18.01.1968
Efri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (2352)

83. mál, stöðvun atvinnurekstrar vegna vanskila opinberra gjalda

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég býst við, að flestir séu sammála um, að það sé þörf á því að bæta þá hætti, sem tíðkazt hafa að undanförnu um skil á opinberum gjöldum, sem kaupgreiðandi heldur eftir.Það er sjálfsagt rétt, eins og hér kemur fram og hæstv. ráðh. vék aðeins að, að talsverð brögð hafi verið að því, að launagreiðendur hafi haldið þessu fé inni hjá sér og ekki haft það aðskilið frá sínu fé, svo sem vera ætti, heldur blandað því í sinn rekstur og notað það sem rekstrarfé. Þetta er náttúrlega vítavert í sjálfu sér, eins og hæstv. ráðh. vék að, og ekki bót mælandi. En þó er það nú svo, að oft finnast ýmsar afsakanir, og kannske má nú finna vissa afsökun í þessu tilfelli. Hér er nefnilega allveigamikil kvöð lögð á atvinnurekendur og kaupgreiðendur, kvöð, sem hefur í för með sér fyrir þá umstang, vinnu og áhættu, að halda eftir þessum hluta kaups, geyma hann og skila honum. Þetta eiga þeir að gera endurgjaldslaust skv. núgildandi l. Það má vera, að þeir nytu þess að einhverju leyti að leggja á sig þessa fyrirhöfn, og hafa kannske með þessum hætti, sem tíðkast hefur og er ámælisverður, útvegað sér nokkra umbun fyrir þessa fyrirhöfn, sem á þá hefur verið lögð. Þegar ætlunin er að breyta til og afnema þessa hætti, þykir mér sanngjarnt, að það sé athugað, hvort þessir innheimtumenn opinberra gjalda, því að það eru þeir í raun og veru, eigi ekki að fá sanngjarna þóknun fyrir sína fyrirhöfn. Það verð ég að telja mjög sanngjarnt. Ég get ekki séð neina sanngirni í því að leggja svo veigamikla innheimtu á menn, eins og hér er um að tefla, án þess að þeir fái nokkra þóknun fyrir. Það er auðvitað full sanngirni, að þeir fái endurgjald fyrir sína vinnu. Þess vegna skýt ég þessu fram, að ég vonast til þess, að n. sú, sem þetta frv. fær til athugunar, hugleiði það, hvort það er ekki sanngjarnt í sambandi við þessa fyrirhuguðu breytingu að ætla þessum innheimtumönnum sanngjarna þóknun fyrir þá fyrirhöfn og þá áhættu, sem þeir taka á sig og á þá er lögð í þessu sambandi. Á þetta vildi ég aðeins benda.

