11.04.1967
Efri deild: 62. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til meðferðar frv. það, sem hér liggur fyrir, og eins og nál. á þskj. 432 ber með sér, leggja allir þeir nm., sem staddir voru á þeim fundi, sem n. afgreiddi málið, til, að það verði samþ. óbreytt. Mér er fyllilega ljóst, að nauðsynlegar eru áður en langt um líður frekari breytingar á kjarasamningalögunum heldur en þær, sem í þessu frv. felast, og ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það með hv. 3. þm. Norðurl. v., sem kvaddi sér hljóðs, þegar málið var til 1. umr., að æskilegt hefði verið að geta jafnhliða því, sem í þessu frv. felst, tekið fyrir aðrar nauðsynlegar breytingar á kjarasamningalögunum. Að mínu áliti er vel hægt að skilja það, að opinberir starfsmenn séu orðnir nokkuð langeygðir eftir árangri af skipun þeirrar n., sem fjallað hefur nú á 3. ár um kjarasamningalögin.

Hitt verðum við að gera okkur ljóst, og í því efni get ég fyllilega tekið undir með hæstv. fjmrh., að hér er um flókin mál að ræða, og það munu ekki nein einsdæmi, þegar slíkar opinberar nefndir eru skipaðar, gjarnan mönnum, sem störfum eru hlaðnir að öðru leyti, að störf þeirra dragist á langinn, ekki sízt, þegar um slíkt mál er að ræða sem hér, þar sem víðtækar athuganir þarf að gera á afleiðingum þess, ef breytingar verða gerðar. Það er því í sjálfu sér ekki að undra, þó að afgreiðsla mála dragist nokkuð á langinn, og munu þess vafalaust mörg dæmi, að slíkar n. hafi setið að störfum lengri tíma heldur en hér er um að ræða. Annars er það síður en svo ætlun mín að fara að ræða hér almennt um kjaramál opinberra starfsmanna, en það er einn þáttur þeirra, sem ég get þó ekki stillt mig um að fara nokkrum orðum, um að gefnu sérstöku tilefni við 1. umr. málsins, og það er samningsréttur háskólamenntaðra manna.

Eins og flestum hv. þdm. er kunnugt, hafa verið uppi um það háværar kröfur frá BHM og einstökum aðildarfélögum þess bandalags að fá samningsrétt í eigin hendur fyrir meðlimi sína. Að vísu kemur það mér nú nokkuð á óvart, sem mér skildist, að hv. 3. þm. Norðurl. v. gæfi í skyn, að stjórn BSRB væri þegar fyrir sitt leyti búin að samþykkja ákveðna breyt. í þessa átt. En hvað sem því líður, get ég fullyrt það, að innan stjórnar bandalagsins er fullur skilningur á óskum háskólamenntaðra manna í þessu efni. Það er að vísu nú orðið á 3. ár síðan ég hef átt sæti í stjórn bandalagsins, þannig að ég get ekki talað hér sem neinn fulltrúi fyrir bandalagsstjórnina, en þessi mál var þegar oft farið að bera á góma, þegar ég síðast átti sæti í bandalagsstjórninni, og ég vænti þess ekki, að veruleg breyt. hafi orðið á viðhorfum bandalagsstjórnarinnar í þessu efni. Mér er kunnugt um það, að þáv. og raunar núv. formaður bandalagsins og bandalagsstjórnarmeðlimir almennt höfðu góðan skilning á þessum málum og munu út af fyrir sig vera reiðubúnir til að fallast á nýja skipan þeirra að því leyti, sem slíkt þó samrýmist hagsmunum heildarsamtakanna. Fyrir hinu má þó ekki loka augunum, að hér er ýmiss konar vandi á höndum, sem gera verður sér grein fyrir, hvernig leysa má, ef horfið verður í einhverri mynd að nýrri skipan þessara mála, og vil ég þá benda á, að málið er ekki svo einfalt, að það sé ákveðinn fjöldi félaga háskólamenntaðra manna í BSRB, þannig að hægt sé að leysa það á þann einfalda hátt, að umboð þeirra félaga, sem sum hver a.m.k. munu einnig vera aðilar að BHM, flytjist yfir til þeirra samtaka. Það hafa verið aðeins 4 félög háskólamenntaðra manna í BSRB. Það voru nánar tiltekið Prestafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Félag starfsmanna Háskóla Íslands og Félag menntaskólakennara. Samanlögð tala meðlima þessara félaga mun varla hafa verið yfir 300, eða rúml. 5% af meðlimatölu BSRB í heild.

