08.02.1968
Neðri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2157)

86. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. mælti fyrir nál. minni hl. allshn., eftir að ég hafði mælt fyrir nál. meiri hl. allshn. Hann talaði málefnalega fyrir sínu máli og skýrði sín sjónarmið og sinna skoðanabræðra í málinu. Að vísu var ég búinn að koma inn á þau atriði í minni framsöguræðu, svo að ég get sleppt því að svara því, sem hann kom með í sinni ræðu.

Öðrum aðila, sem stendur að áliti minni hl. allshn., hefur virzt ekki vera nógu skýrt sjónarmið minni hl. allshn. og hélt langa ræðu í málinu, sem entist honum stóran hluta af tveimur þingfundum tvo daga í senn. Þetta var hv. 1. þm. Norðurl. e. Mikill tími af ræðu hans fór í að lesa upp ræður, sem fluttar voru í hv. d. undir umr. málsins hér á árinu 1966, og sérstaklega tók langan tíma upplestur á ræðu fyrrv. þm. Halldórs Ásgrímssonar og sömuleiðis töluverðan tíma upplestur á ræðu Óskars Levy. Allt var þetta gert, að mér skildist, af föðurlegri umhyggju fyrir þdm., að þetta muni e.t.v. hafa farið fram hjá þeim mörgum, og þó alveg sérstaklega þá beint til þeirra, sem eru nýkomnir síðan, og því var að dómi þessa hv. þm. nauðsynlegt, að ekkert af þessu færi fram hjá þdm., þó að það tæki nokkurn tíma. En ég verð nú að segja fyrir mitt leyti, og ég hygg, að óhætt sé að segja það fyrir alla þá, sem sátu á þingi, þegar mál þetta var til umr., þá voru ýtarlegar umr. um málið, og ég vil ætla, að þm. almennt fylgist það vel með umr., að það þurfi ekki að lesa upp ræður tveimur árum síðar til þess að áminna þm. og láta eiginlega að því liggja, að þeir hafi látið málið fara fram hjá sér án þess að hugsa nokkurn hlut um það.

Hv. l. þm. Norðurl. e. dró í efa, að það væru nokkrir sérfræðingar til á Íslandi í umferðarmálum. Að vísu er það rétt, að enginn hefur þennan eina stimpil á sér, en hinu kom ég að í minni ræðu, þegar ég mælti fyrir áliti meiri hl. allshn., að það væru þó tveir embættismenn í landinu, sem hafa látið sig þessi mál mestu varða, og maður verður að ætla það, að tveir menntaðir embættismenn, sem eiga að sjá um jafnþýðingarmikla hluti og hafa yfirstjórn vega á hendi og lögreglumálin hér í Reykjavík og jafnframt vera formaður umferðarlaganefndar, hafi kynnt sér betur en flestir, ef ekki allir aðrir, þessi mál hjá öðrum þjóðum. Þess vegna verður auðvitað að verulegu leyti að byggja mikið á þeim upplýsingum, sem þessir menn gefa. Hitt er svo annað mál, að alþm. þurfa ekki endilega að fara eftir því, sem sérfræðingar leggja til. Þeir eiga fyrst og fremst að hlusta á rök þeirra, en mynda sér svo skoðanir um málin, sem ég mun koma síðar að í sambandi við svör við ræðu annars þm., sem talaði á eftir 1. þm. Norðurl. e.

Hv. 1. þm. Norðurl e sagðist ætla að láta rök ráða í sínum málflutningi, og heldur var hann að snupra mig fyrir það, að ég í minni framsöguræðu hafi ekki verið rökfastur En sem dæmi upp á rökfestu hv. þm. kom hann með þá athyglisverðu staðreynd, sem sjálfsagt hann hefur haldið, að enginn þm. vissi, að það hefðu engir árekstrar orðið á milli flugvéla og bíla og engir árekstrar á milli bíla og skipa eða flugvéla og bíla. Ég læt hann um að dæma, hvað rökfesta er mikil í slíkum málflutningi sem þessum. En ég hygg, að það sé enginn þm. svo illa að sér, að hann viti það ekki, að bílar hafa götur og vegi til að aka eftir, en skipin sigla á sjónum og flugvélarnar fljúga í loftinu, en þær koma líka til jarðar, en þá er yfirleitt bönnuð bílaumferð, þar sem flugvélar setjast, svo að þetta dæmir nokkuð röksemdafærslu þessa greinda og ágæta þm., þegar hann heldur uppi slíkum málflutningi.

