17.10.1967
Efri deild: 4. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

9. mál, kjarasamningar apótekara og lyfjafræðinga

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 9 um framlengingu á kjarasamningi á milli Apótekarafélags Íslands og Lyfjafræðingafélags Íslands er flutt til staðfestingar á brbl. um sama efni, sem gefin voru út 10. maí s.l. En eins og menn rekur minni til, hafði staðið kjaradeila um alllangt skeið milli lyfjafræðinga og apótekara eða Apótekarafélags Íslands og Lyfjafræðingafélagsins og ekki náðst samkomulag í þeirri deilu. Verkfall hafði hafizt 10. apríl og staðið um mánaðartíma, og eins og gerð er grein fyrir í forsendum fyrir brbl., höfðu lyfsalar þá einir staðið fyrir afgreiðslu lyfja í lyfjabúðunum, og var talið, að ýmsir þeirra mundu ekki öllu lengur geta annazt margþætta lyfjaafgreiðslu, og talið, að kynni, áður en varði, að skapast hættuástand, sem þyrfti að bægja frá. Sáttasemjari ríkisins hafði unnið að tilraunum til lausnar á kjaradeilunni án þess að árangur hefði náðst. Báðir aðilar höfðu fellt miðlunartill. hans, sem hann hafði skömmu áður borið fram.

Aðdragandi þessarar vinnudeilu er sá, að Lyfjafræðingafélag Íslands sagði upp kjarasamningum með bréfi 27. okt. 1966, sem gilt höfðu frá 1. jan. 1966. Síðan fóru fram samningaviðræður milli aðila, sem gengu dauflega, og Apótekarafélagið svaraði þessari málaleitun lyfjafræðinganna með bréfi, dags. 17. nóv. 1966 og færði þar ástæður fyrir því af sinni hálfu, að þeir gætu ekki orðið við neinum kröfum til hækkunar, og fóru nokkur bréfaskipti fram á milli félaganna, og þar sem ekki dró þá til samkomulags, var deilunni vísað til kjaradeilunefndar en hún starfar samkv. IV. kafla l. nr. 30 1963 um lyfsölumál. Þessi kjaradeilunefnd tók svo þá ákvörðun, að hún gæti ekki tjáð sig um málið, en formaður kjaradeilunefndar, Sigurður Líndal, hafði borið fram eftirfarandi till.: „Með vísun til 2. málsgr. 18. gr. l. nr. 30 1963 telur n. sér ekki fært að leggja fram miðlunartill. með vísun til þess, að sett hafa verið l. um heimild til verðstöðvunar.“ Heimildarákvæði laganna hefur þegar verið beitt, og launþegasamtök hafa yfirleitt frestað aðgerðum í kaupgjaldsmálum vegna setningar laga þessara. Till. þessi hlaut þá afgreiðslu, að tveir aðilar voru með till., en einn aðili var andvígur till. og hlynntur því, að n. legði fram miðlunartill. sína. En sem sagt, þessi till., sem fól í sér eiginlega frávísun frá kjaranefndinni, var samþ. með 2:1 atkv. Á þessu stigi óskuðu lyfjafræðingarnir aðstoðar sáttasemjara ríkisins með bréfi dags. 20. jan. 1967. Þeir fundir, sem haldnir voru með milligöngu sáttasemjara, leiddu ekki til samkomulags og Lyfjafræðingafélagið boðaði Apótekarafélaginu vinnustöðvun, sem skyldi hefjast kl. 4 12. febr. 1967. Á þessu stigi málsins hafði ég afskipti af þessum málum og hélt fund með lyfjafræðingunum og talaði þá einnig við apótekarana. En 9. febr. hafði ég fund með lyfjafræðingunum, og í framhaldi af þeim fundi skrifaði ég þeim bréf 10. febr., þar sem ég fór þess á leit við Lyfjafræðingafélag Íslands, að það frestaði deilunni um sinn, og bar þau tilmæli fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ég hafði látið í ljósi á fundinum með þeim, að ég myndi hlutast til um, ef þeir yrðu við slíkri beiðni, að láta fara fram af hálfu rn. hlutlausa könnun á launatekjum lyfjafræðinga í samanburði við launatekjur annarra launþega með sambærilega menntun og við sambærileg störf. En það kom fram hjá lyfjafræðingum, að um þetta væri töluverður ágreiningur á milli þeirra og apótekaranna, hvernig launin væru, að hve miklu eða litlu leyti sambærileg, og það var mitt mat, að ef rn. hefði þarna milligöngu og stuðlaði að því, að fram færi hlutlaust mat á þessu, kynni það að auðvelda sættir í þessu máli. Einnig hafði ég þá gefið fyrirheit um að skipa n. í samráði við Lyfjafræðingafélag Íslands og Apótekarafélagið til þess að rannsaka og gera till. um skipulag og fjölda lyfjabúða og hagræðingu í rekstri þeirra. Með því að slík athugun yrði sett í gang taldi ég einnig, að það gæti orkað nokkuð til þess að leysa úr deiluatriðum, því að fullkomnari og betri hagræðing í rekstri lyfjabúðanna og bætt skipulag að öðru leyti átti að mínum dómi að geta stuðlað að því, að apótekararnir gætu frekar orðið við kröfum lyfjafræðinga um kauphækkanir. Þessu bréfi mínu 10. febr. svöruðu lyfjafræðingarnir samdægurs og féllust á að verða við þessari frestun með þeim skilyrðum, að þessi rannsókn yrði látin fara fram, og hinu boðaða verkfalli var þá frestað um óákveðinn tíma. Svo var það 30. marz, að lyfjafræðingum voru sendar niðurstöður kjarakönnunarinnar, sem fram hafði farið á vegum ráðun. Ekki leiddi þetta hins vegar til þess, að saman drægi með þessum deiluaðilum, og því var það, að lyfjafræðingarnir ákváðu á ný að boða til verkfalls, sem hefjast skyldi 10. apríl. Aftur átti ég viðræður við lyfjafræðinga og apótekara til þess að reyna að stuðla að samkomulagi í þessum málum og að verkfallið kæmi ekki til framkvæmda, en að þessu sinni árangurslaust. Það hófst þess vegna, eins og ég hef áður gert grein fyrir, 10. apríl og lauk svo 10. maí með setningu þeirra brbl., sem ég nú hef gert grein fyrir. Mér var fyllilega ljóst, að það var engan veginn æskilegt að þurfa að grípa inn í þessa deilu með setningu þessara brbl. Ég taldi mig, nokkru áður en verkfallið skall á, hafa fulla ástæðu til að ætla, að tilraunir mínar til þess að koma á samkomulagi í þessu máli mundu bera þann árangur, að til verkfalls kæmi ekki, en það reyndust vonbrigði, og því fór að þessu leyti sem fór og þarf ég í raun og veru ekki að gera hv. d. frekari gr. fyrir málinu en nú er orðið, Svo leyfi ég mér að leggja það til, herra forseti, að þessu frv. verði, að lokinni 1. umr., vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.