01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2636)

24. mál, listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er sammála hv. fyrra flm. þessarar till. um það, að mjög æskilegt væri, að meiri kynning ætti sér stað á myndlist almennt og þá sérstaklega íslenzkri myndlist utan Reykjavíkur. Það er rétt hjá honum, að dreifbýlið,ef ég má nota það orð, það á einnig við hina stærri kaupstaði utan Reykjavíkur, hefur farið mjög varhluta af skilyrðum til kynna af myndlist sérstaklega. Og það er athugunarefni, hvernig úr því mætti bæta. Í því sambandi vil ég þó minna á að þetta á alls ekki við um listir almennt. Ég vil t.d. vekja athygli á því mjög svo fjölskrúðuga tónlistarlífi, sem á sér stað um gjörvallt landið, og nýtur mjög mikils stuðnings hins opinbera. Tónlistarlíf hefur mjög færzt í aukana um allt landið í kjölfar þeirrar eflingar, sem átt hefur sér stað á tónlistarskólum nú á allra síðustu árum. Til skamms tíma studdi ríkisvaldið tónlistarskóla, sem enn eru alls staðar í landinu einkaskólar, aðeins mjög lítilfjörlega, en nú nemur styrkur til tónlistarskóla, einkaskólanna, nokkuð á 6. millj. kr. Í kjölfar þessarar myndarlegu fjárveitingar hefur siglt mjög aukin starfsemi tónlistarskólanna sjálfra, sem þá um leið hafa orðið miðstöðvar fjölbreytts og mjög ánægjulegs tónlistarlífs víða um land, ekki aðeins í kauptúnum og kaupstöðum, heldur einnig í sveitum. Þá má líka minna á hina því næst ótrúlega fjölbreyttu leiklistarstarfsemi áhugamanna, sem á sér stað víða um land og hefur hlotið vaxandi stuðning hins opinbera nú á allra síðustu árum. Það fé, sem veitt er til leikfélaga áhugamanna utan Reykjavíkur, mun nema nokkuð á 2. millj. kr. 1,3 eða 1,4 millj. kr. Og hér er líka um nokkurt nýmæli að ræða. En ég verð að segja, að árangur af þessum tiltölulega litla stuðningi er næstum ótrúlegur. Og þessi starfsemi á sannarlega skilið enn meiri stuðning vegna þess, hversu lífvænleg hún er, á hversu ótrúlegum dugnaði og hæfni manna hún byggir til þess að halda uppi svo fjölskrúðugu menningarlífi að þessu leyti. Ég segi þetta aðeins til þess að vekja athygli á því, að því fer svo víðs fjarri, að almenn listastarfsemi sé bundin við Reykjavík, við höfuðstaðinn einan. Á sviði tónlistar og á sviði leiklistar á sér stað mjög Iofsverð, ég vil segja stórkostlega lofsverð starfsemi víðast hvar á landinu. En hitt er rétt hjá hv. fyrra flm. till., að myndlistin hefur af ýmsum ástæðum orðið hér útundan. Það er að segja, að ekki hafa verið sams konar skilyrði fyrir almenning utan Reykjavíkur til þess að njóta myndlistar og hafa verið til þess að njóta tónlistar og leiklistar. Einmitt þess vegna er það mál, sem hér er bryddað upp á allrar athygli vert.

Till. fjallar um tvær meginhugmyndir. Annars vegar, að komið verði upp opinberum listasöfnum utan Reykjavíkur, og hins vegar, að greitt verði fyrir því, að haldnar verði fleiri myndlistarsýningar utan Reykjavíkur en átt hefur sér stað undanfarið. Um þessi atriði vildi ég fara fáeinum orðum.

Ég er þeirrar skoðunar, að bygging listasafna utan Reykjavíkur eigi að vera í höndum sveitarfélaganna sjálfra. Það eru sveitarfélögin sjálf, sem ættu að hafa forgöngu um byggingu listasafna, hvert í sínum kaupstað eða kauptúni eða hvert í sínu byggðarlagi.