Þá sagði sami hv. þm., að frv. um hægri handar akstur hafi verið hespað af í skyndi. Ég veit ekki, hvaða hraða á að hafa á setningu löggjafar á Alþingi Íslendinga, ef það er talið, að þessu frv. hafi verið hespað af í skyndi. Það er lagt fyrir Alþingi í nóv. 1965, og það er afgreitt frá Ed. Alþingis 3. maí 1986. Þetta mál var ekki nýtt mál. Það hafði verið rætt á tveimur þingum á undan, 1962–63, 1963–64, þá allýtarlega, og svo má einnig minna hv. þm. á það, að með setningu umferðarlaganna 1940 var ákveðið að taka upp hægri handar akstur í þessu landi, svo að það má segja, að þetta mál hafi verið búið að vera meira eða minna til umr. og meðferðar í Alþ. í 26 ár. Og ég hélt, að það þyrfti nú sízt af öllu að kvarta undan of miklum hraða í gangi þingmála. Kannske telur þessi hv. þm., að það eigi að vera normalt við setningu laga hér frá Alþingi Íslendinga að hafa lengri tíma, og sennilega er hann á því að hafa það kannske hálfa öld. En hann um það.

Þá hafði hv. þm. mjög miklar áhyggjur af því að fá ekki nákvæma skýrslu um, hvaða þjóðir hefðu vinstri handar umferð og hvaða þjóðir hefðu hægri handar umferð. Það liggja hins vegar fyrir skýrslur um umferð í öllum Evrópulöndum og í öllum löndum Norður-Ameríku, og þetta eru einmitt þær þjóðir, sem við höfum öll okkar samskipti við, en hins vegar er það rétt, að skýrslur lágu ekki fyrir um umferð í fjölmörgum löndum í öðrum heimsálfum. Þó liggja fyrir upplýsingar um það, að Kína, eitt fjölmennasta ríki veraldar, hefur tekið upp hægri umferð, og er þó talið, að ráðamenn þar í landi séu litlir hægri menn í þess orðs merkingu, sem við höfum aðallega yfir það. Þá þykir mér rétt að geta þess, að ríki eins og Eþíópía og Kamerún hafa tekið upp hægri umferð, ef það skyldi verða eitthvað til þess að gera hv. þm. mildari eða hans hugarfar í sambandi við breytinguna úr vinstri til hægri umferðar. Þá hafði hv. þm. enn fremur allþungar áhyggjur af því, að hægri handar frv. hefði verið samþ. shlj. á Alþingi og taldi það eiginlega ekki hafa komið nægilega skýrt fram. Auðvitað hafa atkvgr. komið fram í öllum blöðum. Þessar atkvgr. koma fram í nál. bæði meiri og minni hl. allshn., og ég hygg, að þjóðin hafi ýmsar aðrar hugmyndir um Alþingi en þær, að þar gerist allt hljóðalaust og allir séu sammála, svo að ég hygg, að þessar áhyggjur hv. þm. hafi ekki mjög mikið við rök að styðjast.

Þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. hafði lokið máli sínu, kom hér í ræðustólinn hv. 4. þm. Reykv. og hann talaði hér langt mál. Ég hef tekið eftir því, að þessi hv. þm. er alltaf mjög ræðuglaður, ef áheyrendur á þingpöllum eru 5 eða fleiri. Og í þetta skipti vildi svo heppilega til, að áheyrendur voru mun fleiri, og það gerði það auðvitað að verkum, að hv. þm. þurfti að eyða enn lengri tíma til að ræða þetta mál.

Hann hóf mál sitt á því að afsaka sig með því að hafa ekkert látið frá sér heyra við umr. hér í þd. á þinginu 1965–1966, og hann lýsti því hreinlega yfir, að hann hefði verið skoðanalaus í þessu máli, en tók þó þann kostinn við afgreiðslu málsins auðvitað að greiða atkv. á móti því, þó að hann hefði enga skoðun á því haft.

