15.11.1967
Neðri deild: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (2305)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, ber hæstv. ríkisstj. glöggt og ótvírætt vitni, eftir hvaða formúlu er stjórnað, hvaða hugarfar þeir menn hafa, sem línurnar leggja. Það er ef til vill ekkert undrunarefni, þótt íhaldsflokkur eins og Sjálfstfl. er skuli miða allar sinar stjórnarathafnir við hagsmuni þeirra, sem fjármagnið hafa, án tillits til nokkurs annars. En hitt ætti að koma mönnum spánskt fyrir sjónir, að Alþfl., sem þykist vinna undir merki jafnaðarstefnunnar, skuli standa einhuga að þessari stjórnarstefnu, að þeirra jöfnuður sé fólginn í því að gera þá ríku ríkari og þá fátæku enn fátækari. Finnst ekki hv. alþm. það hörð og ömurleg örlög, þegar svo er komið fyrir merkisberum Jóns Baldvinssonar og Héðins Valdimarssonar, að í athöfnum sínum skuli enginn á þessu landi vinna hatrammara á móti grundvallarstefnu flokksins en þeir sjálfir? Það góða, sem þeir segjast vilja gera, það gera þeir ekki, en það illa, sem þeir þykjast fyrst og fremst berjast á móti, það gera þeir og fylgja einhuga að eigin sögn. Ekki vil ég trúa því, að það sé af illvilja eða dómgreindarleysi, að þeir fylgja verstu íhaldsstefnu, sem nokkurn tíma hefur bólað á í þessu landi, heldur mun það vera sanni nær, að góðu og mjúku sætin, þ.e.a.s. ráðherrastólarnir, og sú aðstaða, sem þeim fylgir, séu tekin fram yfir hugsjónir og fyrirheit, þegar svo er komið, að á milli þessa þarf að velja.

Hæstv. menntmrh. lýsti því yfir hér á hinu háa Alþ., að algjör samstaða væri um þetta frv. í Alþfl., já, samstaða um það að leggja á nýja nefskatta án þess að koma með neinar tillögur um, að þeir efnameiri í þjóðfélaginu yrðu látnir leggja meira til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins en þeir gera nú. Þessir háu herrar viðurkenna, að í landinu viðgangist stórfelld skattsvik, að söluskattinum sé ekki skilað nema að nokkru leyti, en þó eru litlir tilburðir til þess að bæta úr þessu. Það eru víðar en í Indlandi til heilagar kýr, sem ekki má ýja við, hvað þá meira, og því er eina úrræðið að seilast inn á hvert matarborð á landinu til þess að ná fjárl. saman. Eftir því sem munnarnir eru fleiri, sem foreldrarnir þurfa að sjá farborða, því mun meira skulu þeir þurfa að fá að bera af byrðunum, sem stjórnarherrarnir telja nú, að til þurfi til að ná endunum saman við afgreiðslu fjárl. Það er eins og mig minni það, að hér áður fyrr væru opinber gjöld lögð á eftir efnum og ástæðum, þeir efnameiri í þjóðfélaginu væru látnir bera hlutfallslega meira en þeir efnaminni. En eftir þessari nýju jafnaðarstefnu hæstv. ríkisstj. er þessu alveg snúið við. Nú er ekkert farið eftir efnum og ástæðum, heldur lagt jafnt á hvert mannsbarn og þannig íþyngt fyrst og fremst þeim, sem sízt skyldi, þ.e.a.s. barnafjölskyldunum.

