17.04.1968
Sameinað þing: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2717)

108. mál, fiskirækt í fjörðum

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar till til þál. um fiskirækt í fjörðum. Eru allir nm. sammála um að mæla með samþ. till.

Það er vaxandi áhugi margra manna á fiskirækt nú á dögum, um það bera glöggt vitni margar till., sem fram koma. Jafnframt er óvenjumikið unnið að slíkum málum víðs vegar um land. Bæði einstaklingar og hið opinbera hafa látið þessi mál til sín taka á undanförnum árum. Mönnum hefur skilizt, að rányrkjan ein horfir ekki til heilla. Á þetta jafnt við um veiðar í fersku vatni og sjó. Ræktunarmálum er sinnt í vaxandi mæli, bæði í laxám og veiðivötnum, sjávarlónum og öðrum uppeldisstöðvum af áhugamönnum og samtökum þeirra. Þá má ekki gleyma hinni miklu fiskeldisstöð ríkisins í Kollafirði.

Að sjálfsögðu hafa áhugamenn á þessu sviði lent í margvíslegum byrjunarörðugleikum. Takmörkuð fjárráð og ófullkomnar aðstæður hafa vafalaust oft dregið úr árangri. Þessar tilraunir hafa þó sýnt og sannað, að þarna er mikið framtíðarverkefni fyrir höndum, margþætt verkefni, sem ekki verður lokið á skömmum tíma, en stuðlar að aukinni hagnýtingu og eflingu íslenzkra auðlinda.

Eins og vikið var að í grg. þessarar till., hafa íslenzkir fiskifræðingar unnið mikið og merkilegt starf á sviði fiskirannsókna og fiskileitar á liðnum árum. Hafa þau störf orðið atvinnulífi þjóðarinnar mikill styrkur, en betur má ef duga skal. Hér er um svo stórvaxið viðfangsefni að ræða, svo mikið í húfi um alla afkomu þjóðarbúsins, að leita verður allra ráða til aukinnar þekkingar á þessu sviði.

Viðfangsefni þetta snertir að sjálfsögðu landið allt og lýtur að verndun fiskistofna við strendur þess, þó ekki hvað sízt að þeim slóðum, þar sem fiskimið hafa reynzt gagnauðug frá fornu fari Ég leyfi mér að minna á þál. um fiskirannsóknir á Breiðafirði, sem samþykkt var á Alþ. 31. maí 1957, flutt af mér og þáv. þm. Snæfellinga, Sigurði Ágústssyni. Efni hennar var það að skora á ríkisstj. að láta svo fljótt sem því yrði við komið vegna annarra rannsókna, framkvæma fiskirannsóknir á Breiðafirði og innfjörðum hans. Rannsóknir þessar skyldu gerðar í samráði við vélbátaformenn á útgerðarstöðvum við Breiðafjörð. Í umsögn fiskideildar atvinnudeildar Háskólans, er fylgdi þessari till., sagði m.a.:

„Litlar fiskirannsóknir hafa verið gerðar á Breiðafirði miðað við aðra landshluta, einna helzt á þekktum fiskislóðum á utanverðu Snæfellsnesi, en ekkert í innfjörðum Breiðafjarðar. Sennilega er Breiðafjörður mikil uppeldisstöð ungfisks, og er æskilegt að á því verði gerðar kerfisbundnar rannsóknir á líkan hátt og í Faxaflóa Æskilegt væri og að vita, hvaða þýðingu Breiðafjörður hefur sem uppeldisstöð fyrir íslenzka fiskistofna almennt, og mundu merkingar geta skorið úr um það.“

Á þeim röska áratug, sem liðinn er frá samþykki umræddrar till., hefur, sennilega af fornri landsvenju, meira verið hugsað um að veiða og veiða sem mest en að gera sér fulla grein fyrir því, hvert raunverulega stefnir í þeim efnum. Till. sú, sem hér er til umr. um fiskirækt í fjörðum, bendir á nauðsyn þess að hefjast handa um vísindalegar aðgerðir til ræktunar nytjafiska í hafinu við strendur landsins. Hér er um hugsjónamál að ræða, sem jafnframt hefur mikið hagnýtt gildi Leikmenn geta velt því fyrir sér og beitt sér fyrir því, um það má margt segja, en fyrst og fremst verða aðgerðir allar að byggjast á vísindalegum grundvelli og þekkingu. Séu þau mið höfð að leiðarljósi, má mikils árangurs vænta til heilla og hags alþjóð.

Allshn. sendi till. þessa til umsagnar þriggja aðila, Fiskifélags Íslands, veiðimálastjóra og Hafrannsóknastofnunarinnar. Svör hafa borizt frá þeim öllum, og eru þau mjög á einn veg, till. er talin athyglisverð og tímabær. Að vísu er bent á að málefni þessi séu á algjöru byrjunarstigi, en þó séu víðtækar tilraunir hafnar meðal margra þjóða á þessu sviði nú þegar. Bent er á að eðlilegt sé, að Hafrannsóknastofnunin láti kanna allt það, sem gert hefur verið erlendis í þessum málum á undanförnum árum, þeim gögnum verði safnað saman, svo að heildarupplýsingar séu til staðar, þegar hefja skal frekari aðgerðir í málinu. en eins og áður segir, mælir n. einróma með samþykkt till.