24.10.1967
Neðri deild: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (2373)

11. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Á þskj. 11 flytjum við tveir af þm. Norðurl. v. frv. til l. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga.

Í 1. gr. frv. berum við fram þá till., að aðstöðugjöld samkv. 10. gr. l. verði hér eftir lögð á eftir sömu reglum um allt land. Framkvæmd l. um aðstöðugjöld er nú þannig og hefur verið undanfarið, að þau leggjast ákaflega misþungt á gjaldendur eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu. Veldur þetta óþolandi ranglæti. Till. okkar um aðstöðugjöldin eru í höfuðatriðum miðaðar við þær reglur, sem nú gilda um aðstöðugjöld í Reykjavík, nokkuð vikið frá þeim, en þó ekki mikið. Þær reglur eru birtar sem fskj. með grg. frv. Geta menn borið þetta saman og komizt að raun um, að þar skakkar ekki miklu.

Í 2. gr. frv. er lagt til, að sú breyting verði gerð á ákvæðum l. um útsvör, að ekki skuli heimilt að hækka útsvörin um meira en 5% frá þeim gjaldstiga, sem er í l., en nú hafa sveitarstjórnir leyfi til að bæta allt að 20% álagi á útsvörin.

Í grg. með frv. eru birt nokkur dæmi, sem sýna þann gífurlega mun, sem nú er á aðstöðugjöldunum, og vísast til þess, sem þar segir. Til frekari skýringar vil ég nefna hér tvö dæmi um þetta.

Matvöruverzlun hér í Reykjavík, sem selur vörur fyrir 20 millj. kr., þarf að borga 100 þús. kr. í aðstöðugjald, en dæmi má finna um það, að slík verzlun á öðrum stað á landinu með jafnmikla viðskiptaveltu þurfi að borga 400 þús. kr. í aðstöðugjöld. Auðvitað bitnar þetta á því fólki, sem býr á þeim svæðum, þar sem háu aðstöðugjöldin eru.

Hitt dæmið, sem ég vil nefna, er um þau aðstöðugjöld, sem bændur eru látnir borga af tilbúnum áburði, sem þeir þurfa að kaupa til framleiðslustarfseminnar. Bændur verja miklu fé til áburðarkaupa ár hvert. Hjá því geta þeir ekki komizt. Mér er kunnugt um það, að á einum verzlunarstað var seldur áburður í ár fyrir rúmlega 40 þús. kr. til hvers bónda að meðaltali. Ég veit til þess, að í einu kauptúni var ekkert aðstöðugjald lagt á áburðinn. Sveitarstjórnin þar mun hafa litið svo á, að hér væri um slíka nauðsynjavöru að ræða, að rétt væri að sleppa því að leggja aðstöðugjald á hana. En annars eru aðstöðugjöldin á áburðinn ákaflega mishá á verzlunarstöðunum, lægst kvart % og hæst 2%, og þrepin þar á milli eru ekki færri en 7. Meðan bóndi á einum stað, sem kaupir áburð fyrir 40 þús. kr., borgar 100 kr. í aðstöðugjald, þarf annar, sem býr í öðru héraði og kaupir jafnmikinn áburð, að borga 800 kr. í aðstöðugjald af þeim viðskiptum eða 8 sinnum hærri upphæð. Og ég spyr: Er nokkur vitglóra í þessu? Ég get ekki komið auga á hana.

Hvað mundu menn segja um það, ef ákveðið væri að leggja misháa tolla á innfluttar vörur, eftir því til hvaða verzlunarstaðar þær væru fluttar frá útlöndum? Sjálfsagt þætti mönnum það alveg fráleitt og það að vonum. Segja má, að það væri sama aðferðin og nú er beitt við álagningu aðstöðugjaldanna. Þau leggjast á vörurnar með sama hætti og tollarnir til ríkisins.

Nýlega hafa verið sett lög um Atvinnujöfnunarsjóð, og rætt er um að gera áætlanir um uppbyggingu og eflingu atvinnulífs á ýmsum stöðum. En að hvaða gagni kemur þetta, ef haldið verður áfram að beita aðstöðugjöldunum á sama hátt og nú er gert? Það er ekki trúlegt, að marga fýsi að leggja í nýjan atvinnurekstur á þessum stöðum eða halda við þeim rekstri, sem fyrir er, ef þeir geta átt á hættu að þurfa að borga þar margfalt hærri opinber gjöld en menn borga á öðrum stöðum.

