29.02.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í C-deild Alþingistíðinda. (2488)

130. mál, þingsköp Alþingis

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Þingsköpin eru þær reglur, sem við vinnum eftir daglega hér á Alþ. Það er því æskilegt, að um breytingar á þeim sé sem viðtækust samvinna, og ekki gerlegt að breyta þeim, án þess að þm. séu sammála um breytingarnar. Það má segja um það frv., sem hér liggur fyrir, að í því felist ekki veigamiklar breytingar á þingsköpum, enda hefur það verið svo, a.m.k. þann tíma, sem ég hef setið hér á Alþ., að árekstrar út af þingsköpum hafa ekki verið miklir né alvarlegir.

Ég fagna yfirleitt þeim breytingum, sem fram eru bornar í frv. Þó hefði ég talið, að í einstökum atriðum væri æskilegt að ganga lengra heldur en gert er í frv., og ég vil taka undir það með hæstv. forsrh. og háttv. frsm., að varðandi fsp. í sameinuðu Alþ. væri mjög æskilegt, að annar háttur væri á hafður en sá, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tek eindregið undir það með hæstv. forsrh. að beina þeim tilmælum til n., sem frv. fær til athugunar, að hún athugi, hvort ekki er hægt að ná samkomulagi um að breyta ákvæðunum um fsp. þannig, að um fsp. tali ekki aðrir en fyrirspyrjandi og ráðh. Ég vil benda á, að með þessu móti gefst þingheimi tækifæri til þess að koma á framfæri og fá til umr. hér í þinginu miklu fleiri fsp. heldur en nú er hægt að afgreiða. Þetta liggur alveg í augum uppi og þarf ekki að útskýra það frekar fyrir hv. þm., sem þekkja þetta eins vel og ég. Sömuleiðis mundi þetta hafa það í för með sér, að fsp. þyrftu ekki að taka mjög langan tíma frá öðrum málum á dagskrá sameinaðs Alþ., eins og oft hefur viljað við brenna. Ég álít, að fsp. eigi fyrst og fremst að vera til þess að veita þm. tækifæri til þess að fá lagðar á borðið eða settar fram í ræðustól hér á Alþ. sem mestar upplýsingar, upplýsingar, sem þm. geta síðan notað í sambandi við þau mál, sem hér eru til umr., og þau mál, sem hafa verið þingfest. Á þennan hátt hygg ég, að fsp. komi að mestu gagni fyrir þingið og það verði að mörgu leyti fjörugri umr. um þær heldur en er með því fyrirkomulagi, sem við nú höfum.

Ég vil einnig taka undir það með hæstv. forsrh. varðandi útvarp frá þinginu, að það er ekki æskilegt, að við höfum í því efni blandað kerfi, ef svo mætti segja, eins og lagt er til í frv. Samkv. því verða ýmist útvarpsumr. með gamla sniðinu, þó lítið eitt styttri en verið hefur, eða þá útvarp og sjónvarp fá að útvarpa beint héðan frá Alþ. Ég er í raun og veru sammála hæstv. forsrh. um það, að æskilegt væri að leggja gamla kerfið niður, en útvarpið og sjónvarpið önnuðust fréttaflutning og útsendingar frá þinginu í fjölbreyttara formi ,en tíðkazt hefur til þessa og gerði það á eigin vegum. En það gildir ekki enn í þessu efni það sama fyrir allt landið. Hæstv. forsrh. sagði, að menn væru búnir að fá nóg af gömlu kappræðufundunum, og ég veit, að hér í þéttbýlinu er þetta þannig. En þar sem ég þekki bezt til úti á landi, vili fólk helzt hafa gömlu kappræðufundina. Ég veit t.d., að í mínu kjördæmi á Vestfjörðum vilja kjósendur miklu heldur, að frambjóðendurnir séu allir saman á ferð og haldi einu fund í hverju byggðarlagi heldur en að hver flokkurinn komi á fætur öðrum með sín fundarhöld, og þetta sýnir, að fólk í þessum byggðarlögum a.m.k., kýs gamla kappræðufundarformið enn þá, og ég veit, að víða úti um land er talsvert mikið hlustað á útvarpsumr. Svo er líka að því að gá, að sjónvarpið nær ekki enn þá til alls landsins, og meðan svo er ekki, hygg ég, að það sé erfitt að hverfa algerlega frá gamla forminu, þó að mér finnist, að það sé athugandi að gera það, eftir að sjónvarpið er komið út um allt landið. Eins og hæstv. forsrh. sagði, getur alltaf orðið samkomulag um það á milli þingflokkanna að stytta útvarpsumr., enda hefur það stundum verið gert, þótt ekki hafi alltaf tekizt að ná samkomulagi um það, og með því fyrirkomulagi, sem lagt er til í frv., er auðvitað sú leið opin eftir sem áður. Ég vildi samt sem áður taka undir það með hæstv. forsrh., að þn. sú, sem athugar frv., athugi einnig þetta, og ef hún getur fundið betri lausn en þá, sem lögð er til í frv., finnst mér, að við ættum að kanna til hlítar allar hliðar á því máli.

Hv. 3. þm. Vesturl. nefndi það, að sér fyndist, að fjvn. ætti að starfa allt árið, og ég get fyrir mitt leyti, að fenginni reynslu af störfum fjvn., vel tekið undir þá till., a.m.k. þannig, að á milli þinga fái undirnefnd úr fjvn. tækifæri til þess að fylgjast með samningu fjárl. Það er satt að segja ansi naumur tími, sem fjvn. er ætlaður til þess að setja sig inn í öll þau umfangsmiklu mál, sem fjárl. ná til.