18.03.1968
Neðri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér liggur fyrir hv. d., hefur verið afgreitt í Ed. og gerðar á því þar töluverðar breytingar frá því, að það var lagt fyrir þá d. Svo sem sagði í grg. frv., var frv. samið af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og flutt óbreytt eins og sambandsstjórnin gekk frá því, og var tekið fram af hálfu ríkisstj., að þó að hún efnislega vildi gjarnan stuðla að því að leysa þessi vandamál sveitarfélaganna, væru frá hennar hálfu engar ákveðnar skoðanir á því, hvort það ætti nákvæmlega að leysast með þessum hætti eða ekki, og væri því ætlazt til þess, að n., sem fékk málið til meðferðar, kannaði það til hlítar og gerði sér grein fyrir því, hvaða úrlausn líklegast væri að fá samstöðu um.

Í frv. fólst, eins og það var lagt fyrir þingið, í fyrsta lagi að setja inn í tekjustofnal. ákveðna skýringu á því, hvernig skyldi túlka ákvæði tekjustofnalaga um blandaðan atvinnurekstur. Þetta stafaði af því, að nýlega hafði gengið hæstaréttardómur, þar sem var ógiltur sá háttur, sem fylgt hafði verið af hálfu sveitarstjórna og niðurjöfnunarnefnda um land allt varðandi framkvæmd álagningar á blandaðan atvinnurekstur. Þótti því sveitarstjórnasambandinu nauðsyn bera til þess að lögfesta um þetta ákveðna reglu og taldi þá eðlilegast, að lögfestur yrði sá skilningur, sem fylgt hafði verið í framkvæmd. Um þetta varð töluverður ágreiningur í fjhn. Ed., og varð niðurstaðan sú, að d. samþykkti brtt., sem borin var fram af 1. minni hl. n., þremur nm., þar sem gengið var að verulegu leyti til móts við þennan skilning Sambands ísl. sveitarfélaga, en þó gerðar nokkrar takmarkanir, þar eð nm. þótti eðlilegt, að þetta væri ekki útfært svo víðtækt sem sveitarstjórnasambandið hafði talið nauðsyn bera til. Ég hygg, að það megi segja eftir atvikum, að þessi niðurstaða d., sem byggist á till. 1. minni hl. n., sé eðlileg og fullnægi þeim óskum, sem fram komu hjá sveitarstjórnasambandinu, en það var hins vegar ljóst, að ef ekki yrði sett neitt ákvæði um þetta efni, kynni það að leiða til þess, að það yrði að taka upp aftur í stórum stíl álagningu á einstök fyrirtæki og ekki sjáanlegt, til hvers það mundi leiða.

Þá var í frv. ákvæði um það, að til þess að menn skyldu njóta útsvarsfrádráttar við álagningu tekjuútsvars fyrir næsta ár, skyldu menn hafa greitt helming útsvarsins fyrri helming ársins, þannig að ef menn hefðu ekki lokið fyrirframgreiðslu þá, nytu þeir ekki þessara réttinda. Á þessu ákvæði var einnig gerð töluverð breyting og þar sem gert er ráð fyrir því, að ekki sé gengið jafnlangt í þessu efni, en þó að töluverðu leyti fallizt á sjónarmið sveitarstjórnasambandsins, er enn fremur gert ráð fyrir því, að heimilt sé, að þar sem sameiginleg útsvarsinnheimta og skattheimta er, verði gert að skilyrði, að menn hafi greitt öll gjöld sín upp fyrir áramót til þess að geta notið þeirra fríðinda að fá útsvör sín frádregin við útsvarsálagningu næsta ár. Þetta ákvæði mundi í rauninni aðeins, eins og sakir standa, snerta Reykjavíkurborg, vegna þess að það er eina sveitarfélagið, þar sem sameiginleg gjaldheimta er ríkis og sveitarfélaga. Orsök þess, að lögð hefur verið áherzla á að fá inn heimild um þetta efni, byggist á því, að þar sem sameiginleg gjaldheimta er, er óumflýjanlegt að fylgja þeirri reglu að skila skuli af innheimtu fé til þeirra aðila, sem féð eiga, í réttu hlutfalli við þá heildarupphæð, sem á er lögð. En þarna er bæði um að ræða skatt til ríkisins, tekjuútsvar og eignarútsvar til sveitarfélaga, sjúkrasamlagsgjöld o.fl. Hins vegar hefur það af eðlilegum ástæðum komið á daginn, að gjaldendurnir vilja, þegar þeir koma til að greiða inn á sínar skuldir, fyrst og fremst láta greiðslur sínar ganga til þess að gera upp útsvarið, til þess að þeir geti notið þeirra fríðinda, sem heimiluð eru á næsta ári við álagningu tekjuútsvars. Þetta hefur því leitt til þess, að Reykjavíkurborg hefur orðið mjög illa úti að þessu leyti, vegna þess að hún hefur í rauninni orðið að skila útsvörunum til annarra aðila, því að það hefur orðið, eins og ég áðan sagði, að fylgja þeirri reglu að greiða til aðilanna, sem innheimt er fyrir, í réttu hlutfalli við það, hvað Gjaldheimtan fær til innheimtu, hvert er hlutfall þeirrar fjárhæðar, sem Gjaldheimtan fær til innheimtu, hvernig það skiptist á milli þessara aðila. Það er hins vegar gert ráð fyrir því, að þetta takmarkist við þá staði, þar sem um sameiginlega gjaldheimtu er að ræða.

