30.01.1968
Sameinað þing: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

Framkvæmd vegáætlunar 1967

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Umr. um skýrslu yfir framkvæmdir s. l. árs var frestað s. l. föstudag, vegna þess að tveir hv. alþm. óskuðu eftir því, og töldu, að það færi betur á því, að umr. færi fram á tveimur dögum. Það gæfist þá betri tími til þess að átta sig á ýmsum atriðum, og ég fengi þá einnig betri tíma til þess að átta mig á því, hvernig ég gæti bezt leyst úr spurningum hv. þm. Það var vitanlega sjálfsagt að verða við þessari ósk þm. um það að fresta umr., en ég tók það fram, að það væri alveg óvíst, að svör mín yrðu nokkuð betri eða gleggri fyrir það, þótt þessi frestur yrði gefinn. Ég hef eigi að síður, til þess að svörin gætu verið eins og bezt mætti verða, talað við vegamálastjóra og spurt hann um sumt af því, sem hér er um að ræða.

Ég held, að það hafi verið hv. 1. þm. Vestf., sem helzt fann að því, að það væri engin sundurliðun og sæist ekki, hvað mikið fjármagn hefði farið í hvern veg í sambandi við vegaviðhaldið á s. l. ári. Ég spurði vegamálastjóra að þessu. Það er rétt. Þetta er ekki í skýrslunni, en svarið, sem ég fékk, var það, að hann gæti ekki enn þá svarað þessu, því að það væri ekki búið að gera upp s. l. ár. Hins vegar sagði hann, að það væri prentuð skýrsla, eða væri til skýrsla um það, hvað mikið viðhaldsfé hefði farið í hverja sýslu á árinu 1966. Sú skýrsla var send ríkisendurskoðuninni í því skyni, að hún yrði prentuð með ríkisreikningnum. Sú skýrsla er til, og skýrsla yfir þetta kemur vitanlega einnig 1967. Nú er ekki víst, að þessi skýrsla verði prentuð með ríkisreikningnum, ég efast um það, en hún er til, og það er vitanlega hægt að fá hana, þótt ég hafi hana nú ekki í höndum. Hún var ekki til fjölrituð á vegamálaskrifstofunni, en þetta er vitanlega ekkert leyndarmál, og þeir þm., sem þess óska, geta fengið upplýsingar um það, hversu mikið vegafé fer til viðhalds í hverri sýslu, en það er að mestu leyti á valdi verkstjóranna, hversu mikið af þessu fjármagni fer í hvern veg. Og það er vitanlega mjög breytilegt frá ári til árs, eftir því í hvaða ástandi vegirnir eru. Ég vænti þess, að hv. 1. þm. Vestf. láti sér nægja þetta. Þessi skýrsla er til á vegamálaskrifstofunni, hún er til í ríkisendurskoðuninni, og það er velkomið, ef með þarf, að vera milligöngumaður í því að útvega hana. Og þá eins fyrir árið 1967, þegar hún er tilbúin, sem hún er ekki núna.

