04.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

Verkföll

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í sambandi við þingskapaumr. s. l. fimmtudag, vakti ég athygli á því, hversu óheppileg sú þingvenja væri, að aðvörunar- og fyrirvaralaust væru tekin til umræðu hin stærstu mál, þótt ekki séu á dagskrá. Nú er það miðað við þá venju, sem upp hefur verið tekin og tíðkazt hefur í mörg ár, skiljanlegt, að þessu máli sé hreyft hér, og skal ég alls ekki út á það setja, eins og á stendur. Hinu verð ég þó að halda fram, að bæði hefði verið hægt að aðvara stjórnina fyrirfram um, að þess yrði vænzt, að hún gæfi yfirlýsingar um málið á þessum fundi, og eins hitt, að þeir atburðir, sem nú hafa gerzt, koma mönnum ekki svo á óvart, að hv. þm. og hans flokki hefði verið í lófa lagið að flytja frv. þess efnis, sem hann gerði hér að umræðuefni, ef hann teldi, að það eitt nægði til þess að leysa þetta mál. En auðvitað vitum við allir, að málið er miklu flóknara heldur en hv. þm. vildi vera láta. Það varð að ráði í nóvember að afnema ákvæðin um vísitölugreiðslu á laun eða verðtryggingu, sem svo var kölluð, vegna þess að þau ákvæði hafa ekki úrslitaþýðingu um raunveruleg kjör, meðan svo stendur sem nú og meðan samningafrelsi er um hið almenna kaupgjald. Það eitt er eðlilegt, að þetta hvort tveggja fylgist að. Það hefur oft verið gerð grein fyrir því áður, að það kann vel svo að vera, að eðlilegt sé að greiða vísitöluuppbætur á laun, verðtryggja kaupið, en þannig getur staðið á, jafnt í okkar þjóðfélagi eins og öðrum, að slíkt sé varhugavert, a. m. k. að lögbjóða það af hálfu ríkisvaldsins. Þess vegna er það eitt eðlilegt, að þetta sé háð samningsfrelsi aðila.

Um það þarf ekki að deila, að íslenzkt þjóðfélag hefur nú orðið fyrir ákaflega miklum skakkaföllum að undanförnu. Það hefur verið hafður uppi um það ástæðulaus ágreiningur hér á Alþ og í umr. annars; hverjum þetta væri að kenna. Ég skal ekki fara að eltast við það enn þá einu sinni. Staðreyndin er, að útflutningur landsmanna minnkaði á s. l. ári um kringum 2 þús. millj. eða hér um bil 30%, og varð þó útkoma ársins mun lakari heldur en þessu nam, m. a. vegna þess, eins og hv. fyrirspyrjandi nú gerði ýtarlega grein fyrir hér á þingi s. l. miðvikudag, að kostnaður við öflun þess síldarmagns, sem á land kom, varð miklu meiri heldur en áður hafði verið. Vertíðarkostnaður í fyrra varð einnig miklu meiri, og við liggjum með miklar birgðir af skreið, sem í bili eru lítt eða ekki seljanlegar. Öll þessi áföll hafa orðið til þess, að hér er mikil vá fyrir dyrum, því tjáir ekki að neita, og undan því geta landsmenn með engu móti skotið sér. Það varð að ráði í nóvember að ráða fram úr þessum vanda, a. m. k. að nokkru leyti, með gengisfellingu. Af þeirri gengisfellingu hlutu að leiða verulegar verðhækkanir, sem þá var leitazt við að gera grein fyrir, og menn hafa nú kannske enn þá skýrara yfirlit um, hverjar verða munu. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir, að ef þessar verðhækkanir eiga að bætast að fullu á allar launagreiðslur í landinu, veldur slíkt slíkri verðbólgu, slíkum örðugleikum, að vís voði er framundan. Þess vegna hefur ríkisstj. ekki treyst sér til þess að bera ábyrgð á því, að á meðan svo stæði, væru fullar vísitölugreiðslur lögbundnar eða verðtrygging launa ætti sér stað. Með því væri kannske hægt að sleppa framhjá örðugleikum í bili, leysa verkfall um sinn, en efnahag þjóðarinnar væri stefnt í varanlegan voða.