Þá er í 2. gr. frv., eins og það er nú eftir meðferð í Ed., sett inn sérstakt ákvæði, þar sem linað er á þeim kröfum, sem nú eru gerðar til sveitarfélags, ef það vill njóta sérstaks framlags úr jöfnunarsjóði. Hingað til hefur sú regla gilt, að sveitarfélag verður þá að nota til fulls ákvæði tekjustofnal. um álag á útsvarsstiga, sem merkir það, að sveitarstjórn, þar sem erfitt ástand er í sveitarfélagi, verður fyrst að leggja 20% á útsvarsstigann til þess að geta komið til greina við aðstoð frá jöfnunarsjóði. Það hefur af eðlilegum ástæðum komið í ljós, að ef þetta gerist ár eftir ár, að sveitarfélag þarf að nota þessa heimild og leggja 20% ofan á stigann, verður það að sjálfsögðu til þess að magna erfiðleikana, og þegar hér er einmitt um þau sveitarfélög að ræða, þar sem atvinnuörðugleikar eru, er hætt við því, að með þessu magnist vandinn svo, að í rauninni verði aldrei hægt að komast út úr þessum erfiðleikum. Það er hins vegar mikið vandamál að setja reglu sem þessa, því að ekki má heldur ganga of skammt, bæði vegna þess að þá yrði skert mjög framlag það, sem sveitarfélögin almennt fá frá jöfnunarsjóði, og einnig vegna hins, að það getur verið mjög erfitt að setja ákveðnar reglur til þess að kontrolera það, hvenær sveitarfélag á þá með réttu að fá slíkt framlag eða ekki. Það hefur því verið reynt að fara þarna bil beggja, og í 2. gr. frv., eins og hún er nú, er gert ráð fyrir, að þeirri meginreglu verði fylgt, að álagningin eða álagið á skalana verði miðað við meðaltal útsvarsstiga í landinu, en eins og hv. dm. er kunnugt, er oft langt frá því, að útsvarsstigar séu notaðir að fullu, og þetta mundi leiða til þess, að grunnurinn, sem þetta 20% álag á að leggjast á, yrði þá töluvert fyrir innan hámark skalans. Um þetta voru menn sammála — nei, menn voru nú reyndar ekki sammála í hv. Ed., það kom brtt. um að ganga hér enn lengra, en sú brtt. var felld.

Eitt atriði frv. var það, sem engin breyting var gerð við í Ed. og allir dm. voru sammála um, og það var að staðfesta heimild þá, sem í frv. fólst um að leggja mætti á eignaútsvör eftir sömu reglu og gildir nú um eignarskatt til ríkisins, þ.e.a.s. margföldunin er hækkuð upp í níföldun, en hins vegar gert ráð fyrir því, að skalar þeir, sem lagt er á eftir, breytist og verði nú hér eftir þeir sömu og gilda við álagningu eignarskatts.

Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir því að framlengja undanþáguákvæði, sem gildandi eru fyrir ýmis sveitarfélög varðandi álagningu á ýmis hlunnindi, sem menn hafa, og gildandi eru samkv. tekjuskattslögum og reyndar einnig að sumu leyti samkv. útsvarslögum. Sveitarstjórnasambandið hafði farið fram á að framlengja allar þessar undanþáguheimildir. Það þótti hins vegar ekki til tækilegt, þannig að bæði voru þessar heimildir takmarkaðar og jafnframt var tíminn, sem við er miðað, takmarkaður.

Ég held, herra forseti, að ég hafi tilgreint þau helztu atriði, sem fólgin eru í frv. þessu, og vildi ég leyfa mér að vonast til, að hv. Nd. gæti fallizt á frv. í meginefnum a.m.k. eins og það hefur komið frá Ed. Það hefur verið lögð mjög mikil vinna í að reyna að ná þessari niðurstöðu, sem felst nú í frv., eins og það er breytt, og miklar viðræður áttu sér stað milli n. og stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég vil leyfa mér að fara fram á það sama við hv. n., sem fær þetta mál hér til meðferðar, eins og ég gerði í Ed., að frv. verði a.m.k. ekki breytt frá því, sem það er nú, nema því aðeins að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga verði gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum hjá hv. n., áður en hún gengur frá þeim brtt., sem hún kann að flytja. Að öðru leyti vildi ég leyfa mér að fara fram á það, að hv. n., sem fær málið til meðferðar, reyni að hraða störfum sínum svo sem hægt er og athugun málsins. Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.