23.10.1967
Efri deild: 6. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

14. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo sem í upphafi aths. við þetta frv. greinir, var það flutt af hv. sjútvn. að beiðni minni á síðastliðnu þingi, en náði þá ekki fram að ganga og er nú endurflutt af sömu hv. n.

Frv. hliðstæð þessu höfðu áður verið flutt varðandi Stýrimannaskólann í Reykjavík og atvinnuréttindi vélstjóra og voru lög um það efni afgreidd fyrir u.þ.b. hálfu öðru ári síðan og má segja, að frv. það, sem hér er til umr., sé í meginatriðum flutt til samræmis við þær breytingar, sem þá voru gerðar á fyrrgreindum lögum.

Þetta frv. hefur að geyma 7 meginbreytingar frá gildandi lögum, sem frá greinir í aths. við frv.:

1) Kröfur þær, sem gerðar eru í h-lið 2. gr. núgildandi laga um að vera talinn fullgildur háseti á verzlunar- eða varðskipi, eru felldar niður.

2) Núgildandi ákvæði laga um skipstjórnarréttindi á allt að 120 rúmlesta skipum eru felld inn í frv. til samræmis við frv. til laga um breytingu á l. um Stýrimannaskólann í Reykjavík og væntanlega reglugerð þar um.

3) Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna á fiskiskipum af ótakmarkaðri stærð og á verzlunarskipum allt að 400 rúmlestir verði eitt og hið sama.

4) Nýmæli er það í frv. þessu, að þeir, sem lokið hafa prófi upp úr 2. bekk farmannadeildar Stýrimannaskólans, hljóti undirstýrimannsréttindi takmarkaðan tíma.

5) Siglingatími til að hljóta stýrimannsskírteini er skv. frv. þessu styttur nokkuð og ekki bundinn við utanlandssiglingar einar, eins og áður var á verzlunarskipum. Þá er og aldursmark til að taka gildan siglingatíma nú miðað við 15 ár í stað 16 ára áður. Aldursmark til að vera stýrimaður á fiskiskipi er miðað við 18 og 19 ár.

6) Í frv. þessu eru sett sérstök skilyrði um varðandi Stýrimannaskólann sjálfan.

7) Skilyrði til að hafa stýrimenn á fiskiskipum, sem ætlað er að leggja afla sinn á land daglega er nú miðað við 60 rúmlesta skip í stað 30 rúmlesta áður. Skylda til að hafa 3 stýrimenn á varðskipum ríkisins er miðuð við 300 rúmlesta skip í stað 200 rúmlesta áður.

Eins og sjá má af meginefni þessa frv., er það flutt með hliðsjón af þeim öru breytingum, sem átt hafa sér stað í far- og fiskiskipaflota landsmanna á undanförnum árum, sem óþarft er að rekja hér í þessu sambandi, en öllum hv. þdm. er vel kunnugt um. Við umr. um málið á síðasta þingi komu ekki fram nein veruleg andmæli gegn framgangi frv., svo mér sé kunnugt um, og ætti því ekki að vera þörf á því, að það dagaði uppi eða hlyti ekki endanlega afgreiðslu á þessu þingi, þegar það kemur fram svo snemma þings.

Ég óska þess að lokum, að hv. n. leiti eðlilegra umsagna um málið, sem ekki hafa þegar legið fyrir, en ítreka það, sem ég áðan sagði, að frv. er fyrst og fremst flutt til samræmis við áður samþykkt frv. varðandi vélstjóra og Vélskóla Íslands og þá einnig varðandi Stýrimannaskólann sjálfan.