Það er nú komið í ljós, svo að varla verður um villzt, að boð hæstv. ríkisstj. til verkalýðsfélaganna um viðræður um efnahagsmálafrv. var ekki til þess að semja um breytingar á því til að draga úr áhrifum þess á barnmörgu fjölskyldurnar, ekki til þess að fá tillögur um aðrar leiðir til þess að ná fjárl. saman, heldur til þess að geta sagt það eftir á, að launþegasamtökin hefðu fengið sitt tækifæri til að benda á aðrar léttbærari leiðir fyrir meðlimi sina, sem þó verkuðu þannig, að fjárl. yrðu afgreidd hallalaust, en auðvitað ekki tekizt það. Enn fremur var kærkomið tækifæri að koma á svona viðræðum undir þessu yfirskini til að reyna að koma af stað óeiningu innan launþegasamtakanna, ef með þeim hætti mætti hindra aðgerðir af þeirra hálfu.

En staðreynd er, að kjaraskerðingin, sem felst í þessu frv., leysir ekki að neinu leyti vanda atvinnuveganna, heldur fremur eykur þá, a. m. k. landbúnaðarins og iðnaðarins, því að versnandi lífskjör fjölmennustu stéttanna í landinu hljóta að hafa áhrif á allt viðskiptalíf í landinu. Sú staðreynd blasir nú við, að þrátt fyrir þessa lífskjaraskerðingu er enn óleystur sá vandi, sem útflutningsframleiðslan hefur við að stríða, og allir, sem eitthvað skilja á annað borð, vita það, að ýmsir helztu þættir hennar stöðvast á næstu mánuðum, nema eitthvað komi til. Það hlýtur því að vera krafa þjóðarinnar til hæstv. ríkisstj. að fá skýr og undanbragðalaus svör við því, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að tryggja það, að útflutningsframleiðslan stöðvist ekki. Á þjóðin von á enn meiri álögum eftir nokkrar vikur? Ætla hæstv. ráðherrar að auglýsa úrræðaleysi sitt fyrir þjóðinni með því að látast ekki vita um þann háska, sem blasir við? Hafa ekki frystihúsaeigendurnir nú nýverið tilkynnt t.d., að um áramótin muni þeir loka frystihúsunum við óbreytt ástand? Nú reynir á samtakamátt launþega og bænda og þá ekki síður á forustu þessara samtaka. Hæstv. ríkisstj. skal ekki treysta því, að það sé alveg sama, hvað hún gerir, hvað ranglátt og hve fjarstæðukennt sem það er, að henni haldist það uppi. Hún getur varla vænzt þess, að fátækustu stéttirnar í landinu, bændur og láglaunafólk, láti það óátalið og afskiptalaust, að lögð sé stórfelld kjaraskerðing á þá, á sama tíma og hin nýríka stétt landsins fær að halda öllu sínu, hvort sem hún hefur auðgazt á heiðarlegan eða óheiðarlegan hátt frá lögfræðilegu sjónarmiði. Öllu eru einhver takmörk sett, og ég fullyrði, að hæstv. ríkisstj. hefur farið langt fram yfir þessi takmörk nú. Slíkar byrðar sem þessar er óhugsandi, að þjóðin líði, að á sig séu lagðar, nema þeim sé deilt niður á borgarana af réttsýni eftir efnum og ástæðum og þjóðin hafi það á tilfinningu sinni, að ástandið í efnahagsmálum sé þannig, að hjá þeim verði alls ekki komizt. Nú hafa hæstv. ráðherrar við öll möguleg og reyndar ómöguleg tækifæri básúnað það á fjálglegan hátt, hvernig viðreisnarstefnan hafi reynzt þjóðinni heillarík. Að þeirra sögn hefur kaupmáttur launa stóraukizt á viðreisnartímanum, gjaldeyristaðan batnað, almenn velmegun aukizt, og þar sem hæstv. viðskmrh. er sérfræðingur í talnalestri og hagfræðingur að mennt, þá væri fróðlegt að sjá og heyra til hans hér á hinu háa Alþ., hvernig 5 manna fjölskylda eða 4 manna fjölskylda getur lifað af 10 þús. kr. launum á mánuði, og í því dæmi sé tekinn hinn raunverulegi húsnæðiskostnaður, eins og hann er í raun og veru, en ekki eins og hann er áætlaður í vísitölunni. Það er kominn tími til, að hæstv. ríkisstj. styðjist við staðreyndir og láti óskhyggjuna lönd og leið. Ef hæstv. viðskmrh. getur sýnt okkur það svart á hvítu, að þessi laun nægi meðalfjölskyldu, miðað við núverandi verðlag, þá er ef til vill ekki mikil ástæða til að kveinka sér undan viðreisnarstefnunni og nýju álögunum, en geti hann það ekki, þá kveður hann um leið upp harðari dóm yfir stjórnarstefnunni, því að ef viðreisnarstjórnin hefur farið þannig með allt okkar efnahagslíf, að framleiðslan geti með engu móti greitt kaup, sem nægi fyrir nauðþurftum meðalfjölskyldu, þá er það þyngri dómur en sá, sem stjórnarandstaðan hefur leyft sér að kveða upp yfir hæstv. ríkisstj.