En hvað var það svo, sem breytti afstöðu þessa hv. þm? Jú, það kom líka fram í ræðu hans. Það var ekki strax eftir að búið var að samþykkja frv. og það orðið að lögum. Hann var ekki farinn að hugsa neitt alvarlega um það. Og þegar hann svaraði ásökun minni, hvers vegna hann hefði ekki flutt þetta frv., sem nú liggur hér fyrir, áður en hafði verið komið jafnlangt út í undirbúning að hægri handar umferð, reyndi hann að skjóta sér á bak við formann flokksins og sagði, að formaður flokksins hefði ekki talið hyggilegt að flytja slíka till. hér á Alþingi, því að þá hefði þjóðaratkvgr. verið látin fara fram, um leið og alþingiskosningar hefðu verið látnar fara fram, og þess vegna hefði hann ekki flutt málið fyrr: Mér finnst, að þetta sé ákaflega lítilmannlegt, að láta slíkt sem þetta frá sér fara, en bíða eftir því, að millj. kr. sé sóað, eins og hann komst að orði, í allan undirbúninginn, og kasta þá ásamt félögum sínum þessu frv. inn 1–2 dögum áður en Alþ. fer í jólaleyfi.

En það, sem skeði hjá hv. þm., var, að hann sá það, að nokkrir menn í landinu, sem hafa verið andstæðingar hægri umferðar, hafa stofnað samtök og þeir hafa haft uppi allmikinn áróður fyrir því að vinna sinni skoðun brautargengi hjá mörgum, og þá taldi þessi hv. þm. það vera sjálfsagt, fyrst það væri komin mikil óánægja hjá allmörgum mönnum, að nú væri rétt að flytja málið, því að það væru svo margir óánægðir. En hann var bara ekki sá fyrsti að sjá og vita, að menn væru óánægðir. Það var á s.l. ári stofnaður heill stjórnmálaflokkur, sem hafði eitt af sínum aðalstefnuskrármálum að berjast gegn hægri umferð. Þar voru menn á undan hv. 4. þm. Reykv. En hver var árangurinn af þeirra erfiði öllu? Þeir buðu fram í tveimur kjördæmum. Þar voru greidd gild atkv. 55740, en þeir fengu aðeins 1043 atkv., þessi sérstaki stjórnmálaflokkur, sem barðist gegn hægri handar umferð.

Ég held, að hv. þm. flaski mikið, þegar hann heldur, að stjórnmálaskoðanir manna fari eftir viðhorfum ákveðinna manna í ákveðnum flokkum til einhverra ákveðinna tímabundinna mála. Þar er auðvitað svo margt fleira, en grípur inn í, og ég tel það ekki vera neina lítilsvirðingu gagnvart neinum, þó að menn innan sama flokks séu ekki sammála í öllum atriðum í málum eins og þessum. Ég er sannfærður um, að það er til góðs að breyta umferðinni frá vinstri til hægri, og það hefur því engin áhrif á mig, þó að nánir samstarfsmenn mínir og flokksbræður séu á móti í þessum efnum. Við eigum saman skoðanir í fjölmörgum öðrum málum, sem munu endast lengur en þetta mál. Við vitum, að það er alltaf hægt að skapa andróður og mótblástur gegn málum, og fæst eru þau lagafrv., sem eru afgreidd hér frá Alþingi, sem einhverjir menn í þjóðfélaginu eru ekki eitthvað á móti. En sumir menn eru með þeirri áráttu að þurfa yfirleitt alltaf að nota sér að vera á móti málum, ef það skyldi verða til þess að auka á óánægjuna. Ég efast ekki um, hvar þessi hv. þm. hefði verið í símamálinu, ef hann hefði verið uppi á Alþ. í þá daga. En hver berst núna á móti símanum?

