20.03.1968
Sameinað þing: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2610)

155. mál, strandferðir norðanlands

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Till. sú, sem fyrir liggur um strandferðir norðanlands og útgerð strandferðaskips frá Akureyri, er flutt af 7 þm. úr Norðurl. e. Einn þm. er vegna stöðu sinnar ekki flm. að þessari till., en ekki þarf að efast um hug hans í þessu máli. Till. er um það, að skora á ríkisstj. að láta athuga möguleika á því, að Skipaútgerð ríkisins í samráði við hlutaðeigandi bæjar- og sýslufélög komi á fót á Akureyri útgerð strandferðaskips, er annist strandferðir norðanlands, enda séu ferðir þess í samræmi við ferðir strandferðaskipa úr Reykjavík til Austfjarða og Vestfjarða Niðurstöður athugunarinnar verði síðan lagðar fyrir Alþ. svo fljótt sem unnt er.

Það er skoðun okkar flm., að strandferðir, sem eiga að koma að gagni fyrir Norðlendinga, og þá sem skipti eiga við Norðurland, þurfi að skipuleggja á annan hátt en nú er gert. Að miðstöð norðlenzkra strandferða og útgerðarstaður eigi að vera á Akureyri, að strandferðaskip eigi að ganga þaðan austur og vestur til skiptis og mæta skipi frá Reykjavík og snúa síðan við til Akureyrar. Í grg. nefnum við það til ábendingar, að Akureyrar- og Reykjavíkurskip mætist fyrir austan á Reyðarfirði, og fyrir vestan á Patreksfirði, en sú ábending þarf auðvitað nánari athugunar við.

Miklar líkur eru til þess að okkar dómi, að hringferðir þær, sem lengi hafa tíðkazt og ætíð hafa verið gerðar út frá Reykjavík, séu óhentugar fyrir Norðurland, enda hefur margt breytzt síðan þær voru upp teknar. Gera má ráð fyrir því, að þetta gamla fyrirkomulag eigi sinn þátt í því, að Norðlendingar eða norðlenzk fyrirtæki nota nú strandferðaskipin minna til vöruflutninga en æskilegt væri og að álag á þjóðvegi hefur einnig af þeirri ástæðu aukizt meira en eðlilegt má telja Einnig er hugsanlegt, að af þessum ástæðum kunni að vera hætta á, að langleiðaflutningar á landi verði meiri en nauðsyn ber til.

Akureyri er nú og hefur verið um hríð mesti iðnaðarbær landsins utan Reykjavíkur, og þar er nú hægt að framleiða flestar þær iðnaðarvörur, sem á annað borð eru framleiddar hér á landi og fluttar með strandferðaskipum. Einnig er á Akureyri miðstöð Norðurlands á ýmsum öðrum sviðum, og Akureyri þarf að geta tekið að sér í vaxandi mæli fyrir Norðlendinga ýmsa þá forustu, þjónustu eða menningarstarfsemi, sem nú er sótt lengra að. Á sumum öðrum norðlenzkum hafnarstöðum hefur einnig verið um nokkra iðnaðarvöruframleiðslu að ræða.

Það er eðlilegt fyrirkomulag, að erlendum vörum, sem eiga að fara til Norðurlands, sé skipað upp á Akureyri úr millilandaskipum, að því leyti, sem þær eru ekki fluttar beint frá útlöndum til annarra norðlenzkra hafna, sem auðvitað er æskilegt, þegar það hentar. En þegar það er ekki hægt eða telst óhentugt, á það að vera hlutverk hins norðlenzka strandferðaskips að taka við hinum erlendu vörum, sem skipað er upp á Akureyri, og flytja þær til annarra hafna á Norðurlandi, og það þyrfti þá að vera þannig skipulagt með samningum á milli hafskipaútgerðarinnar og strandferðaútgerðarinnar, að þeir, sem endanlega taka við vörunni, þurfi ekki að greiða aukakostnað vegna uppskipunarinnar hér á landi. Sama er að segja að minnsta kosti um sumar vörur, sem fara eiga til útlanda frá norðlenzkum höfnum. Í þessu sambandi skiptir miklu máli, að strandferðaskipið, sem hér er um að ræða, sé gert út frá Akureyri og ferðum þess stjórnað þaðan, til þess að skipið hafi þar þann afgreiðslutíma, sem hinni norðlenzku flutningamiðstöð hentar á hverjum tíma.

