04.03.1968
Efri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2225)

38. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Frsm. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Þegar l. nr. 73 31. des. 1964, um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum, voru samþ. hér á Alþingi, lá það fyrir, að kaupstaðurinn og ýmsir aðrir aðilar þar heima fyrir greiddu allan stofnkostnað við skólann, þar með talin öll tækja- og áhaldakaup. Þegar málið var þá til afgreiðslu, var m.a. leitað umsagnar stýrimannaskólans í Reykjavík eða skólastjóra hans. Skólastjórinn var þá frekar andstæður því, að umræddur skóli væri stofnaður, og taldi þess ekki þörf. Það var þó mat Alþingis, að rétt væri að verða við óskum þeirra Vestmanneyinga, og tel ég, að það hafi verið fyllilega réttmætt. Með hliðsjón af því, að Íslendingar eru og verða siglinga- og fiskveiðiþjóð, er eðlilegt, að áherzla sé lögð á góða menntun sjómanna. Það er því hugsanlegt, að ýmsir fleiri staðir utan höfuðborgarinnar heldur en Vestmannaeyjar mundu vilja koma á stofn hjá sér slíkum skóla og þessum. Það er því ekki óeðlilegt, að nokkurt aðhald verði skapað í þessum efnum. Við afgreiðslu fjárlaga var komið nokkuð á móts við óskir þeirra Vestmanneyinga um aukinn fjárstyrk til rekstrar skólans, og það er með tilliti til þess, sem sjútvn. þessarar hv. d. er sammála um, að ekki sé ástæða til frekari afgreiðslu málsins að þessu sinni, og leggur til, að því verði vísað til hæstv. ríkisstj. til frekari athugunar.