09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég sé það, að hv. 4. þm. Vestf. er hér ekki viðstaddur, en hann beindi til mín nokkrum vinsamlegum orðum hér áðan. Mér þykir verra, að hann skuli ekki vera viðstaddur, en í tilefni af því, sem hann beindi að mér í sambandi við þær till., sem hér liggja fyrir hjá honum, get ég sagt það, að ég styð báðar og tel þær eðlilegar og réttmætar eins og á stendur. Hann leggur til í fyrsta lagi, að 1. gr. frv. sé látin falla niður. Ég álít það tvímælalaust til bóta, að l. verði í þeim efnum eins og þau eru nú, ég álít það að mörgu leyti æskilega þróun, að skyldur rekstur sé rekinn af einu og sama fyrirtæki, t.d. að útgerð og fiskvinnsla geti haldizt í hendur, rekin af einum aðila, og vil heldur greiða fyrir þeirri þróun. Þess vegna m.a. mun ég fylgja þeirri till. hv. þm. að fella 1. gr. niður. Ég tel líka, að það sé eðlileg ástæða hjá honum að vilja fella niður 5. gr. frv., með því er ekki annað gert en það er staðið við það ákvæði, sem nú er í l. um tekjustofna sveitarfélaga, því að í þeim er gert ráð fyrir, að sú heimild, sem 5. gr. fjallar um, falli niður árið 1967. Og ég tel árferðið nú vera þannig og afkomu atvinnufyrirtækja þannig, þar sem mörg þeirra hafa verið rekin á síðasta ári með tapi, sem stafar af óeðlilegum ástæðum, að þá sé eðlilegt, að þessi heimild sveitarfélaganna verði látin falla niður eins og l. um tekjustofna sveitarfélaga gera ráð fyrir.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér annars hljóðs að þessu sinni er sú, að á seinasta þingi flutti ég hér brtt. við l. um tekjustofna sveitarfélaga, eða breytingu á þeim l., sem þá voru til umr. og meðferðar hér í d., og mín till. þá var á þá leið að gera breytingu á 2. mgr. 33. gr. l. En hún hljóðar svo, með leyfi forseta: „Heimilt er að undanþiggja bætur almannatrygginga útsvarsálagningu að einhverju eða öllu leyti og að lækka útsvör gjaldenda, sem orðnir eru 65 ára.“ Ég flutti á síðasta þingi brtt. þess efnis, að þetta heimildarákvæði yrði fellt niður og það yrði gert að skyldu að undanþiggja bætur almannatrygginga útsvarsgreiðslum. Þetta mál var þá talsvert rætt hér í d., og m.a. flutti hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, sérstaka brtt. við mína till., sem gekk nokkru skemmra heldur en sú till., sem ég hafði flutt. Þetta varð til þess, að málið var tekið til athugunar hjá stjórnarflokkunum, og hæstv. fjmrh. gaf yfirlýsingar hér á Alþ. varðandi þetta mál. Hann hafði sagt það fyrst í sambandi við mína brtt., að fyrir dyrum stæði að koma á svokallaðri sjálfsgreiðslu skatta eða staðgreiðslukerfi skatta og það væri eðlilegt, að þessi brtt. mín yrði tekin til athugunar í sambandi við það mál, því að eftir að því greiðslufyrirkomulagi væri komið á, yrðu reglur að vera hinar sömu í öllum bæjar- og sveitarfélögum í þessu efni. En nú er þetta mjög mismunandi, vegna þess að sum sveitarfélög nota sér þessa heimild, en önnur ekki. Þessi yfirlýsing fjmrh. virðist samstarfsflokki hans ekki hafa nægt, að athugun á þessu máli verði látin bíða, þangað til staðgreiðslukerfið kæmi til athugunar eða framkvæmda, og þess vegna gaf hæstv. fjmrh. svohljóðandi yfirlýsingu á fundi hér í hv. d., sem var haldinn nokkrum dögum síðar, með leyfi forseta:

„Ég tel hins vegar sjálfsagt og vil fyrir mitt leyti ganga til móts við óskir þessara hv. þm. um það að láta taka þetta mál til endurskoðunar, hvað sem annarri endurskoðun líður, þannig að þetta verði tekið til athugunar nú milli þinga og skoðaðar þær röksemdir, sem fram hafa komið frá báðum flutningsmönnum varðandi málið.“

Hér á hann við þær till., sem lágu þá fyrir frá mér og hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal. Og svo seinna, þegar eftir því er gengið, að hv. ráðh. skýri það enn gleggra, hvað hann átti við með þessari yfirlýsingu sinni, þá segir hann á þessa leið, með leyfi forseta:

„Til þess að forðast allan misskilning varðandi yfirlýsingu mína áðan, átti ég ekki við það, að þetta yrði látið bíða heildarendurskoðunar á tekjustofnamálum sveitarfélaga, heldur fól yfirlýsing mín í sér, að það yrði hlutazt til um, að þetta mál sérstaklega yrði athugað fyrir næsta þing.“