Ríkisstj. hefur gert margháttaðar ráðstafanir til þess að standa á móti því, að hér yrði almennt atvinnuleysi, að halda uppi sem almennastri atvinnu og einnig til þess að kjaraskerðing yrði sem allra minnst. Efnahagsstefna stjórnarinnar hefur mótazt af þessari viðleitni. Það má segja, að ein afleiðing þeirrar viðleitni hafi verið það, hversu mjög gekk á gjaldeyrissjóð þjóðarinnar á s. l. ári. Ef nú verður ekki spyrnt við fótum og haldið í þann sjóð, sem eftir er, er það ljóst, að á örfáum mánuðum muni þessi mikla trygging, bæði fyrir velfarnaði landsfólksins, fyrir frjálsri verzlun og fyrir fullri atvinnu, vera úr sögunni. Það er þess vegna ekki unnt aðgerðalaust að láta það eiga sér stað, að þessi sjóður gangi til þurrðar. En jafnframt er það höfuðnauðsyn, að atvinna haldist, og ríkisstj. hefur, eins og ég segi, gert margar, — ég vil segja óteljandi — ráðstafanir, til þess að svo geti orðið, bæði með fyrirgreiðslu einstakra atvinnustofnana um allt land, víðs vegar með beinni hjálp til einstakra byggðarlaga, og svo fyrst og fremst með því að stuðla að því, að vertíð gæti hafizt sem fyrst og af fullum krafti jafn skjótt og veðurfar leyfði og aflabrögð. Allt hefur þetta kostað mikil átök og kostar mikið fé. Á þessum þingfundi er til afgreiðslu einn angi þess máls, en í það er ekki horfandi vegna þeirrar miklu nauðsynjar, sem okkur er á höndum. Við höfum einnig fullan hug á því að haga meðferð mála svo, að ekki þurfi að verða samdráttur í ríkisframkvæmdum eða dregið verði úr framkvæmdaáætlun fyrir utan fjárlög af hálfu ríkisvaldsins og opinberra stofnana, eins og tíðkazt hefur hin síðari ár, svo að þær framkvæmdir geti orðið með svipuðum hætti og síðasta ár. Enn liggja ekki fyrir um þetta fastmótaðar ákvarðanir, en að þessu er unnið, og á það verður lagt höfuðkapp, að full atvinna geti haldizt í landinu í heild. Fyrir hitt verður aldrei komið í veg, að árstíðabundið atvinnuleysi eigi sér stað einhvers staðar á landinu. Og ég hygg, að einmitt hv. þm., sem hér talaði, hafi oft lagt á það áherzlu og það réttilega, að höfuðatriðið í þessu efni er fyrst og fremst, að atvinnan haldist full, að atvinnutekjurnar skerðist ekki vegna atvinnuleysis.

Um þessi efni höfum við átt viðræður við Alþýðusambandið og raunar fulltrúa vinnuveitenda líka, en Alþýðusambandið sérstaklega hvað eftir annað, og nú síðast, ég hygg á föstudaginn var, þegar við lýstum yfir okkar eindregna vilja í þessu sambandi.

Og því fer svo fjarri, að við höfum látið þessa deilu afskiptalausa, að við höfum verið í nánu, ég vil segja stöðugu sambandi við sáttasemjara og aðila, eftir því sem við höfum talið, að það gæti haft nokkra þýðingu, og tjáð þeim öllum, að við værum reiðubúnir til viðræðna, bæði um almennar ráðstafanir í atvinnumálum og eins um lausn þess vanda, sem hér er við að glíma, hvenær sem þeir óskuðu eftir, hvort sem það væri á nóttu eða degi. Enn hefur því miður ekki tekizt að leysa þessa deilu. Sáttafundur stendur nú yfir og samkv. þeim fregnum, sem ég hef af honum, er ekki ástæða til þess að vera sérstaklega bjartsýnn um skjótar sáttir, en ég vil þó engan veginn fortaka, að þær geti tekizt. Og ég veit ekki, hvort það er til mikillar fyrirgreiðslu, að við hefjum almennar deilur um málið einmitt á meðan á sáttafundi, e. t. v. úrslitafundi um málið, stendur. Hitt væri þá nær að taka málið upp á þinglegan hátt, ef það kemur í ljós, að aðilar geta ekki náð saman, geta ekki sætzt.

Það er algerlega óraunsætt að tala nú svo eins og þjóðarheildin, einstakar stéttir, og ég vil segja einstaklingar, geti komizt hjá nokkurri kjaraskerðingu. Auðvitað óskum við allir þess, að slíkt væri hægt og viljum leggja okkur fram um það, og engum er það ljósara heldur en okkur, sem í ríkisstj. erum, að það væri miklu meiri fagnaðarboðskapur að geta sagt, að hér þyrfti ekki annað heldur en samþykkja allar kröfur, sem fram eru komnar, og þar með væri þessi vandi leystur. En því miður er málum ekki svo háttað. Ef menn fást ekki til þess að sníða sér stakk eftir vexti, að játa þær staðreyndir, sem nú liggja fyrir í íslenzkum efnahag, er voðinn vís. Þá geta menn e. t. v. haldið sér gangandi nokkrar vikur, en þá fer hér allt í vandræði áður en varir, og við verðum miklu verr staddir heldur en vera þyrfti og eðlilegt er, jafnvel miðað við þá miklu erfiðleika, sem að steðja.