Eitt þessara félaga, Læknafélag Íslands, hefur síðar gengið úr bandalaginu, en í því sambandi má þó vekja athygli á því, að það var aðeins hluti af Læknafélagi Íslands, sem hafði aðild að bandalaginu, héraðs- og embættislæknar. Nei, flestir háskólamenntaðir menn í þjónustu ríkisins eru aðilar að öðrum félögum. Í einu tilviki, eða hvað snertir Landssamband framhaldsskólakennara, hafa háskólamenntaðir menn að vísu gengið úr slíkum samtökum og myndað sitt eigið félag, sem hefur aðild að BHM. En einmitt þetta, að háskólamenntaðir menn, sem starfa í þjónustu hins opinbera, hafa aðild að öðrum einstökum bandalagsfélögum, en eru yfirleitt ekki í sérfélögum, gerir þetta viðkvæmt vandamál líka innan þessara einstöku félaga. Og einn sá vandi, sem leysa þarf, áður en þessum málum er ráðið til lykta, er auðvitað sá, hvernig eða eftir hvaða reglum eigi að draga markalínurnar á milli BSRB og BHM í þessum efnum. Maður getur hugsað sér þá leið, að BHM fari með samningsumboð fyrir alla háskólamenntaða menn, sem eru í þjónustu ríkisins, óháð því, hvaða störfum þeir gegna. Og í öðru lagi væri hægt að hugsa sér það, að BHM færi með samningsumboð þeirra, sem gegna stöðum, þar sem krafizt er skv. l. og reglum, að háskólamenntun þurfi til að fá að gegna slíkum störfum. Í þriðja lagi gæti líka komið til greina að BHM fari með samningsumboð þeirra, sem í senn eru háskólamenntaðir og gegna störfum, sem háskólamenntun þarf til. En fyrir því verður auðvitað að gera sér grein, hvaða leið á að fara í þessum efnum og hver leiðin, sem valin mundi verða, mundi skapa sín vandamál án þess að ég reki það nánar. Ég skal vissulega taka það fram, að ég álít ekki, að hér sé um neinn óleysanlegan vanda að ræða, en það verður að gera sér grein fyrir því, hvernig þennan vanda skuli leysa, áður en málunum er ráðið til lykta, og margt er það fleira í þessu sambandi, sem auðvitað verður að gera sér grein fyrir, hvernig nánar skuli skipa, ef þessi leið verður valin.

Og annar vandi kemur hér auðvitað líka til, sem hæstv. fjmrh. drap á í ræðu sinni við 1. umr. málsins, og það er þetta, að þó að háskólamenntaðir menn vissulega hafi sína sérstöðu, sem taka þarf tillit til, geta það verið fleiri starfshópar, sem óska eftir því sama, þannig að þá verður að finna þann gullna meðalveg í því efni að gæta þess annars vegar, að samningsrétturinn dreifist ekki á allt of margar hendur, sem getur orðið til þess að skapa meira eða minna öngþveiti í þessum málum, og svo hins vegar að taka tillit til þess, að allir starfshópar hafi a.m.k. aðstöðu til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, þegar samið er um kjaramál. Mér er óhætt að fullyrða það, hvað sem öllu öðru líður, þó að ég, eins og ég áðan tók fram, tali ekki hér sem neinn fulltrúi fyrir núverandi bandalagsstjórn, að BSRB hefur viljað taka fullt tillit til óska háskólamenntaðra manna við samningagerðina, og sýnir það sig m. a. í því, að það hefur alltaf þótt sjálfsagður hlutur, þrátt fyrir það, að þeir, sem eru meðlimir í félögum háskólamenntaðra manna, séu aðeins um 5% af tölu meðlima bandalagsins í heild, að þeir ættu a.m.k. 1 af 5 kjararáðsmönnum, sem fara með samningsréttinn fyrir hönd bandalagsins. Og þar sem það hefur alltaf þótt sjálfsagt, að formaður bandalagsins ætti sæti í kjararáði, hafa háskólamenntaðir menn þannig í rauninni ráðið 1 af 4, sem bandalagið hafði frjálsan rétt til að ákveða, hverjir ættu þar sæti í kjararáði. Á þetta vildi ég nú leyfa mér að benda. Enn fremur á það, að þó að háskólamenntaðir menn hafi vissulega ástæðu til þess að vera óánægðir með launakjör sín, hafa þó kjarasamningalögin þrátt fyrir allt verið stórt spor í áttina til þess, að nokkur leiðrétting fengist þó á þessum efnum, því að með fyrsta kjaradómi, sem upp var kveðinn, fengu háskólamenntaðir menn yfirleitt miklu meiri launahækkanir heldur en almennar voru hjá opinberum starfsmönnum, í mörgum tilvikum launahækkun um 80% eða jafnvel meira. Nú var það að vísu svo, að þessi launakjör voru mjög bágborin og orðin fráleit fyrir, en hér var þó um verulega leiðréttingu að ræða. Og á það má sérstaklega benda, að ég dreg mjög í efa, að slík leiðrétting hefði fengizt, ef það hefði ekki verið þannig, að það var bandalagið, sem tók það upp á sína arma að leggja sérstaka áherzlu á leiðréttingu á launakjörum þessara manna. Ég get í þessu efni talað af nokkurri reynslu, af því að ég hef verið formaður þessara samtaka lengur en nokkur maður annar hingað til og því átt í samningum um launakjör við ýmsa ráðh. af ýmsum flokkum. Og sameiginlegt öllum var það, að ef farið var fram á leiðréttingar fyrir láglaunafólk, sem gegndi hliðstæðum störfum hjá því opinbera eins og unnin voru á almennum launamarkaði, voru allir þessir ráðh. til viðtals um það út af fyrir sig að gera á því leiðréttingu og líta á þau rök, sem fram voru borin fyrir því.

