05.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti: Í 8. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að landbrh. skipi þrjá menn í n. til fjögurra ára í senn til þess að meta kaupverð jarða skv. 4. gr. Einn þessara nm. skal skipaður skv. tilnefningu fjmrn., annar skv. tilnefningu Stéttarsambands bænda, sá þriðji skv. tilnefningu Hæstaréttar og vera form. n. Það er þessi þriggja manna n., sem á að senda landbrn., jarðeignadeild, matsgjörð ásamt till. og umsögnum sínum um jarðakaup skv. þessu frv., en síðan á landbrh. að taka ákvörðun um, hvort kaupin skuli gerð. Ég tel, að þessi ákvæði 8. gr. séu alveg fullnægjandi til þess að l. nái tilgangi sínum um kaup á jörðum og skal ekki fjölyrða um mína afstöðu til málsins að öðru leyti en því, að ég tel að ákvæði í 4, gr., sem hljóðar svo: „Kaupverðið má ekki vera hærra en fasteignamat jarðanna er á hverjum tíma,“ sé algerlega óþarft og eigi að falla burt, eins og hér hefur verið lagt til. Þetta ákvæði getur gert það að verkum, að einmitt í þeim tilfellum, þar sem mest er ástæðan til þess, að Jarðeignasjóður ríkisins láti að sér kveða og hlaupi undir bagga með manni, sem verður að fara frá sinni jörð, fái hann engar bætur, sem neinu nema, og l. séu honum þannig engin hjálp. Þess vegna held ég, að frv. sé gert nálega gagnslaust með því að setja þetta ákvæði inn í 4. gr. Ég vil taka undir óskir þær, sem hér hafa verið bornar fram til þm. um það að auka gildi þessa frv., þessarar lagasetningar, með því að fella þetta hámarksákvæði í 4. gr. niður, sem er miðað við fasteignamat jarðanna, því það mundi þýða það, að margur bóndinn fengi svo litlar bætur, að það næmi honum engu, og þá væri tilgangi l. alls ekki náð. Ég legg því áherzlu á, að það fáist samkomulag um það, að ákvæðið í 4. gr. um að kaupverðið megi ekki vera hærra en fasteignamat jarðanna á hverjum tíma falli niður. Þó að við vitum, að nýja fasteignamalið muni nú hækka, þá er það alveg áreiðanlegt, að þetta ákvæði setur þarna of þröng mörk, og það ætti að mega fulltreysta n., eins og hún er skipuð skv. 8. gr., til þess að ákveða verð eða gera till. til ráðh. um verðið, en hann á svo að skera úr um, hvort verði af kaupum eða ekki. Mér virðast ákvæði 8. gr. vera alveg nægileg og þetta ákvæði eigi því að falla niður.