Og hvað er þá orðið af öllu sjálfshólinu, sem hæstv. ráðherrar og skjaldsveinar þeirra kepptust um að útmála fyrir þjóðinni fyrir síðustu kosningar um auð og allsnægtir, sem að þeirra sögn var uppskeran af viturlegri stjórnarstefnu undanfarinna ára og mundi aukast og margfaldast, ef stjórnin fengi traust þjóðarinnar? Stjórnin fékk traust þjóðarinnar. Er uppskeran auður og allsnægtir, eins og lofað var? Var ekki líka minnzt á jafnari lífskjör, umfram allt frelsi, alls konar frelsi? Og hvernig er svo farið að því að jafna lífskjörin? Er það gert með því að taka eitthvað af þeim ríku og skipta því með einhverju móti á milli hinna fátæku? Nei, ekki alveg það. Hin nýja jafnaðarstefna, sem varð til þess að sameina Alþfl. í órofaheild undir leiðsögn heildsala og kaupmanna, er fólgin í því að gera þá fátæku fátækari, til þess að hinir ríku yrðu enn ríkari. Og frelsið er ekki ætlað þeim fátæku, enda hafa þeir sjálfsagt ekkert við það að gera. Frelsið í þessu landi er náðargjöf til þeirra ríku, það undirstrikaði hæstv. ríkisstj. rækilega, svo að ekki verður um villzt, þegar hún gaf út hinar nýju reglur um innflutning og gjaldeyrissölu nú á dögunum. Það er fjármagnið, sem skal drottna í þessu landi, þ.e.a.s. ef stjórnin ræður.

I. kafli þessa frv. felur það í sér, að sú hækkun, sem hefur orðið og kann að verða á vöruverði í landinu frá 10. okt. s.l. til janúarloka 1968, hafi engin áhrif á vísitöluna og verði því launafólk og bændur að þola það bótalaust. Felldar hafa verið niður niðurgreiðslur á vöruverði, sem teknar hafa verið upp eftir 1. ágúst 1966. Afleiðing þess varð sú, að kindakjöt hækkaði um 16 kr. hvert kg., mjólk um 2 kr., smjör 43.20.

II. kafli frv. er um verðstöðvun. 9. gr. frv. hefst þannig, með leyfi forseta:

„Verð á hvers konar vöru má ekki vera hærra en það var 15. nóv. 1966, nema til komi samþykki réttra yfirvalda. Mega þau þá ekki leyfa neina hækkun á vöruverði, nema þau telji hana óhjákvæmilega. Leyfi til slíkrar verðhækkunar skal vera húð samþykki ríkisstj.