Ef hins vegar var farið inn á að benda á það v arðandi háskólamenntaða menn og þá, sem gegndu hæstu ábyrgðarstöðum, að nauðsynlegt væri að leiðrétta kjör þeirra jafnvel meira heldur en annarra, kom annað hljóð í strokkinn og sagt á þá leið, að ef það á að fara að hækka laun sýslumanna, lækna og presta meira heldur en annarra, þá verður allt vitlaust. Það held ég, að allir þessir ráðh. hafi sagt, hvar í flokki, sem þeir voru. Fólkið unir því ekki, þó að út af fyrir sig megi kannske færa einhver rök fyrir því, að slíkt sé réttmætt eða nauðsynlegt.

En svo tók bandalagið þetta upp á arma sína, því að innan þess náðist samkomulag um launaflokkun, og það samkomulag var svo á sínum tíma staðfest af fjmrn. Það var ekki Kjaradómur, sem kvað upp þann úrskurð, þó að hann ákvæði hins vegar launakjörin í einstökum flokkum. Þá var hægt að segja: „Það er láglaunafólkið í bandalaginu, sem stendur að baki þessum kröfum og styður þær.“ Ég hugsa, að það hafi verið fátt, sem hafi frekar skapað siðferðilegan grundvöll fyrir því, að hægt væri að gera þetta, en einmitt þessi staðreynd. Ég hugsa, að á þeim tíma hefði verið erfiðara að koma þessari leiðréttingu í kring, ef háskólamenntaðir menn hefðu einir farið með sinn samningsrétt.

Annað mál var það, að þó að samkomulag næðist um þetta innan samtakanna, er það öllum hv. þdm. í fersku minni, að viðbrögðin utan þessara samtaka við kjaradómnum 1963 voru annars eðlis, því að meginrökin fyrir þeim miklu launakröfum, sem voru bornar fram um áramótin 1963–1964, voru ekki þau, að atvinnuvegirnir gætu borið þær miklu kauphækkanir, sem þá var gerð krafa um, því að það var öllum ljóst, að var ekki mögulegt, heldur að opinberir starfsmenn höfðu fengið svona mikla hækkun og þess vegna þyrftu allir aðrir að fá sömu hækkun eða jafnvel meira. Það kom þá í ljós, að hjá almenningi vantaði skilning á því, að leiðréttinga væri í þessu efni þörf, og ég vil ljúka þeim orðum, sem ég mæli hér í þessu tilefni, með því að benda á það, að vissulega þarf að endurskipa þessi samningamál og taka það til mjög alvarlegrar athugunar m. a., hvort ekki er eðlilegt, að háskólamenntaðir menn hafi sinn eigin samningsrétt og fundnar séu leiðir til þess að koma því fyrir á hagkvæman hátt. En grundvallarvandamálið, sem hér er um að ræða, leysist þó að mínu áliti ekki með því einvörðungu.

Nú er það að vísu þannig, að þó að ég vitnaði áðan í þá ýmsu fjmrh. og aðra ráðh., sem ég stóð í samningum við, að það má ekki líta á það sem mína skoðun. Mönnum sést oft yfir það, að þó að laun háskólamenntaðra manna, t.d. lækna, verkfræðinga o.s.frv. séu hækkuð, þýðir það ekki tekjutilfærslu á milli þjóðfélagsborgaranna. Það er eðlismunur á slíku og t.d. því, þegar skattar eru heimtir af borgurunum til þess að greiða ellistyrki og aðrar bætur skv. almannatryggingum, þar sem um hreina tekjutilfærslu er að ræða. En hér er um að ræða greiðslu fyrir þjónustu, sem þessir aðilar inna af hendi, og að mínu áliti einmitt sérstaklega, þegar um háskólamenntaða menn er að ræða, má fullyrða, að gæði þessarar þjónustu fara m, a. eftir því, hvað borgað er fyrir hana. Læknar, verkfræðingar, háskólakennarar o. fl. þurfa að fylgjast með í sínum vísindagreinum, og til þess að svo verði þurfa viðkomandi að kynna sér nýjungar í þessum málum erlendis öðru hverju, og til þess að standa undir kostnaði við það er í rauninni yfirleitt ekki öðrum fjármunum til að dreifa heldur en launum þessara manna. Einn og einn maður getur að vísu fengið styrk úr opinberum vísindasjóðum eða á annan hátt frá því opinbera. En það hlýtur að verða mjög takmarkað og allir slíkir styrkir eins og kunnugt er, mjög undir smásjánni. En það er fyrst, þegar skilningur verður almennari heldur en nú er á þessum málum, sem von er til þess, að á þeim fáist eitthvað í áttina við það að vera viðunandi leiðrétting, og þó að það sé að mínu áliti sjálfsagt, eins og ég sagði, að vinna að því að koma skipulagi þessara mála í betra horf heldur en nú er, verða vandamálin aldrei leyst einvörðungu með því.