Nú er það auðvitað svo, að flytja þarf meira og minna af vörum frá norðlenzkum höfnum til Reykjavíkur eða annarra staða í öðrum landshlutum og vörur frá Reykjavík og norður. Sömuleiðis póst og farþega, þótt gera megi ráð fyrir, að um farþegaflutninga verði ekki mjög mikið hjá því, sem áður var, nema þegar sérstaklega stendur á. Það, sem hér er um að ræða, mundi, ef þetta fyrirkomulag verður upp tekið, verða flutt úr einu skipi í annað, á Austfjörðum og Vestfjörðum, þar sem norðan- og sunnanskip mætast í höfn og áætlanir við það miðaðar og samræmdar. Ef sá staður á Austfjörðum eða Vestfjörðum, þar sem skipin mætast, væri jafnframt aðálhöfn millilandaskipa í hlutaðeigandi landshluta, myndi Akureyrarskipið einnig verða til mjög mikils gagns fyrir norðanverða Austfirði og norðanverða Vestfirði og bæta þeirra hlut frá því, sem nú er, og nýting og lestarrúm beggja skipanna, Akureyrarskips og Reykjavíkurskips, ætti að verða góð, ef vel er á haldið. Ekki er þó loku fyrir það skotið, að nánari athugun kunni að leiða í ljós eða reynsla kunni að sýna, að hentugt yrði eða jafnvel nauðsynlegt, að Akureyrarskip færi eina og eina ferð alla leið suður, og þá sennilega helzt að hausti eða Reykjavíkurskip norður. Yrði þá áætlun við það miðuð og mundi ekki raska því skipulagi í meginatriðum, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég vil geta þess, að í atvmn. Akureyrarkaupstaðar, sem nú er starfandi, hefur komið fram mikill áhugi fyrir því nú í vetur, að strandferðum norðanlands verði komið í það horf, sem hér er gert ráð fyrir, enda mundi það mjög greiða fyrir því, að Akureyri gæti rækt hlutverk sitt sem aðal iðnaðar– og viðskiptamiðstöð á norðanverðu landinu, jafnframt því, sem það mundi einnig verða til hagræðis fyrir aðrar hafnir og byggðarlög þess hluta landsins. En fyrir núverandi fyrirkomulagi, að öll strandferðaskip þurfi að hefja för sína í Reykjavík og eiga þar heimahöfn, verða ekki séð, eins og aðstæður eru í landinu nú á tímum, nein sérstök rök að því er Norðurland varðar. Ég hygg, að þar sé fyrst og fremst um að ræða gamlan vana, sem nú megi teljast úreltur.

Hægt er að hugsa sér og trúlega einfaldast, að til strandferðaútgerðarinnar á Akureyri yrði stofnað á þann hátt, að Skipaútgerð ríkisins hefði útibú og ætti skipið, sem væri í strandferðum austur og vestur frá Akureyri. En einnig væri hægt að hugsa sér, að bæjar- og sýslufélög norðanlands ættu skipið og önnuðust útgerð þess, en fengju til þess strandferðaframlag úr ríkissjóði með hliðsjón af því, sem ríkið verði til strandferðanna í heild á hverjum tíma. Gera má ráð fyrir að henta þætti, að Norðurlandsskipið væri fyrst og fremst vöruflutningaskip, en að farþegaflutningar á sjó verði eins og tíðkazt hefur skipulagðir fyrir landið í heild.

Á eylandi með lögun Íslands og af þeirri stærð, sem Ísland er, þar sem byggð er einkum með ströndum fram eða að minnsta kosti tiltölulega skammt frá sjó miðað við það, sem gerist í öðrum löndum, gætu þungaflutningar á sjó með ströndum fram að vera hagkvæmir, og ég trúi ekki öðru, en að þeir séu það, ef rétt er að þessum málum staðið. En sé svo, ætti álíka útgerð eða afgreiðsla strandferðskipa að geta veitt viðtakendum eða sendendum þess, sem þau flytja, þjónustu, sem væri yfirleitt sambærileg við þjónustu annarra flutningatækja. Það ætti ekki að þurfa að vera sá munur á sem nú er stundum talað um, að sé og muni verða. Sjóleiðin er okkur lögð til ókeypis, og hún þarf ekkert viðhald, en hafnir þurfum við að byggja upp, hvort sem hér eru reknar strandferðir eða ekki. Við þurfum líka að eignast viðunandi þjóðvegakerfi, og það er orðið mjög aðkallandi, en ef hægt væri að nota strandferðirnar í vaxandi mæli til að hlífa þjóðbrautunum að minnsta kosti, er líklegt, að uppbygging þeirra og viðhald gæti kostað þjóðina eitthvað minna en ella má gera ráð fyrir. Ég held, að samþykkt og framkvæmd þeirrar till., sem hér liggur fyrir, væri spor í rétta átt í því sambandi, en hvað sem því líður, er það skoðun okkar flm., að athugun sú, sem hér er farið fram á muni leiða í ljós, ef til kemur, að það fyrirkomulag, sem hér er rætt um, sé hagkvæmt fyrir Norðurland og fyrir landið í heild.

Ég legg svo til, herra forseti, fyrir hönd okkar flm., að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.