Ég sé ekki betur en með núgildandi lagaákvæðum um aðstöðugjöldin og framkvæmd þeirra, sé verið að eyðileggja allan verzlunarrekstur á mörgum stöðum á landinu utan Reykjavíkur og jafnvel iðnrekstur líka. Hér verður að gera breytingu og það án tafar. Annað er óverjandi með öllu.

Þegar eitthvert sveitarfélag fær ekki tekjuþörfum sínum fullnægt með álagningu gjalda eftir almennum reglum, á það að fá framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en réttmætt getur verið, að íbúar sveitarfélaga, sem þannig er ástatt fyrir, leggi á sig nokkurt aukagjald. Í því er dálítið aðhald. Þess vegna leggjum við til í frv., að heimilt sé að bæta allt að 5% ofan á útsvörin og aðstöðugjöldin. 5% aukaálag er hægt að þola, þó að hinn mikli munur, sem nú er á aðstöðugjöldunum, og 20% álag á útsvörin sé óþolandi og geti fælt menn frá búsetu og atvinnurekstri á vissum stöðum.

Ég eignaðist bók í haust. Þetta er nýleg bók, gefin út í fyrra. Höfundur hennar heitir Matthías. Ekki er það sá gamli Matthías okkar 19. aldar mannanna, nei. Og það er hvorugur þeirra hv. Matthíasa, sem eiga sæti hér í d. Þessi er ritstjóri blaðs, sem nefnist Morgunblaðið og er gefið út í Reykjavík. Margir munu nefna þetta ljóðabók, en flest verkin í bókinni eru með svo nýtízkulegu sniði, að ég legg það ekki á mig að reyna að læra þau utan að. Annars má segja það höfundinum til lofs, að hann getur vel ort kvæði undir þannig háttum, að hægt sé að læra þau. Nokkur slík eru í bókinni, og þau auka gildi hennar í mínum augum. Ég hafði bókina með mér hingað á fundinn með það í huga að lesa fyrir ykkur fáeinar línur úr henni. Það vil ég gera með leyfi hæstv. forseta og í trausti þess, að þinghelgin og hollar vættir forði mér frá Stefskröfu í því sambandi.

Skrifað stendur hjá Matthíasi í 35. kafla, 3. og 4. versi:

„Þegar við vorum ung, var himinninn alltaf heiður, jafnvel einnig, þegar úrillir kennarar skömmuðu okkur fyrir svartar klessur í stílabókunum. En þú sagðir ekkert. Himinninn er hættur að vera gagnsæ heiðríkja, og bleksletturnar í stílabókunum eru orðnar að svörtum blettum á sál okkar“.

Þetta væri bara nokkuð gott, ef það væri í þannig formi, að auðvelt væri að læra það. En hvers vegna er ég að lesa þetta fyrir ykkur? Til þess að vekja athygli á því, að þegar við vorum að skrifa löggjafarstílinn um aðstöðugjöldin hér á Alþ. fyrir nokkrum árum, hefur farið fyrir okkur eins og skáldið segir í þeim orðum, sem ég las. Það hefur komið bleksletta á stílinn, og þetta er orðið að svartri, ljótri klessu, svo ljótri, að við getum ekki sýnt þennan stíl lengur, hvorki innan þessarar virðulegu stofnunar né utan hennar. Það er okkur til háborinnar skammar. Hér er hneyksli, sem Alþ. ber að uppræta án tafar. Þess vegna eigum við að fleygja þessum gamla blekklessustíl út á ruslahaug borgarstjórnarinnar hér í henni Reykjavík, svo að hann tortímist í þeim eldi, sem þar logar nótt og nýtan dag. Og við eigum að fá okkur nýja, hreina og fallega stílabók og skrifa í hana nýjan stíl um aðstöðugjöld og gæta þess, að þar komi enginn klessa.

Við flm. þessa frv. höfum lagt til efni í nýja stílinn.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr., og rétt mun, að það fari til n. til skoðunar þar. Málefni sveitarfélaga hafa oft farið til félagsmálanefndar. Ekki vil ég móðga þá virðulegu nefnd, en benda á, að hér er á ferðinni skatta- og tollamál, hvort sem menn vilja heldur nefna það, og það eru fjhn.mál. Enn fremur vil ég benda á, að tekjustofnamál sveitarfélaga munu heyra undir hæstv. fjmrh. Ég tel því rétt að leggja til, að frv. verði vísað til fjhn.