27.02.1967
Efri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

6. mál, almannavarnir

Frsm. meiri hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um breyt. á l. um almannavarnir nr. 94 29, des. 1962, eins og fyrirsögn þess gefur til kynna. Lög um almannavarnir fjalla fyrst og fremst um viðbúnað gegn hættu af völdum hernaðaraðgerða. Margir líta hins vegar svo á, að hætta af völdum hernaðaraðgerða sé öllu fjarlægari en hætta af völdum náttúruhamfara, s.s. eldgosa eða jarðskjálfta. Því var það, að á síðasta þ. var flutt þáltill. um, að Alþ. skoraði á ríkisstj. að láta endurskoða lög um almannavarnir í því skyni að fella inn í þá löggjöf fyllri ákvæði um almannavarnir gagnvart hættum af völdum slíkra náttúruhamfara. Till. þessi varð síðbúin og varð ekki afgr. af þeim sökum. Hins vegar hefur dómsmrn, af þessu tilefni látið semja frv. það, sem hér liggur fyrir, og notið til þess fulltingis forstöðumanns almannavarna og almannavarnaráðs. Efni frv. er í stórum dráttum það, að auk þess, sem hlutverk almannavarna er að skipuleggja og framkvæma ráðstafanir, sem miði að því að koma í veg fyrir, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkamstjóni eða eigna af völdum bernaðaraðgerða, skuli þær einnig hafa viðbúnað til þess að mæta náttúruhamförum eða annarri vá, eins og það er orðað í frv., og veita líkn og aðstoð, þegar slíkt ber að höndum. 1. gr. frv. fjallar um þetta.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að bætt verði í 4. gr. l. ákvæði um, að forstöðumaður almannavarna skuli fylgjast með og stuðla að athugun vegna hættu af ísalögum, eldgosum eða annarri vá.

3. gr. frv. fjallar um, að bætt verði í 7. gr. l. ákvæði um, að ráðh. sé heimilt að ákveða, að landshlutar hafi samstarf um almannavarnir og veiti gagnkvæma aðstoð. Er það einkum talið heppilegt eða nauðsynlegt í sambandi við fjarskiptaþjónustu að geta skipt landinu í nokkuð stór almannavarnaumdæmi, m.a. með tilliti til mismunandi þéttbýlis og mismunandi hættu.

4. gr. frv. felur í sér orðalagsbreyt. á 9. gr. l. til samræmis við væntanlega breyt. á 1. gr. þeirra. Allshn. þessarar d. hefur fjallað um frv. nú um nokkurt skeið og hefur sent það til umsagnar Slysavarnafélagi Íslands og Rauða krossi Íslands. Rauði krossinn eða stjórn hans hefur ekki svarað bréfi n., en stjórn Slysavarnafélagsins hefur sent umsögn um frv. og gerir engar aths. við það, en lætur þess getið, að hún telji eðlilegt og mælir með því, að almannavarnanefndir hafi samstarf við björgunarsveitir Slysavarnafélags Íslands. 6 nm. í allshn. leggja til, að frv. verði samþ., en hafa áskilið sér rétt til að bera fram brtt. eða fylgja brtt., eins og greint er í þskj. nr. 267, sem er nál. meiri hl. allshn. Einn nm., hv. 9. þm. Reykv., hefur skilað séráliti. Hann leggur til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, og mun væntanlega gera grein fyrir þeirri skoðun sinni nú á eftir.