08.02.1968
Neðri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2160)

86. mál, hægri handar umferð

Frsm. minni hl. (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Allmiklar umr. hafa orðið hér á hv. Alþ. um frv. til l. um frestun hægri handar umferðar og þjóðaratkvgr. S.l. þriðjudag voru haldnar hér þrjár sérstaklega rökfastar ræður um málið, og allir þessir hv. þm. mæltu gegn hægri handar umferð. Því miður voru þá aðeins örfáir þm. staddir í þingsalnum, þegar þessar ræður voru fluttar, þannig að hin margvíslegu rök, sem komu fram í málinu, hafa ekki náð eyrum nema örfárra þm. Og ég segi því miður: það sama er núna. Og þegar hv. 4. þm. Vestf. var að býsnast yfir því, að ræður væru lesnar, gamlar ræður, vegna þess að alþm. mundu fylgjast vel með, þá er ég ekki viss um nema mikið af þessum rökum fari fyrir ofan garð og neðan.

Mig langar til að minnast hér á nokkur atriði í nál. meiri hl. allshn. á þskj. 249 og ýmislegt í ræðum hv. frsm., 4. þm. Vestf. Í sjálfu nál. er hvergi að finna rök fyrir hægri handar umferð önnur en þau, að málið sé svo langt á veg komið, að ekki verði snúið við nema kasta fé á glæ. Þessi fullyrðing er auðvitað ekki rétt, því að hluti kostnaðar er vegna umferðarfræðslu, umferðarvita og vagngrinda, og þetta kæmi allt að einhverjum notum, þó að hætt yrði við umferðarbreytinguna.

Þá stendur í nál., að rökin, sem við flm. höfum fram að færa, fái engan veginn staðizt, og átti hv. frsm. meiri hl. að gera nánari grein fyrir þessu í sinni framsöguræðu. Eftir að hafa hlustað á ræðu hans er skoðun mín sú, að engin haldgóð rök hafi komið þar fram, þannig að okkar rök standi enn þá óhögguð.

Hv. frsm. meiri hl. rakti nokkuð sögu umferðarmálsins og vitnaði til þess, að ýmsir aðilar hefðu í upphafi mælt með umferðarbreytingunni. Hins vegar gat hann þess ekki, að slík meðmæli komu frá stjórnum félagssamtakanna, og virðist svo, að einstakar stjórnir hafi að lítt eða ekki athuguðu máli trúað á ágæti þessarar umferðarbreytingar, en láðst að kynna félagsmönnum sínum eðli málsins, rök og gagnrök. En síðan hefur komið í ljós, að aðeins fáir liðsmenn í viðkomandi samtökum hafa í raun verið þeim samþykkir, sem sannað er með einróma mótmælum fjölmargra félagsdeilda innan samtakanna.

Þá minntist hv. ræðumaður á það atriði, að þjóðaratkvgr. kostaði líka peninga og hvort við hefðum gert okkur grein fyrir því. Vissulega. Almennt er talið að á næsta sumri verði forsetakosningar á Íslandi, og þess vegna er sjálfsagt að hafa samtímis þjóðaratkvgr. um þetta umdeilda mál, þannig að þjóðaratkvgr. þarf ekki að kosta þjóðina mikið.

Hv. frsm. benti á, að ef hætt yrði við hægri handar umferð, yrði ríkissjóður skaðabótaskyldur. Þetta er rétt. En ríkissjóður er nú skaðabótaskyldur í dag. Í lögum um hægri handar umferð er ríkissjóður skaðabótaskyldur, því að það er tekið fram, að bæta skuli óhjákvæmilegan beinan kostnað vegna umferðarbreytingarinnar, sbr. það, að enn þá er í dómi mál varðandi sérleyfishafa. Og enn þá er ekki ljóst, hve margar skaðabótakröfur kunna að berast, áður en yfir lýkur.