Styrkur af hálfu ríkisvaldsins gæti hér sannarlega komið til greina, en hitt tel ég alranga stefnu, að ríkið hefði forystu um byggingu eða tæki að sér sem skyldu sína að byggja listasöfn víðs vegar um landið. Skylda ríkisins gagnvart íslenzkri myndlist yfir höfuð að tala er fyrst og fremst og á fyrst og fremst að vera fólgin í því að búa sómasamlega að Listasafni Íslands, að heildarlistasafni þjóðarinnar, sem með eðlilegum hætti hefur sitt aðsetur í Reykjavík. Þar bíður okkar stórkostlegt verkefni að byggja hús yfir Lista­ safn Íslands. Það er að sjálfsögðu tugmillj. kr. fyrirtæki að koma því húsi upp, og er það eitt af þeim verkefnum, sem hins opinbera bíður á næstu árum, ekki aðeins á sviði menningarmála, heldur einnig á sviði opinberra bygginga yfir höfuð að tala. Þar þyrfti sem fyrst að gera einhvers konar heildaráætlun og raða niður þeim miklu verkefnum, sem vanrækt hafa verið á undanförnum áratugum, gera einhverja áætlun um það, hvernig þar skuli velja á milli, hvaða byggingar þar skuli hafa forgang, forgang að þeim fjárveitingum, sem Alþ. kynni að telja rétt eða teldi sér fært að verja í þessu skyni. Þá er og orðið tímabært, að einhver heildaráætlun sé gerð um opinberar byggingar á Íslandi yfir höfuð að tala. En meðan þessu verkefni hefur ekki verið hægt að sinna, tel ég ekki eðlilegt, að ríkið skoði það sem skyldu sína að hefja á sinn kostnað og fyrir sitt frumkvæði byggingu einstakra listasafna utan Reykjavíkur, enda tel ég, að það, sem miklu meira ríði á í þessum efnum, sé það, að hægt sé að efna til myndlistarsýninga utan Reykjavíkur. Þetta sjónarmið er greinilega viðurkennt í niðurlagi till., í niðurlagi grg., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef til vill er fjölgun listsýninga nauðsynlegur undanfari stærri aðgerða í listmálum landsbyggðarinnar.“

Þessu sjónarmiði er ég algjörlega sammála. Þetta er það, sem fyrst og fremst ætti að vinna að, að það verði oftar efnt til listsýninga utan Reykjavíkur. Þetta mál hefur einmitt verið rætt milli menntmrn. og safnráðs. Hugmynd hefur verið uppi um það, hvort Listasafn Íslands mundi ekki vera reiðubúið til þess að lána myndir til einstakra listsýninga, sem efnt væri til utan Reykjavíkur, og er mér ánægja í að geta sagt frá því, að safnráðið er einhuga um það að telja slíkt ekki aðeins æskilegt, heldur væri það að sjálfsögðu fúst til þess. En ég tel, og það er líka skoðun safnráðs, að frumkvæði að slíkum sýningum ætti að vera í höndum sveitarfélaganna sjálfra, þ.e.a.s. þau ættu að stofna til sýningarinnar, halda hana, skipuleggja hana, láta í ljós óskir um það, hvaða verk yrðu sýnd og þar fram eftir götunum. Að öðrum kosti er hætt við því, að ekki sé sá áhugi bak við sýninguna á hverjum stað, að hún verði til sóma þeim listamönnum, sem verið er að kynna verkin fyrir, og heldur ekki almenningi á þeim stöðum til þess gagns, sem ætlazt er til. Ef Listasafn Íslands í Reykjavík tæki sig upp og kæmi með sýningu meira og minna óforvarandi til Akureyrar eða til Egilsstaða eða í Borgarnes, er mjög hætt við því, að ekki tækist að skapa þann áhuga fyrir sýningunni, sem að sjálfsögðu mundi eiga sér stað, ef það væri bæjarstjórn eða listaverkanefnd á Akureyri, á Ísafirði eða í Borgarnesi, sem hefði fengið hugmyndir að sýningunni, viljað skipuleggja hana, lagt á ráðin um, hvernig hún skyldi haldin og stæði fyrir henni. Það sem ég tel m.ö.o., að hér ætti að gera, væri það, að hvert sveitarfélag um sig eða mörg saman efndu til slíkra sýninga, og ef svo yrði, mundi ég ljá því lið og veit raunar, að ég fengi ekki aðeins fullan stuðning heldur fullkomið samþykki safnráðs Listasafnsins fyrir þessu. Safnið væri reiðubúið til þess að lána sínar myndir, — það mundi þurfa að athuga nánar um kostnaðarhlið á málinu, — jafnframt teldi ég eðlilegt, að safnið stæði undir sendingarkostnaði, vátryggingarkostnaði á myndunum fram og til baka og léði sérfróðan mann til þess að annast um upphengingu myndanna, sem er sérstakt listrænt vandaverk. En að öðru leyti tel ég, að ekki aðeins frumkvæðið ætti að vera í höndum hlutaðeigandi sveitarfélags, heldur einnig annar kostnaður, sem af sýningunni hlýzt, þ.e.a.s., kostnaður á staðnum, húsaleiga, gerð myndskrár og varzla sýningarinnar. Með þessu móti yrði þetta orðið sameiginlegt verkefni sveitarfélaganna og ríkisvaldsins, og með þeim hætti er langlíklegast, að málinu væri tryggður góður framgangur og það kæmi að verulegum notum í þágu almennings utan Reykjavíkur, sem ég fyllilega viðurkenni, að á miklu meiri rétt til kynninga af sameiginlegri eign þjóðarinnar á sviði myndlistar en hann hefur átt kost á fram að þessu.