Ég hef hitt menn, sem eru með vinstri handar umferð og vilja ekki breyta yfir til hægri. Þeir hafa sagt við mig fleiri en einn og fleiri en tveir: Ja, hvers vegna var ekki breytingin gerð, eftir að Bretar fóru héðan? Það var eðlilegt, að henni var frestað 1940, þegar amerískur her kemur inn í landið og þar er hægri handar umferð, — hvers vegna var þetta ekki gert þá? Þá var meiri skynsemi að gera þetta. — Þetta er alveg rétt hjá þessum mönnum. En hvað verður sagt eftir 20 ár, ef við samþykkjum frv. 4. þm. Reykv. o. fl. og hverfum frá því, eftir að við erum búnir að eyða jafnmiklu í þessa breytingu og raun ber vitni? Þá verður sagt: Hvers vegna fóru menn virkilega að hætta við þessa breytingu, þegar hún var komin svo langt? Þróunin í heiminum er sú, að það er verið að gera samræmingu í umferð á sjó, landi og í lofti. Hv. 4. þm. Reykv. segir í sinni ræðu, að hann hafi ekki heyrt eða séð neinar áskoranir frá íslenzkum námsmönnum, sem komi hingað og aki hér á íslenzkum vegum, námsmönnum, sem eru við nám í löndum, sem hafa hægri handar umferð, hann hafi ekki heyrt neina sjómenn nefna þetta eða aðra slíka. Ég verð nú að segja það, að ég held, að hv. þm. tali þá yfirleitt lítið við sjómenn, því að ég er búinn að heyra marga tugi sjómanna tala um það og þó alveg sérstaklega skipstjóra og stýrimenn, að þegar þeir eru búnir að vera lengi úti á sjó, eins og t.d. á síldveiðum mánuðum saman, segjast þeir sannarlega mega passa sig, þegar þeir eru komnir hér í umferðina, að þeir eru svo rígbundnir þá við hægri umferðina, og það er margur skipstjóri, sem hefur fengið allt upp í 3–4 áminningar á dag hjá lögreglunni, — fyrst eftir að hann hefur komið í land. Þetta veit ég með vissu af samtölum við sjómenn. En hins vegar hafa þessir menn sem stéttir ekki lagt fram neinar áskoranir í þessum efnum.

Hv. þm. taldi eðlilegt, að Svíar breyttu um í umferðinni. Sú var nú tíðin, að það var ekki talið eðlilegt, og eins og ég kom inn á í minni ræðu, þá fór fram þjóðaratkvgr. í Svíþjóð 1955 og þjóðin felldi þessa breytingu þá. En Svíar voru knúðir til þess að taka hana upp núna, og varð margfalt meiri kostnaður fyrir bragðið. Þannig er það yfirleitt með allar slíkar atkvgr., sem eru lagðar fyrir þjóðir, þegar það kostar skatta, að það eru ekki allir, sem kynna sér málið til hlítar, en líta fyrst og fremst á skattana í því sambandi, og það er ósköp mannlegt og eðlilegt hjá hverjum og einum að vilja greiða sem minnst.

Þá talaði hv. þm. um, að þetta væri allt annað í eyríkjunum, og spurði: Hvers vegna hafa Bretar ekki skipt um? Ég auðvitað get ekki svarað fyrir Breta. En hins vegar dettur mér í hug: Hafa ekki Bretar verið yfirleitt seinir til allra breytinga? Og ég segi: Hvers vegna eru þá Bretar núna, þó að þeir séu eyríki, að fara að breyta um mynt, mál og vog? Það hefur verið óþægilegt fyrir viðskiptaþjóðir Breta, þetta fyrirkomulag. Þær hafa margar viljað, að Bretar tækju þetta upp. Bretar hafa verið seinir til, en nú ætla þeir að fara að breyta. Samt eru þeir í eyríki. Það eru samskipti á milli þjóða, eyríkja og meginlands, á fleiri sviðum en viðskiptasviðinu, á peningasviðinu. Það eru alltaf síaukin samskipti við eyríkin. Hins vegar hlýtur það að verða ólíkt erfiðara fyrir land eins og Bretland að fara út í tvær jafnróttækar breytingar og þessar á nokkurn veginn sama tíma.

Þá kom hv. þm. inn á eitt atriði, sem ég er afskaplega fáfróður um og verð nú að biðja hann afsökunar á, því að ég er nú eiginlega varla fær um að svara því atriði, af því að ég þekki ekkert inn á þetta. Hann talaði um, að ég hefði verið heilaþveginn. Ég veit eiginlega ekki, hvað þetta er. En hann talaði um heilaþvott hjá fleirum en mér, hjá Bandaríkjamanni einum, og talaði um þetta mál af miklum kunnugleika, svo að mér datt í hug undir þessum orðum hans: Ætli þessi hv. þm. hafi unnið í langan tíma á slíkri heilaþvottastöð, svo að hann hefur getað mælt þarna af mikilli þekkingu En ég er engan veginn fær um að svara með heilaþvottinn. Ég kannast ekkert við hann, og það hefur aldrei verið gerð nein tilraun til þess að heilaþvo mig, og ég hef aldrei gert tilraun til þess að heilaþvo aðra og kann ekkert í þessari aðferð. Læt ég svo staðar numið í þeim efnum.

