29.02.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í C-deild Alþingistíðinda. (2491)

130. mál, þingsköp Alþingis

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er nú raunar síðan ég kvaddi mér hljóðs búið að minnast á flest þau atriði, sem ég hefði gjarnan viljað gera að umtalsefni, svo að ég get þess vegna stytt mál mitt. En ég vildi byrja á því að þakka forsrh. fyrir það, að hann lét þetta mál ekki fara til n. umræðulaust, þannig að það talaði ekki annar en frsm., því að hér er vissulega um slíkt mál að ræða, að það er eðlilegt, að það sé rætt frá ýmsum hliðum, og hann varpaði fram ýmsum aths., sem er rétt, að sé gaumur gefinn.

Í sambandi við það, sem hann sagði um fsp., vil ég benda á þá breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, þ. e. að leggja megi fram skriflegar fsp. Ég álit, að það ætti að geta orðið mjög til bóta, og í því formi ætti að vera hægt að leggja fram ýmsar þær fsp., sem krefjast nokkuð langra svara. Ég nefni sem dæmi, að ef þetta form hefði verið komið á nú, hefði ég t.d. getað nú á dögunum borið fram skriflega fsp. um það, hverjar húsaleigugreiðslur ríkisins væru. Það var nokkuð löng skýrsla, sem ráðh. þurfti að lesa hér upp í þinginu, vegna þess að nú er ekki nema um munnlegt svar að ræða. Það svar hefði auðveldlega mátt fá skriflega og spara okkur þann tíma, sem fór í lestur hér í þinginu.

Ég álít, að sú hugmynd ráðh. komi líka mjög til athugunar í sambandi við fsp., að það tali ekki aðrir heldur en fyrirspyrjandinn og ráðh., sem svarar. Ég held, að það sé mjög athugandi og þá verði þetta fsp.- form ekki að karpi eins og var hér á dögunum í sambandi við fsp., sem komu fram um áætlunargerð fyrir Norðurland. En þar var áreiðanlega farið út fyrir þann ramma, sem þingsköpin ætlast til í sambandi við fsp.

Ég er sammála forsrh. um það, að það eigi að gera meira af því heldur en nú er gert að segja fréttir frá Alþ. í stuttu máli, bæði í útvarpi og sjónvarpi og m.a. á þann hátt að bregða upp bæði röddum og myndum þeirra, sem þar koma fram. Ég held, að það verði allir sammála um það, að þeirri breytingu verði komið á. En hins vegar held ég ekki, að það sé rétt, a.m.k. á þessu stigi, að fella alveg niður þær umr., sem hafa farið fram hér á Alþ. og hefur verið útvarpað. Ég held, að þeirra sé sama þörf eftir sem áður, en þó í því formi, að þær verði styttri heldur en verið hefur, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Mér er kunnugt um það, að í sumum nágrannalöndum okkar fer það frekar í vöxt heldur en hitt, að það sé útvarpað umr. í heilu lagi. Forsrh. minntist t.d. á það, þegar borgaraleg stjórn komst til valda í Noregi fyrir nokkrum árum. Hún stóð aðeins stuttan tíma, fékk á sig vantraust, og þeim vantraustsumr. var öllum bæði útvarpað og sjónvarpað. Og þær stóðu miklu lengur heldur en vantraustsumr. gera hér, sem fara ekki fram nema tvö kvöld, því að þær stóðu yfir í 3 daga og það tóku allir þm. þátt í þeim, 150 talsins. Þær fóru fram með þeim hætti, að talsmenn flokkanna héldu stuttar ræður öðru hverju. Svo komu aðrir þm. inn á milli og fluttu 3—5 mín. ræður, máttu ekki tala lengur. Sami háttur var hafður á í Noregi, þegar rætt var um það á sínum tíma, að Noregur óskaði eftir aðild að Efnahagsbandalaginu. Þeim umr., sem þá fóru fram í norska Stórþinginu, var bæði sjónvarpað og útvarpað og stóðu einnig í 3 daga, frá því snemma á daginn og alveg fram á nótt alla þessa 3 daga og þótti ágætt sjónvarpsefni. En þær fóru einmitt fram með þessum hætti, eins og vantraustsumræður, þ. e. sérstakir talsmenn flokkanna héldu 10—15 mín. ræður öðru hverju, en svo komu aðrir þm. þar inn á milli og fluttu stuttar ræður. En með þessu formi tókst að láta alla þm. koma fram. Þetta ræðuform er mjög gott, vegna þess að þarna urðu menn eiginlega að tala undirbúningslaust. Þeir, sem voru með stuttu ræðurnar, studdust ekki við skrifaðar ræður. Þess vegna urðu þessar umr. miklu fjörlegri heldur en ella. Ég álít, að það geti komið mjög til greina að breyta útvarpsumr. eitthvað í þetta form hjá okkur, ef sérstök stórmál eru á ferðinni. Þá eru það ekki eingöngu sérstakir talsmenn flokkanna, sem koma fram, heldur þm. yfirleitt, en fá mjög stuttan ræðutíma. Hér var sagt, að í Noregi hafi verið fylgzt mjög mikið með báðum þessum umr., sem fóru fram í sjónvarpinu, og að mönnum hafi ekki aðeins þótt fróðlegt að fylgjast með málflutningnum, heldur að kynnast þeim mónnum, sem þarna komu fram. Annars er búið að tala svo rækilega um þetta atriði af fleirum en einum þm. hér á undan mér, að ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um það. Ég hygg líka, að hæstv. forsrh. sjái það við nánari athugun, að það sé of langt gengið að ætla að fella þessar umr. alveg niður, útvarps- og sjónvarpsumr. beint frá þinginu, heldur sé það heppilegasta fyrirkomulagið að fara þá millileið, sem frv. gerir ráð fyrir í þeim efnum, þ.e.a.s., þeim verði haldið áfram en þær verði styttri heldur en þær hafa verið hingað til.