Það er alveg laukrétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þetta er ákaflega einfalt mál í sjálfu sér, en þó er það nú svo, að það getur gefið tilefni til dálítilla hugleiðinga. Þarna er farið inn á þá braut að heimila stöðvun atvinnurekstrar vegna vanrækslu á því að skila opinberum gjöldum, sem eftir er haldið. Þessi braut er ekki ný. Það er farið þarna í troðna slóð. Hæstv. ráðh. minntist á söluskattinn. Það mætti telja mörg önnur dæmi um þetta fyrirkomulag, sem er ákaflega hentugt innheimtufyrirkomulag frá sjónarmiði þess, sem heimtir inn. Það má líka nefna til dæmis símagjöld. Þegar þau eru ekki greidd, er skrúfað fyrir, hitaveitu, ef hún er ekki greidd, er skrúfað fyrir, rafmagn, ef það er ekki greitt, þá er lokað fyrir. Þetta er ákaflega virk innheimtuaðferð, en það má náttúrlega segja, að hún geti átt við víðar, og það eru víðar vanskil en á opinberum gjöldum. Það eru vanskil á skuldum, sem oftast nær mega teljast alveg ótvíræðar og vafalausar eins og opinber gjöld. Það eru víst talsverð brögð að því, að það séu vanskil á greiðslu víxla í bönkunum. Það væri sjálfsagt handhæg innheimtuaðferð að heimila bönkunum bara að loka hjá þeim atvinnurekendum, sem ekki greiddu víxla sína. Það eru víst talsverð brögð líka að því, að það séu vanskil á greiðslu afborgana og vaxta af stofnlánum, vafalausar skuldir yfirleitt. Það mundi greiða fyrir innheimtu þeirra, ef það væri heimilað að stöðva atvinnurekstur þeirra, sem í hlut eiga, nota bene, ef bönkunum væri heimilað það. En hér er um það að ræða í þessu frv., að það er innheimtumanninum sjálfum, sveitarstjórn, Gjaldheimtunni í Reykjavík, eða hver svo sem hann er, sem veitt er heimild til þess að stöðva, hann á að láta lögregluna framkvæma það, alveg án þess að þetta mál komi til nokkurra kasta dómstóla. Það gæti verið freisting fyrir fleiri að vilja fara í þessa slóð. Þess vegna held ég nú, þrátt fyrir allt og þótt ég á engan hátt vilji mæla neinum vanskilum bót, að það sé ástæða til þess, þegar mál þetta er kannað, að stinga við fótum og athuga, hvernig háttað sé réttaröryggi einstaklingsins í okkar ágæta þjóðfélagi. Ég verð að segja það, að ég held, að einstaklingurinn sé í mörgum tilfellum að verða heldur réttlítill gagnvart því opinbera. Og ekki hefur það nú hingað til þótt yfirleitt góð latína að taka mál sem þessi með öllu undan dómstólunum. Og það er að minnsta kosti — og ég vil skjóta því til n., án þess að ég vilji vera að andæfa þessu, sem hér er lagt til, því að ég veit, að það er mikið, sem á eftir rekur í þessu efni — ástæða til að athuga það, hvar við stöndum í þessu efni, hvort við erum ekki smám saman að gera réttaröryggið hornreka hjá okkur. En þetta hvort tveggja þarf helzt að fara saman og verður að samræma, annars vegar að löggæzluaðferðirnar séu virkar, en hins vegar það, að réttaröryggið sé ekki borið fyrir borð. Í þessu tilfelli gæti maður nú haldið, að það væri sæmilega séð fyrir ráðum til þess að ná inn opinberum gjöldum, líka þessum gjöldum, sem hér er um að tefla, því að það er heimilaður lögtaksréttur á þeim. Það er heimilaður lögtaksréttur hjá kaupgreiðanda sjálfum eins og hjá launþeganum, og sannleikurinn er nú sá, að eins og lögtök eru hér framkvæmd, eru þau nú ekki alveg fullkomnasta mynd af réttarfari, sem maður gæti hugsað sér. Það er nú orðið nokkuð fyrirhafnarlítið að fá lögtak gert, því að það er bara auglýst svona fyrirfram með einni auglýsingu með viku fyrirvara, að lögtak fari fram, og síðan á jú að senda ábyrgðarbréf til viðkomandi, en svo er lögtakið bara framkvæmt á viðkomandi embættisskrifstofu. Þannig að þetta er nú orðið fyrirhafnarlítið, og ætti nú að vera hægt að beita þessum aðgerðum, og er reyndar undarlegt, ef þær bera ekki árangur, ef ekki er hægt með þeim hætti að veita þeim launagreiðendum, sem hér er um að ræða, nægilegt aðhald. Ég spyr nú: Hefur það verið reynt, og er það gert? Ef það er ekki gert, hvernig stendur á því, að sú eðlilega innheimtuaðferð er ekki notuð? Ég vildi aðeins koma þessum aths. hér á framfæri, af því, að þótt málið sé einfalt, er það þess eðlis, að það getur dregið slóða á eftir sér, ef sífellt er farið lengra og lengra í þessa áttina.