Þá vildi hv. þm. fá mig til þess að fara hér út í umr. um sjávarútvegsmál og umr. í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrir jólin. Ég ætla að segja hv. þm. það, að ég álít, að það sé hér til umr. frv. um breyt. á l. um hægri handar akstur, en ekki sjávarútvegsmál. En ég vona, að guð gefi okkur báðum líf og heilsu til þess að mega ræða síðar um sjávarútvegsmál, og þó að ég sé ekki mikill fyrir mér, held ég, að ég leggi í umr. við hv. þm. síðar um þau efni.

Hv. 2. þm. Sunnl. lagði mikið upp úr þeim mótmælum, sem komið hafa fram, og las upp mótmæli hreppsnefnda og félaga og bifreiðarstjóra og ýmissa annarra. Alltaf er létt verk að fá menn til að mótmæla. En áhuginn gegn hægri handar umferðinni væri ekki svona mikill, ef það væru ekki menn, sem ynnu að því að fá þessi mótmæli framkölluð. Hins vegar kom ég hér fram á lestrarsalinn eftir umr. um daginn og fór að blaða í mótmælunum, og ég verð nú að segja eins og er, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum, þegar ég leit yfir þessa lista. Ég var ekki búinn að líta nema yfir nokkur blöð, þá tek ég eftir sama nafni á tveimur listum og meira að segja bílnúmerið aftan við nafnið. Og ég fletti enn, og aftur sé ég annað nafn, og þá hugsa ég: Þetta nafn sá ég áður og þetta númer, svo að ég fletti aftur. Jú, það passaði. Þar sá ég tvo menn, sem höfðu skrifað á tvo lista og meira að segja bílnúmerið við. Annaðhvort hafa menn þessir gleymt, að þeir höfðu skrifað á listann, eða þá hitt, að þeir hafa verið að framkvæma og framkalla fleiri mótmæli með því að skrifa nógu oft á. Þetta er auðvitað engu máli til framdráttar, heldur öfugt.

Hins vegar má segja það, að þeir menn, sem styðja breytinguna til hægri handar, hafi ekki farið í neinar undirskriftasafnanir og þeir hafi talið, að eftir að Alþ. gekk frá og samþykkti frv. um hægri handar akstur sem lög, þyrfti ekki á neinu slíku að halda. Það er t.d. mikið lagt upp úr því, að allmargir leigubílstjórar séu andvígir breytingunni. Víst er það rétt. Maður hefur orðið var við það, og það er þeirra skoðun. En við skulum hafa það með í huga, að atvinnubílstjórar eru aðeins lítill hluti allra þeirra, sem aka bifreiðum hér á landi, og umferðarbreytingin snertir ekki einungis bifreiðarstjóra, ekki atvinnubifreiðarstjóra eða einkabifreiðarstjóra, heldur snertir hún alla vegfarendur, akandi sem gangandi, og þar með landsmenn alla. Það er vel kunnugt, að ýmsir menn voru mótfallnir og eru enn þá mótfallnir breytingunni úr vinstri í hægri akstur. En það er eins og ég sagði áðan, það er sama sem gildir og um fjölmörg önnur lög, sem við setjum.

Hv. 2. þm. Sunnl. talaði mikið um þá miklu auknu slysahættu, sem breytingin hefði í för með sér, og það er mjög eftirtektarvert, að slys á fólki í Svíþjóð mánuðina september-desember 1966, tilkynnt slys, eru 5623, en sömu mánuði árið 1967 eftir umferðarbreytinguna þar fækkar þessum slysum niður í 5265. Dauðaslysin í Svíþjóð mánuðina september-desember 1966 voru 393, en þeim fækkar sömu mánuði 1967 niður í 280, eða það er um 113 dauðaslysum færra þessa 4 mánuði ársins 1967 í Svíþjóð eftir umferðarbreytinguna.

Góður kunningi minn sendi mér bréf rétt áðan, sem Georg Edelgard svæðisstjóri hjá Motormandens Riskforbund í Gautaborg skrifaði honum nú 28. jan. Og hann segir þetta í bréfinu:

„Umferðin hefur eftir breytinguna gengið furðanlega vel, vissulega betur en margir höfðu gert sér vonir um. Banaslysum hefur vissulega fækkað, þó að það hafi vissulega hent, að sumir vegfarendur hafi gleymt sér og vikið til vinstri. Eftir þessari reynslu, sem ég hef skýrt ykkur frá, held ég, að þið þurfið ekki að óttast 26. maí. Vandamálin eru ekki alvarleg, ef menn fara rólega. Við höfum enn þá hraðatakmarkanir, 40 km í þéttbýli og 80 km á vegum úti. Hámarkshraðinn verður aukinn þann 1. marz í 50 km í þéttbýli, en verður óbreyttur 80 km á vegum úti.“