En annars var það sérstaklega eitt atriði í ræðu forsrh., sem átti mestan þátt í því, að ég kvaddi mér hljóðs. Það var það atriði, að hann teldi eiginlega, að umr. væru of langar hér á Alþ. um mál og væri það til trafala fyrir þingstörf. Ég held, að þetta sé ekki á fullum rökum reist. Umr. eru yfirleitt ekki mjög langar hér á þinginu, og þingstörf dragast af allt öðrum ástæðum en því. Og stjórnin þarf áreiðanlega ekki neitt að kvarta undan því, — a.m.k. ekki síðan ég kom á þing og hef fylgzt með þessum málum, — að það sé ekki tekið fullt tillit til hennar, ef hún þarf að koma einhverjum sérstökum málum fljótt í gegnum þingið. Ég minni t.d. á það núna á þessu þingi, að í sambandi við gengisbreytinguna var fullt samkomulag um það við ríkisstj. af hálfu stjórnarandstöðunnar að greiða fyrir, að þau mál, sem voru í sambandi við gengisfellinguna, gengju fljótt í gegnum þingið. Það var ekki haldið uppi neinum kappræðum í því sambandi, þó að ástæða hefði kannske verið til, vegna þess að hér var möguleiki til þess að ræða um gengismálið almennt. Það var ekki gert, vegna þess að stjórnin taldi af sérstökum ástæðum, að það þyrfti að fá þessi mál fljótlega afgreidd. Alveg hið sama gerðist núna, eftir að þingið kom saman að nýju, varðandi tollalækkunina. Það frv. gekk eins greiðlega gegnum þingið og ríkisstj. óskaði eftir, þó að það hefði að vísu verið ærið tilefni til þess að ræða meira um það mál. Það geta hins vegar komið fram mál af hálfu stjórnarinnar, þannig að stjórnarandstaðan telji sér ekki mögulegt að verða við þeirri beiðni að hafa litlar umr. um þau í þinginu og reyni að spyrna gegn framgangi þeirra eins og þingsköp framast leyfa. Ég minni t.d. í því sambandi á mál eins og frv. um launabindinguna, sem ríkisstj. flutti haustið 1963. Það var alveg rétt, að það var haldið uppi eins miklum umr. gegn því frv. eins og þingsköp leyfðu. Ég held, að ríkisstj. hafi nú heldur ekki gripið til þess í því sambandi að beita ákvæðum þingskapa um að takmarka ræðutíma. Þær umr. báru líka tilætlaðan árangur og góðan árangur bæði fyrir stjórnarandstöðuna og ríkisstj., því að þær urðu til þess, að ríkisstj. tók þann kost, sem beztur var, að draga frv. til baka. ég held, að það sé óhætt að fullyrða það, að umr. hér á þingi um mál almennt verði ekki til að tefja framgang mála og eru, ég held, styttri yfirleitt en hliðstæðar umr. á öðrum þjóðþingum. Ég minnist þess í þessu sambandi, að ég kynnti mér þær umr., sem fóru fram á sínum tíma í norska Stórþinginu um raforkusamninginn milli norska ríkisins og svissneska álhringsins, sem er að byggja hér álbræðslu og byggði nýlega svipaða verksmiðju í Noregi. Um þetta mál urðu mjög miklar umr. í Stórþinginu, miklu meiri heldur en þær umr., sem urðu hér í þinginu um álbræðslumálið, þó að þær væru að vísu sprottnar af öðrum ástæðum, sem ég tel ekki ástæðu til að rifja upp hér. Þetta dæmi sýnir það, að hér á Alþ. fara sízt fram meiri umr. um mál en títt er á öðrum þingum. Svo að maður vitni nú til þess þings, sem að mínum dómi er nú eiginlega þing þinganna í heiminum í dag og hið eina þing, sem heldur fyllilega á rétti sínum sem löggjafarsamkoma, en það er þing Bandaríkjanna, þar eru langar umr., ekki sízt í öldungadeildinni, sem er nokkru fjölmennari heldur Alþ. Þar fara fram miklar umr. um mál, og þm. beita miklu meira málþófi þar heldur en titt er annars staðar, þegar þeir eru að reyna að koma í veg fyrir það, að frv. nái fram að ganga. Ég er alls ekki að nefna þetta vegna þess, að ég telji það til sérstakrar fyrirmyndar, heldur til þess að sýna, hvaða háttur er hafður á þessum málum annars staðar.

