17.04.1967
Neðri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

158. mál, almenningsbókasöfn

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. tók fram, er n. sammála um frv. í aðalatriðum, en við erum þrír nm., sem flytjum brtt. við það. Auk mín eru það hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Norðurl. e. Brtt. er á þskj. 528. Hér er lagt til í þessu frv. að stofna sérstakan sjóð, að nafni Rithöfundasjóður Íslands, og úr þeim sjóði á að greiða rithöfundum, sem eiga rithöfundarrétt að bókum í almenningsbókasöfnum. Tekjur sjóðsins eiga að vera 10% álag á fjárveitingar ríkisins til almenningsbókasafna og auk þess 10% álag á þá fjárhæð, sem bæjar-, sveitar- og sýslusjóðir leggja til þessara safna. Okkur sýnist, að einu sinni enn sé verið að íþyngja sveitarfélögum með slíkri till. sem þessari, þar sem á að fara að bæta þannig við skatti á framlög þeirra, sem þau leggja til bókasafna. Þetta er daglegur viðburður orðinn, að bæjarfélögum sé þannig íþyngt, og okkur finnst þetta alveg að ástæðulausu. Á þessum síðustu vikum er búið að koma við hagsmuni sveitarfélaganna á tvennan hátt, annars vegar er skorið niður framlag jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga, hins vegar er lagt til í skólafrv., að nú skuli sveitarfélög fara að greiða hluta af rekstrarkostnaði í ríkisskólunum. Og það þriðja í röðinni er svo þetta. Hins vegar hefur ríkissjóður sjálfur ekki lagt til þessara almenningsbókasafna það, sem maður skyldi ætla, að hann hefði getað gert, þegar þess er gætt, hvernig fjárl. hafa hækkað annars vegar, en hins vegar, hver framlög ríkisins hafa verið á undanförnum árum til almenningsbókasafna. En þessi framlög ríkisins hafa verið, síðan lög nr. 22 frá 26. apríl 1963 voru sett um almenningsbókasöfn: 1964 3 millj. 113 þús., 1965 3½ millj., 1966 3 millj. 760 þús. og 1967 4 millj. Á þessum árum hafa þá framlög ríkisins til þessara almenningsbókasafna hækkað um 28%. En á sama tíma hafa fjárl. hækkað úr 2700 millj. í 4700 millj. eða um 74%. Það sýnist því ekki vera neitt ofverk fyrir ríkissjóð að leggja fram þetta gjald til hins nýja rithöfundasjóðs, og þess vegna leggjum við til, að í staðinn, fyrir ákvæði í 1. gr. þessa frv. um framlag úr bæjar-, sveitar- og sýslusjóðum komi eitt framlag úr ríkissjóði, sem sé 25%, og mundi það þá vera aðeins ríflegra framlag til rithöfundasjóðsins heldur en hann fengi skv. frv. Það má geta þess, að þó að sýslusjóðir séu nefndir hér sem þriðji aðilinn til að greiða fé í þennan sjóð, er það ekkert annað en sveitarfélögin, því að sýslusjóðirnir hafa enga aðra möguleika en að hækka sýslusjóðsgjöldin, svo að sveitarfélögin verða að greiða meira.

Ég vænti þess, að hv. d. geti fallizt á þessa brtt. og frv. verði samþ. þannig.