11.04.1967
Efri deild: 62. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér finnst, að ég geti ekki setið hjá við þessar umr., þar sem ég var nú einn af þeim mönnum, sem átti sæti í þeirri n., sem annazt hefur endurskoðun kjarasamningalaganna, og þeirri n., sem þetta frv. er komið frá, sem hér er til umr.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur haldið því fram, að BSRB muni fyrir sitt leyti geta fallizt á það, að BHM fái samningsrétt. Ég verð nú að játa það, að mér koma þessar upplýsingar nokkuð á óvart. Þessi mál voru talsvert rædd innan þessarar n., þar sem fulltrúar BSRB áttu fulltrúa, og ég stend í þeirri meiningu enn í dag, að BSAB fallist ekki á sjálfstæðan samningsrétt til handa BHM. Þessi hv. þm. vitnaði til einhverrar yfirlýsingar. Ef til vill hefur þetta verið einhver loðin yfirlýsing, sem hann hefur misskilið, en út af fyrir sig er kannske ástæðulítið að deila um þetta, vegna þess að það er ekkert annað en óska eftir skýrum svörum frá BSRB um þetta, en ég verð að fullyrða það, að í þessari n. kom sú afstaða bandalagsins ekki fram, að það myndi fallast á kröfur BHM um samþykkt. En þegar rætt er um kröfur BHM um sjálfstæðan samningsrétt, þarf að mínu áliti að skoða þetta nokkuð dýpra en aðeins að líta á þau vandkvæði, sem ýrðu á að skipta einstökum ríkisstarfsmönnum og starfsmannahópum upp á milli þessara tveggja bandalaga, sem vissulega getur verið vandamál út af fyrir sig, eins og getið er um og hefur komið fram í þessum umr. Það, sem ég álít, að verði fyrst og fremst að skoða, er í raun og veru grundvallarástæðan til þess, að menn, sem hafa einhverja tiltekna menntun, einhverja meiri menntun en aðrir starfsmenn ríkisins, hafi sérstakan samningsrétt. Er einhver grundvallarástæða til þess, að menn, sem eru háskólagengnir, semji sér? Gætu þá ekki alveg eins þeir, sem eru kennaraskólagengnir, samið sér, og aðrir, sem hafa sambærilega menntun, gætu þá samið sér, þó að þeir séu ekki háskólagengnir. Það er fyrst og fremst þetta, sem ég held, að á verði að líta. Og eftir nútímakenningum um uppbyggingu launþegasamtaka og samningsrétt, sem að vísu eru nú óvíða kannske komnar í framkvæmd, er það ekki stefnan að kljúfa sundur aðildina, heldur eiga allir þeir starfsmenn eða launþegar, sem vinna hjá sama fyrirtæki eða sömu stofnun, að semja út af fyrir sig. Þannig að ef það ætti að fara að kljúfa bandalagið eða láta marga aðila hafa samningsrétt gagnvart ríkinu, sem ég er þó alls ekki að mæla með, gæti alveg eins verið ástæða til þess að gera það á annan hátt, t.d. þannig, að þeir, sem störfuðu hjá tiltekinni ríkisstofnun, hefðu sérstakan samningsrétt, allir starfsmenn þar, alveg án tillits til menntunar eða ábyrgðar eða hvaða starfi þeir gegndu. Og ég er þeirrar skoðunar, að ef BHM fengi sérstakan samningsrétt, myndi þetta klofna. Þá myndu aðrir hópar koma í kjölfarið. Þá myndu t.d. Samband ísl. barnakennara, Símamannafélagið og önnur slík fjölmenn samtök fylgja á eftir. Þau myndu koma í kjölfarið, og þetta myndi allt leysast upp. En það er út af fyrir sig rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. segir, að þetta getur náttúrlega klofnað af öðrum ástæðum. Ef gert er mikið að því að semja við einstaka hópa utan við kjarasamningalögin, þá getur auðvitað þetta kerfi brostið, án þess að það komi til, að einhverju sérstöku bandalagi verði veittur sjálfstæður samningsréttur með lagaheimild. En ég held, að þegar menn eru að velta því fyrir sér, hvort BHM á að fá sjálfstæðan samningsrétt, verði maður að gera það upp við sig, hvort þessi hópur manna hefur einhverja þá sérstöðu umfram aðra hópa ríkisstarfsmanna að það sé eðlilegt, að þeir semji sér. Út af fyrir sig verðum við að gera okkur grein fyrir því, að hver stétt ríkisstarfsmanna stendur í þeirri meiningu, að ef hún fái sjálfstæðan samningsrétt og semji sjálf um sín kjör, fái hún betri kjör, og háskólaborgarar eru engin undantekning í þeim efnum, en þetta geta allir aðrir sagt, sem kæmu á eftir: „Við viljum semja sér, við viljum ekki vera háðir einhverjum fjöldasamtökum.“ En ég er hræddur um, að þá myndi þetta kerfi fljótt brotna niður: En um þetta atriði, hvort BHM á að fá sjálfstæðan samningsrétt, má mikið ræða. Hér er e.t.v. ekki nægjanlegt tilefni til þess að eyða tímanum í þetta núna, af því að þetta mál er ekki beinlínis á dagskrá, þó að það sé skylt því frv., sem hér er verið að fjalla um og felur í sér minni háttar breyt. á kjarasamningalögunum, sem allir eru sammála um.