Það er rétt í þessu sambandi, því að hraðinn hefur verið gerður nokkuð að umræðuefni, að minna á það, að almennar reglur um hámarkshraða hjá okkur í dag eru þær, að í þéttbýli er hann 45 km á klst., en með lögreglusamþykktum er hámarkshraði þó víða ákveðinn lægri og yfirleitt 35 km. Í Rvík er hraðinn almennt 35 km, en á helztu umferðarleiðum 45 km. Á Miklubraut er á kafla leyfður 60 km hraði, á svæði, sem er nánast utan þéttbýlis. Utan þéttbýlis er hámarkshraðinn 70 km á klst., en undanteknir eru þó almenningsvagnar fyrir 10 farþega o. fl. og vörubifreiðar 3.5 smálestir eða meira að heildarþyngd, þær mega ekki aka hraðar en 60 km á klst., og bifreiðar með tengi- eða festivagna, sem mega ekki aka hraðar en 45 km á klst. Sérregla gildir þó á Reykjanesbraut að sumri til, að þar er leyfður 80 km hámarkshraði á klst., en bifreiðar með tengi- og festivagna mega aka þar með 60 km hraða. Reglur þær, sem eiga að taka gildi við breytingu í hægri umferð, eru þær, að í þéttbýli fara þær niður í 35 km á klst., en utan þéttbýlis 50 km á klst. í 8 daga, en síðan 60 km á klst., og er þá hraði almenningsbifreiða og vörubifreiða óbreyttur frá því, sem nú gildir. Á vegum, sem nú hafa 60 km hámarkshraða á klst., verður þó hraðinn áfram 50 km, og á Reykjanesbraut verður hann leyfður 60 km.

Við sjáum á þessari tilvitnun í bréf frá sænska svæðisstjóranum í Gautaborg, að Svíar eru aftur farnir að auka hraðann, og þeir telja, að af þeirri reynslu, sem þeir hafa fengið, sé það óhætt, og þegar við lítum yfir farinn veg þessara mánaða, þá verður að segja eins og er, að umferðarbreytingin þar í landi hefur tekizt eftir atvikum mjög vel.

Ég tel, að það skipti höfuðmáli, eins og ég endaði ræðu mína á hér á dögunum, þegar ég mælti fyrir nál., að það væri Alþingi, sem hefði úrslitavaldið í þessu máli. Alþingi hefur sett lög, Alþingi og ríkisstjórn hafa framfylgt þeim lögum með skipun umferðarnefndarinnar, og þessum undirbúningi er langt á veg komið. Við getum haft fleiri en eina skoðun á því, hvort hefði átt að setja þessi lög eða ekki. Við verðum auðvitað að virða skoðanir hver annars í þeim efnum. En þetta er búið, þetta er orðinn hlutur. Lokastigið er að nálgast, og ég tel fráleitt að hverfa frá því, þegar jafnlangt er á veg komið, þar sem bæði við höfum tekið þessa ákvörðun og sömuleiðis hitt, sem skiptir líka miklu máli, að það er búið að fórna miklu fé í þetta og þó enn meira af skuldbindingum, sem eftir er að greiða, svo að það er engan veginn tæmandi tala, sem ég nefndi hér í síðustu ræðu, eða um 32 millj. Ef horfið verður frá því, kemur þjóðfélagið til með að verða fyrir skaðabótakröfum víða að, sérstaklega frá Strætisvögnum Reykjavíkur og langferðabifreiðum hér í þéttbýlinu, sem mundu nema mörgum millj. kr. Ég tel fráleitt að vinna þetta fyrir gýg, því að sú verður þróunin í heiminum, að það verði samræmi í umferð víðast hvar, enda hefur reynsla síðustu áratuga sýnt okkur það, og þess vegna er ódýrara fyrir okkur að láta slíkt ekki bíða lengur en við höfum gert, og því eigum við að halda áfram, þar sem Alþingi markaði sína stefnu með samþykkt l. um hægri handar umferð, og fella þetta frv. og taka höndum saman um að láta umferðarbreytinguna fara sem bezt úr garði þann 26. maí.