04.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

20. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á l. um kosningar til Alþingis, hefur legið fyrir allshn. síðan mjög snemma á þessu þingi, en n. taldi ekki ástæðu til þess að afgreiða frv. frá sér, fyrr en frv. til stjórnarskipunarlaga væri komið til n., og taldi rétt aðafgreiða það á undan,svo sem hefur nú verið gert fyrir nokkru. N. er sammála um að samþykkja frv., eins og það var lagt hér fram, en í frv. til stjórnarskipunarlaga um breyt. á 33. gr. stjórnarskrárinnar, sem samþ. var á síðasta Alþ. og nú þegar hefur verið afgreitt, er gert ráð fyrir, að kosningarréttur og þar með talið kjörgengi skuli miðast við 20 ára aldur í staðinn fyrir 21 árs aldur, og einnig er sú breyting gerð, að fellt er niður 5 ára búsetuskilyrði fyrir kosningarrétti. Í samræmi við þessa breytingu samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar þarf að breyta samsvarandi ákvæðum um kosningar til Alþ., og þess vegna var þetta frv. fram borið, og n. er um það sammála, eins og það liggur fyrir.

Hins vegar tók n. til athugunar og afstöðu til tveggja till., sem fram komu um breyt. á l. um kosningar til Alþingis. Það er í fyrsta lagi till., sem prentuð er á þskj. 303, frá 4 alþm., Halldóri E. Sigurðssyni, Ásgeiri Péturssyni, Benedikt Gröndal og Jónasi Árnasyni, en það er sú breyting, sem þeir leggja til, að á eftir 1.málsl. 2. mgr. 58. gr. l. komi ný mgr., svo hljóðandi:

„Þar sem fleiri en eitt hreppsfélag eiga í sameiningu félagsheimili, skal hreppsnefnd heimilt, að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar, að hafa kjörstað í félagsheimilinu, þó að það sé ekki staðsett innan hreppsins.“

Meiri hl. allshn. vill gera breyt. á 58. gr. l., þar sem ég tel, að meiri hl. n. komi alveg til móts við flm. þessarar till., en vill gera þetta heimildarákvæði rýmra, ekki eingöngu miða það við félagsheimili, og leggur því meiri hl. allshn. til, að viðbót við 58. gr. kosningalaga verði þessi:

„Hreppsnefnd er heimilt, að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar, að hafa kjörstað utan hreppsfélagsins.“

Um þetta atriði þarf ég ekki að hafa fleiri orð. Það getur verið ástæða til og vilji hreppsnefndar að hafa kjörstað utan síns hrepps fyrir hreppsfélagið eða einhvern hluta hreppsfélagsins ef þannig háttar til í samgöngulegu tilliti.

Þá ræddi n. um fram komna till. frá hæstv. dómsmrh. Dómsmrh. hefur sagt mér, að fyrri till., sem hann lagði hér fram, mundi hann taka aftur. Hún er prentuð á þskj. 224. Hann lagði svo fram till., sem prentuð er á þskj. 437, og hann mun vitaskuld gera grein fyrir henni hér á eftir, þegar frsm. n. hafa lokið sínu máli.

Minni hl. n., hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 8. landsk. þm., voru andvígir því að taka brtt. fyrir eða afgreiða þær, vildu afgreiða frv. óbreytt, eins og það liggur hér fyrir í hv. þd., svo að n. hafði ekki samstöðu um þessa afgreiðslu.

Ég þarf ekki að fara út í till. dómsmrh. Hann mun gera það sjálfur hér á eftir. En það kemur auðvitað engum alþm. á óvart, að slík till. er komin fram, þegar við minnumst þeirra miklu umr., sem fóru hér fram í sameinuðu þingi eftir þingsetningu við afgreiðslu kjörbréfa út af þeim málum, sem áttu sér stað fyrir síðustu kosningar, og er þá hafður í huga sá ágreiningur, sem var í Alþb., og síðar ágreiningur, sem varð á milli yfirkjörstjórnar Reykjavíkurborgar og landskjörstjórnar, að við þær umr. lýsti dómsmrh. því yfir, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir að fá fyllri ákvæði lögfest á þessu þingi, og manni skildist að þm. utan stjórnarflokkanna margir hverjir væru sama sinnis og hann hvað þetta snertir. Ég ætla ekki að fara að rifja þær umr. frekar upp hér, þær eru öllum svo í fersku minni. En meiri hl. allshn. leggur til, að þessi till. dómsmrh. verði samþ. ásamt hinni till., sem ég lýsti hér áðan.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég aðeins koma inn á það, sem segir í áliti meiri hl. allshn., að það kom fram í umr. í n., að ástæða væri til, að fram færi heildarendurskoðun á kosningal., því að ýmislegt hefur komið í ljós, sem þarf breytingar á að gera, og þá alveg sérstaklega í sambandi við utankjörfundarkosningar að okkar dómi, sem undir álit meiri hl. allshn. skrifum. Það eru því ákveðin tilmæli okkar, að ríkisstj. láti endurskoða þessi lög fyrir næsta reglulegt Alþ. Ég skal ekki fara frekar út í það, sem hér var gert að umræðuefni og endurskoðunar þyrfti við að dómi okkar, en vil þó aðeins nefna eitt atriði, en það eru þeir erfiðleikar, sem eru fyrir gamalt og lasburða fólk, sem er annars staðar en í sínu kjördæmi, að geta neytt atkvæðisréttar síns, þegar það getur ekki kosið utankjörstaðarkosningu, og þess vegna væri eðlilegt að rýmka þau ákvæði, og í því sambandi benti sérstaklega hv. 10. þm. Reykv. á fjölmennan hóp gamals fólks, sem væri á dvalarheimilinu Hrafnistu og ætti lögheimili i öðrum kjördæmum en Reykjavík. Mikið af þessu fólki treystir sér ekki til og getur ekki kosið utan kjörstaðar, þó að það haldi andlegri heilsu og fylgist vel með, og með þeim ákvæðum, sem nú eru gildandi í sambandi við utankjörstaðarkosningu, er í raun og veru öllu þessu fólki og mörgu öðru fyrirmunað að greiða atkv. við kosningar, og því er það skoðun okkar í meiri hl. allshn., að það sé rík ástæða til þess að endurskoða í heild kosningal., og til þess mælumst við í okkar nál., að ríkisstj. láti framkvæma þá endurskoðun fyrir næsta reglulegt Alþingi.