Í sambandi við reglur um snjómokstur kemur það fram í skýrslunni, að þær hafa verið rýmkaðar nokkuð á s. l. ári. Þær hafa verið rýmkaðar að því leyti, að það er heimilt að annast mokstur á fleiri vegum heldur en áður var. En reglurnar eru ekki það ýtarlegar, að af rn. hálfu sé sagt, hvenær eigi að moka og hvenær ekki. Á árinu 1967 var varið 20 millj. kr. í snjómokstur, og það er vitanlega alltaf takmarkað fjármagn, sem til er að láta í snjómokstur. Veturnir eru misjafnlega snjóþungir og það fellur misjafnlega mikill snjór á einstaka landshluta. Þetta verður þess vegna að vera framkvæmdaratriði í höndum vegamálastjóra að langmestu leyti, og hann verður að haga framkvæmdinni eftir því, sem skynsamlegast er. Það getur verið, að það falli meiri snjór á Vestfjörðum 1968 heldur en nokkurn tíma áður, og þá verður að láta meira fé í snjómokstur þar heldur en fyrr. Það getur orðið meiri snjór á Austurlandi heldur en nokkru sinni áður, þá verður vitanlega að láta meira fé í snjómokstur þar. Og þannig getur þetta breytzt frá ári til árs með hina ýmsu landshluta. Á aðalvegunum, þeim sem við getum kallað aðalvegi, þar er ríkinu heimilt að kosta mokstur að öllu leyti, en hliðarvegirnir eru ekki kostaðir nema að nokkru leyti af ríkinu og að nokkru leyti af sveitarfélögunum. Og nú verður það að vera eftir mati vegamálastjóra, sem á að sjá um framkvæmdirnar og sem hafi fengið sér heildarlínur um reglur fyrir snjómokstrinum, hvernig framkvæmdin er. Upplýsingar um þetta nánar getur hann bezt gefið, þar sem hann hefur reynsluna og á að sjá um framkvæmdina á því. En það, sem rn. hefur gert, er að heimila að annast mokstur á talsvert lengri vegalengd heldur en áður var.

Hv. 1. þm. Vestf. talaði um það, að það hefði vantað allt að 3 millj. kr., held ég hann hafi sagt, til þess að staðið væri við Vestfjarðaáætlunina í vegagerð, 2.3 millj. var það. (Gripið fram í.) Jæja, en þetta var 2.1 millj. kr., og það var aðallega á Þingmannaheiðinni, sem þetta var látið vanta. En ástæðan fyrir því, að þetta var, var ekki vegna þess, að það væri ekki staðið við Vestfjarðaáætlunina. Það varð að útvega alveg nákvæmlega jafnmikið fé til Vestfjarðaáætlunarinnar eins og fyrirhugað var, þegar Vestfjarðaáætlunin var ákveðin. Það var tekið að láni í Evrópusjóðnum, 500 þús. dollarar. En Vestfjarðaáætlunin ætlar að reynast nokkuð dýrari heldur en hún var fyrst, þegar hún var gerð, og þess vegna hefur jafnvel verið talað um það, að Vestfjarðaáætlunin yrði ekki 4 ára áætlun heldur gæti svo farið, að hún yrði 5 ára áætlun, eða a. m. k. það þarf að útvega eitthvað meira fjármagn heldur en ætlað var í fyrstu til þess að ljúka þeim verkum, sem í Vestfjarðaáætluninni eru. Og í tilefni af því, að hv. þm. talaði um, að það gerði nú ekkert til, þó þessa peninga hefði vantað á s. l. ári, ef þeir kæmu til nota á næsta ári, þá vil ég segja það, að mér dettur ekki annað í hug en að staðið verði við Vestfjarðaáætlunina eins og hún var útbúin í fyrstu. Og mér þykir ákaflega vænt um það, að nú er ekki lengur deilt um það, hvort Vestfjarðaáætlunin er til, en það var gert í fyrra, og hv. 1. þm. Vestf. virtist þá ekkert vita, hvað Vestfjarðaáætlunin væri. En nú talar hann um Vestfjarðaáætlunina sem staðreynd og tekur eftir því, að það vantaði 2.3 millj. kr., sagði hann, sem er ekki nema 2.1, til þess að fullnægja því, sem í áætluninni felst. Satt að segja, þá var ég nú undrandi í fyrra, þó að ég legði ekki orð í belg, þegar þm. hafði ekki komið auga á þetta mikla hagsmunamál Vestfjarða, því að þetta er ekkert lítið atriði fyrir Vestfirði að fá allt þetta fé í vegina, í hafnirnar og í flugvellina til þess að bæta samgöngurnar og til þess að bæta aðstöðuna til búsetu í þessum landshluta. Og ég var ekki í nokkrum vafa um það, þegar Vestfjarðaáætlunin kom til umr., að þetta væri mjög nauðsynleg framkvæmd. Og ég efast ekkert um það, að hv. þm. hefur frá því fyrsta verið alveg samþykkur því, þótt hann teldi hér í fyrravetur, svona rétt fyrir kosningarnar, ekki ástæðu til að vera að tala um Vestfjarðaáætlunina sem eitthvert stórafrek, af því að hann hafði ekki sjálfur komið svo mikið við sögu, þegar var verið að koma þessu máli af stað.

