29.02.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í C-deild Alþingistíðinda. (2487)

130. mál, þingsköp Alþingis

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta hér umr. eða fara út í almennar umr. í sambandi við þetta lagafrv. á þskj. 277. En það er eitt atriði, sem mig langar að vekja athygli á í sambandi við frv. Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að utanrmn. Alþ. starfi allt árið. Það kom fram við fjárlagaafgreiðslu fyrir áramótin síðustu, bæði hjá hæstv. fjmrh. og eins hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar, að eðlilegt væri, að fjvn. Alþ. hefði meiri áhrif á gerð fjárl. heldur en tíðkazt hefur hjá okkur, og starfstími fjvn. væri meiri heldur en tveggja mánaða tímabilið á hausti hverju, eins og átt hefur sér stað við fjárlagaafgreiðslu. Það hefur sýnt sig, að nauðsyn ber til, að hér verði breyting á og fjvn. starfi allt árið. M.a. hefur það átt sér stað með stuttu millibili og mun eiga sér stað, eftir því sem boðað hefur verið hér á hv. Alþ., að fjárl. verði verulega breytt, eftir að þau hafa verið framkvæmd á hv. Alþ. Um þetta hefur komið fram frv. til l. hér á hv. þingi, eftir að hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið, hverjar þær breytingar skuli vera. Þetta hefur svo verið venjulegt lagafrv., sem hefur gengið til fjhn. d., en fjvn. Alþ. hefur ekkert haft um það að segja, þó að fjárl. hafi verið breytt, 10 eða 20% af útgjaldalið þeirra fjárlagaliða, sem niður hafa verið skornir. Það er afar óeðlileg meðferð á afgreiðslu Alþ. á fjárl., að þannig skuli vera að þeim staðið, og það er afar óeðlilegt, að Alþ. hafi ekki áhrif á meðferð fjárl., bæði að undirbúningi og þeim breytingum, sem síðar þarf að gera, m.a., ef um umframgreiðslur er að ræða.

Ég hefði viljað vekja athygli á því, áður en þetta mál gengur til n., að ef nokkur n. þingsins ætti að vera fastanefnd, hlyti það að vera fjvn. Hennar störf eru mest hér á hv. Alþ. Um efnafhagsmál snýst mest af störfum Alþ. á hverju ári, og það er óeðlilegt, að Alþ. hafi ekki áhrif á fjárl. nema tveggja mánaða tímabil, sem unnið er að því hér á hv. Alþ. Ég vildi biðja n. þá, sem fær þetta mál til meðferðar, að hugleiða þetta.