnslán fást engin nú, því miður. Náttúrlega þarf að bæta úr því. Og það er mjög aðgengilegt skv. þessum lögum frá 1936 og hentugt fyrir menn að fá ríkisjarðir á erfðaleigu, því að þær eru leigðar með góðum kjörum. Ég vil segja, að það sé meiri trygging fyrir því, að afkomendur þeirra manná, sem búa á erfðaleigujörðum, geti notið verka þeirra þar en þegar um sjálfseignarjarðir er að ræða. Það er a.m.k. ekki minni trygging, ég vil segja, að í mörgum tilfellum sé hún meiri, ef menn þurfa ekki stöðugt að vera að kaupa jarðirnar.

Það mun vera þannig nú, að meiri hluti baenda hér á landi eru sjálfseignarbændur, og meiri hluti bænda mun helzt kjósa það fyrirkomulag. Á meðan svo er, verður auðvitað meiri hlutinn af jörðum í sjálfsábúð. Það er sjálfsagt fyrir þá, sem telja það heppilegasta fyrirkomulagið að kaupa sínar jarðir og eiga þær, að gera það, hafi þeir möguleika til þess. En þó að ég telji það víst, að meiri hluti bænda sé þannig sinnaður, eru skiptar skoðanir um þetta mál eins og mörg fleiri í okkar þjóðfélagi. Það eru til menn, og þeir eru líka til í hópi bænda, sem líta svo á, að það sé ekkert sáluhjálparatriði fyrir fólk í sveitum landsins, að þar sé hver ættliðurinn á eftir öðrum að strita við að kaupa ábýli sitt og eyða oft til þess miklum hluta ævi sinnar. Þessir menn eru til og það má gjarnan virða þeirra skoðanir líka, því að þar sem ég þekki til er ekkert verr búið á erfðaleigujörðum í eigu ríkisins en á sjálfseignarjörðum yfirleitt, og þar hafa verið gerðar umbætur á síðustu árum ekkert síður en á þeim jörðum, sem eru í sjálfsábúð. Menn hafa í raun og veru meiri möguleika til þess, ef þeir þurfa ekki stöðugt að vera að leggja fjármuni í það að eignast ábýli sitt.

En sem sagt, nú vill hæstv. ríkisstj. og landbn. líka fella þessa gömlu lagaheimild niður. Ég sé ekki, hvaða tilgangi það þjónar, ég sé ekki, að þessi l. frá 1936 séu nokkrum manni til meins. Skv. þeim er ekki tekinn eignarumráðaréttur af einum einasta manni yfir jörð, sem hann býr á, nema hann óski þess sjálfur. Og hvers vegna má ekki þessi heimild vera áfram í l., svo að það sé möguleiki fyrir ríkið að eignast jarðir og leigja þær mönnum, sem vilja fá ríkisjarðir á leigu og tryggja sér þar með varanlega ábúð og afkomendum sínum, ef þeir vilja? Hvers vegna má þetta ekki vera í lögum? Þess vegna hef ég, eins og ég sagði áðan, leyft mér að leggja fram brtt. um það, að 13. gr. frv. falli niður. Ég tel, að það sé sjálfsagt að hafa þessa heimild í l., eins og ég sagði, hún er engum til meins, en getur komið að góðu gagni. Mér þætti það ekkert ótrúlegt, þó að frv. verði samþ. núna eins og það er, að að því komi innan skamms, að slík heimild verði aftur sett í l., vegna þess að þörfin kalli á hana, þörf margra manna, sem vilja búa í sveit, en hafa ekki efni á því eða möguleika á því að kaupa jarðir dýru verði og vilja gjarnan nota sér þann möguleika að fá jörð, sem ríkið á, til varanlegrar ábúðar með hagstæðum erfðaleigukjörum. Það er á það að líta, að þeir, sem búa á ríkisjörðunum með erfðaleigukjörum, hafa algerlega sömu umráð yfir sinni ábúðarjörð til búrekstrar eins og þeir ættu hana sjálfir, það er enginn munur á því. Eini munurinn er sá, að þeir geta ekki gert sér vonir um að selja jörðina með ágóða, jörðina sjálfa, en það tel ég engan skaða vera, þó að þeir hafi ekki möguleika til þess. Það er nú þannig ástatt núna í sveitunum, að það er lítið um það, að menn græði á jarðarsölu, a.m.k. lítur ekki út fyrir, að þeir sjálfseignarbændur, sem nú á að bjarga skv. þessu frv. með því að kaupa af þeim jarðirnar, þegar þeir þurfa af vissum ástæðum að hætta að búa, græði peninga á því að hafa átt jarðirnar, það er ekki útlit fyrir það.

Já, herra forseti, ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Þessar brtt. mínar báðar liggja fyrir, sú fyrri um það að bæta inn í till. landbn. heimild til þess að byggja á erfðaleigu þær jarðir, sem keyptar verða eftir l., ef þetta frv. verður að l., jafnframt því sem heimilað verði að selja jarðirnar einstaklingum til ábúðar. Hin síðari er um, að 13. gr. falli burt og hér verði í l. áfram heimild fyrir ríkið til að kaupa jarðir með þeim skilyrðum, að þær verði byggðar á erfðaleigu. Ég tel heppilegt fyrir okkar landbúnað, að þetta geti hvort tveggja haldizt í hendur, sjálfsábúð fyrir alla, sem það kjósa og hafa möguleika til þess, og einnig erfðaleiguábúð á ríkisjörðum fyrir þá, sem ekki hafa möguleika til að kaupa jarðir eða kjósa hitt fyrirkomulagið heldur.