19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég held, að við fáum að sjá ofan í botnlaust fúafen, þegar við lítum á þetta frv. og fáum þær upplýsingar um það, að áætlað sé, að halli af tryggingasjóðnum muni nema um 103 millj. kr. á yfirstandandi ári, 1968, og þar með sé nú ekki öll sagan sögð, því að auk þess sé sjóðurinn orðinn skuldugur um allverulegar upphæðir frá fyrri árum. Þarna er því um að ræða skuldasúpu sennilega mjög hátt á annað hundrað millj. kr. Þetta frv. á að afla 42 millj. upp í þessa súpu. Þetta er myndin, sem við okkur blasir. Og hvar á að taka þetta, þessar 42 millj.? Það á að taka það af tveimur aðilum, útgerðarmönnum og sjómönnum. Og þá er spurningin, hvort það er eitthvert úrræði, hvort það er eitthvert borð fyrir báru hjá útgerðarmönnunum til þess að borga 21 millj. upp í þessa súpu, og hvort sjómenn eru þannig staddir, þeir, sem síldveiðar stunda fyrir þjóðina, að það sé hægt að rýra kjör þeirra um 21 millj. kr. Mér virðist hvort tveggja blasa augljóslega við, að hvorki eru útgerðarmennirnir, sem síldveiðar sækja langt austur í haf, þannig staddir, að þeir hafi borð fyrir báru til þess að taka á sig þessa auknu byrði, né heldur að hásetarnir geti það. Það er kunnugt, að þeir höfðu ekki meira en um 40–50% í tekjur á móts við það, sem þeir höfðu árið áður, og voru þannig staddir á s. l. sumri á síldveiðunum, að þegar upp var gert, höfðu þeir lítið meira en fyrir opinberum sköttum næstliðins árs á undan og fæðiskostnaði, og gengu sumir slyppir frá á hinum aflaminni skipum, en talið er, að meðaltalið hafi verið 10 þús. kr. tekjur hjá þeim á mánuði, og fór meginhlutinn af því upp í skatta ársins á undan. En samt sem áður heldur hæstv. ríkisstj. að hún geti þyngt skattabyrði á sjómönnum á þann hátt að láta sjómenn nú borga af óskiptu upp í þessa tryggingarhít. Ég held, að þetta sé óráð hið mesta. Í fyrsta lagi er ég hræddur um það, að af þessu geti leitt það, að skipin fari ekki á síldveiðar, og þá verður skarð fyrir skildi í tekjuöflun þjóðarinnar, svo mikið er víst.

Hæstv. ríkisstj. má minnast þess, að einu sinni var gripið til slíkra úrræða gagnvart síldarsjómönnum, að síldveiðiflotinn sigldi til hafnar og lét fulltrúa sína mæta fyrir framan Stjórnarráðsdyrnar. Og það má mikið vera, ef hæstv. ríkisstj. fer ekki að stofna til svipaðra atburða nú með þessu. Það kæmi í sama stað niður, þó það gerðist nú með þeim hætti, að síldveiðiskipin færu ekki á síldveiðar. En á því tel ég verulega hættu. Til einskis væri nú þetta, ef útgerðarmennirnir hefðu svo ekki gjaldþol til þess að taka á sig þessar sínar 21 millj. kr. og yrðu svo að biðja ríkisstj. að styrkja sig aftur á móti með öðrum hætti. Þá hefði þetta engan tilgang. Það væru bara greiðslur fram og aftur.

Varðandi sjómennina vil ég svo enn fremur segja það, að í viðbót við það, að það sér enginn maður fram á það, að hægt sé að skerða kjör þeirra um 21 millj. kr., miðað við útkomu þeirra s. l. úthald, er það bókstaflega ódrengilegt. Það er stungið rýting í bakið á þeim með því að rifta þeim umsömdu skiptakjörum, sem þeir nú búa við. Hefði verið hægt kannske að þola það, ef þeirra hlutur hefði verið góður s. l. síldarvertíð, og útlit væri fyrir, að þeirra hlutur yrði eins góður eða betri á þeirri komandi, en svo er ekki. Og það vil ég þó vona, að hæstv. ríkisstj. sjái, að það er ódrengilegt með öllu að skerða skiptakjör sjómanna svona með þessari skattlagningu, auk þess sem engar líkur eru til þess, að það sé gerlegt. Það getur bókstaflega leitt til þess, að skipin fari ekki á síldveiðar.