Felst ekki í þessari grein, að verð á landbúnaðarvörum megi ekki hækka, þrátt fyrir það þótt yfirdómur í verðlagsmálum landbúnaðarins kæmist að þeirri niðurstöðu, að bændum landsins bæri sú hækkun lögum samkvæmt. Er það virkilega meiningin, að hæstv. ríkisstj. ætli þannig að níðast á lægst launuðu stétt landsins með lagaboði, svipta hana lögboðnum tekjum sínum? Ætlar hæstv. landbrh. að sætta sig við slíka ráðstöfun? Sé svo, skora ég á hann að segja tafarlaust af sér, heldur en að þola slíkt.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, hefst verðlagsár landbúnaðarins 1. sept. ár hvert. Þar af leiðandi á verðlagningin á búvöru að vera tilbúin þá eða sem fyrst þar á eftir. Þetta hefur gengið að vísu misjafnlega og hefur margt komið til. 1965 var nýtt verð auglýst 22. sept., í fyrra 23. sept. En nú er kominn miður nóvembermánuður og ekkert verð enn verið auglýst á þessum vörum. Þetta ástand er alveg óþolandi fyrir bændastéttina, og verður með einhverjum hætti að girða fyrir það, að slíkt geti endurtekið sig.

Ég ætla ekki að ræða þessi mál meira að sinni, vil fá fyrst svör við spurningum mínum, hvort þetta frv., ef að lögum verður, hindrar verðhækkun á landbúnaðarvörum, kæmi það í ljós, að bændum bæri hækkun, sem ég efast ekki um, ef dæmt er eftir lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Ég get ekki stillt mig um að ræða ögn um þá fullyrðingu, sem kemur fram í grg., að landbúnaðarvörurnar vegi réttara skv. nýju vísitölunni en þeirri, sem nú gildir, þar sem neyzluvenjur þjóðarinnar hafi mjög breytzt. Við hvað er miðað, þegar hinn nýi vísitölugrundvöllur er fundinn, og hvernig er hann fundinn? Fjögurra manna fjölskylda á að hafa til ráðstöfunar 253064 kr., þegar búið er að borga tekjuskatt, útsvar og kirkjugjald og hluta af húsnæðiskostnaði, því að sá liður er langt frá því að vera raunverulegur, eins og hann er þarna settur, enda viðurkennt, að svo sé. Ef ríkisstj. ætlast til, að þjóðin taki þessa viðmiðun alvarlega og þær niðurstöður, sem þannig fúst, eru eitthvað til að byggja á, er þá ekki eðlilegt, að þess sé fyrst krafizt af launþegasamtökunum, að ríkisstj. geri fyrst ráðstafanir til þess að tryggja það, að meðallaun þessara stétta séu það, sem við er miðað? Ef launin eru nú lægri, sem enginn vafi er á, og enn eiga þau eftir að lækka, ef ekki verður breytt um stjórnarstefnu, er sú grunnur, sem þarna er byggt á, ekki fyrir hendi og því útkoman alröng. Þessir aðilar, sem miðað er við, hafa ekki í dag um eða yfir 300 þús. kr. í meðaltekjur, þó að þeir hafi haft það kannske fyrir ári. Það er þungamiðjan í þessu máli. Þegar tekjur minnka að miklum mun, eins og nú hefur átt sér stað, verður fyrst og fremst sparað á öðrum liðum en matar- og húsnæðisliðum, og þá fara þeir að vega hlutfallslega meira í hinni raunverulegu vísitölu.

