17.01.1968
Neðri deild: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur naumast verið undirbúið af nægilegri gát. Eins og hv. 5. þm. Vesturl. gat um áðan, heyrir undir jörðina Setberg fuglaparadísin Melrakkaey, sem er að sjálfsögðu algjörlega fráleitt að selja, og um það var, eins og hv. frsm. tók fram, full samstaða í n., að sala á þessari ey kæmi ekki til greina.

Mér virðist einnig, að salan á jörðinni sjálfri hafi ekki verið undirbúin í samræmi við gildandi lög, því í l. um sölu þjóð- og kirkjujarða eru talin upp ýmis skilyrði, sem kaupendur slíkra jarða eiga að fullnægja. Þeir eiga í fyrsta lagi að hafa búið á jörðinni í minnst þrjú ár. Í öðru lagi eiga þeir að gefa út við undirskrift kaupsamningsins skuldbindingu um að gera jörðina að ættaróðali og leggja fram nauðsynleg skilríki þar að lútandi. Og í þriðja lagi á að liggja fyrir yfirlýsing hlutaðeigandi hreppsnefndar um, að ábúandi hafi setið jörðina vel og að hreppsnefndin mæli með, að hann fái jörðina keypta. Þó getur hann skotið þeirri umsögn til sýslunefndar. Einnig hafa Búnaðarfélag Íslands, Landnám ríkisins, viðkomandi sýslunefndir og aðliggjandi bæjarfélög íhlutunarrétt samkv. þessum lögum. Þessum skilmálum laganna hefur ekki verið fullnægt að öðru leyti en því, að Landnám ríkisins hefur látið fara frá sér meðmæli með því, að jörðin verði seld, eins og fram kemur hér í nál. hv. meiri hl. En jafnvel þó þessum lögformlegu skilmálum væri fullnægt, mundi ég vera andvígur því að selja þessa jörð. Ég tel, að það sé rangt að hafa það að almennri reglu að selja ríkisjarðir, ef einstaklingar vilja kaupa þær. Ég tel, að slík viðskipti eigi ekki að fara fram, nema einhver næsta gild rök komi fram fyrir því. Eins og allir hv. þm. vita, hafa verið ýmis brögð að því, að jarðir í einkaeign hafi hér lent í braski eða verið notaðar til ýmissa þarfa, sem ekki eru í tengslum við raunverulegan landbúnað, og það er hvorki hagsmunamál fyrir þjóðina né bændur, að slík þróun eigi sér stað. Mér virðist, að ákvæðin um erfðaábúð veiti ábúendum svo mikla tryggingu, bæði fyrir sig og erfingja sína, að ekki sé ástæða til að kvarta undan þeim skilmálum. Og ábúandi sá, sem nú situr Setberg, mundi eflaust geta fengið slík réttindi. Með þeim ákvæðum er raunar einnig meiri trygging fyrir því, að ábúendur jarðar fái bætur fyrir eignir sínar, ef þeir hætta búskap af einhverjum ástæðum, heldur en ef þeir eiga jarðirnar. En sem sagt, mér finnst engin frambærileg rök fyrir því að selja þessa jörð, og ég er andvígur því.

Síðari liðirnir þrír í þessu frv. fjalla um þrjá embættisbústaði. Það er alkunna að lög um embættisbústaði og framkvæmd þeirra hafa verið vandræðamál um langt skeið. Þar hafa stundum gerzt atburðir, sem hafa verið gagnrýndir með ærnum rökum. Þegar fjárhagsviðskipti ríkissjóðs og Guðmundar Í. Guðmundssonar, núv. ambassadors í Lundúnum, höfðu átt sér stað og valdið miklum umr., minnist ég þess, að hæstv. fjmrh. lýsti yfir því í þingræðu, að hann mundi beita sér fyrir endurskoðun á lögum um embættisbústaði til þess að færa þau lög til samræmis við núverandi aðstæður og til þess að koma í veg fyrir hvimleið deilumál. Mér finnst efndirnar á þessu fyrirheiti hæstv. ráðh. hafa dregizt óhæfilega lengi.