Nú játa ég út af fyrir sig, að það sé eðlilegt, að verkalýðurinn, einkanlega þeir, sem harðast hafa orðið úti, segi: Það er ekki hægt að ætlast til þess, að við tökum á okkur bóta- og skefjalaust allar þær verðhækkanir, sem á kunna að skella meira og minna að tilhlutun aðila, sem við höfum engin tök á. Og við ætlumst til þess, a. m. k. sem lágmark, að okkur sé veitt öryggi um framtíðina, ef við eigum að halda áfram okkar starfi. Þetta er út af fyrir sig skiljanlegt. Það kann að vera erfitt að veita slíkt öryggi í þeirri óvissu, sem við nú erum, en það er sjálfsagt að leita eftir leiðum til þess, hvort þetta sé hægt að veita. Alveg eins og það er sjálfsagt að leita eftir leiðum til þess að kanna, hvort hægt sé að láta þá óhjákvæmilegu lífskjaraskerðingu, sem nú hlýtur að lenda á allri þjóðinni, koma þannig niður, að ekki þurfi að bitna jafnhart á öllum. Ef slíkar leiðir eru til, er sjálfsagt að kanna það til hlítar og athuga. En mestu máli skiptir í þessu sambandi, að þannig sé haldið á, að full atvinna haldist og atvinnuvegirnir geti óhindrað starfað.

Hitt segi ég svo við hv. stjórnarandstæðinga og ekki sízt hv. Alþb.-menn og ég hygg, að það eigi einnig við hv. framsóknarmenn, að það tjáir auðvitað ekki hvort tveggja að krefjast skefjalauss réttar til að gera verkföll til þess að stöðva atvinnuvegi, þegar verkalýðsfélögunum þykir það henta, en heimta svo jafnframt ætíð íhlutan ríkisvaldsins til þess að firra erfiðleikunum af þessum ráðstöfunum. Þarna hlýtur frelsi og ábyrgð að fara saman. Þeir, sem ákveða vinnustöðvanir og verkföll, taka þar með á sig ábyrgð af afleiðingum þeirra sinna gerða. Með þessu er ég ekki að sakfella neinn. Ég er einungis að skýra frá hinu sanna og óhjákvæmilega eðli málsins. Ef ætlazt er til þess, að allur vandi atvinnulífsins sé leystur inni í þessum sölum Alþingis, eru þeir, sem þess krefjast, að heimta, að löggjöf verði sett um allt kaupgjald, um ráðstöfun allra þessara mála. Það er ekki hægt að segja: Ríkið á einungis að taka við erfiðleikunum og leysa þá, ef aðrir geta haft úrslitaákvarðanir um það, sem ræður, hvort erfiðleikarnir verða meiri eða minni. Hér hafa menn tekið þann kast að láta kaupgjaldssamninga vera frjálsa og láta mjög litlar hömlur vera á verkföllum. Það má endalaust deila um, hvort þetta sé skynsamlegt eða skynsamlegt ekki. En meðan þessi háttur er á hafður, tjáir ekki ætíð að koma til Alþ. og segja, að nú eigi það að taka við, eftir að í óefni er komið. Og vissulega er það svo, að lögfesting vísitölu einnar eða kauptryggingar á auðvitað alls ekki við í þeim vanda, sem við er nú að etja. Hv. 4. þm. Austf. sem hér talaði benti á það, sem töluvert er til í, að ýmsar stéttir hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum nú þegar vegna atvinnuskerðingar, sem leiðir af þeim vandræðum, sem við erum í. Hið sterkasta í hans málflutningi er, að það sé óeðlilegt, að einmitt þær stéttir verði einnig fyrir skakkaföllum vegna þess, að ekki sé veitt full vísitala. Þetta er rétt, og það væri æskilegt að geta ráðið bót á þessu, ef það er hægt. En um leið og menn hafa þessi rök, tjáir ekki að halda því blákalt fram, eins og haldið er fram af þessum þm. öðru hverju og enn ákafar af sumum hans flokksbræðrum og hv. framsóknarmönnum, að af þessu eigi einnig að leiða, að allir opinberir starfsmenn eigi að fá fullar vísitöluuppbætur, því að ef nokkur hópur í landinu er, sem þessi atvinnuskerðing og atvinnuörðugleikar hafa ekki lent á, eru það einmitt hinir opinberu starfsmenn, sem hafa allt sitt á þurru á tímum eins og þeim, sem nú ganga yfir. Framhjá þessu verður ekki komizt. En einmitt forustumenn í þessum samtökum eru nú mest manna hvetjandi þess að herða þessi verkföll og halda þeim sem allra lengst og harðast gangandi.

Ég vil vissulega vona, að það takist með skynsemd og öfgaleysi að ráða fram úr þeim mikla vanda, sem nú er við að etja. Og ég vil heita á alla góða menn, sem þar geta lagt hollráð til, að vinna að því, að svo megi verða. Að menn annars vegar geri sér ljóst, að nú verði ekki fram hjá nokkurri kjaraskerðingu komizt, en það sé jafnframt eðlilegt, að a. m. k. hinir lakast settu fái tryggingu fyrir því, að sú kjaraskerðing verði ekki ófyrirsjáanlega mikil og að við allir leggjumst á það, sem langsamlega mestu máli skiptir í þessu, að fara þannig að, að full atvinna geti haldizt í landinu, að trygging fáist fyrir því, að hér skapist ekki varanlegt, almennt atvinnuleysi. En ef atvinnuvegunum verður nú ofboðið með því að knýja fram eða lögfesta hærri kaupgjaldsgreiðslur en þeir geta greitt, þá er fyrsta og berasta afleiðingin af því vaxandi atvinnuleysi, sem enginn sér út fyrir, hversu mikið muni verða né lengi standa.