18.04.1968
Neðri deild: 101. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég geri mér það að sjálfsögðu ljóst, að hægt er að flytja brtt. og láta ganga atkv. um þessi atriði, sem ég var að tala um áðan. Hins vegar var ég einmitt að leggja áherzlu á það, að við ættum að reyna að leysa þetta mál með góðu samkomulagi, bæði hér innan þings og í samskiptum okkar við BSRB. Hér er um að ræða gjöf, sem gefin var í tilefni af 25 ára afmæli, og ég skil ekki, að nokkur maður geti haft á því áhuga, að einhver leiðindi fylgi þeirri gjöf. Mér finnst, að hæstv. forsrh. gæti mætavel fallizt á það, að þetta mál fái að vera til athugunar yfir sumarmánuðina, svo að í ljós kæmi, hvort ekki er hægt að finna á þessu lausn, sem allir yndu prýðilega við að lokum. Mér finnst hæstv. ráðh. taka þessu sjónarmiði mínu á fullkuldalegan hátt, einmitt vegna þess, að hér var um að ræða sérstaka heiðursgjöf frá ríkisstj. sjálfri.

Ég bað hæstv. ráðh. áðan að gefa mér smávægilegar lögfræðilegar upplýsingar um muninn á landi, sem afhent er undir sumarbústaði einstaklinga þarna uppfrá, og því landi, sem talað er um að afhenda félagasamtökum, hvers vegna talið er þurfa heimildar Alþ., þegar afhent er félagasamtökum, en ekki undir sumarbústaði fyrir einstaklinga. Mér þætti afar vænt um, ef hæstv. ráðh. vildi skýra þetta mál fyrir mér.