Það kann að vera, að nýja vísitalan sé réttari, séu ráðstöfunartekjurnar þær, sem þarna er miðað við. En þar sem tekjurnar eru nú miklu lægri, mun matarliðurinn vera réttari mælikvarði, eins og hann er í núgildandi vísitölu. Og það er hálfbroslegt og gefur til kynna, hvernig siðferðisvitund valdhafanna er, þegar það er athugað, á hverju þessi nýja vísitala er byggð. Í fyrsta lagi er miðað við allt aðrar tekjur en eru hjá þjóðinni í dag. Í öðru lagi er stuðzt við 100 úrtök, mjög takmarkaðan tíma, — ég sagði 100 úrtök. Í þriðja lagi virðist húsnæðisliðurinn aðeins vera tilbúin tala í órafjarlægð frá öllu raunverulegu. En svo er því slegið föstu, að útkoman sé rétt. En hvers vegna er því slegið föstu? Það er vegna þess, að útkoman er hagkvæm fyrir hæstv. ríkisstj., annað skiptir hana ekki máli. En þegar við bændurnir eigum í hlut, er ekki hægt að byggja á líkum fjölda búreikninga, þó að þeir nái yfir miklu lengra tímabil, byggðir á raunverulegum tölum, en ekki hugsuðum, séu studdir vinnumælingum, þar sem fulltrúi neytendanna hefur frjálsar hendur um slíkar athuganir og hefur þekkingu á að gera slíkar athuganir. Hvað veldur slíku? Það kemur sér óþægilega fyrir hæstv. ríkisstj. Þess vegna má ekki viðurkenna, að vinnuliðurinn í verðlagsgrundvellinum sé nægilega vel undirbyggður, og má því ekki byggja kaup bændanna á slíku. Sá, sem er sterkari, hefur rétt fyrir sér, er sú siðfræði, sem felst í þessu, en hvað er rétt eða rangt virðist ekki skipta neinu máli.

Þegar hæstv. landbrh. lagði fram frv. sitt hér á hinu háa Alþ. um breytingu á framleiðsluráðslögunum, þá kom það þannig út í ræðu hans, að það væri nú fyrst á þessu ári, sem starfrækt væri hér búreikningaskrifstofa, og því væri á svo litlu að byggja um rekstrarkostnað og vinnumagn búanna. Það er búið að reka slíka búreikningaskrifstofu mörg ár og því fyrirsláttur einn að bera slíku við. Hitt er svo annað mál, að hún var endurskipulögð samkvæmt nýjum lögum um síðustu áramót. Og ef 100 úrtök nægja til að byggja á vísitölugrundvöll, þá ætti svipuð tala búreikninga að vera einnig grundvöllur til að byggja á vinnulið verðlagsgrundvallarins.

Mér er ljóst nú, eftir að þetta frv. um breytingu á framleiðsluráðslögunum var lagt fram hér á hinu háa Alþ. og eftir að hafa hlýtt á röksemdir hæstv. landbrh. fyrir því, að nú á að búa til rökstuðning fyrir því, að í þetta sinn eigi ekki að fara eftir lögunum um að meta og virða vinnumagn grundvallarbúsins og verðleggja landbúnaðarvörurnar eftir því. Nú er sagt, að þetta sé ekki enn nógu vel rannsakað, ekki nógu vel undirbyggt. En er ekki alltaf hægt að segja það? Og er ekki full ástæða til þess að álykta af því, hvernig hæstv. ríkisstj. undirbyggir hinn nýja vísitölugrundvöll, sem að hennar sögn er hárréttur, og þegar hins vegar það er athugað, á hvaða grunni vinnuliður verðlagsgrundvallarins sé byggður, að það sé mikil hætta á því, að á valdatíma hæstv. ríkisstj. verði ekki verðlag samkvæmt gildandi lögum? Er ekki endalaust hægt að segja, að rétt sé rangt eða þetta og hitt sé ekki nógu vel undirbyggt, þegar stjórnað er út frá þeirri reglu, að sá, sem ræður, hafi alltaf rétt fyrir sér?