Hér liggur m.ö.o. fyrir skýlaus yfirlýsing um það frá hv. fjmrh., gefin á seinasta þingi, að það skuli tekið til athugunar fyrir næsta þing að koma samræmdu skipulagi á það, hvort útsvar yrði lagt á bætur almannatrygginga eða ekki. Ég vildi beina þeirri fsp. til hv. fjmrh., hvort slík endurskoðun hafi nokkuð farið fram og hvort ríkisstj. hefur nokkuð aðhafzt í þessum efnum. En þar sem ekkert hefur komið frá hæstv. ríkisstj. enn um þetta efni á þessu þingi og hér er nú til meðferðar frv. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, þá finnst mér rétt að flytja þessa till. mína að nýju og leyfi mér þess vegna að bera fram svo hljóðandi brtt.: „Eftir 4. gr. komi ný gr., sem orðist svo: 2. mgr. 33. gr. l. orðist svo: Bætur almannatrygginga skulu undanþegnar útsvarsálagningu, og heimilt er að lækka útsvör gjaldenda, sem orðnir eru 65 ára.“

Þetta síðasta ákvæði um 65 ára aldurstakmark er tekið beint upp úr núgildandi lögum. Ég held, að það sé öllum ljóst, að það þrengi núna verulega að því fólki langflestu, sem nýtur bótagreiðslna hjá almannatryggingunum, gömlu fólki, veiku fólki og öryrkjum, og þess vegna sé það sjálfsagt spor að koma til móts við þetta fólk með því að gera það afdráttarlaust, að bætur almannatrygginga skuli undanþegnar útsvarsgreiðslum. Nú er þessu að vísu komið á mjög víða, mörg sveitar- og bæjarfélög hafa notað þessa heimild, en önnur ekki, og það má búast við, að þau geri það ekki, þrátt fyrir þær ástæður, sem ég minntist á, og þess vegna leyfi ég mér að leggja fram þessa till. mína að gera það að almennri skyldu, að bætur almannatrygginga verði undanþegnar útsvarsgreiðslum.

Ég ætla ekki að ræða frekar um þetta atriði að sinni, en ég hafði hér fyrr í dag óskað eftir því við hæstv. forseta að fá að gera stutta fsp. utan dagskrár. Þá stóð þannig á, að það var búið að óska eftir því að gera hér aths. í sambandi við annað mál og um það urðu því nokkrar umr., og því varð það að samkomulagi við forseta, að ég skyldi bera þessa fsp. mína fram í sambandi við þessar umr., þó það snerti þetta mál ekki sérstaklega, og það virðist líka vilja svo vel til, að báðir þeir ráðh., sem þessi fsp. mín mun snerta, eru nú viðstaddir. En tilefni fsp. minnar er það, að á forsíðu Alþýðublaðsins í dag birtist grein undir fyrirsögninni „Erlendir aðilar í ríkisbyggingum. Gengið fram hjá íslenzkum aðilum um stórverk í tveim byggingum.“ Ég held, að ég skýri fsp. mína bezt með því að lesa upphaf greinarinnar, með leyfi forseta, en það er á þessa leið:

„Íslenzka ríkið er að reisa tvær stórbyggingar í miðbænum í Reykjavík, mikla tollstöð við höfnina og nýtt landssímahús við Kirkjustræti. Tvö erlend fyrirtæki hafa verið ráðin til að smíða gluggaveggi í þessi stórhýsi, og gengur ríkið þar með fram hjá íslenzkum iðnaði með verkefni fyrir rúml. 12 millj. kr. Þó gerðu íslenzk fyrirtæki tilboð í símstöðina, sem voru lægri en erlendu tilboðin, og í tollbúðina tilboð, sem voru innan við 10% hærri en þau erlendu. Vegna hinnar furðulegu ákvörðunar ríkisvaldsins í þessu máli munu íslenzkir iðnaðarmenn tapa vinnu fyrir millj. kr., en ríki og borg tapa stórfé í sköttum og gjöldum, því erlendir iðnaðarmenn, sem hingað verða sendir til að vinna þessi verk, greiða ekkert til opinberra aðila hér.“

Ég held, að þetta, sem ég hef hér lesið, sé nægilega ljóst til þess að rökstyðja þá fsp., sem ég kem með, en hún er í stuttu máli sú, hvað sé rétt í þessu, og beini ég þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., sem bygging tollstöðvarinnar nýju mun heyra undir, og hæstv. samgmrh., sem bygging símstöðvarinnar mun heyra undir. Það má vel vera, að hæstv. ráðh. séu ekki viðbúnir að svara þessari fsp. minni núna, en ég mundi sætta mig alveg við að fá nánari skýringar á þessu máli seinna, hvernig það er vaxið, en ástæðan til þess, að ég fór fram á það við hæstv. forseta að mega bera fram þessa fsp. utan dagskrár, er sú, að nú líður að þinglokum og þess vegna ekki mögulegt að nota sér hið venjulega fsp.-form, en ég ætla heldur ekki að misnota aðstöðu mína með því að ræða þetta mál neitt sérstaklega, heldur aðeins eins og um venjulega fsp. væri að ræða og óska eftir skýringum viðkomandi ráðh. á þessu máli.