Hvað viðvíkur einstökum atriðum í frv., þá er fyrsta húseignin það hús, sem notað hefur verið sem biskupsbústaður. Svo er að sjá sem hæstv. ríkisstj. hafi verið mikið í mun að losna við þetta hús, því í fjárlagafrv., eins og það var lagt fyrir hér í upphafi þings, var einnig till. um heimild til þess að selja þetta hús, þannig að hæstv. ríkisstj. hefur viljað hafa tvöfalda tryggingu. En í sambandi við þessa húsasölu er rétt að geta þess, að þar er um að ræða víðtækari viðskipti. Hæstv. ríkisstj. hefur einnig keypt hús, eins og fram kemur hér í aths., Bergstaðastræti 75, og þau húsakaup hafa ekki verið borin undir Alþ., enda ekki nauðsynlegt lögum samkvæmt. Hins vegar kom það fram í n., að þau kaup á Bergstaðastræti 75, sem er nokkuð aldurhnigið hús, voru undirbúin á þann hátt, að það var tvívegis framkvæmd matsgerð. Fyrst framkvæmdi mat Finnur Árnason, sem komst að þeirri niðurstöðu, að verðmæti eignarinnar væri 3.8 millj. án lóðar og bílskúrs, síðan Guðlaugur Þorláksson, sem komst að þeirri niðurstöðu, að verðmætið væri 4 1/2 millj. með lóð og bílskúr. En síðan gerði hæstv. ráðh. tilboð um að kaupa eignina á 4 millj. og um það var samið, að húsið var keypt á 4 millj. og skal greitt á 6—8 árum: Þetta hús er að verðmæti samkv. húsamati um 341 þús., en samkv. brunabótamati rúmlega 3 1/2 millj. Til viðbótar þessum kostnaði verður að fara fram býsna umfangsmikil lagfæring á þessu húsi. Mér skilst t.d., að muni þurfa að skipta um alla glugga þar, þannig að raunverulegt kostnaðarverð við þennan biskupsbústað verður býsna hátt. Ég er ekki dómbær á það, hvort þarna er um að ræða góð kaup eða léleg; hins vegar er þetta fyrirkomulag dálítið annarlegt í sambandi við embættisbústaði, að hæstv. ríkisstj. geti keypt hús án þess að bera það undir Alþ., en geti ekki losað sig við þau án okkar samþykkis. En ég vil minna á það, að í fjárlögum hefur nú um skeið verið nokkurt framlag til biskupsbústaðar, og svo var ráð fyrir gert í því sambandi, að það yrði byggt sérstakt biskupssetur, og það var búið að úthluta sérstakri lóð undir það hér á Skólavörðuholti í skugga turnsins mikla. Mér er ekki kunnugt um það, hvort þau áform eru enn við lýði, hvort það er meiningin að reisa þar sérstakan biskupshústað eftir tiltekinn tíma, hvort hér er verið að taka ákvarðanir um þrjú biskupshús á tiltölulega skömmu árabili, og væri fróðlegt að fá um það vitneskju.

Annar liðurinn þarna fjallar um viðskipti sóknarprestsins í Hafnarfirði í sambandi við embættisbústað hans; þau eru býsna glöggt dæmi um framkvæmdina á lögum um embættisbústaði. Sóknarpresturinn byggir fyrst hús sjálfur, síðan selur hann ríkinu það sem embættisbústað og nú vill hann loks fá að kaupa húsið af ríkinu handa sér. Svo er að sjá af þeirri vitneskju, sem þarna er í aths., að sóknarpresturinn hafi síður en svo hagnazt á þessum viðskiptum við ríkið, en mér finnst það algjörlega óeðlileg framkvæmd á þessum lögum að það fari eftir óskum embættismanna hverju sinni, hvort hús eru keypt af þeim eða hvort þeir kaupa hús af ríkinu. Um þetta verða að vera ákveðnar reglur. Það verða að vera ákveðnar meginreglur, sem tryggja hagsmuni ríkisins í þessu sambandi og þar með hagsmuni almennings, en það fari ekki eftir óskum eða hagsmunum embættismanna hverju sinni, hvaða háttur er á þessu hafður.

Það kemur fram í nál. hv. meiri hl., að nú muni senn von á þessari nýju löggjöf um embættisbústaði, og mér hefði þótt býsna fróðlegt að fá að heyra það frá hæstv. ríkisstj., hvort þeim undirbúningi er ekki það langt komið, að hægt væri að fresta þessum þremur liðum, þangað til þessi löggjöf er tilbúin. Mér mundi finnast það dálítið annarlegt, ef við værum núna að taka ákvarðanir, sem kunna að brjóta í bága við löggjöf, sem yrði síðan sett hér á þingi eftir tiltölulega stuttan tíma.