Það, sem ég álít, að tefji þingstörfin langmest, er það, að stjórnarfrv., sem eiga að ná fram að ganga, koma oft og tíðum ekki fram fyrr en liðið er að þinglokum eða þá afgreiðsla þeirra í n. er dregin til þingloka án þess að nokkru málþófi sé haldið uppi. Þau koma svo öll saman til afgreiðslu í einum hnút í þinglokin. Það var aðeins minnzt á það í mþn., hvort það væri hægt að setja einhver ákvæði, sem kæmu í veg fyrir það, að slíkt ástand skapaðist alltaf í þinglokin. Það þótti ekki líklegt, að það væri hægt að finna neina sérstaka reglu til þess að fyrirbyggja þetta. Mér finnst, að það sé í þessu sambandi sérstök ástæða til þess að vekja athygli á því, að ríkisstjórnir þurfa að haga málaundirbúningi sínum þannig, að ef þær eru ekki nokkurn veginn tilbúnar með mál fyrri hluta þingsins, og sem ekki er þá sérstaklega aðkallandi, þá sé ekki endilega lagt kapp á það að afgreiða það á því þingi, er það kemur fyrst fram. Það er áreiðanlega mjög góður siður, þegar t.d. um meiri háttar lagabálka er að ræða, að þeir liggi fyrir tveimur þingum og kjósendur hafi tækifæri til þess að kynnast þeim, áður en þau eru endanlega afgreidd frá Alþ.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða meira um þetta mál að sinni. Ég held, að það sé óhætt að segja það, að frv. gangi í rétta átt og taki fullt tillit til þeirrar gagnrýni, sem hefur komið fram á ýmsum vinnubrögðum Alþ. að undanförnu, eins og í sambandi við fsp. og útvarpsumr. Það má vel vera, að seinna breytist þetta í það form, að menn vilji kannske ganga lengra í ýmsum efnum heldur en nú er gert. En þau þingsköp, sem við erum að ganga frá núna eða munum ganga frá á næstunni, eru hins vegar að sjálfsögðu ekki endanleg frekar en þau, sem hafa verið í gildi, og ég held, að það sé hyggilegast í þessum efnum að fara þá ekki of hratt í breytingarnar, heldur láta þær þróast smám saman eftir því, sem ytri aðstæður krefja.