Lögin um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. bera það með sér, að tilgangur þessarar lagasetningar hafi verið sá að tryggja bændastéttinni svipuð laun og launastéttirnar hafa á hverjum tíma. Öll blaðaskrif um þessa lagasetningu og ræður þeirra, sem að lagasetningunni stóðu, staðfesta þetta líka. Hver hefur svo reynslan verið? Meðaltekjur bændastéttarinnar hafa aldrei náð meðaltekjum viðmiðunarstéttanna, og þó hefur þetta bil aldrei verið meira en einmitt nú. Ef verðstöðvunarkaflinn í þessu frv. nær til þess að hindra, að bændur fái verðhækkun vegna aukins tilkostnaðar, og ekki á að taka neitt tillit til vinnumagnsins í vinnulið grundvallarins, eins og ræða hæstv. landbrh. gaf til kynna hér á dögunum, þá mun þetta bil enn aukast og setja ýmis byggðarlög í mikla hættu, að þau verði yfirgefin og fari í auðn. Hvers virði er þá þessi lagasetning bændastéttinni í heild, ef á að brjóta hana þannig niður eða sniðganga hana með málatilbúningi? Hvort er þetta landbúnaðarstefna hæstv. landbrh. eða hæstv. viðskmrh.? Ýmsum þykir nú þróunin hafa orðið sú í þessum málum, að það bendi frekar til þess, að hæstv. viðskmrh. ráði orðið mestu hvað snertir landbúnaðarmálin í ríkisstj. Sennilega vantar hann enn vinnuafl til að láta byggja banka og bankaútibú yfir allt peningaleysið. Og ef til vill ætlar hann að auka hagræðinguna í þessum peningastofnunum þjóðarinnar með því að fjölga þar enn um nokkra tugi, því að í bönkum og sparisjóðum vinna ekki nema rúmlega 2000 manns. Það er nú allt og sumt. Það hlýtur því að vera auðvelt að koma fleirum þar á jötu. Þjóðin lifir frekar á því heldur en á landbúnaði.

IV. kaflinn er um farmiðagjald. Það er gert ráð fyrir, að það ákili ríkissjóðnum 60 millj. eða 8% af því, sem talið er að vanti til að ná saman hallalausum fjárlögum. Það má segja, að þessi skattur sé annars eðlis en flest það, sem hér er gert ráð fyrir að gera ríkissjóðnum til bjargar. Þarna er a. m. k. ekki seilzt upp á matarborð landsmanna. En á hitt ber að líta, að þessi skattur hittir fyrst og fremst eitt fyrirtæki í landinu, sem til þessa hefur haldið uppi mjög gagnlegri þjónustu fyrir landsbyggðina en þarna á ég við Flugfélag Íslands. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Flugfélag Íslands hefur haldið uppi föstum áætlunarferðum á alla helztu staði úti á landi. Þessi þjónusta hefur ekki staðið undir sér fjárhagslega, enda mun það fátítt erlendis, jafnvel hjá stórþjóðum, að innanlandsflug sé ekki styrkt af almannafé. En utanlandsflugið hefur skilað talsverðum hagnaði, og má segja að það hafi gert Flugfélaginu mögulega þá þjónustu, sem það hefur látið í té hér innanlands. En kunnugir telja, að með þessum farmiðaskatti sé kippt rekstrargrundvellinum undan Flugfélagi Íslands, og hlýtur slíkt að leiða af sér annaðhvort stórhækkuð fluggjöld hér innanlands eða miklu verri þjónustu, sérstaklega fyrir hina fámennari staði úti á landi, nema hvort tveggja komi til. Er þá orðinn hæpinn ávinningurinn af þessum skatti. Og hvað segir stjórnarformaður Flugfélags Íslands um þennan skatt, hv. 7. þm. Reykv., Birgir Kjaran? Er hann tilbúinn að samþykkja hann? Og verði hann lögfestur, eins og frv. gerir ráð fyrir, mundi það ekki hafa áhrif á þjónustu Flugfélagsins við landsbyggðina, annaðhvort með stórhækkuðum fargjöldum eða færri ferðum og lélegri þjónustu?

