09.12.1967
Neðri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja neitt að ráði þessa 1. umr. um þetta mál. Ég vil aðeins láta það koma fram hér, af því að minnzt var á birtingu úrskurðar yfirnefndar um verðlag landbúnaðarins, sem nýlega er fallinn, að það er óvenjulegt, að þessi úrskurður er ekki birtur strax. Ég hygg, að ég fari rétt með það, að það hafi verið venja yfirnefnda áður að láta úrskurðinn til birtingar strax, þegar hann er fallinn. Að þessu sinni var það ekki gert, heldur var úrskurðurinn ásamt grg. sendur til Sexmannanefndar. Sexmannanefnd hefur ekki komið saman á fund enn þá út af úrskurðinum, og valda því ýmis atvik, sem of langt yrði að rekja hér, en fundur hefur verið boðaður í n. núna seinna í dag. Þetta vildi ég láta koma fram.

Hæstv. landbrh. hefur lagt til að vísa þessu frv. til landbn., og þar sem ég á sæti í þeirri n., gefst mér kostur á að fjalla um málið þar og mun þess vegna ekki fara út í einstök atriði núna. Þó vil ég gjarnan láta koma fram við 1. umr., að ég ber töluverðan ugg í brjósti um það, að erfiðlega kunni að ganga að framkvæma 1. gr. frv. Það er hér lagt í hendur Sexmannanefndar og síðar yfirdóms að úrskurða, hverjar hækkanir skuli takast inn í grundvöllinn, hverjar hækkanir á rekstrarvörum. Ég verð að viðurkenna, að þetta er eðlilegt, eins og löggjöf um þetta er háttað. Þetta er eðlilegur aðili til þess að fjalla um málið. En vegna þeirrar reynslu, sem orðið hefur í haust um drátt á verðlagningunni, og einnig vegna þess, hversu, að okkar dómi bænda, hefur gengið erfiðlega að ná rétti í gegnum störf Sexmannanefndar, er ég mjög uggandi um framkvæmd þessa máls.

Í fyrsta lagi er það, að efnislega geti hún orðið okkur óhagstæð. Hv. þm. gera sér vafalaust grein fyrir því, að þarna eru mörg matsatriði, og e.t.v. er okkur það ljósara eftir ræðu hæstv. ráðh. en áður, hversu mörg þau geta orðið, þar sem hann sagði, að taka yrði inn hækkanir þær, sem orðnar væru og fyrirsjáanlegar. Og það gefur auga leið, að þarna getur komið til ágreinings.

Í öðru lagi álít ég að gengi kraftaverki næst, ef tækist að ljúka þessari athugun og frágangi þessara mála í Sexmannanefnd og yfirdómi fyrir 20. des., enda þótt það standi í l. og enda þótt það sé brýn nauðsyn, hvernig sem á það er litið.

Það er víst 9. des. í dag. 1. sept. átti nýr verðlagsgrundvöllur að taka gildi. Yfirnefnd hefur fellt sinn úrskurð, en enn þá er eftir að fjalla um kostnað og álagningu í Sexmannanefnd, og það veit raunar enginn enn í dag, hvenær endanlegt haustverð kemur.