Þá taldi hv. frsm. þetta frv. koma of seint, því að búið væri að verja millj. kr. í hægri handar umferðina og við hefðum, eins og hann orðaði það, kastað þessu frv. í jólapottinn. Viðhorf til þessa máls, eins og annarra mála, hefur mikið breytzt á stuttum tíma. Það má með sama rétti segja, að þjóðin hafi fengið margt óvænt í sinn pott, því að gífurlegar breytingar hafa orðið í okkar efnahagsmálum á stuttum tíma. Í októbermánuði var rætt um nauðsynlegar efnahagsaðgerðir til að rétta við fjárhag ríkissjóðs. Síðan skall yfir okkur gengislækkun, síðar erfiðleikar hraðfrystihúsanna, og nú fyrir fáum dögum hefur hæstv. fjmrh. Í blaðaviðtali sagt, að skapazt hafi efnahagslegt neyðarástand og almenn kjaraskerðing, og nú síðast, að skera verði niður ríkisútgjöld um 100 millj. kr. Ég spyr: Hvern skyldi hafa órað fyrir öllu þessu, jafnvel um miðjan desembermánuð? Allt ber þetta að sama brunni. Við verðum í dag að horfast í augu við gjörbreytt viðhorf, og ekkert er eðlilegra en að hafa nú mikla hagræðingu á öllum sviðum. Hér er verið að ræða um umferðarbreytingu, sem kostar yfir 100 millj. kr. Kostnaðaráætlunin er nú talin 60–65 millj. Þá er eftir kostnaður vegna breytinga á ljósaútbúnaði bifreiða, sem verða milli 20 og 30 millj. kr., og enn þá er engin áætlun um löggæzlu vegna umferðarbreytingarinnar, en hún mun vissulega kosta tugi millj., ef umferðarbreytingin á að vera örugg. Við teljum, að áfallinn kostnaður sé aðeins lítill hluti miðað við þann ófyrirsjáanlega kostnað, sem umferðarbreytingin mun hafa í för með sér.

Hv. frsm. meiri hl. ræddi um slysahættu vegna umferðarbreytingarinnar, eða eins og hann orðaði það, að við værum að slá á viðkvæma strengi. Við höfum ekki gert annað en að benda á augljósar staðreyndir í þessu máli. Við teljum, að okkar þjóðvegakerfi bjóði upp á margar hættur, svo sem hættuleg vegræsi, ómerktar blindhæðir og blindhorn, að umferðarfræðslu hafi verið ábótavant hér á landi, að erfiðleikar séu á því að framkvæma jafnveigamiklar umferðarbreytingar nema með löngum aðdraganda og með strangri og góðri löggæzlu, ekki í eina viku eftir umferðarbreytinguna, heldur mánuði á eftir, sbr. að hv. frsm. viðurkenndi í sinni ræðu, eins og hann orðaði það: Hins vegar virðast umferðarslysin færast í sama mark og áður, þegar lengra líður frá umferðarbreytingunni. Þá átti hann við Svíþjóð.

Þá vitnaði hv. ræðumaður í svokallað samræmingarsjónarmið, að hafa sömu reglu í lofti, láði og legi, og undirstrikaði þetta með því að benda á, að okkar flugmenn væru í sífelldri hættu þess vegna. Við skulum ekki vanmeta þessa hættu. En hann hefði mátt hafa í huga, að stórþjóðir eins og Bretar og Japanar, þessar þjóðir eiga stóran flugflota og þúsundir flugmanna. Með sama rétti má segja, að flugmenn þeirra væru í sífelldri hættu.

Þá vitnaði hv. ræðumaður í orð vegamálastjóra, að þetta frv. hefði haft neikvæð áhrif á fólk og torveldað störf H-nefndar. Þessu vil ég mótmæla. Þetta mál hefur frá upphafi verið umdeilt, og nægir í því sambandi að benda á þær þúsundir undirskrifta og þær mörgu fundarsamþykktir, sem borizt hafa Alþingi að undanförnu, þar sem framkomu þessa frv. til l. er fagnað, og telja þeir rétt, að þjóðin fái úrskurðarvald í þessu máli. Þær umr. og þau skrif, sem hafa farið fram um málið, eru til bóta, þjóðin þarf að vita það rétta í málinu, og með þessu lagafrv. er gerð síðasta tilraun til að stöðva málið og að þjóðin fái að ráða.

Þeirri spurningu hefur verið varpað fram, hvað við mundum gera, ef þetta frv. um frestun hægri handar umferðar yrði fellt. Því er fljótsvarað. Auðvitað mundum við fara að lögum og gera allt, sem í okkar valdi stæði, til þess að umferðarbreytingin mætti vel takast og verða þjóðinni til heilla.

Það hefur verið sagt, að atkvgr. hv. alþm. í sérhverju máli eigi á sinn hátt að sýna spegilmynd af þjóðarvilja. Nú er komið að slíkri atkvgr. Ég vil að lokum ítreka eftirfarandi atriði:

1. Að ekkert hefur komið fram, sem styður þá skoðun, að þessi umferðarbreyting sé aðkallandi eða knýjandi.

2. Að þjóðvegakerfi okkar er sérstaklega varhugavert fyrir hægri handar umferð.

3. Að umferðarbreytingin kostar ekki, eins og upphaflega var áætlað, 50 millj. kr., heldur mun hún kosta yfir 100 millj. kr.

4. Að á sama tíma og í landinu ríkir efnahagslegt neyðarástand skuli eiga að framkvæma jafnumdeilda umferðarbreytingu.

5. Að þúsundir kjósenda eru andvígir umferðarbreytingunni og sérstaklega þeir, sem hafa atvinnu af bifreiðaakstri.

Að öllu þessu athuguðu leggjum við til, að þetta frv. verði samþ.