Það hefur verið minnzt á þau mótmæli, sem hér hafa borizt út af þessu máli. Það eru mótmæli frá síldarútvegsnefnd og frsm. meiri hl. sagði, að hún væri ekki aðili að þessum málum og það væri ekki takandi mark á því, þótt hún mótmælti. En það er nú einu sinni svona, að síldarútvegsnefnd er samsett af fulltrúum útgerðarmanna, þar með síldarútgerðarmanna, síldveiðisjómanna og félögum síldarsaltenda, og það eru þessir aðilar, sem hafa leyft sér að mótmæla. Þeim kemur þetta öllum saman við. Hitt er annað mál, hvort síldarútvegsnefnd hefur í mótmælum sínum tekið of djúpt í árinni, eins og hv. 4. þm. Vestf. taldi áðan, þegar hún taldi, að nær hefði verið heldur en að þyngja útflutningsgjöldin og hækka þau á saltsíldinni að fella þau með öllu niður, eins og hún segir. En hvað meinar hún með þessu? Það má vel vera, að þarna sé of djúpt tekið í árinni, því að til þess séu engir möguleikar, en hún meinar það, að þess væri full þörf að létta á þessari atvinnugrein, vegna þess að samkeppnisaðstaða okkar við aðalkeppinautinn, Norðmenn, sé mjög versnandi. Síldin er nú nær Noregsströndum en Íslandsströndum og kostnaðurinn hjá okkur við að gera út á saltsíldarveiðar er stóraukinn, að ég ekki segi margfaldaður, á við það, sem verið hefur, með þeirri aðstöðu, sem við höfum áður haft, en aðstaða Norðmanna til saltsíldarframleiðslu hefur stórbatnað og mun verða vafalaust mjög góð á næsta sumri. Svo greiða Norðmenn fyrir þessu með batnandi aðstöðu þeirra á allan hátt með styrkjum, en við þyngjum skattana, þegar svona stendur. Það er ekki skynsamlegt, þegar við stöndum svo höllum fæti í samkeppninni við Norðmenn um saltsíldarmarkaðinn, sem við nú gerum. Það jafnar metin Norðmönnum í hag, ofan á allt annað, og það vil ég segja, að sé ekki skynsamlegt.

Það verður ekki vel komið hag útgerðarmanna, sem gera út á síld á næsta úthaldi, ef þeir þurfa eingöngu að byggja á tekjunum, sem þeir fá fyrir síldarmjöl og síldarlýsi, ef ekki verður hægt að bjarga neinu verulegu magni af síld til söltunar, sem hefur þó verið þeirra helzti tekjugrundvöllur á undanförnum árum og mun lengst af verða það. Það mundi heldur ekki verða til bóta fyrir okkar þjóðarbúskap, ef öll vinna við saltsíldarverkun hér legðist niður, en allar líkur eru til, ef á að vera hægt að tryggja einhverja saltsíldarverkun á söltunarstöðvunum hér á Íslandi næsta sumar, að þá verði það að gerast með enn stórauknum tilkostnaði, sem hlýtur að leggjast á útgerðarmenn og sjómenn, þ. e. a. s. með síldarflutningaskipum, sem sérstaklega eru gerð út til þess hlutverks, en sem líkur eru til að kosti tugi milljóna, og vitað er að leiga slíks skips og rekstrarkostnaður mundi kosta marga tugi milljóna, sem kæmi þá á útgerðarmenn og sjómenn í viðbót við allan kostnað, sem á þá hefur lagzt áður í sambandi við þennan atvinnurekstur.

