16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Það var út af fyrir sig fróðlegt að fá þá grg. frá hæstv. sjútvmrh., sem hann nú flutti, og kom þar nú fyrst og fremst í ljós, það, sem raunar var áður vitað, að þessi tryggingamál öll eru í miklum ólestri, og hæstv. ráðh. og aðstoðarmenn hans virðast hafa verið að leita eins konar dauðaleit að einhverjum þeim tekjustofnum varðandi sjávarútveg, sem einhver hugsanlegur möguleiki væri á að ná frá einhverjum aurum upp í þetta bullandi tap á tryggingakerfinu. En ég ætla nú ekki að fara nánar út í þessar almennu hugleiðingar ráðh., ég stóð hér aðallega upp aftur vegna þeirra orða í upphafi ræðu hans, sem ég skildi á þá leið, að hann væri í rauninni að snupra síldarútvegsnefnd fyrir það að vera að hlaupa til og gera aths. við hluti, sem henni kæmu í rauninni ekkert við. Hann vitnaði til þess, að síldarútvegsnefnd eigi að sjá um sölu síldar og ég gat ekki skilið orð hans á annan hátt en þann, að allt það tap, þó að útflutningsgjald af saltsíld sé hækkað von úr viti, komi nefndinni ekkert við, og það sé í rauninni ókurteisi af henni að vera að skipta sér nokkuð af því. Þessu vil ég algerlega mótmæla. Ég get ekki séð betur en síldarútvegsnefnd hljóti að telja það miklu máli skipta, varðandi það að framkvæma sitt aðalverkefni að sjá um sölu síldar, að hægt sé að selja vöruna og halda mörkuðum, að möguleikar séu á því, að síldarinnar sé aflað, og þó að n. mótmæli álögum, sem alveg tvímælalaust hljóta að draga úr möguleikunum á síldveiðum — möguleikunum á því að afla hráefnisins, sýnist mér, að hún fari engan veginn út fyrir verksvið sitt. Hún hefur þarna m. a. í huga þá mjög svo ólíku samkeppnisaðstöðu, sem er þegar raunar og verður enn þá meiri milli okkar annars vegar og aðalkeppinautanna eins og t. d. Norðmanna hins vegar, og í því sambandi vil ég leyfa mér að vitna enn í bréf síldarútvegsnefndar, þann kaflann, sem ég las ekki úr hér áðan, en þar segir einmitt um þessa mismunandi samkeppnisaðstöðu:

„Það er vitað, að norskir útgerðarmenn hugsa mjög til þess að nota sína aðstöðu nú, ef síld veiðist nálægt Norður-Noregi, til þess að auka sína saltsíldarframleiðslu og hugsa þá gjarnan til þeirra markaða, sem við Íslendingar höfum aflað okkur fyrir þessa vöru,“ en síldarútvegsnefnd segir um þetta atriði, hina mismunandi samkeppnisaðstöðu, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og alkunnugt er, veittu Norðmenn styrk til útflytjenda saltsíldar á s. l. ári, 30 kr. norskar fyrir hverja útflutta tunnu síldar, eða 240 kr. ísl. eftir núverandi gengi. Auk þess veittu þeir síldarútgerðinni margs konar fyrirgreiðslu. Það hefur skýrt komið fram, að á þessu ári munu Norðmenn hafa í hyggju að auka þessa aðstoð verulega. Ef reiknað er með útflutningsgjaldi því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og óbreyttum norskum framleiðslustyrk, verður ekki um minni mun á aðstöðu íslenzkra og norskra saltsíldarframleiðenda að ræða fyrir tilstilli opinberra stjórnarathafna en 400–450 ísl. kr. á hverja tunnu. Sýnir þetta bezt, hversu fráleitt er að hækka álögur á þennan atvinnuveg frá því, sem nú er.“

Ég tel ástæðu til þess, að þetta atriði, sem síldarútvegsnefnd bendir hér svo greinilega á, komi fram og vil ég undirstrika það, að það er síður en svo, að mínu viti, að síldarútvegsnefnd komi þessi hækkun á útflutningsgjaldi af saltsíldinni ekki við. Það var full ástæða fyrir hana að taka afstöðu til þess máls, eins og hún hefur svo röggsamlega gert.