V. kaflinn er um breytingu á ýmissi skattheimtu. Þar er m.a. ákvæði um að sexfalda fasteignamat á bújörðum sem undirstöðu til álagningar eignarskatts. Sízt mundi ég verða til þess að átelja skattheimtu eftir efnum og ástæðum. En hér er því miður ekki stuðzt við neinar raunverulegar eignir. Samfélagið hefur leikið bændur landsins þannig undanfarin ár, að jarðir þeirra eru nær óseljanlegar, sem er afleiðing af því, að bændur hafa um árabil verið langtekjulægsta stétt landsins. Engin samræming hefur verið gerð á skráðu fasteignamati jarða, ef til vill nánast tilviljun ein um mat hverrar einstakrar jarðar og ósamræmi ótrúlegt. Ef þessi skattur verður lögfestur, er því hrein tilviljun, hvernig hann leggst á. Verður því í mörgum tilfellum tilbúin eign notuð sem undirstaða um ákvörðun skattsins. Í grg. með frv. segir m.a., með leyfi forseta: „Margvíslegar ráðstafanir geta hér komið til greina. Það skiptir hins vegar miklu, að þær aðgerðir, sem valdar eru, séu í sem mestu samræmi við hina almennu stefnu, sem fylgt hefur verið og ætlunin er að fylgja.“ Hér er ekki farið dult með það, hvers er að vænta af hæstv. ríkisstj. og hafi einhver verið í vafa um hina almennu stefnu, þá ætti sá vafi að vera horfinn við tilkomu þessa frv. og öll vinnubrögð í sambandi við það og aðrar stjórnarathafnir þessa haustdaga, þegar aðstæðurnar gerðu það ekki lengur mögulegt að halda feluleiknum áfram, sem hófst fyrir rúmu ári, enda er nú langt til næstu kosninga og öllu óhætt. Nú er það fjármagnið, sem á að deila og drottna. Það er sú stefna, sem á að ráða. En er ekki verið að sigla hraðbyri inn í Efnahagsbandalag Evrópu leynt og ljóst? Er ekki forsendan fyrir því, að sú sigling takist og raunar sé möguleg, að lama okkar landbúnað og mikinn hluta iðnaðarins? Hvert er stefnt í þessum málum? Hvað segja okkar iðnaðarmenn? Hvað segja bændur landsins? Og nú er verið að skattleggja fátæktina, sbr. eignarskattinn á verðlausar jarðir. Ég verð að óska hæstv. landbrh. til hamingju með þá framkvæmd. Hún mun verða geymd ásamt fleiri rósum í hnappagati hans, ef landbúnaðarstefna sú, sem felst í þessu frv. og öðrum tilburðum núverandi valdhafa, nær fram að ganga. En vissulega á hæstv. landbrh. annað og betra skilið en að á minnisvarða hans verði skráð, þegar þar að kemur: „Síðasti landbúnaðarráðherrann á Íslandi.“ Ef við lendum í EBE, þá verður stutt í það, að mestallur landbúnaður leggist niður, og þá höfum við ekkert að gera lengur við landbúnaðarráðherra.

Ég er þess fullviss, að hæstv. landbrh. ber hag og viðgang bændastéttarinnar fyrir brjósti ekki síður en aðrir. En margt bendir til þess, að hann skorti þrek til að standa af sér þau öfl innan stjórnarflokkanna, sem stefna vilja þjóðarskútunni inn í Efnahagsbandalagið og kæra sig kollótt um afleiðingar þess fyrir okkar atvinnuvegi. Þeir mæna á erlent fjármagn og stóriðju, og engu er líkara en þeir hafi misst alla trú á land og þjóð. En nú vill svo gæfusamlega til, að nokkrir bændur eiga sæti hér á hinu háa Alþ., sem fylgja Sjálfstfl. að málum, og það eru einmitt þeir, sem ráða örlögum bændastéttarinnar í dag og ef til vill einnig örlögum þjóðarinnar allrar. Ef þeir standa vörð um stétt sína, þá heldur landbúnaðurinn hlut sínum og hæstv. landbrh. reisn sinni, annars ekki. En ef þeir bregðast stétt sinni, þá þurfa bændur landsins að fylkja liði með launþegasamtökunum í landinu og sýna þar í verki, að íslenzkir bændur láta ekki bjóða sér allt. Það getur orðið eina leiðin til bjargar.