Hv. 1. þm. Vestf. undraðist það, að það hefðu ekki verið tekin eins mikil lán til framkvæmda á s. l. ári eins og heimilt var að gera skv. vegáætluninni. Hv. þm. veit, að það voru samþykktar ýmsar brtt. til lántökuheimildar í vegáætluninni, án þess að það væri nokkurt loforð fyrir því af stjórnarinnar hálfu að nota þessar heimildir. Og það þarf hv. þm. ekkert að undrast, þó að heimildirnar væru ekki allar notaðar. Framkvæmdir á s. l. ári í vegamálum, bæði fyrir það fé, sem var veitt beint, og lántökur á því ári til vegamála, voru miklar og meiri heldur en áður. Og þótt það væri heimild til þess að taka lán til ýmissa framkvæmda, þá lá það aldrei fyrir að nota allar þær heimildir. Það var vitanlega matsatriði, hvað væri hægt að ganga langt í lántökum, enda þótt hv. þm. og fleiri gætu fært rök að því, að það væri æskilegt að koma þeim málum fram, sem heimilt var að taka lán til.

Hv. þm. fann að því, að ekki var yfirlit í skýrslunni um vaxtagreiðslur og afborganir til ýmissa véla. Það er rétt, þetta er ekki prentað í skýrslunni, en það hefði gjarnan mátt gera. En þetta liggur vitanlega alveg ljóst fyrir, og verstar vaxtagreiðslur eru til Reykjanesbrautar, vegna þess að það er stærsta lánið, sem á henni hvílir, eins og kemur fram í skýrslunni. Á árinu 1968 er gert ráð fyrir, að vextir af Reykjanesbraut nemi 18.9 millj. kr., og reyndar meira, ef nýi vegurinn í Breiðholti er reiknaður með. Þá eru þetta um 19.7 millj. kr. vaxtagreiðslur á næsta ári, og það er langstærsti pósturinn af þeim vöxtum, sem verður að greiða vegna lántöku í vegi. Hv. þm. gaf það í skyn, að þessi vaxtabyrði væri til þess að draga úr framkvæmdafé til vegagerðar. En vaxtagreiðslurnar til Reykjanesbrautar hafa aldrei verið teknar af framkvæmdafénu. Það dregur ekkert úr framkvæmdafénu. Það hefur verið varið 10 millj. kr. til hraðbrauta, og svo eru tekjur af Reykjanesbrautinni, og svo hafa lánin til Reykjanesbrautarinnar verið raunverulega lengd með því að taka ný lán til þess að borga afborganir af eldri lánum, og þannig lækka lánin á Reykjanesbraut ekki eins ört og ætla mætti. Þetta vildi ég, að kæmi hér fram, vegna þess að hv. 1 þm. Vestf. talaði um, að þessar vaxtagreiðslur væru til þess að draga úr framkvæmdafé, framkvæmdum til annarra vega. Ef við tökum vaxtagreiðslur til þjóðbrauta, þá eru þær áætlaðar á árinu 1968, til Siglufjarðarvegar 4 millj. 383 þús., til Ólafsfjarðarvegar 1 millj. 100 þús., til Ólafsvíkur 550 þús., til Suðurfjarðavegar 543 þús., og svo er það Vestfjarðavegur, sunnan Þingmannaheiðar 210 þús. og Breiðadalsheiði 893 þús. Ef við tökum afborganirnar, þá eru afborganir á Reykjanesbraut áætlaðar á árinu 1968 34 millj. og þjóðbrautum, þ. e. Siglufjarðarvegur 4 millj. 869 þús., Ólafsfjarðarvegur 833 þús., Ólafsvík 493 þús., Suðurfjarðavegur 611 þús. Sams konar yfirlit er hér líka yfir landsbrautirnar, sem er miklu minna, á landsbrautum eru vextir samtals á næsta ári 1.1 millj. og afborganir 89 þús.

