16.12.1967
Neðri deild: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það má nú ekki minna vera en maður þakki hv. þm. fyrir það velkomandaminni, sem hann hefur flutt mér nú við heimkomuna af ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins. Um skýrslu um fundinn vildi ég benda honum á, að það hefur verið gefin út fréttatilkynning frá fundinum. Hún var send heim strax í gær eða raunar í fyrrakvöld, og þar má lesa nákvæmlega um allt, sem á fundinum gerðist, og ég vil ráða hv. þm. til þess að fara upp í í utanrrn. og fá afrit af þessari frásögn. Hún er þar til reiðu, og hann getur fengið hana nákvæmlega eins og hún var gefin út í fundarlokin.

Ástandið í Grikklandi var ekki mikið til umræðu á fundinum. Þar var aðallega rætt um, hvernig deilan um Kýpur hefði leysts, og þann þátt, sem Atlantshafsbandalagið hefði átt í þeirri lausn. Það átti verulegan þátt í því að koma á sáttum, eða ná þeim árangri sem náðst hefur, og framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Brosio, fór austur þangað, eins og kunnugt er, og átti sinn verulega þátt í því, að þannig tókst til, að deilan leystist a. m. k. í bili.

Um viðurkenningu á núverandi stjórn í Grikklandi get ég verið fáorður. Ríkisstj. hefur ekki tekið, að ég veit, neina afstöðu til þess máls. Ég kom heim seint í gærkvöld og við höfum ekki haldið neinn fund enn. Ég geri ráð fyrir, að það komi þar á dagskrá síðar. Þá gefst hv. þm. tækifæri á að fá að vita hvernig afstaða stjórnarinnar verður.

Fundur Atlantshafsbandalagsins hér, sem hv. þm. virtist hafa áhyggjur af og sérstaklega af þeim útgjöldum, sem samfara honum væru, verður haldinn hér í júnímánuði n. k. Íslendingar borga ekki „kost og logi“ fyrir þessa menn, eins og hv. þm. virtist ætla, þar borgar hver fyrir sig, og það gera þeir á öllum fundum bandalagsins, svo að hann getur verið óhræddur um sinn skattpening í því efni. Það borgar hver maður sinn ferðakostnað, og það borgar hver maður sitt uppihald. Annar kostnaður verður sjálfsagt einhver, hve mikill hann verður, veit ég ekki, það eru aðallega lagfæringar á húsakynnum og samgöngulínur við útlönd og annað þess háttar, en uppihald, hvorki fyrir fulltrúa Grikklands né Portúgals eða neinna annarra ríkja verður greitt úr ríkissjóði.