Ég get ekki varizt þeirri hugsun, að hér sé stefnt í öfuga átt og í algjöra ófæru með þeim auknu skattálögum á útgerðarmenn og sjómenn, sem hér er um að ræða. Það, sem hefði þurft að gera, er vitanlega það, að snúa sér að því að leiðrétta það tryggingakerfi, sem menn viðurkenna almennt að sé óskynsamlega upp byggt, þannig að það eru aðrir, sem stofna til tjónanna, heldur en eiga að greiða, og þegar ábyrgðin leggst á annarra herðar, þá er ekki á góðu von, enda verðum við nú að súpa seyðið af því. Það er upplýst hér, að tjónin séu tvöföld, hv. 4. þm. Vestf. sagði þreföld, á við það, sem þekkist annars staðar og það getur ekki verið normalt. Það hlýtur að vera vegna veilu í kerfinu sjálfu og þá má það ekki dragast stundinni lengur, að slíkt kerfi sé skorið upp og því komið á heilbrigðan grundvöll. Ef það er rétt, að þarna séu ýmsir óprúttnir útgerðarmenn að nota sér veilurnar í þessu kerfi og dragi til sín stórar fjárfúlgur í gegnum tjónakröfur vegna tjóna, sem séu í sumum tilfellum þeim sjálfum að kenna, hirðuleysi þeirra, vangæzlu eða bókstaflega hlutir, sem alls ekki eiga að bætast af tryggingum almennt, heldur séu hluti af þeirra viðhaldskostnaði, þá er í raun og veru verið að afla fjár á kostnað útgerðarmanna og sjómanna til þess að láta renna í vasa þessara manna, sem misnota sér kerfið, og þá fer féð ekki í góðan stað niður. Það hefði sýnzt svo, að allra manna sjónir beindust að því að koma í veg fyrir vaxandi misnotkun í stað þess að fara þá leið að útvega meira fé frá útgerðarmönnum og sjómönnum til þess að láta renna í þessa svikahít.

Ég var staddur í Færeyjum fyrir nokkrum árum síðan og hitti þar forstjóra trygginganna í Færeyjum og hann sagði mér, að það linnti aldrei látum hjá sér, því íslenzkir útgerðarmenn væru alltaf að spyrjast fyrir um það, hvort ekki væri mögulegt að tryggja íslenzk fiskiskip í Færeyjum, iðgjöldin hjá þeim í Færeyjum væru margfalt lægri en hjá okkur, og spurðist fyrir um það, hvort þetta væri rétt, að iðgjöldin hjá útgerðinni hér væru margfalt hærri en þar og hvernig það gæti verið, þeir hefðu ekki betri hafnir eða aðstöðu til að vernda skipin í Færeyjum en er á Íslandi og skildi bókstaflega ekki í þessu. Hann hafði vitanlega sagt öllum þessum íslenzku útgerðarmönnum, að það væri útilokað, tryggingafélagið í Færeyjum, sem mun vera ríkisrekið, tryggði eingöngu færeysk skip, sem hefðu heimilisfang sitt í Færeyjum, en hann skýrði frá því, að ásóknin héðan, vegna þess hvað iðgjöldin væru hér há, væri sífelld og látlaus og er það skiljanlegt, þegar iðgjöldin hækka hér og tjónabætur eru svo óstjórnlegar sem upplýst hefur verið, margfalt á við það sem þekkist nokkurs staðar annars staðar.

Ég tel það verst við þetta frv., að hér á að skattleggja sjómenn, sem ekki eru aflögufærir, og útgerðarmennina líka, sem heldur eru ekki aflögufærir, og stofna þessum atvinnuvegi í hættu, vegna þess að samkeppnisaðstaða okkar hefur aldrei verið veikari en hún er nú og lítur út fyrir að verða á komandi sumri gagnvart okkar hættulegustu keppinautum á saltsíldarmarkaðnum, og það ódrengilega við þetta er, að það er verið að raska skiptakjörum sjömanna þeim í óhag og það er í raun og veru komið alveg í bakið á þeim með slíkt. Og ég hefði haldið, að hæstv. félmrh., í þessu tilfelli sjútvmrh., vildi ekki standa að slíkri atlögu að sjómönnum og þá telur hann sig vera í miklum nauðum staddan sýnilega, þegar hann þó gerir slíkt. Það gleður mig að vísu að heyra það, að hæstv. ráðh. lofar því, að nú skuli gluggað í þetta tryggingakerfi og gefur í skyn, að nú verði undinn að því bráður bugur að leiðrétta það og laga, en ég álít, að það hefði átt að einbeita kröftum sínum að því og finna lausnina á þann veg, en ekki í gegnum það að útvega meira fé í þetta spillta kerfi.

Að svo mæltu skal ég láta útrætt um þetta mál.

Mig langar ekki til þess að teygja lopann um það á nokkurn hátt, en ég tel málið slæmt að tvennu leyti: Í fyrsta lagi er sótzt eftir tugum milljóna til þeirra, sem ekki eru færir um að taka á sig auknar byrðar, síldarsjómenn og síldarútgerðarmenn, og í annan stað er það ódrengilegt, vegna þess að hér er ráðizt að skiptakjörum, sem eru um samin milli útgerðarinnar og sjómanna, og það er ætlazt til þess, að þessum samningsbundnu kjörum sé riftað sjómönnum í óhag, meðan hagur þeirra stendur mjög illa fyrir.