Ég vona, að hv. þm. láti sér þessar upplýsingar nægja í sambandi við vaxta- og afborganagreiðslur. Ég held, að það hafi verið hv. 1. þm. Vestf., sem dvaldi nokkuð við Reykjanesbrautina og hallann af henni, en ég hef ekkert að segja um það, umfram það, sem kemur hér fram í skýrslunni, sem gerir ýtarlega grein fyrir því og skýrir það að öllu leyti.

Hv. 5. þm. Austf. talaði um, að það væri ekki sá árangur af vegáætluninni, sem hann hefði vænzt, þ. e. a. s. um framkvæmdir. Og hann minntist á það, að það væri lántökuheimild til Austurlandsvegar, það voru þrjár millj. kr., sem ekki var notuð, og nú spurði hann að því, sem í sjálfu sér var ekkert óeðlilegt, hvort þess mætti vænta, að þessi lánsheimild yrði notuð á þessu ári. Ég get ekkert sagt um það enn þá, vegna þess að framkvæmdaáætlun ríkisstj. er enn ekki fullgerð. Ef á að nota þessa lántökuheimild verður þessi upphæð að komast inn í framkvæmdaáætlunina, en janúar er ekki enn liðinn, svo það er ekki að búast við því, að framkvæmdaáætlunin fyrir árið liggi fyrir. Þessi sami hv. þm. talaði um vaxtaþungann, að hann skerti framkvæmdaféð, en ég held, að hv. þm. geri of mikið úr þessu og geri minna úr því eftirleiðis, þegar þeir átta sig á því, að aðalupphæðin, sem er á Reykjanesbraut, er ekki með í þessu. Þá spyr hv. þm. að því, hvernig sé hugsað að standa að næstu vegáætlun og undirbúningi vegna hennar. Það má nú segja, að það væri eðlilegt, að það svar lægi á lausu, þar sem það ber að semja nýja vegáætlun á næsta vetri og leggja hana fram helzt í byrjun næsta þings. En ef ég á að segja hreinskilnislega, er ekki farið að undirbúa þessa áætlun enn. Það liggur ekki fyrir, og ég get þess vegna ekki sagt um það, hvernig með það verður farið. Hitt er annað mál, að ég get látið þá skoðun mína í ljós nú strax, að ég óska eftir sem beztu samkomulagi um það, þegar að því kemur.

Hv. 1. þm. Vesturl. talaði einnig um lántökur, og minnti á það, að það hefði verið lántökuheimild til Heydalsvegar og Klofnings- og Skarðsstrandarvegar, lánsheimild, sem ekki var notuð, og þm. var ekki ánægður með það, en ekkert er annað að segja um þetta en það, sem ég hef áður sagt, að það hafði aldrei verið gefið fyrirheit um að nota þessa heimild, þótt hún væri tekin inn í áætlunina, og um það, hvort hún verði notuð á þessu ári, hef ég ekki annað svar en það, að ég get ekkert um það sagt, vegna þess að framkvæmdaáætlunin er ekki til, og ég efast ekki um, að það er rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að þessir vegir eru nauðsynlegir, og mikil samgöngubót að því, ef það væri hægt að vinna mikið í þeim og gera þá góða. En ég get ekkert um það sagt, hvort mögulegt verður að taka inn í framkvæmdaáætlunina svo og svo mikið af lánsfé til þessara eða annarra vega. Það liggur ekki fyrir enn, og verður vitanlega að fara eftir því, hverjir möguleikar á því verða, þegar farið verður að semja framkvæmdaáætlunina og ganga frá henni.